Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 613. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 921  —  613. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 58/2000, um yrkisrétt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Á eftir 1. gr. laganna bætist við ný grein, 1. gr. a, svohljóðandi:
    Lög þessi taka til yrkja allra ættkvísla og tegunda plantna, þ.m.t. blendinga ættkvísla og tegunda.
    Í lögum þessum er hugtakið yrki notað um plöntuhópa sömu tegundar eða undirtegundar samkvæmt nákvæmustu þekktu flokkun grasafræðinnar sem, óháð því hvort öllum skilyrðum fyrir vernd samkvæmt lögunum er fullnægt, er unnt:
     a.      að skilgreina með þeim einkennum sem birta tiltekna arfgerð eða samsetningu arfgerða,
     b.      að aðgreina frá öðrum flokkum plantna með að minnsta kosti einu af fyrrnefndum einkennum og
     c.      að líta á sem einingu með tilliti til möguleika til fjölgunar án þess að einkenni þeirra breytist.
    Plöntuhópar samanstanda af heilum plöntum eða plöntuhlutum ef með hlutunum má rækta heilar plöntur, hvort tveggja í lögum þessum nefnt stofnþættir yrkis.
    Birting eiginleika skv. 2. mgr. getur verið stöðug eða breytileg milli sams konar stofnþátta yrkis að því tilskildu að breytileiki ráðist einnig af arfgerð eða samvali arfgerða.

2. gr.

    1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Yrkisrétt má veita ef yrki er:
     1.      greinilega sérstætt, þ.e. ef unnt er að greina það með skýrum hætti frá öðrum yrkjum sem þekkt eru á umsóknardegi, sbr. 2. mgr.,
     2.      nægilega einsleitt, þ.e. ef afgerandi einkenni þess eru nægilega einsleit með tilliti til þeirrar fjölbreytni sem búast má við miðað við fjölgunaraðferð hverju sinni,
     3.      stöðugt, þ.e. ef einkenni þess sem máli skipta eru óbreytt eftir endurtekna fjölgun eða ef um er að ræða sérstaka fjölgunarhringrás við lok hverrar slíkrar hringrásar,
     4.      nýtt, þ.e. ef efniviður til fjölgunar þess eða uppskeruefni af því hefur ekki á umsóknardegi yrkisréttar, með samþykki yrkishafa, verið selt eða boðið til sölu á almennum markaði ellegar með öðrum hætti framselt til hagnýtingar í atvinnuskyni:
              a.      hér á landi lengur en eitt ár,
              b.      erlendis lengur en fjögur ár, þó í sex ár sé um tré eða vínvið að ræða.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 6. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Tímabilið reiknast frá innlagnardegi fyrstu umsóknar og skal ekki telja umsóknardag til þess tímabils.
     b.      Á eftir 2. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Yrkishafi hefur frest í tvö ár frá því að forgangsréttartímabilinu lýkur eða sama tíma frá höfnun eða afturköllun umsóknar hafi henni verið hafnað eða hún afturkölluð til að láta yrkisréttarnefnd í té nauðsynlegar upplýsingar, skjöl eða efni sem þörf er á við rannsókn á umsókninni, sbr. III. kafla.

4. gr.

    Við 1. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: að yrkisréttur hefur verið veittur þeim sem ekki á rétt til hans nema hann sé yfirfærður til þess sem á slíkan rétt.

5. gr.

    16. gr. laganna orðast svo:
    Yrkisréttur nær til þess yrkis sem skráð er samkvæmt lögum þessum. Yrkisréttur gildir einnig um:
     a.      yrki sem eru í öllum aðalatriðum komin af vernduðu yrki, enda sé hið verndaða yrki ekki sjálft komið af öðru í öllum aðalatriðum,
     b.      yrki sem ekki verða með vissu greind frá verndaða yrkinu skv. 2. gr.,
     c.      yrki sem ekki er unnt að framleiða nema með endurtekinni notkun verndaða yrkisins.
    Yrki telst í skilningi a-liðar 1. mgr. komið af öðru yrki í öllum aðalatriðum þegar:
     a.      það er mestmegnis komið af upphafsyrkinu, eða af yrki sem sjálft er mestmegnis komið af upphafsyrkinu og heldur þeim megineinkennum sem ráðast af arfgerð eða samsetningu arfgerða upphafsyrkisins,
     b.      það verður með vissu greint frá upphafsyrkinu skv. 2. gr.,
     c.      það samsvarar, að frátöldum þeim mismun sem felst í aðgerðinni við að fá það fram, upphafsyrkinu í þeim megineinkennum sem ráðast af arfgerð eða samsetningu arfgerða upphafsyrkisins.
    Í reglugerð er heimilt að tilgreina mögulegar leiðir til að fá fram yrki skv. 1.–2. mgr.

