Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 594. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 893  —  594. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)1. gr.

    Í stað orðskýringarinnar „Lífsvæði“ í 1. gr. laganna kemur svohljóðandi orðskýring:
     Búsvæði: svæði sem villt dýr nota sér til framfærslu og viðkomu, svo sem varplönd og fæðusvæði, eða sem farleið.

2. gr.

    Við 3. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í þeim tilvikum sem ákveðið er að aflétta friðun skal Umhverfisstofnun gera tillögur til umhverfisráðherra um stjórn og framkvæmd veiða á stofnum villtra fugla og spendýra, sbr. 7. gr., að höfðu samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands.

3. gr.

    1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
    Náttúrufræðistofnun Íslands stundar rannsóknir á stofnum villtra fugla og spendýra, metur ástand þeirra og gerir í framhaldi tillögur til umhverfisráðherra um vernd og hvort viðkomandi stofn þoli veiðar, sbr. lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.

4. gr.

    2. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Ávallt skal gæta fyllstu varkárni og nærgætni gagnvart villtum dýrum og búsvæðum þeirra og forðast óþarfa truflun. Við skipulag og landnotkun skal tekið tillit til villtra dýra og búsvæða þeirra, sbr. lög um náttúruvernd og skipulags- og byggingarlög.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Þar skal m.a. kveða á um hvaða tegundir eru alfriðaðar, hverjar er heimilt að veiða, hvar megi veiða þær, gerð og notkun vopna og annarra veiðitækja, veiðiaðferðir, lengd veiðitímabils, sérákvæði vegna hefðbundinna fuglanytja, hvað teljist til fágætra fugla, skylduskil á þeim, umgengni við hreiður þeirra og annað sem máli skiptir.
     b.      Við 7. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Umhverfisráðherra er heimilt að fenginni tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands að aflétta tímabundið og á ákveðnum svæðum friðun á stofnum eða tegundum villtra dýra, sem flust hafa til Íslands af mannavöldum, til að halda stofnum niðri.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      1. tölul. 1. mgr. orðast svo: Eitur eða svefnlyf, nema til músa- og rottuveiða.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Umhverfisstofnun getur veitt tímabundna undanþágu til að nota þær veiðiaðferðir sem taldar eru upp í 1. mgr. í vísindaskyni eða ef villt dýr valda umtalsverðu tjóni eða umtalsverðum ama og aðrar aðferðir eru ekki taldar henta.

7. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: Allir sem stunda veiðar á villtum dýrum, öðrum en rottum, músum og minkum, skulu afla sér veiðikorts gegn gjaldi, sbr. 3. mgr.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 4. mgr. orðast svo: Umhverfisstofnun annast sölu veiðileyfa og eftirlit með hreindýraveiðum.
     b.      1. málsl. 6. mgr. fellur brott.
     c.      7. mgr. fellur brott.
     d.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
                  Enginn má stunda hreindýraveiðar nema hann hafi til þess veiðileyfi og sé í fylgd með leiðsögumanni. Enginn getur tekið að sér leiðsögn með hreindýraveiðum nema hann hafi til þess leyfi Umhverfisstofnunar. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um réttindi og skyldur leiðsögumanna með hreindýraveiðum að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar og hreindýraráðs.
                  Ráðherra setur að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar nánari reglur um framkvæmdina, m.a. um skiptingu arðs af hreindýraveiðum.

9. gr.

    2. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
    Heilbrigðisnefndir hafa umsjón með fækkun á músum og rottum eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð sem ráðherra setur.

10. gr.

    Á eftir 17. gr. laganna kemur nýr kafli, VII. kafli, Sértæk friðun, með tveimur nýjum greinum, svohljóðandi:

    a. (18. gr.)
    Ráðherra er heimilt með reglugerð, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög eftir því sem við á og að fenginni tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands, að kveða á um aukna vernd ákveðinna friðaðra stofna villtra fugla og spendýra ef brýn ástæða er til. Í reglugerðinni er heimilt að kveða á um að strangari reglur gildi um búsvæði þessara tegunda ef sýnt þykir að þeim stafi sérstök ógn af mannaferðum eða umferð eða séu sérstaklega viðkvæm fyrir raski.
    Umhverfisstofnun getur að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands veitt undanþágu frá ákvæðum þessa kafla, svo sem vegna myndatöku og rannsókna, enda sé sótt um hana fyrir fram. Skilyrði skulu sett um umgang við hreiður við veitingu slíkrar undanþágu.

    b. (19. gr.)

