Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 614. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 922  —  614. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2003.

Inngangur.
    Aðild að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE (áður Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu, RÖSE), eiga 55 ríki Evrópu og Norður-Ameríku. Stofnunin starfar á grundvelli Helsinki-sáttmálans frá árinu 1975. Henni er ætlað að stuðla að friði, öryggi og samvinnu ríkja í Evrópu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum íbúa álfunnar. Þingmannasamkunda ÖSE (ÖSE-þingið) starfar til hliðar við Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og er skipuð þjóðkjörnum þingmönnum aðildarríkjanna.
    Undanfarin ár og missiri hefur framkvæmd Dayton-samkomulagsins í Bosníu og Hersegóvínu, friðargæsluverkefni í Kosovo-héraði, uppbyggingarverkefni í Serbíu og Svartfjallalandi og verkefni í Mið-Asíulýðveldunum verið langveigamestu verkefni ÖSE, en á þessum stöðum hefur stofnuninni verið falið að hafa umsjón með framkvæmd kosninga, fylgjast með mannréttindamálum, byggja upp réttarkerfi og frjálsa fjölmiðla og aðstoða við gerð samninga um traustvekjandi aðgerðir og takmörkun vígbúnaðar. Á undanförnu ári hefur áhersla ÖSE þokast æ meir í austurátt og þá aðallega til Kákasus-ríkjanna og ríkja Mið-Asíu. Umsvif ÖSE á Balkanskaga eru enn fyrirferðarmikil í starfi stofnunarinnar en hlutverk ÖSE þar hefur einkum beinst að því að stuðla að lýðræðisþróun, góðri stjórnsýslu, framkvæmd kosninga og kosningaeftirliti, og stuðningi við frjálsa fjölmiðla. Af öðrum verkefnum bar kosningaeftirlit að venju hæst í starfi ÖSE-þingsins á árinu, þ.m.t. kosningarnar í Georgíu og stjórnarumbreytingar sem settu svip sinn á starf stofnunarinnar seinni hluta ársins. Einn mikilvægasti og mest sýnilegi hluti starfsemi ÖSE á sér stað hjá lands- og svæðisskrifstofum stofnunarinnar. Um þessar mundir starfrækir ÖSE 18 skrifstofur, í Albaníu, Bosníu og Hersegóvínu, Króatíu, Serbíu og Svartfjallalandi, Kosovo-héraði, Makedóníu, Hvíta-Rússlandi, Moldóvu, Úkraínu, Aserbaídsjan, Georgíu, Armeníu, Kirgistan, Kasakstan, Túrkmenistan, Úsbekistan og Tadsjikistan. Á árinu einsetti ÖSE sér að styrkja vettvangsstörf stofnunarinnar og er það í takt við áherslur þær sem komið hafa ítrekað fram hjá þingmannasamkundu ÖSE.
    Hin alþjóðlega barátta gegn hryðjuverkastarfsemi hefur mótað nokkuð starf ÖSE á undanförnum missirum og árum enda fer mikilvæg alþjóðasamvinna á sviði t.a.m. löggæslumála fram undir væng stofnunarinnar. Þá hefur ÖSE reynst afar mikilvægur samráðsvettvangur fyrir mörg önnur knýjandi málefni líkt og baráttuna gegn mansali, eiturlyfjasmygli og vopnasmygli sem tengst hafa hryðjuverkastarfsemi með beinum eða óbeinum hætti. Helsti styrkur ÖSE felst í fjölda aðildarríkjanna og tengingunni yfir Atlantshafið og austur til Mið-Asíu. Er stofnunin því breiður samráðs- og samvinnuvettvangur ólíkra ríkja sem einsett hafa sér sömu markmið. ÖSE hefur því mikilvægu hlutverki að gegna í því að efla samfélagslegt öryggi borgaranna á grunni forsendna um lýðræði, mannréttindi og réttarríkið og nýtist það starf einkar vel í baráttunni gegn hryðjuverkum, mansali og þjóðernisofstæki. Holland fór með formennsku í ráðherraráði ÖSE árið 2003 og fékk baráttan gegn mansali mikið vægi í störfum stofnunarinnar enda er hún afar vel búin til að takast á við vanda sem tengist slíkri glæpastarfsemi.
    ÖSE-þingið hefur að mörgu leyti endurspeglað starf stofnunarinnar sem slíkrar, t.a.m. með nefndastarfi sínu sem helgast af hinum þremur víddum ÖSE, þ.e. stjórnmálum og öryggismálum, efnahags- og umhverfismálum og lýðræðis- og mannréttindamálum. Að auki er þingið mikill aflvaki fyrir áherslubreytingar á starfi ÖSE og veitir einnig stofnuninni óformlegan pólitískan stuðning. Fulltrúar ÖSE-þingsins sem eru þjóðkjörnir fulltrúar þjóðþinganna hafa verið ötulir talsmenn starfsemi stofnunarinnar heima fyrir og hefur sá stuðningur verið stofnuninni mikilvægur. Aukins skilnings hefur gætt á störfum þingsins á undanförnum árum og er nú svo komið að þingmannasamkundan á afar farsælt samstarf við ÖSE en á það þótti skorta fyrir nokkrum árum. Þá tekur ÖSE-þingið afar virkan þátt í grasrótarstarfi stofnunarinnar, ekki síst með kosningaeftirlitsstörfum þingmanna sem sæti eiga á þinginu.

Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Fram að alþingiskosningum 10. maí voru aðalmenn Íslandsdeildarinnar Magnús Stefánsson, formaður, þingflokki Framsóknarflokksins, Ásta R. Jóhannesdóttir, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Guðjón Guðmundsson, þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Varamenn voru Pétur H. Blöndal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ísólfur Gylfi Pálmason, þingflokki Framsóknarflokks, og Lúðvík Bergvinsson, þingflokki Samfylkingarinnar. Ný Íslandsdeild var skipuð í upphafi 129. þings. Aðalmenn voru Pétur H. Blöndal, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Dagný Jónsdóttir, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Jóhanna Sigurðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Hjálmar Árnason, þingflokki Framsóknarflokks, og Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar.
    Andri Lúthersson var ritari Íslandsdeildarinnar.
    Þrjár málefnanefndir starfa á vegum ÖSE-þingsins. Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir árið 2003 var þannig:
1. nefnd um stjórnmál og öryggismál: Pétur H. Blöndal,
til vara: Guðlaugur Þór Þórðarson.
2. nefnd um efnahagsmál, vísindamál,
tæknimál og umhverfismál:
Dagný Jónsdóttir,
til vara: Hjálmar Árnason.
3. nefnd um lýðræði og mannréttindamál: Jóhanna Sigurðardóttir,
til vara: Ásta R. Jóhannesdóttir.

Starfsemi á árinu 2003.
a.    Fundur stjórnarnefndar og málefnanefnda í Vínarborg.
    Dagana 21.–22. febrúar komu málefnanefndir ÖSE-þingsins og stjórnarnefnd þess saman til fundar í Vínarborg. Var þetta í annað sinn sem efnt var til svonefndra vetrarfunda ÖSE- þingsins, eftir ákvörðun stjórnarnefndar þar að lútandi í febrúar árið 2001. Var fundurinn afar vel sóttur af fulltrúum 55 landsdeilda ÖSE-þingsins og sem fyrr var meginmarkmiðið að gefa öllum fulltrúum ÖSE-þingsins sem sæti ættu í málefnanefndum þingsins færi á að auka samskiptin við embættismenn ÖSE. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Magnús Stefánsson, formaður, Ásta R. Jóhannesdóttir, varaformaður, og Guðjón Guðmundsson, auk Andra Lútherssonar ritara.
    Fund stjórnarnefndarinnar, sem haldinn var 20. febrúar, ávörpuðu þeir Andreas Kohl, nýkjörinn forseti austurríska þingsins, og Bruce George, forseti ÖSE-þingsins, sem sagði fundarmönnum frá störfum ÖSE-þingsins frá síðasta ársfundi þess í Berlín. Vék hann í máli sínu að eftirfylgni Berlínar-yfirlýsingarinnar en í árslok 2002 höfðu allar landsdeildir verið inntar eftir svörum við spurningum um framlag stjórnvalda viðkomandi ríkja til baráttunnar gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi – helsta umfjöllunarefni Berlínar-yfirlýsingarinnar. Auk þess sem skrifstofa ÖSE-þingsins tók saman yfirlitsskýrslu um eftirfylgnina voru svör landsdeildanna lögð fram í miklu riti. Þakkaði forsetinn fyrir þá miklu vinnu sem landsdeildir hefðu lagt í skýrslur sínar og sagði það vera til marks um hve mikilvægt þetta málefni væri í Evrópu. Þá kynnti forsetinn tilhögun á sameiginlegum fundi allra málefnanefndanna sem haldinn var föstudaginn 21. febrúar, en þá var efnt til utandagskrárumræðu um ástand mála í Írak. Tók George fram að ekki væri verið að ræða tiltekin ályktunardrög heldur væri aðeins verið að gefa þingmönnum færi á að viðra skoðanir sínar á þróun mála. Helsta dagskrármálið á stjórnarnefndarfundinum voru tvær tillögur sem tóku til aðildar þings Hvíta-Rússlands. Fyrir fundinum lá bréf og tillaga bandarísku landsdeildarinnar um að enn væri langt í land með að hvít-rússnesk stjórnvöld uppfylltu skilyrði fyrir fullum réttindum þingsins á ÖSE- þinginu og skýrt frá því að Bandaríkjamenn mundu standa gegn slíkri ákvörðun. Þá lá fyrir fundinum tillaga Svía um að fresta bæri atkvæðagreiðslu um endurnýjaða aðild Hvíta-Rússlands til ársfundarins í Rotterdam. Sagði Tone Tingsgård, flutningsmaður tillögunnar, að ekkert hefði breyst í landinu hvað stjórnarfar varðaði og of snemmt væri að landsdeild Hvíta-Rússlands tæki sæti sitt á þinginu. Hugsanlega endurupptöku aðildar hvít-rússneska þingsins bar á góma á ársfundinum í Berlín og olli miklum umræðum og deilum. Á fundinum í Berlín var ákveðið að fresta umræðu til stjórnarnefndarfundarins í Vínarborg. Hins vegar lögðu landsdeildir ólíka merkingu í frestun umræðna. Töldu Rússar t.a.m. að verið væri að ræða mál á sömu forsendum og