6. gr.

    17. gr. laganna orðast svo:
    Yrkisréttur felur í sér að aðrir en yrkishafi mega ekki án hans samþykkis nýta stofnþætti yrkis eða uppskeru af hinu verndaða yrki með eftirfarandi hætti:
     a.      framleiða eða fjölga,
     b.      undirbúa til fjölgunar,
     c.      bjóða til sölu,
     d.      markaðssetja eða selja,
     e.      flytja út,
     f.      flytja inn,
     g.      safna birgðum í þeim tilgangi sem greinir í a–f-liðum.
    Ákvæði 1. mgr. gildir aðeins um uppskeru af yrki sem fengist hefur með hagnýtingu á efniviði til fjölgunar þess hafi yrkishafi ekki:
     a.      heimilað þá hagnýtingu og
     b.      haft tök á að nýta réttindi sín skv. 1. mgr.
    Heimilt er að kveða á um í reglugerð að í sérstökum tilvikum geti ákvæði 1. mgr. einnig átt við um afurðir sem fengnar eru beint úr uppskeru annarra en yrkishafa. Það á þó aðeins við að afurðirnar hafi verið fengnar með óheimilli notkun á hinu verndaða yrki, enda hafi rétthafinn ekki með góðu móti átt þess kost að neyta réttar síns. Að svo miklu leyti sem ákvæði 1. mgr. gilda um afurðir sem fengnar eru beint úr uppskeru hins verndaða yrkis skulu þær einnig teljast til uppskeru samkvæmt lögum þessum.
    Beiting yrkisréttar má ekki brjóta í bága við ákvæði sem sett hafa verið á grundvelli almannaheilla, siðferðis eða almannaöryggis, til verndar heilsu og lífi manna, dýra og plantna, vegna umhverfisverndar, verndar hugverkaréttar í iðnaði eða viðskiptum, eða til að tryggja samkeppni í verslun eða landbúnaðarframleiðslu. Ákvæði þessarar málsgreinar skerða ekki rétt bænda sem kveðið er á um í 18. gr. a.

7. gr.

    Á eftir 17. gr. laganna bætist við ný grein, 17. gr. a, svohljóðandi:
    Yrkishafi getur bundið samþykki sitt fyrir nýtingu yrkis skilyrðum, þar á meðal um greiðslu hæfilegs nytjaleyfisgjalds.
    Sá sem í atvinnuskyni fjölgar yrki, selur efnivið til fjölgunar þess eða nýtir yrki með öðrum hætti skal veita yrkishafa nauðsynlegar upplýsingar vegna innheimtu nytjaleyfisgjalds.
    Þau skilyrði sem yrkishafi setur skv. 1. mgr., m.a. um gjaldtöku, skulu aðeins eiga við um þá notkun og það framboð sem getur í 1. mgr. 17. gr. Skilyrðin skulu vera sanngjörn og allir framleiðendur njóta sambærilegra kjara.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      3. tölul. orðast svo: notkun til kynbóta, þ.e. til að þróa ný yrki og, nema þegar ákvæði 1.–2. mgr. 16. gr. eiga við, notkun sem um getur í 1. mgr. 17. gr. þegar um slík ný yrki er að ræða.
     b.      Orðin „til fjölgunar“ í 4. tölul. falla brott.
     c.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
              Efniviður skv. 1. mgr. merkir:
              a.      hvers kyns efnivið til fjölgunar, þ.m.t. heilar plöntur og plöntuhluta,
              b.      uppskeru,
              c.      allar afurðir sem unnar eru beint úr uppskeru.

9. gr.