Ernir.

    Óheimilt er frá 15. mars til 15. ágúst að koma nær arnarhreiðrum en 500 m nema brýna nauðsyn beri til, svo sem vegna lögmætra nytja sem ekki er hægt að stunda á öðrum árstíma, enda sýni menn ýtrustu varfærni og forðist að trufla fuglana. Þessi takmörkun á umferð gildir bæði þar sem ernir eru að búa sig undir varp og við þau hreiður sem orpið hefur verið í og eru með eggjum eða ungum.
    Umhverfisráðherra getur veitt undanþágu frá banni skv. 1. mgr. í sérstökum tilvikum að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands.
    Óheimilt er að hrófla við hreiðrum og hreiðurstæðum arna og svæði sem takmarkast af 100 m hringmáli umhverfis, hvort sem er á varptíma eða utan hans. Einnig er óheimilt að koma fyrir hvers kyns búnaði í þeim tilgangi að fæla fugla frá hreiðurstæðum eða reyna að hindra þá í að verpa þar. Með hreiðurstæðum samkvæmt þessari grein er átt við alla þá staði sem ernir hafa orpið á svo vitað sé.
    Náttúrufræðistofnun Íslands skal halda skrá yfir hreiðurstæði arna og láta Umhverfisstofnun í té. Fara skal með allar upplýsingar úr skránni sem trúnaðarmál í samræmi við reglur sem umhverfisráðherra setur um meðferð upplýsinga úr skránni.
    Umhverfisráðherra getur veitt undanþágu frá banni skv. 1. og 3. mgr. að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands ef miklar líkur eru á að forn hreiðurstæði verði ekki nýtt aftur vegna breyttra aðstæðna, t.d. nálægðar við umferðarmannvirki.
    Umhverfisstofnun getur að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands veitt undanþágu frá ákvæðum 1. mgr., svo sem vegna myndatöku og rannsókna, enda sé sótt um hana fyrir fram. Skilyrði skulu sett um umgang við hreiður við veitingu slíkrar undanþágu.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarpið er unnið í umhverfisráðuneytinu og byggist á tillögum sem ráðuneytinu bárust frá Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og nefnd sem m.a. var falið það hlutverk að fylgjast með framkvæmd hreindýraveiða samkvæmt breyttu kerfi sem komið var á árið 2001. Haft var samráð við Bændasamtök Íslands, Samband íslenskra Sveitarfélaga, Skotveiðifélag Íslands og Fuglaverndarfélag Íslands í samræmi við 4. mgr. 3. gr. laganna. Breytingunum sem lagðar eru til í frumvarpinu er ætlað að auka vernd arnarins og annarra friðaðra dýra, skýra frekar stjórnsýsluleg skil milli Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands og auka heimildir til að bregðast við ört stækkandi stofnun villtra dýra sem flust hafa til landsins af manna völdum. Enn fremur eru lagðar til breytingar er varða framkvæmd hreindýraveiða og að svokallað leiðsögumannakerfi verði lögfest.
    Þann 3. apríl 2003 felldi Hæstiréttur Íslands dóm þar sem hinn ákærði var sýknaður af ákæru um að hafa raskað hreiðurstæði arna í því skyni að verjast ágangi þeirra. Frumvarpinu er ætlað að bregðast við þeirri óvissu sem skapaðist í kjölfar dómsins varðandi verndun varpstaða arna. Ernir helga sér varpsvæði (óðal eða arnarsetur) og verpa þar kynslóð fram af kynslóð og þá yfirleitt á sömu stöðunum. Sum þessara arnarsetra hafa verið í samfelldri ábúð eins langt og heimildir ná. Mikilvægt er því að halda hlífiskildi yfir þessum stöðum sem og þeim gömlu setrum sem ernir hafa yfirgefið en gætu síðar tekið sér bólfestu í með stækkandi stofni. Viðkoma arna er víðast hvar lítil samanborið við aðrar fuglategundir en þeir bæta sér það upp að hluta með langlífi. Þess vegna eru arnarstofnar afar viðkvæmir fyrir ásókn og truflunum eða öðru því sem hefur bein áhrif á lífslíkur fullvaxinna fugla. Þá eru ernir afar heimakærir og halda tryggð við sömu varpstaði kynslóð eftir kynslóð. Því er mikilvægt að vernda slíka staði og nánasta umhverfi fyrir hvers kyns röskun og truflunum til að standa vörð um viðkvæman og lítinn stofn.