í Berlín, þar eð engar nýjar skýrslur hefðu verið lagðar fyrir ÖSE-þingið. Aðrir töldu að um nýja umræðu væri að ræða þar sem ekki hefði verið unnt að komast að niðurstöðu um stöðu Hvíta-Rússlands á ÖSE-þinginu á Berlínarfundinum. Nokkrar umræður urðu um túlkunarmun þennan, ekki síst í ljósi þess að tillaga Tingsgård hafði verið lögð fyrir Berlínarfundinn og svo aftur fyrir fundinn í Vínarborg þar eð ekki var talið ráðlegt að leggja hana fyrir fyrr. Þýski þingmaðurinn Uta Zapt tók til máls á fundinum en hún er formaður sérlegrar nefndar ÖSE-þingsins í málefnum Hvíta-Rússlands og hafði haldið til landsins stuttu fyrir fundinn til að meta aðstæður með tilliti til endurupptöku aðildar Hvíta- Rússlands. Zapt sagði að hvað stjórnarfar í landinu varðaði hefði ekki mikið breyst á undangengnum tveimur árum. Sagðist hún þó fagna því að Hvít-Rússar hefðu látið tilleiðast og leyft ÖSE að opna skrifstofu sína í Minsk, en á síðasta ári höfðu stjórnvöld haft uppi alvarlegar ásakanir á hendur sendimönnum stofnunarinnar og rekið þá úr landi. Zapt lagði hins vegar áherslu á að hvít-rússneska þingið hefði eflst mjög á síðustu mánuðum og að gangskör hefði verið gerð í að auka veg þess innan stjórnkerfisins. Var þetta gert í óþökk ríkisstjórnar landsins. Sagði hún jafnframt að hvað atkvæðagreiðslu um aðild varðaði þá yrðu menn að fylgja þingsköpum í einu og öllu. Rita Süssmuth, formaður þýsku sendinefndarinnar, tók undir orð Zapt en sagði jafnframt að í raun væru ekki lögmætar ástæður til þess að halda Hvít-Rússum utan ÖSE-þingsins lengur. Nokkrir þingmenn tóku undir þetta, þar á meðal Terry Davis, formaður bresku landsdeildarinnar. Miklar umræður urðu um málið þar sem menn skiptust í tvö horn. Að lokum voru greidd atkvæði um tillögurnar tvær. Fyrst var kosið um tillögu Bandaríkjamanna um að fresta málinu til fundarins í Rotterdam og var hún felld með meiri hluta atkvæða. Þá var kosið um tillögu Tingsgård samkvæmt samstöðureglunni og var hún felld. Þing Hvíta-Rússlands endurheimti því sæti sitt á ÖSE-þinginu.
    Á fundinum voru einnig teknar fyrir skýrslur gjaldkera þingsins og framkvæmdastjóra auk þess sem formenn sérlegra málefnanefnda lögðu áfangaskýrslur sínar fyrir stjórnarnefndina. Stjórnarnefndin samþykkti tvær minni háttar breytingar á þingsköpum sem tóku til framlagnar breytingartillagna, og ræddi fundi fram undan.
    Nokkrir nefndarmenn tóku til máls undir liðnum önnur málefni og sögðust þar hafa miklar áhyggjur af því að virðing ÖSE-þingsins hefði beðið mikinn álitshnekki með ákvörðun stjórnarnefndarinnar um að leyfa Hvít-Rússum að taka sæti sitt að nýju. Bruce George ávarpaði sameiginlegan fund allra málefnanefnda ÖSE-þingsins og fagnaði þar auknu samstarfi ÖSE og þingmannasamkundunnar. Sagði hann að afar ánægjulegt væri að ráðherraráðið fylgdi nú árlegum yfirlýsingum ÖSE-þingsins eftir með skilvirkum hætti og að vetrarfundirnir gæfu þingmönnum ríkulegt færi á að inna helstu embættismenn ÖSE eftir framgangi mála. Þá ávarpaði Thomas Klestil, forseti Austurríkis, fundinn og sagði í ræðu sinni að ÖSE-þingið hefði veitt ráðherraráði og skrifstofu ÖSE, auk sendinefnda stofnunarinnar, afar þýðingarmikla þingræðislega vídd með skilvirkum störfum sínum á undanförnum árum. Sagði hann að helstu málefni ÖSE, lýðræði, mannréttindi og forsendur réttarríkisins, hefðu aukist mjög að mikilvægi með störfum þingmannasamkundu ÖSE, ekki síst vegna þess hve vel þingmenn kæmu hlutverki ÖSE á framfæri meðal umbjóðenda sinna.
    Jaap de Hoop Scheffer, utanríkisráðherra Hollands, sem fer með formennsku í ráðherraráði ÖSE árið 2003, hélt afar áhugaverða ræðu á fundinum um helstu stefnumið Hollands í formennskutíð sinni hjá ÖSE og svaraði spurningum þingmanna. Í upphafi sagði ráðherrann að ÖSE, með 55 aðildarríkjum sínum, skilaði afar miklum virðisauka til hins skilvirka evrópska stofnananets sem við lýði væri nú, meira en áratug eftir fall Berlínarmúrsins. Taldi hann afar mikilvægt að þær stofnanir sem sinntu öryggis-, mannréttinda- og lýðræðismálum í breiðasta skilningi, þ.e. ÖSE, Atlantshafsbandalagið, Evrópuráðið og ESB, ynnu hver á sínu afmarkaða sviði en þó í náinni samvinnu hver við aðra. Hvað ÖSE og starfssvið stofnunarinnar varðaði væri ljóst að þar væru mörg úrræði umfram það sem gilti um aðrar stofnanir. Helsti styrkur stofnunarinnar fælist nú, sem áður, í fjölda