    Á eftir 18. gr. laganna bætist við ný grein, 18. gr. a, svohljóðandi:
    Til að vernda landbúnaðarframleiðslu er bændum heimilt, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 17. gr., að nota uppskeru af eigin landi til ræktunar á yrkjum af tilgreindum tegundum á eigin landi enda sé ekki um að ræða blendingsyrki eða samsett yrki. Með eigin landi er bæði átt við eignarland og land sem bændur hafa umráð yfir til búsetu og landbúnaðar og annars konar ræktunar samkvæmt samningum við landeigendur.
    Landbúnaðarráðherra ákveður í reglugerð hvaða tegundir falla undir ákvæði 1. mgr. og með hvaða skilyrðum.
    Óheimilt er að krefja bændur um nytjaleyfisgjald fyrir nýtingu yrkis skv. 1. mgr. ef framleiðsla þeirra á nytjajurtum skv. 2. mgr. fer fram á landi sem ekki getur gefið af sér meira en 92 tonna uppskeru af korntegundum en magn annarra nytjajurta miðast við sömu stærð lands. Öðrum bændum er skylt að greiða yrkishafa nytjaleyfisgjald en landbúnaðarráðherra getur ákveðið að það skuli vera lægra en greitt er á sama svæði fyrir hagnýtingu fjölgunarefnis af sama yrki.
    Landbúnaðarráðherra setur í reglugerð nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

10. gr.