    Í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar Íslands taldi rétturinn að orðskýringin lífsvæði væri of almenn og því ekki nægjanlega ótvíræð og glögg til að uppfylla þær kröfur sem gera verður til skýrleika refsiheimilda. Til að bregðast við dóminum er í fyrsta lagi lögð til breyting á orðskýringunni lífsvæði á þann veg að heitinu er breytt í búsvæði og er tiltekið sérstaklega að undir svæði sem dýr nota sér til viðkomu falli varplönd og fæðusvæði. Lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum eru grundvölluð á þeirri reglu að öll dýr njóti friðunar nema tekið sé fram að þau geri það ekki. Lagt er til að við lögin bætist nýr kafli þar sem leitast er við að auka vernd friðaðra tegunda sem talið er að þurfi sértækar aðgerðir til að tryggja vöxt og viðgang stofnsins. Undir þessum nýja kafla er lagt til að komi sérstök grein er varðar örninn.
    Hlutverk Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands verður nánar skilgreint. Náttúrufræðistofnun Íslands sem er rannsóknar- og ráðgjafarstofnun ber að stunda rannsóknir á stofnun villtra fugla og spendýra, meta ástand þeirra og gera tillögur til ráðherra um vernd og hvort viðkomandi stofn þoli veiðar. Umhverfisstofnun sem er stjórnsýslustofnun ber að útfæra tillögur um nauðsynlega veiðistjórn. Stofnuninni ber að safna saman upplýsingum um veiðistofna og leggja mat á ýmsa þætti, t.d. þekkingargrunn, sjálfbærni veiða, veiðiálag og hegðan veiðimanna. Þannig fæst heildarsýn yfir ástand veiðistofna og hvar skóinn kreppir, svo sem vegna skorts á þekkingu, sem yrði grundvöllur að forgangsröðun rannsókna og úthlutun úr veiðikortasjóði sem Umhverfisstofnun á að skila tillögum um til ráðherra lögum samkvæmt.
    Stjórnskipuð nefnd, sem starfaði frá 1999 til 2003 og m.a. var falið að fylgjast með framkvæmd hreindýraveiða samkvæmt breyttu kerfi sem komið var á árið 2001, skilaði ráðuneytinu tillögum að breyttum reglugerðum sem þegar hafa verið settar, sbr. reglugerð nr. 486/2003, um stjórn hreindýraveiða, og nr. 487/2003, um skiptingu arðs af hreindýraveiðum. Jafnframt bendir nefndin á atriði sem þyrfti að breyta í lögunum. Talið er ástæðulaust að hafa ákvæði í lögunum um sérstakar vanhæfisreglur hreindýraeftirlitsmanna annars vegar og starfsmanna hreindýraráðs hins vegar en samkvæmt gildandi lögum er gert ráð fyrir því að vanhæfisreglur sveitarstjórnarlaga gildi um starfsemi þessara aðila en þær ganga ekki eins langt og vanhæfisreglur sem gilda um starfsmenn ríkisins. Enn fremur er bent á að engin ástæða sé til þess að hafa sérstakt ákvæði um eftirlitsmenn með hreindýraveiðum þar sem eftirlitið sé komið í hendur Umhverfisstofnunar og verði sinnt af þess hálfu eins og öðru eftirliti sem stofnunin annast. Árið 2001 var tekið upp nýtt kerfi um framkvæmd hreindýraveiða og gerður greinarmunur annars vegar á leiðsögn með hreindýraveiðum og hins vegar eftirliti með veiðunum. Í því skyni var reglugerð um stjórn hreindýraveiða breytt og kveðið á um starfsemi leiðsögumanna með hreindýraveiðum og að þeir einir gætu stundað slík störf sem til þess hefðu leyfi hreindýraráðs, nú Umhverfisstofnunar, samkvæmt breyttum lögum. Sú reynsla sem fengin er af þessu kerfi er góð að mati nefndarinnar sem getið er hér á undan og í áttu sæti m.a. fulltrúar frá Skotveiðifélagi Íslands og Félagi leiðsögumanna með hreindýraveiðum. Með vísun til þess er ástæða til að festa þetta kerfi í sessi og telur ráðuneytið eðlilegt að kveðið verði á um eftirlitsmenn með hreindýraveiðum sérstaklega í lögunum og að þar komi fram krafa um að þeir skuli hljóta starfsleyfi Umhverfisstofnunar og að enginn geti stundað hreindýraveiðar nema undir slíkri leiðsögn.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að orðskýringin „lífsvæði“ verði felld á brott og í staðinn verði notað hugtakið „búsvæði“ til samræmis við hugtakanotkun í lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999. Einnig er lagt til að hugtakið sé skýrt frekar þannig að ekki leiki vafi á að varplönd og fæðusvæði séu meðal þeirra svæða sem dýr nota sér til framfærslu og viðkomu.