aðildarríkjanna og tengingunni yfir Atlantshafið og austur til Mið-Asíu. Sagði hann að á næstu missirum mundi fara fram mikil endurskilgreining á öryggismálum Evrópu og væri þar verið að taka mið af síbreytanlegum heimi og nýjum ógnum. ÖSE hefði því einstakt hlutverk í því að efla samfélagslegt öryggi borgaranna á grunni forsendna um lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. Sagðist hann sjá fyrir sér aukið mikilvægi stofnunarinnar í þeim viðsjám sem við blöstu og nefndi hryðjuverk, mansal og þjóðernisofstæki sem dæmi. De Hoop Scheffer nefndi sérstaklega baráttuna gegn mansali sem dæmi um hvar sérfræðikunnátta ÖSE nýttist vel. Sagði ráðherrann að Hollendingar hygðust t.a.m. setja baráttuna gegn mansali á oddinn í formennskutíð sinni og teldi hann mansal vera nútímaþrældóm sem væri eitt flóknasta og mikilvægasta úrlausnarefni Evrópubúa í náinni framtíð. Sagði hann að öll rök bentu til að mansal hefði áhrif í nær öllum aðildarríkjum ÖSE og að skipulegt mansal vægi að hjarta grundvallarforsendna ÖSE um „mannlegt öryggi“, mannréttindi, réttarríkið og félagslegan og pólitískan stöðugleika. Að sama skapi væri ÖSE afar vel til þess fallið að berjast gegn þessum ógnvaldi þar sem mansal fæli í sér mannréttindabrot, óskilvirka landamæragæslu, ólögmæta meðhöndlun fórnarlamba og óviðunandi löggæslu. Sagði Scheffer að sendinefndir ÖSE, sem störfuðu víða um Balkanskaga og í ríkjum sem áður voru hluti Sovétríkjanna, hefðu á að skipa mannafla og sérþekkingu til að kljást við þessi mál í náinni samvinnu við stjórnvöld viðkomandi ríkja og sagði ráðherrann að í formennskutíð Hollands mundi ÖSE ekki eingöngu huga að framboði mansals heldur eftirspurnarhliðinni einnig. Sagði hann að stofnunin gæti beitt sér í auknum mæli fyrir forvörnum, svo sem upplýsingaherferðum, og komið því til leiðar að fórnarlömb mansals nytu aukinnar verndar gegn kúgurum sínum. Í erindi sínu vék utanríkisráðherrann hollenski einnig að því hvað þjóðkjörnir þingmenn sem sætu á ÖSE-þinginu gætu gert til að styrkja þessi stefnumið. Í því samhengi nefndi hann sérstaklega að þingmönnum bæri að beita sér fyrir öflugri löggjöf gegn mansali. Þá nefndi hann og hversu mikilvæg þátttaka þingmanna í kosningaeftirliti á vegum ÖSE væri í ljósi þess góða árangurs sem af því hefði hlotist að undanförnu. Minntist hann einnig á hversu mikilvægt hlutverk þingmanna væri í að styrkja svæðisbundið lýðræði á ÖSE-svæðinu með þátttöku þingmanna í ráðstefnum og í formlegum og óformlegum tengslum þjóðþinga á milli. Taldi hann að þingmenn væru oft í mun betri aðstöðu en embættismenn að beita pólitískum þrýstingi á bak við tjöldin.
    Á fundi 1. nefndar (nefndar um stjórnmál og öryggismál) fór Justus de Visser, fastafulltrúi Hollands í ráðherraráðinu, yfir helstu stefnumið Hollands í formennskutíð landsins og ræddi um útfærslu og framkvæmd þeirra. Nefndi hann að miklar vonir væru bundnar við að nýstofnaður vettvangur um öryggismálasamstarf (Forum for Security Co-operation) efldi enn frekar samhæfingu aðildarríkja ÖSE í baráttunni gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Þá vék de Visser að málefnum mansals og sagði að aðgerðaáætlun yrði lögð fram á næstu missirum. Þá ræddi hann um mikilvægi þess að stofnaður yrði samráðshópur innan ÖSE um aðgerðaáætlun í baráttunni gegn hryðjuverkum og taldi að það yrði gert á næstu vikum. Enn væri þó ekki ljóst hvaða ríki tæki við formennsku í þeim hópi. Nefndi sendiherrann einnig nýskipaðan vinnuhóp ÖSE, undir formennsku Danmerkur, sem hefði starfað að endurskilgreiningu á öryggisumhverfi Evrópu. Þá vék sendiherrann að endurskipulagningu stjórnskipunar ÖSE sem miðaði að því að auka skilvirkni og styrkja innviði stofnunarinnar. Þá fór formaður vettvangs um öryggismálasamstarf yfir stöðu mála og formaður 1. nefndar ræddi eftirfylgni Berlínar-yfirlýsingarinnar.
    Oleg Bilarus, formaður 2. nefndar (nefndar um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál), stjórnaði fundi nefndarinnar sem haldinn var fimmtudaginn 20. febrúar og fjallaði um helstu málefni sem nefndin mundi taka fyrir á árinu auk þess sem hann vék að meginþema ársfundarins í Rotterdam. Þá hélt Marcin Swiecicki, yfirmaður efnahags- og umhverfismálastofnunar ÖSE, erindi á fundinum þar sem hann ræddi helstu verkefni stofnunarinnar sem beinast einna helst að aðstoð við ríki Mið-Asíu um þessar mundir.