    20. gr. laganna orðast svo:
    Hafi yrkishafi ekki tryggt nægilegt framboð af efniviði til fjölgunar verndaðs yrkis hér á landi á sanngjörnum kjörum og í þeim mæli og með þeim hætti sem nauðsynlegt er til að tryggja matvælaframleiðslu í landinu og aðra mikilvæga almannahagsmuni getur sá sem vill hagnýta yrkið farið fram á nauðungarleyfi, fyrir dómstólum, svo framarlega sem ekki eru haldbær rök fyrir vanrækslu yrkishafa.
    Einkaleyfishafi sem ekki getur nýtt uppfinningu sína án þess að brjóta á eldri yrkisrétti getur gegn sanngjörnu gjaldi farið fram á nauðungarleyfi til að hagnýta verndaða yrkið. Nauðungarleyfi skal aðeins veita ef einkaleyfishafi sýnir fram á að uppfinningin sem tekur til yrkisins sé tæknilega mikilvægt framfaraspor og hafi verulegan ábata í för með sér.
    Hafi yrkishafi fengið nauðungarleyfi til að nýta einkaleyfisverndaða uppfinningu skv. 1. mgr. 46. gr. a laga um einkaleyfi, nr. 17/1991, hefur einkaleyfishafi rétt á að fá nauðungarleyfi með sanngjörnum skilmálum til að hagnýta verndaða yrkið.
    Ákvæði 49. og 50. gr. laga um einkaleyfi, nr. 17/1991, gilda eftir því sem við á um nauðungarleyfi samkvæmt þessari grein. Dómstóll getur skyldað yrkishafa til að leggja fram nauðsynlegan efnivið til fjölgunar yrkisins til nauðungarleyfishafa.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum nr. 58/2000, um yrkisrétt, til samræmis við ákvæði í reglugerð ráðsins um vernd plöntuafbrigða, nr. 2100/94/EB. Sú reglugerð er þó ekki hluti af EES-samningnum, heldur má rekja ástæðu þessara breytinga til frumvarps til laga um breytingu á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi, með síðari breytingum, sem er til komið vegna lögleiðingar ákvæða tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 98/44 frá 6. júlí 1998, um lögvernd uppfinninga í líftækni. Í tilskipuninni eru nokkur ákvæði um plöntuyrki en um efni þeirra er í flestum tilvikum vísað til ákvæða reglugerðar nr. 2100/94/EB. Með frumvarpi þessu er því áformað að lögleiða þau ákvæði tilskipunar 98/44 sem fjalla um plöntuyrki en meginefni tilskipunarinnar verður lögleitt með breytingu á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi. Einnig er í frumvarpinu að finna nokkrar breytingar sem eru til komnar vegna umsóknar Íslands um aðild að Alþjóðasamningi um vernd nýrra yrkja (UPOV-samningnum) frá 2. desember 1961 með breytingum sem gerðar voru í Genf 10. nóvember 1972, 23. október 1978 og 19. mars 1991 en með þeim er ætlunin að samræma betur ákvæði laganna og samningsins.
    Á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar 31. janúar 2003 var tekin ákvörðun nr. 20/2003 um að breyta XVII. viðauka við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/44 frá 6. júlí 1998, um lögvernd uppfinninga í líftækni. Samþykki Alþingis þarf til að staðfesta ákvörðun þessa sem kallar á viðeigandi lagabreytingar hér á landi.
    Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu á fyrrgreindri ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar var lögð fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003. Var þingsályktunin samþykkt.
    Á yfirstandandi þingi hefur nú þegar verið lagt fram frumvarp til laga um breytingu á einkaleyfalögum, nr. 17/1991, í samræmi við ákvæði fyrrgreindrar tilskipunar en gert er ráð fyrir að meginefni tilskipunarinnar verði lögfest með þeim lögum. Tilskipunin um lögvernd uppfinninga í líftækni fjallar eins og áður segir einnig um plöntuyrki. Í 5. gr. reglugerðar nr. 2100/94/EB er að finna skilgreiningar á nokkrum hugtökum. Í 3. mgr. 2. gr. tilskipunar 98/44 er vísað til 5. gr. reglugerðar nr. 2100/94/EB varðandi skilgreiningu á hugtakinu plöntuyrki. Er öll umfjöllun um plöntuyrki í tilskipun 98/44 byggð á þeirri skilgreiningu. Plöntuafbrigði eru undanskilin ákvæðum laga nr. 17/1991 en njóta annars konar verndar á grundvelli laga nr. 58/2000. Einnig eru nokkur önnur ákvæði í frumvarpinu sem lagt er til að verði lögfest til að samræma ákvæði laganna betur reglugerð nr. 2100/94/EB eða þeim ákvæðum hennar sem vísað er til í tilskipun 98/44, t.d. um undanþágu frá yrkisrétti fyrir nánar tilgreinda bændur sem nefndir eru smábændur í reglugerð nr. 2100/94/EB og ítarlegri ákvæði eru um nauðungarleyfi.
    Með tilskipun 98/44, um lögvernd uppfinninga í líftækni, er stefnt að því að samræma lagaákvæði aðildarríkja Evrópusambandsins og nú þeirra sem aðild eiga að EES-samningnum. Til að ná fram því markmiði er nauðsynlegt að skilgreining á grundvallarhugtökum sé samræmd. Því er lagt til í frumvarpi þessu að lögum um yrkisrétt verði breytt til samræmis við áðurnefnda reglugerð nr. 2100/94/EB.
    Umsókn Íslands um aðild að Alþjóðasamningnum um vernd nýrra yrkja (UPOV-samningnum) er nú til meðferðar hjá alþjóðlegri stofnun um framkvæmd samningsins (The International Union for the Protection of New Varieties of Plants (UPOV)) en forsenda þess að umsóknin verði samþykkt er að ákvæði íslenskrar löggjafar um yrkisrétt séu í samræmi við samninginn. Í frumvarpi þessu eru því lagðar til breytingar á lögunum sem nauðsynlegar eru til að umsókn um aðild Íslands að samningnum verði samþykkt.
    Breytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu hafa í för með sér að ákvæði laga nr. 58/2000, um yrkisrétt, verða mun líkari Alþjóðasamningnum um vernd nýrra yrkja og reglugerð ráðsins um vernd plöntuafbrigða, nr. 2100/94/EB. Slíkt samræmi, sér í lagi varðandi grundvallarhugtök, er æskilegt og í raun nauðsynlegt í þessu tilviki eins og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan.
    Frumvarpið felur ekki í sér miklar efnislegar breytingar. Fremur er um að ræða að ákvæði verði skýrari og ítarlegri. Um skýringu á ákvæðum laganna vísast að öðru leyti til frumvarps til laga nr. 58/2000, um yrkisrétt, sbr. Alþingistíðindi A-deild, 125. löggjafarþing 1999– 2000, þskj. 828, 527. mál.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er að finna ákvæði um gildissvið laganna í víðasta skilningi og hvernig hugtakið yrki er skilgreint samkvæmt lögunum en þau gilda um allar ættkvíslir og tegundir plantna, þ.m.t. blendinga ættkvísla og tegunda, svo og plöntuhópa samkvæmt nákvæmustu þekktu flokkun grasafræðinnar með nánar tilgreindum skilyrðum. Sambærilegt ákvæði er í 5. gr. reglugerðar ráðsins nr. 2100/94/EB, um plöntuvernd, en í tilskipun 98/44, um lögvernd uppfinninga í líftækni, er um skilgreiningu á hugtakinu vísað til reglugerðar nr. 2100/94/EB. Í núgildandi lögum nr. 58/2000 er gildissvið laganna eða hugtakið yrki ekki skilgreint með eins skýrum hætti. Ákvæðið felur að öðru leyti ekki í sér efnislegar breytingar á gildandi lögum.