Um 2. gr.

    Lagt er til að kveðið verði með skýrum hætti á um valdsvið Umhverfisstofnunar til þess að gera tillögur til umhverfisráðherra um stjórn og framkvæmd veiða á stofnum villtra fugla og spendýra eftir að umhverfisráðherra hefur tekið ákvörðun um að aflétta friðun. Kveðið er á um að samráð skuli haft við Náttúrufræðistofnun Íslands. Í þessu sambandi ber að hafa hliðsjón af 3. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er um skyldur Náttúrufræðistofnunar Íslands til að stunda rannsóknir á stofnum villtra fugla og spendýra, meta ástand þeirra og gera tillögur til ráðherra um vernd og hvort viðkomandi stofn þoli veiðar. Breytingunni er ætlað að ná betur því markmiði sem stefnt var að með stofnun Umhverfisstofnunar, að skilja á milli rannsókna og stjórnsýslu að svo miklu leyti sem unnt er. Umhverfisstofnun er stjórnsýslustofnun en Náttúrufræðistofnun Íslands gegnir ráðgjafar- og rannsóknarhlutverki. Með þessari breytingu verður það skýrt að Náttúrufræðistofnun Íslands ber ábyrgð á því að meta stofnstærð og hvort viðkomandi stofn þoli veiðar. Hins vegar verður það Umhverfisstofnunar, eftir að ráðherra hefur tekið ákvörðun í málinu um að stofn þoli veiðar, að útfæra tillögur um nauðsynlega veiðistjórn og hvernig veiðum skuli háttað. Ákveði ráðherra að friðun skuli ekki aflétt kemur ekki til kasta Umhverfisstofnunar.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að kveðið verði á með skýrum hætti að Náttúrufræðistofnun Íslands beri að stunda rannsóknir á stofnum villtra fugla og spendýra, meta ástand stofnanna og gera tillögur til ráðherra um vernd og veiðiþol þeirra í samræmi við lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.

Um 4. gr.

    Hér er gerð tillaga um að nota hugtakið „búsvæði“ í stað hugtaksins „lífsvæði“ í samræmi við breytingu í 1. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.