    Fund 3. nefndar (nefndar um lýðræði, mannréttindi og mannúðarmál) ávörpuðu þeir Rolf Ekeus, sérlegur erindreki ÖSE í réttindum minnihlutahópa (HCNM), og Freimut Duve, forstöðumaður stofnunar ÖSE sem hefur eftirlit með frelsi fjölmiðla (RFOM), auk þess sem staðgengill forstöðumanns Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE (ODIHR) hélt erindi. Ekeus vék í máli sínu að stöðu Róma (sígauna) og brýndi fyrir þingmönnum Mið- og Austur- Evrópuríkja hversu mikilvægt væri að þeir stæðu að styrkari löggjöf til að tryggja mannréttindi Róma, sem víða hafa sætt miklum ofsóknum á undanförnum árum. Þá sagði Ekeus að stofnun sú sem hann veitti forstöðu hygðist leggja meiri áherslu á tengsl trúarbragða og átaka og taldi að enn mætti mikið gera til að draga úr líkum á vopnuðum trúarbragðadeilum í álfunni. Í erindi sínu ræddi Freimut Duve um hlutverk ÖSE á vettvangi frjálsrar fjölmiðlunar og sagði að hlutverk sitt sem forstöðumanns RFOM væri að mörgu leyti einstakt með tilliti til annarra evrópskra stofnana þar eð hann hefði mun meira frelsi og frumkvæði í gagnrýni sinni á stefnu stjórnvalda í aðildarríkjum ÖSE gagnvart fjölmiðlum en annars staðar liðist. Sagðist hann vera óþreytandi við að vekja máls á því sem miður hefði farið í fjölmiðlaþróun í álfunni og nefndi t.a.m. fjölmiðlaeign í Rússlandi og Ítalíu máli sínu til stuðnings. Sagði hann að í báðum ríkjum væri afar mikil hætta á að ráðamenn misnotuðu aðstöðu sína og að hann sjálfur hefði bent á það margsinnis. Varaði hann sérstaklega við þróun mála á Ítalíu. Þá ræddi hann um viðsjár á alþjóðavettvangi með tilliti til stöðu mála í Írak og minnti þingmenn á að ábyrgð fjölmiðla væri ákaflega mikil á stríðstímum því að sannleikurinn væri að öllu jöfnu fyrsta fórnarlamb stríðsátaka. Taldi hann líka afar bagalegt hversu mjög fjölmiðlar beggja vegna Atlantsála hefðu kynt undir opinskáum deilum Evrópu og Bandaríkjanna með tilliti til Íraksmálsins.
    Á sameiginlegum fundi allra málefnanefndanna föstudaginn 21. febrúar var efnt til utandagskrárumræðu um stöðuna í málefnum Íraks og um deilur á alþjóðavettvangi sem tengjast afstöðu ríkja til afvopnunar Íraksstjórnar. Engin ályktunardrög lágu fyrir fundinum heldur var aðeins ætlast til þess að menn greindu frá afstöðu sinni til málsins. Alls tóku 25 þingmenn til máls í umræðunum. Ekki kom á óvart að þingmenn virtust skiptast mjög í tvær fylkingar og fylgja ríkisstjórnum sínum að máli með afgerandi hætti. Þó ríkti ákveðinn samhljómur í því að menn töldu Íraksstjórn hafa gengið allt of langt í fyrirætlunum sínum og undanbrögðum og alþjóðasamfélagið yrði að vera fast fyrir í aðgerðum sínum. Helsti ásteytingarsteinninn var hins vegar hversu langt öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, og þau ríki sem fast sæti áttu á þeim vettvangi, gætu gengið hvað afvopnun Íraka varðaði. Bandarísku og bresku fulltrúarnir sem til máls tóku sögðust flestir vera á þeirri skoðun að frekari undanlátssemi við stjórnvöld væri algerlega óþörf og að erindrekstur væri fullreyndur. Hótun um beitingu hernaðaraðgerða væri að öllum líkindum eina leiðin til að ná fram yfirlýstum vilja alþjóðasamfélagsins um afvopnun, eins og glögglega hefði komið fram í fjölmörgum ályktunum öryggisráðsins. Aðrir fulltrúar lögðu áherslu á að leita yrði allra leiða til að koma í veg fyrir stríðsaðgerðir og að ekki mætti túlka ályktanir öryggisráðsins á þá leið að þær réttlættu stríðsaðgerðir.
    Í samræmi við skipulagsbreytingar sem samþykktar voru á fundi stjórnarnefndarinnar í Berlín 2002 voru blaðamannaverðlaun ÖSE-þingsins veitt á vetrarfundinum í Vínarborg við hátíðlega athöfn. Verðlaunin hlaut að þessu sinni Anna Politkovskaya sem stundað hefur blaðamennsku fyrir rússneska dagblaðið Novaya Gazeta auk þess sem hún hefur ritað nokkrar bækur. Verðlaunin hlaut hún fyrir störf sín í Tsjetsjeníu á undanförnum árum. Hefur Politkovskaya verið óþreytandi við að benda umheiminum á þau gífurlegu mannréttindabrot sem viðgengist hafa í Kákasus-héraðinu undanfarin ár. Sagði dómnefndin að Politkovskaya hefði sýnt ótrúlegt áræði í skrifum sínum og komið þannig fram fyrir hönd þeirra sem ekki gætu borið hönd fyrir höfuð sér. Segði hún frá raunveruleikanum eins og hann væri. Freimut Duve, forstöðumaður RFOM, veitti Politkovskayu verðlaunin við táknræna athöfn og í þakkarræðu sinni sagði hún vafningalaust frá þeim umfangsmiklu mannréttindabrotum sem færu daglega fram í Tsjetsjeníu. Sakaði hún rússnesk stjórnvöld og umheiminn um að þaga þunnu hljóði um það sem þar færi fram og ákallaði hún alþjóðasamfélagið um að svipta hulunni af því sem gerðist í Tsjetsjeníu. Væri það siðferðileg skylda þingmanna sem annarra.

b.    12. ársfundur ÖSE-þingsins.