Um 2. gr.

    Ákvæðið felur ekki í sér efnislegar breytingar á núgildandi 2. gr. laganna heldur er hér einungis um að ræða breytingar sem lagðar eru til í þeim tilgangi að samræma betur ákvæði greinarinnar og 6.–9. gr. Alþjóðasamningsins um vernd nýrra yrkja (UPOV-samningsins).

Um 3. gr.

    Ákvæði þetta er sett til að laga ákvæði laganna betur að 11. gr. UPOV-samningsins en þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.

Um 4. gr.

    Ákvæði þetta er sett til þess að tryggja að ákvæði 14. gr. laganna sé í fullu samræmi við 21. gr. UPOV-samningsins en þennan c-lið vantar í 14. gr. laganna til þess að greinin sé að öllu leyti í samræmi við 21. gr. UPOV-samningsins. Ákvæðið þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.

Um 5. gr.

    Ákvæði þetta er að mestu samhljóða núgildandi ákvæði 16. gr. laganna en orðalag ákvæðisins hefur verið breytt lítils háttar til að aðlaga það betur ákvæði 13. gr. reglugerðar nr. 2100/94/EB. Með þessu ákvæði er einnig bætt við sérstakri reglugerðarheimild fyrir ráðherra. Greinin fjallar um andlag yrkisréttar, þ.e. til hvaða yrkja eða plöntuhópa yrkisrétturinn skuli ná og hefur að geyma nánari skýringar á hugtakinu og einstökum þáttum þess. Þannig tekur yrkisréttur til yrkja sem skráð eru samkvæmt yrkisréttarlögum en yrkisrétturinn nær m.a. til stofnþátta yrkja (plöntuhópa sem samanstanda af heilum plöntum eða plöntuhlutum ef með þeim má rækta heilar plöntur), sbr. 2. gr. Í 2. mgr. er tekið fram að ákvæði greinarinnar gilda einnig um yrki sem eru að einhverju leyti frábrugðin vernduðu yrki, þ.e. yrki getur verið verndað samkvæmt yrkisrétti þótt það sé frábrugðið vernduðu yrki í einhverjum atriðum ef það er komið af verndaða yrkinu í öllum aðalatriðum. Í 3. mgr. er jafnframt skilgreint hvenær yrki telst komið af öðru yrki í öllum aðalatriðum. Þá er í greininni að finna heimild til að setja nánari ákvæði í reglugerð um hvað teljast mögulegar leiðir til að fá fram yrki. Um skýringu á þessu ákvæði vísast að öðru leyti til athugasemda við 16. gr. frumvarps til laga nr. 58/2000, sbr. Alþingistíðindi A-deild, 125. löggjafarþing 1999–2000, þskj. 828, 527. mál.

Um 6. gr.

    Ákvæði þetta er að hluta til samið með hliðsjón af 13. gr. reglugerðar nr. 2100/94/EB en er að öðru leyti að stofni til byggt á núgildandi 1. mgr. 17. gr. laganna. Leita þarf samþykkis yrkishafa til að nýta efni það sem verndað er með yrkisrétti og gildir það um hvers konar nýtingu, svo sem til verslunar, framleiðslu eða fjölgunar sem nánar er tilgreint í ákvæðinu. Í 2. mgr. greinarinnar er kveðið á um að vernd yrkisréttar taki einnig til uppskeru annarra en yrkishafa sem fengin er með óleyfilegri notkun yrkisþátta og í 3. mgr. er gert ráð fyrir að sömu reglur gildi um vörur sem framleiddar hafa verið úr uppskeru sem fengin var með óheimilli notkun yrkisins. Í greininni er einnig kveðið á um að beiting yrkisréttar megi ekki brjóta í bága við ákvæði annarra laga sem sett hafa verið á grundvelli almenns siðferðis, almannaheilla, umhverfisverndar, hugverkaréttar eða samkeppni. Sérréttindi bænda, sbr. 9. gr. frumvarpsins, verða þó ekki skert með þessu ákvæði. Um skýringu á ákvæðinu vísast að öðru leyti til athugasemda við 17. gr. frumvarps til laga nr. 58/2000, sbr. Alþingistíðindi A-deild, 125. löggjafarþing 1999–2000, þskj. 828, 527. mál.