    Í a-lið er lögð til sú breyting að kveðið sé skýrt á um að heimilt verði að setja reglugerð um notkun vopna og annarra veiðitækja, sbr. þá skyldu Umhverfisstofnunar skv. 7. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna til að meta og samþykkja þær gerðir fótboga og gildra sem heimilt er að nota við músaveiðar, rottuveiðar, minnkaveiðar og til að ná tófuyrðlingum við greni.
    Lagt er til í b-lið að ráðherra sé heimilt að aflétta friðun á stofnum eða tegundum villtra dýra, sem flust hafa til Íslands af mannavöldum, með það að markmiði að halda stofnum niðri en ekki til að útrýma þeim. Lagt er til að þessi heimild verði tímabundin og/eða bundin við ákveðin svæði. Samkvæmt núgildandi lögum er ráðherra einungis heimilt að beita sér fyrir útrýmingu stofns eða tegundar dýra sem flust hafa til Íslands af mannavöldum. Helsta ástæðan fyrir þessu ákvæði er fjölgun kanínustofnsins, m.a. í Reykjavík og Vestmannaeyjum þar sem þær valda umtalsverðu tjóni. Ekki þykir ástæða til að útrýma þessum stofnum, t.d. í Reykjavík, en nauðsynlegt er að halda þeim niðri. Helstu rök fyrir þessu ákvæði eru að þessi villtu dýr eru ekki hluti af íslenska dýraríkinu og geta því valdið tjóni á náttúrunni þar sem þau eiga ekki heima þar auk þess sem heilsu manna og innlendra dýra getur verið hætta búin.

Um 6. gr.

    Lagt er til í a-lið að lögin verði færð til samræmis við þann hátt sem hafður hefur verið á þannig að leyft verði að nota eitur og svefnlyf við músa- og rottuveiðar. Þó að mýs og rottur séu ekki friðaðar samkvæmt lögunum þá gilda bannákvæði 1. mgr. 9. gr. strangt tiltekið einnig um dráp á músum og rottum enda er hún byggð á sjónarmiðum um mannúðlega meðferð á dýrum. Músum og rottum hefur um áratugaskeið verið eytt með eitri enda ein áhrifaríkasta og mannúðlegasta aðferðin sem hægt er að beita í þeim tilvikum. Ekki þykir ástæða til að lög standi beinlínis gegn því.
    Lagt er til í b-lið að við 2. mgr. 9. gr. bætist að Umhverfisstofnun sé heimilt að veita tímabundna undanþágu til að nota þær aðferðir sem taldar eru upp í 1. mgr. 9. gr. ef villt dýr valda umtalsverðum ama og aðrar aðferðir séu ekki taldar henta. Þessi undanþága kæmi helst til greina við að halda niðri starra, dúfum og kanínum sem geta valdið verulegum ama. Óþægindi af slíkum dýrum eiga sér að mestu leyti stað nálægt hýbýlum manna, t.d. ber starrinn með sér fló sem veldur óþægindum.

Um 7. gr.

    Í greininni er lagt til að ekki þurfi veiðikort til að stunda veiðar á mink, en ekki þarf slíkt veiðikort til að veiða mýs og rottur. Minkar, eins og rottur og húsamýs, svo og hagamýs í húsum inni, eru ekki friðaðir samkvæmt lögunum. Þessi breyting hefur engin áhrif á 13. gr. laganna þar sem m.a. er kveðið á um heimildir umhverfisráðherra til að ákveða að minkaveiðar séu nauðsynlegar til að koma í veg fyrir tjón og greiðslur fyrir unna minka sem veiddir eru samkvæmt ákvörðun ráðherra. Önnur ákvæði sem eiga við um dýraveiðar eiga áfram við um minka, svo sem um þær veiðiaðferðir sem heimilt er að beita við minkaveiðar.

Um 8. gr.