    Dagana 5.–9. júlí var ellefti ársfundur ÖSE-þingsins haldinn í Rotterdam. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar þær Dagný Jónsdóttir varaformaður, Jóhanna Sigurðardóttir og Drífa Hjartardóttir, auk Andra Lútherssonar ritara. Efni Rotterdam-fundarins var hlutverk Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í hinni nýju stofnanaskipan Evrópu. Tóku skýrslur og ályktanir málefnanefndanna þriggja mið af meginþema fundarins og var þar rætt um pólitískt hlutverk ÖSE í álfunni, efnahagslega þýðingu ÖSE samhliða stækkun ESB og upptöku evrunnar, og hvaða þýðingu stækkun ESB hefði fyrir virðingu fyrir mannréttindum og réttarríkinu á ÖSE-svæðinu. Yfir þrjú hundruð fulltrúar 55 aðildarríkja ÖSE-þingsins voru við setningu ársfundarins og hlýddu á setningarávarp Bruce George, forseta ÖSE-þingsins, og ávörp Yvonne Timmerman-Buck, forseta öldungadeildar hollenska þingsins, Frans Weisglas, forseta neðri deildar hollenska þingsins, og Gerrit Zalm, aðstoðarforsætisráðherra Hollands. Þá höfðu framsögu Jaap de Hoop Scheffer, utanríkisráðherra Hollands og formaður ráðherraráðs ÖSE, Jan Kubis, framkvæmdastjóri ÖSE, Rolf Ekeus, forstöðumaður stofnunar ÖSE sem fylgist með réttindum minnihlutahópa (HCNM), Christian Strohal, forstöðumaður Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE (ODIHR), Freimut Duve, forstöðumaður stofnunar ÖSE sem hefur eftirlit með frelsi fjölmiðla (RFOM), og Marcin Swiecicki, forstöðumaður efnahags- og umhverfisdeildar ÖSE. Þessir frummælendur svöruðu einnig spurningum þingmanna.
    Fyrsti formlegi liður ársfundarins var fundur stjórnarnefndar ÖSE-þingsins sem skipuð er formönnum allra landsdeilda auk formanna og annarra embættismanna málefnanefndanna. Á fundinum voru teknar fyrir áfangaskýrslur hinna ýmsu sérnefnda ÖSE-þingsins og skýrslur frá fundum og ráðstefnum sem efnt hafði verið til á árinu á vegum ÖSE-þingsins. Var fundarmönnum m.a. sagt frá árangri svæðisbundinnar ráðstefnu um lítil og meðalstór fyrirtæki sem efnt var til í Bern, ráðstefnu um málefni Mið-Asíu sem haldin var í Almaty, auk þess sem fjallað var um kosningaeftirlit á vegum ÖSE-þingsins. Þá var stuttlega rætt um ráðstefnur þær sem fram undan væru. Að því loknu héldu gjaldkeri þingsins og framkvæmdastjórinn framsögur. Kanadíski þingmaðurinn Jerry Grafstein, gjaldkeri þingsins, sagði að samkvæmt úttekt endurskoðunarfyrirtækisins KPMG væru sjóðir ÖSE-þingsins vel stæðir og lagði hann fram fjárhagsáætlun fyrir starfsárið 2003–2004 sem var samþykkt. Í áætluninni er gert ráð fyrir 4,75% hækkun frá síðasta ári. Þá sagði Spencer Oliver, framkvæmdastjóri ÖSE-þingsins, stuttlega frá helstu breytingum á störfum skrifstofu ÖSE-þingsins og verkefnum þess. Fyrir ársfundinn í Rotterdam höfðu verið lagðar fram 13 viðbótarályktunartillögur frá hinum ýmsu landsdeildum og var þeim vísað til viðeigandi málefnanefnda í lok fundarins. Landsdeild Hvíta-Rússlands, sem fékk aftur fulla aðild að ÖSE-þinginu á stjórnarnefndarfundinum í Vínarborg fyrr á árinu, reyndi, með aðstoð landsdeildar Rússlands og nokkurra Mið-Asíulýðvelda, að koma í veg fyrir að viðbótarályktunartillaga þýsku landsdeildarinnar um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi næði fram að ganga. Gengið var til atkvæða um hvort tillögunni yrði vísað til 3. nefndar og var það samþykkt með mjög naumum meiri hluta atkvæða.
    Í ávarpi Bruce George, forseta þingsins, á setningarfundi ÖSE-þingsins kom fram að stækkun Evrópusambandsins og NATO mundi hafa mikil áhrif á aðrar alþjóðastofnanir í álfunni og ÖSE væri þar ekki undanskilin. Mikilvægt væri því að ÖSE endurskilgreindi sig og markaði sér sérstöðu sem sveigjanleg og viðbragðsfljót stofnun sem hefði á sínum snærum mörg úrræði önnur en þau að beita vopnavaldi. Taldi hann jafnframt nauðsynlegt að kynna starf stofnunarinnar betur meðal almennings og ítrekaði tillögu sína frá ráðherraráðsfundinum í Portó frá því fyrr um árið, að ÖSE kæmi á fót upplýsingaskrifstofum í öllum aðildarríkjunum. Þá rakti forsetinn helstu pólitísku stefnumið ÖSE-þingsins, þ.m.t. samstarf við önnur fjölþjóðleg þingmannasamtök, störf sérlegra nefnda þingsins og samstarfið við vettvangsskrifstofur ÖSE. Yvonne Timmerman-Buck, forseti öldungadeildar hollenska þingsins, og Frans Weisglas, forseti hollenska þingsins, röktu í ræðum sínum mikilvægi ÖSE-þingsins sem vettvangs þjóðkjörinna þingmanna 55 ríkja úr þremur heimsálfum til að ræða sameiginleg hagsmunamál. Töldu þau bæði að ÖSE-þingið væri afar farsælt tæki til að efla skilning og samstöðu almennings í aðildarríkjum ÖSE um mikilvægi þess að hlutast sé til um