Um 7. gr.

    Ákvæðið er sama efnis og 2., 4. og 6. mgr. núgildandi 17. gr. laganna og vísast um skýringu á ákvæðinu til athugasemda við 17. gr. frumvarps til laganna, sbr. Alþingistíðindi A-deild, 125. löggjafarþing 1999–2000, þskj. 828, 527. mál.

Um 8. gr.

    Með a-lið ákvæðisins er ætlunin að aðlaga ákvæði laganna betur að 1. mgr. 15. gr. Alþjóðasamningsins um vernd nýrra yrkja. Í b-lið ákvæðisins eru orðin „til fjölgunar“ felld brott til að ákvæðið nái yfir allar þær athafnir sem hugtakið yrkisréttur nær yfir. Ákvæðið samrýmist þá betur 16. gr. UPOV-samningsins. Í c-lið ákvæðisins er hins vegar að finna skilgreiningu á orðinu efniviður sem beita ber við skýringu og túlkun á 4. tölul. 18. gr. um tæmingu yrkisréttar en skilgreiningin er sambærileg við skilgreiningu sem fram kemur í 2. mgr. 16. gr. Alþjóðasamningsins um vernd nýrra yrkja.

Um 9. gr.

    Ákvæði þetta hefur að geyma sérstaka undanþágu frá rétti yrkishafa sem gildir eingöngu um bændur og uppskeru af tilteknum tegundum fjölgunarefnis sem þeir hafa ræktað sjálfir á eigin landi. Undanþágan gildir þó ekki um blendingsyrki og tilbúið yrki. Einnig veitir ákvæðið bændum eingöngu rétt til að nota uppskeruna til að rækta nýja uppskeru án tillits til réttar yrkishafa. Ákvæðið heimilar bændum ekki að nýta uppskeruna í öðrum tilgangi. Sambærilegt ákvæði kemur fram í 14. gr. reglugerðar nr. 2100/94/EB, 11. gr. tilskipunar 98/44 og einnig í 15. gr. UPOV-samningsins. Undanþága sú sem felst í ákvæðinu er sett til að vernda landbúnaðarframleiðslu og gildir einungis um nánar tilgreindar tegundir yrkis sem landbúnaðarráðherra ákveður í reglugerð. Einnig ákveður landbúnaðarráðherra í reglugerð hvaða skilyrði eru sett fyrir heimild til að hagnýta yrki. Með „eigin landi“ í skilningi ákvæðisins er ekki eingöngu átt við eignarland viðkomandi bænda heldur einnig land sem þeir hafa umráð yfir til búsetu og landbúnaðar eða annars konar ræktunar samkvæmt lögformlegum samningi þess efnis, t.d. ábúðarsamningi. Þá eru settar takmarkanir við því hvort og að hvaða marki er hægt að krefja bændur um nytjaleyfisgjald fyrir yrkið og nýtingu þess en samkvæmt ákvæðinu er ekki heimilt að krefja bændur um nytjaleyfisgjald ef framleiðsla þeirra fer fram á landi sem getur ekki gefið af sér meira en 92 tonna uppskeru af korntegundum. Skv. 14. gr. reglugerðar nr. 2100/94/EB eru slíkir bændur skilgreindir sem smábændur. Ef framleiddar eru aðrar tegundir en korn á landinu miðast útreikningur við sömu stærð á landinu og þarf til að framleiða 92 tonn af korntegundum, t.d. er miðað við hvað er hægt að framleiða mikið af kartöflum á þessu sama landi. Leyfilegt magn sem undanþága frá greiðslu nytjaleyfisgjalds miðast hins vegar við kann að vera annað ef þyngd nytjajurta er önnur, t.d. mundi þyngd uppskeru af kartöflum sem hægt er að framleiða á þessu sama landi vega töluvert meira en 92 tonn. Öðrum bændum er skylt að greiða nytjaleyfisgjald sem þó er heimilt að lækka ef sérstakar ástæður mæla með því. Við mat á því er rétt að ráðherra hafi hliðsjón af hve almenn notkun er á þeirri undanþágu til nýtingar yrkisins sem felst í ákvæðinu. Til að tryggja að framkvæmd ákvæðisins verði í samræmi við tilgang þess er bændum eðli málsins samkvæmt skylt að veita aðilum sem hafa lögvarinna hagsmuna að gæta allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að taka réttar ákvarðanir og hafa eftirlit með að ekki sé brotinn réttur yrkishafa og fer það eftir almennum lögum hverju sinni án þess þó að með því sé skert persónuvernd sem leiðir af ákvæðum gildandi laga. Réttarsamband bænda og yrkishafa samkvæmt þessu ákvæði er annars byggt á samningum einkaréttarlegs eðlis. Yrkishafar bera einir ábyrgð á eftirliti með því að farið sé að ákvæðum þessarar greinar og reglna sem settar eru á grundvelli hennar. Þeir geta ekki þegar þeir skipuleggja slíkt eftirlit áskilið sér aðstoð opinberra aðila.