    Í a-lið er lagt til að fella úr gildi þá skyldu að Umhverfisstofnun ráði eftirlitsmenn til að sjá um eftirlit með hreindýraveiðum þar sem eftirlitið er lögum samkvæmt í höndum stofnunarinnar og óþarfi að kveða á um sérstaka eftirlitsmenn um þennan eina þátt af öllum þeim verkefnum sem stofnunin annast.
    Lagt er til í b-lið að felld verði brott ákvæði sem kveða á um sérstakar vanhæfisreglur þeirra sem sitja í hreindýraráði og hreindýraeftirlitsmanna. Ástæðulaust er að hafa ákvæði í lögunum um sérstakar vanhæfisreglur hreindýraeftirlitsmanna annars vegar og starfsmanna hreindýraráðs hins vegar. Samkvæmt gildandi lögum er gert ráð fyrir því að vanhæfisreglur sveitarstjórnarlaga gildi um starfsemi þessara aðila en þær ganga ekki eins langt og vanhæfisreglur sem gilda um starfsmenn ríkisins. Enn fremur er engin ástæða til þess að hafa sérstakt ákvæði um eftirlitsmenn með hreindýraveiðum þar sem eftirlitið er komið í hendur Umhverfisstofnunar og verður sinnt af þess hálfu eins og öðru eftirliti sem stofnunin annast.
    Lagt er til í c-lið að 7. mgr. verði felld brott en málsgreinin færist efnislega í nýja lokamálsgrein.
    Í d-lið er lagt til að kveðið verði á um að engum sé heimilt að stunda hreindýraveiðar nema hann hafi veiðileyfi og sé auk þess í fylgd með leiðsögumanni. Eðlilegt að kveðið verði á um eftirlitsmenn með hreindýraveiðum sérstaklega í lögunum og þar komi fram krafa um að þeir skuli hljóta starfsleyfi Umhverfisstofnunar og að enginn geti stundað hreindýraveiðar nema undir slíkri leiðsögn. Með þessari breytingu er fest í sessi það kerfi sem tekið var upp árið 2001 um að greinarmunur sé gerður á eftirliti með hreindýraveiðum og leiðsögn með veiðunum.

Um 9. gr.

    Lagt er til að í stað þess að tiltekið sé að setja skuli ákvæði í heilbrigðisreglugerð þá sé tiltekið að það skuli gert í reglugerð. Heilbrigðisreglugerð var numin úr gildi árið 2002 og er ekki gert ráð fyrir setningu hennar samkvæmt gildandi lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Einnig er lögð til sú breyting að reglugerðin sé ekki sett í samráði við umhverfisráðherra enda fer hann með yfirstjórn málaflokksins í dag.

Um 10. gr.