öryggismál álfunnar á sameiginlegum grundvelli. Timmerman-Buck vék í sinni ræðu að sambandi fjölþjóðastofnana og þjóðþinga og sagði að jafnvægi yrði að gilda í þeim samskiptum. Þjóðþingin mættu ekki spilla fyrir starfi ríkisstjórna á fjölþjóðlegum grunni og á sama tíma yrðu ríkisstjórnir og fjölþjóðlegar stofnanir að taka þingmannafundi sem þennan alvarlega þar sem á slíkum fundum skapaðist einstakt tækifæri til skoðanaskipta, skoðanamyndunar og færi á að ná samstöðu um veigamikil mál. Í ræðu Weisglas kom fram að þar til fyrir skemmstu hefðu öryggis- og varnarmál aðeins verið í verkahring þröngs hóps æðstu ráðamanna, herforingja og embættismanna. Með nýjum tímum hefði þetta breyst og umræðan væri nú að miklu leyti á færi þjóðkjörinna þingmanna sem væri vel. Mikilvægi þessarar þróunar væri ótvíræð þar sem niðurstaðan væri sú að með því að þingmenn ræddu þessi mál og hefðu áhrif þá væri almenningur með í ráðum. Því næst tók utanríkisráðherra Hollands, sem fer með formennsku í ráðherraráði ÖSE, Jaap de Hoop Scheffer, til máls og skýrði þingmönnum frá starfi ráðherraráðsins á undanförnum mánuðum. Vék hann einkum að fyrirætluðum ráðherraráðsfundi í Maastricht síðar á árinu, endurbótum á starfi ÖSE, áherslu formennskutíðar Hollands á náið samstarf við aðrar alþjóðastofnanir, auk svæðisbundinna málefna. Í ræðu sinni sagði hann að ráðherraráðsfundurinn mundi móta stefnu stofnunarinnar til framtíðar og byggja þar með á síðasta fundi sem efnt var til í Portó á síðasta ári. Nýjar ógnir sem steðja að samstarfsríkjunum yrðu efst á lista yfir þau málefni sem rædd yrðu en auk þeirra yrði rætt um endurbætta stefnu í efnahagsmálum og endurskoðaða þarfagreiningu á starfsemi vettvangsskrifstofa ÖSE. Þá sagði de Hoop Scheffer að þema ársfundar ÖSE þingsins, þ.e. hlutverk Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í hinni nýju stofnanaskipan Evrópu, væri einkar vel til fundið í ljósi stækkunar NATO og ESB og þeirra áherslumála sem ÖSE deilir með þessum tveimur alþjóðastofnunum. Sagði ráðherrann að í formennskutíð Hollands hefði verið leitast við að finna jafnvægið í starfi stofnunarinnar með tilliti til hinna þriggja vídda ÖSE og svæðisbundinna málefna. Hvað hið síðarnefnda varðaði ræddi ráðherrann um mikilvægi nýrrar stjórnarskrár fyrir sameinaða Moldóvu.
    Næst á dagskrá voru pallborðsumræður með þátttöku embættismanna ÖSE. Fyrstur tók til máls Jan Kubis, framkvæmdastjóri ÖSE, og sagði hann þingmönnum frá þeim endurbótum sem gerðar hefðu verið á framkvæmdastjórn ÖSE í höfuðstöðvunum í Vínarborg og í vettvangsskrifstofum stofnunarinnar. Sagði hann að þessar endurbætur væru afleiðing nokkurrar gagnrýni sem stofnunin varð fyrir á árinu 1999 og vonaðist hann til að úrbæturnar kæmu til móts við þær raddir. Sagði hann að mikil áhersla hefði verið lögð á úrbætur í fjármálastjórn samtakanna og tók undir að þeirra hefði verið þörf. Þá vék hann að málefnastarfi ÖSE og þá sérstaklega lögreglusamvinnu og öðru því sem fallið gæti undir hina alþjóðlegu baráttu gegn skipulegri hryðjuverkastarfsemi. Hvatti hann þingmenn aðildarríkja ÖSE til að styðja þá baráttu heils hugar og leggja framkvæmdarvaldinu lið. Þá tók Rolf Ekeus, forstöðumaður stofnunar ÖSE sem fylgist með réttindum minnihlutahópa (HCNM), til máls og sagði fundarmönnum frá störfum stofnunarinnar og því umboði sem hann og stofnunin störfuðu eftir. Megináherslan væri lögð á hættuástandsstjórnun, þ.e. að leitast við að koma í veg fyrir að félagsleg spenna milli þjóðernis- eða trúarhópa ylli átökum. Reynt væri að finna leiðir til að samþætta minnihlutahópa við ríkjandi hópa og standa þannig vörð um fjölmenningarsamfélag. Þær leiðir sem væru nýttar væru tungumálakennsla, almenn menntun og þátttaka í stjórnmálum. Í því tilliti ræddi Ekeus um ágætt samstarf milli sinnar stofnunar og sérlegs fulltrúa ÖSE um frelsi fjölmiðla um þróun ályktana og tillagna til úrbóta fyrir minnihlutahópa. Sagði hann að Evrópuríkjum bæri að gæta sérstaklega að því að tryggja réttindi minnihlutahópa nú þegar stækkun ESB væri fram undan. Því næst tók Christian Strohal, yfirmaður Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE (ODIHR), til máls og sagði í ræðu sinni að einstök samkeppnishæfni ÖSE við aðrar stofnanir fælist í því að ÖSE tækist á við öryggismál í heild sinni. Sagði hann að ÖSE og aðildarríkjum stofnunarinnar bæri að gæta að því að leggja áfram sömu áherslu á mannréttindamál – eða hina mannlegu vídd eins og sá málaflokkur nefnist í skipulagi ÖSE – enda þótt ný viðfangsefni knýi dyra og áréttaði að hin „mannlega vídd“ væri grunnur að öllu öðru starfi ÖSE. Þá vék