Um 10. gr.

    1. mgr. ákvæðisins er sama efnis og núgildandi 20. gr. laganna. Um skýringar á ákvæðinu vísast til athugasemda með 20. gr. frumvarps til laganna, sbr. Alþingistíðindi A-deild, 125. löggjafarþing 1999–2000, þskj. 828, 527. mál.
    2.–4. mgr. eru nýmæli en með þeim er lagt til að sambærilegt ákvæði og 12. gr. tilskipunar 98/44 sem varða réttindi yrkishafa (þ.e. nauðungarleyfi einkaleyfishafa) verði tekin inn í lögin um yrkisrétt. Gert er ráð fyrir að samsvarandi breytingar verði gerðar á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi, að því er varðar rétt einkaleyfishafa (og nauðungarleyfi yrkishafa). Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að unnt sé að öðlast nauðungarleyfi þegar hagnýting er háð yrkisrétti svipað og í 1. mgr. Með ákvæðinu er verið að tryggja að unnt sé að hagnýta einkaleyfi ef nýting er háð því að brjóta verður á eldri yrkisrétti. Skilyrði fyrir veitingu nauðungarleyfis eru að einkaleyfið feli í sér tæknilega mikilvægt framfaraskref og hafi verulegan ábata í för með sér með tilliti til viðkomandi tegundar. Skilyrði fyrir nauðungarleyfi eru þau sömu og í 1. mgr. Í 3. mgr. er að finna ákvæði um svonefnd víxlnauðungarleyfi en sambærilegt ákvæði er í 2. mgr. 46. gr. einkaleyfalaga, nr. 17/1991. Ákvæðið varðar tilvik þegar yrkishafi samkvæmt reglum í lögum um yrkisrétt hefur fengið nauðungarleyfi til að hagnýta einkaleyfi sem verndað er af einkaleyfalögum. Einkaleyfishafinn hefur samkvæmt ákvæðinu möguleika á að fá nauðungarleyfi til að hagnýta yrki yrkishafans sem verndað er af yrkisréttarlögum. Ákvörðun um hvort veita eigi nauðungarleyfi, með hvaða skilyrðum og hve hátt gjald skuli greiða fyrir nauðungarleyfið er í höndum Héraðsdóms Reykjavíkur en um framkvæmd við veitingu nauðungarleyfis er í 4. mgr. vísað til 49. og 50. gr. laga nr. 17/1991.

Um 11. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 58/2000, um yrkisrétt.

    Tilgangur frumvarpsins er að lögleiða hluta tilskipunar 98/44, um lögvernd uppfinninga í líftækni. Í tilskipuninni er fjallað um skilgreiningar og önnur atriði varðandi plöntuyrki. Tekið er mið af reglugerð ráðsins nr. 2100/94. Þá eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum vegna umsóknar Íslands um aðild að UPOV-samningnum, alþjóðasamningi um vernd nýrra yrkja.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi áhrif á kostnað ríkissjóðs.