    Lagt er til að bætt verið við nýjum kafla í lögin, VII. kafla sem ber heitið sértæk friðun. Kaflanum er ætlað að geyma ákvæði er varða frekari vernd tegunda sem eru alfriðaðar samkvæmt lögunum. Segja má að hér sé stigið fyrsta skrefið í átt að frekari vernd friðaðra tegunda sem eiga sérstaklega erfitt uppdráttar og komi sem viðbót við almenn friðlýsingarákvæði. Vert er þó að ítreka að ekki er verið að minnka þá vernd sem villt dýr njóta samkvæmt lögunum heldur er hér um að ræða nánari útfærslu gagnvart ákveðnum tegundum sem eiga erfitt uppdráttar.
    Lagt er til í a-lið að ráðherra verði veitt heimild, að fenginni tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands, að kveða á um aukna vernd friðaðra stofna villtra fugla og spendýra sem eiga erfitt uppdráttar sé brýn ástæða til. Ber ráðherra einnig að hafa samráð við hlutaðeigandi sveitarfélög eftir því sem við á. Þessari heimild er ætlað að ná bæði til þess þegar hinum villtu fuglum eða spendýrum stafar sérstök ógn af athöfnum mannsins og þegar þau eru sérstaklega viðkvæm fyrir raski. Einnig er lagt til að kveðið sé á um að Umhverfisstofnun sé heimilt að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands að veita undanþágu frá ákvæðum þessum, svo sem vegna myndatöku og rannsókna. Sækja skal um slíka undanþágu fyrir fram og skal setja skilyrði um umgang við hreiður við veitingu hennar.
    Í b-lið er lagt til að allur umgangur sé bannaður nær varpstöðum arna en 500 m. Ástæðan er sú að ernir eru sérstaklega viðkvæmir á varpstöðum og markast lélegur árangur þeirra í að koma ungum upp að hluta til af því að mati fræðimanna. Hliðstæðar reglur og verndarmörk gilda í nágrannalöndum okkar um varpstaði sjaldgæfra tegunda sem eru viðkvæmar fyrir truflunum. Hér er því verið að skilgreina ákveðin verndarmörk líkt og verið hefur með skotveiðimennsku í grennd við æðarvörp og fuglabjörg og þar með reynt að taka að mestu fyrir ágang ferðamanna og fuglaskoðara við arnarhreiður. Gert er þó ráð fyrir að landeigendur eða umráðamenn lands geti komið nær hreiðrum ef brýn nauðsyn ber til vegna lögmætra nytja, t.d. æðarvarps eða sjávarnytja. Þau mörk sem hér eru tilgreind taka mið af hátterni arna við hreiður þegar gangandi menn ber að en fuglarnir sýna oftast nær greinilega styggð í nokkur hundruð metra fjarlægð frá varpstað og mönnum má því vera ljóst af hátterni fuglanna að þeir eru í grennd við arnarhreiður. Tekið skal fram að ákvæði um takmörkun á umferð eigi aðeins við um þau arnarhreiður sem eru í notkun hverju sinni.
    Í 2. mgr. er lagt til að umhverfisráðherra verði veitt heimild til að veita undanþágu frá banni skv. 1. mgr. í sérstökum tilvikum. Dæmi um starfsemi sem gæti fengið slíka undanþágu er skipulögð ferðaþjónusta þar sem sýnt þykir að styggð komi ekki að erninum þó að farið sé allt að 150 metra nálægt hreiðrum. Í Breiðafirði hafa slíkar ferðir tíðkast um árabil án þess að örninn hafi fært sig um set.
    Í 3. mgr. er lagt til að óheimilt verði að hrófla við hreiðrum og hreiðurstæðum arna og svæði sem afmarkast af 100 m hringmáli frá þeim. Er það gert til að tryggja að ekki verði raskað svæði í næsta nágrenni hreiðurstæðis. Tilgangur ákvæðisins er að kveða afdráttarlaust á um að ekki megi eyðileggja eða raska hreiðurstæðum arna. Ákvæðið á við um varpstaði arna hvort sem þeir hafa verið notaðir það árið eða ekki en einnig um hreiður þann tíma árs sem ernir verpa ekki. Verndun slíkra staða fyrir hvers kyns röskun er því ekki einungis bundin við varptímann eða sannaða viðveru fugla þar heldur allt árið og óháð því hvort ernir halda þar til eða ekki. Þetta er afar mikilvægt þegar haft er í huga hvaða hlutverki þessir afmörkuðu staðir gegna fyrir viðgang arnarstofnsins enda er í flestum tilvikum um að ræða hefðbundna varpstaði sem notaðir eru ár eftir ár, t.d. ákveðinn hreiðurklett eða hólma. Gert er ráð fyrir að umrædd verndarákvæði eigi við um sjálft hreiðurstæðið og svæði sem afmarkast af 100 m hringmáli frá því. Er það gert til að tryggja að ekki verði raskað svæði í næsta nágrenni hreiðurstæðis.
    Í 4. mgr. er kveðið á um hvernig staðið skuli að skráningu varpstaða arna en lögð er rík áhersla á að farið sé með slíkar upplýsingar sem trúnaðarmál.
    Í 5. mgr. er lagt til að umhverfisráðherra geti veitt undanþágu frá banni skv. 1 og 3. mgr. þegar miklar líkur eru á að forn hreiðurstæði arna verði ekki notuð að nýju vegna breyttra aðstæðna, t.d. að vegur sé í mikilli nálægð við varpstaðinn. Áður en slík undanþága er veitt skal ráðherra fá umsögn frá Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands.
    Í 6. mgr. er sambærilegt ákvæði og í a-lið þar sem kveðið er á um að Umhverfisstofnun geti veitt undanþágu frá ákvæðum 1. mgr., svo sem vegna myndatöku og rannsókna, að fenginni umsögn Náttúruverndar ríkisins.

Um 11. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.

    Helstu breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu er ætlað, eins og segir í athugasemdum, að auka vernd arnarins og annarra friðaðra dýra, gera stjórnsýsluleg skil milli Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands skýrari, auka heimildir til að bregðast við ört stækkandi stofnum villtra dýra sem flust hafa til landsins af manna völdum og að lokum felast í frumvarpinu breytingar er varða eftirlit með hreindýraveiðum.
    Ekki verður séð að frumvarp þetta, verði það óbreytt að lögum, hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.