Strohal að verkefnum þeim sem ODIHR hefði beitt sér fyrir að undanförnu, þ.m.t. kosningaeftirliti víðs vegar um álfuna. Sagði hann að mansal væri að verða æ alvarlegra vandamál og fagnaði sérstaklega áhuga þingsins á þeim málaflokki. Freimut Duve, sérlegur fulltrúi ÖSE um frelsi fjölmiðla, sem hætti störfum skömmu eftir Rotterdam-fundinn eftir sex ára setu í embættinu, sagði í ávarpi sínu að á þeim tíma sem liðinn væri hefði hann séð afar neikvæða þróun hvað fjölmiðlafrelsi í álfunni varðar. Tiltók hann sérstaklega eftirmál hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin í september 2001 og sagði að í fjölmörgum ríkjum hefðu þeir hroðalegu atburðir verið nýttir sem skálkaskjól til að vega að frelsi fjölmiðla til að halda uppi gagnrýni á stjórnvöld. Taldi hann að þessi þróun og þá sérstaklega frumkvæði Bandaríkjastjórnar í að vega að almennum lýðréttindum gæfi hættulegt fordæmi til framtíðar. Fyrirliggjandi verkefni skrifstofu hins sérlega fulltrúa ÖSE um frelsi fjölmiðla væru því næg og úrlausnir brýnar á næstu missirum og árum. Loks tók til máls Marcin Swiecicki, framkvæmdastjóri stofnunar ÖSE sem fer með efnahags- og umhverfismál. Sagði hann að umfangsmestu verkefnin sem fram undan væru hjá sinni stofnun væri stækkun ESB og efnahagssvæðis sambandsins. Í máli hans kom fram að ÖSE fylgdist gaumgæfilega með framvindu mála í aðildarumsóknarríkjunum tíu og ræddi hann enn fremur um áhrif evrusvæðisins á þau ríki Austur-Evrópu og Mið-Asíu sem stæðu utan ESB. Þá vék hann að bágum efnahag ríkja í Kákasus og Mið-Asíu og hve mikil hætta væri á að þau yrðu gróðrarstía fyrir hvers kyns skipulega glæpastarfsemi á borð við mansal, vopnasmygl og eiturlyfjasmygl. Að lokum ræddi hann um umhverfisvár í Evrópu og sagði að stofnun sín beindi aðallega sjónum sínum að ástandi mála í Mið-Asíu og á Balkanskaga og leitaðist við að greina svæðisbundnar hættur sem krefðust úrbóta þegar í stað.
    Á fundi 1. nefndar (nefndar um stjórnmál og öryggismál) var tekin fyrir skýrsla kanadíska þingmannsins Cliffords Lincolns og beindust umræður einkum að því hvert mikilvægi ÖSE yrði í náinni framtíð á sama tíma og stækkun ESB og NATO stæði yfir. Í framsögu sinni sagði Lincoln að staða ÖSE væri enn afar sterk og þá sérstaklega í ljósi mikillar viðveru og sýnileika stofnunarinnar í nýfrjálsum aðildarríkjum hennar í Mið-Asíu. Hins vegar væri ljóst að lífvænleiki stofnunarinnar fælist í fjárhagslegum stuðningi og taldi að stefna ráðherraráðsins um að halda fjárhagsáætlunum næstu ára stöðugum væri e.t.v. uppskrift að því að áhrif ÖSE færu þverrandi – sérstaklega hvað vettvangsskrifstofur ÖSE varðar. Miklar umræður voru um ályktunardrögin og voru þau að lokum samþykkt einróma. Nokkrar viðbótarályktanir voru lagðar fyrir 1. nefnd og voru þær teknar til almennrar meðferðar. Ákveðið var á fundinum að afgreiðslu viðbótarályktunar um frið í Miðausturlöndum, sem tekin hafði verið á ársfundinum í Berlín en frestað um óákveðinn tíma, yrði enn frestað til ársfundarins 2004 í Edinborg. Þá tók nefndin fyrir viðbótarályktun um ástand mála í Hvíta- Rússlandi, sem hvít-rússneska sendinefndin hafði reynt að fá út af dagskrá á stjórnarnefndarfundinum sem fyrr greindi. Nokkrar umræður urðu um ályktunina þar sem því var fagnað að stjórnvöld í Minsk hefðu leyft skrifstofu ÖSE að starfa í landinu. Þá voru hvít-rússnesk stjórnvöld enn fremur fram hvött til þess í ályktuninni að gera umfangsmiklar úrbætur á kosningalöggjöf landsins og jafnframt var meðferð stjórnvalda á frjálsum fjölmiðlum harðlega gagnrýnd. Þá var og samþykkt viðbótarályktun um friðargæsluverkefni en þar kom fram að ÖSE bæri að styrkja getu sína til að sinna borgaralegri friðargæslu. Í lok fundarins var efnt til kosninga í embætti nefndarinnar. Kosningarnar fóru þannig að sænski þingmaðurinn Göran Lennmarker var kjörinn formaður, Grikkinn Panyiotis Kammenos varaformaður og kanadíski þingmaðurinn Clifford Lincoln endurkjörinn skýrsluhöfundur.
    Í 2. nefnd (nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál) var tekin fyrir skýrsla rússneska þingmannsins Leoníds Ivantsjenkós um efnahagsleg áhrif hins stækkaða evrusvæðis fyrir ÖSE-svæðið. Í skýrslunni og framsögu Ivantsjenkós kom fram að gríðarlega mikill efnahagslegur árangur hefði náðst í aðdraganda stækkunar ESB. Varaði hann þó við því að hversu mikill sem árangurinn á evrusvæðinu kynni að verða þá mætti stækkunin ekki verða til þess að grafa undan efnahagslegum hagsmunum þeirra ríkja sem standa munu utan ESB til lengri eða skemmri tíma. Sagði skýrsluhöfundur að forðast ætti í lengstu lög að reisa nýja múra innan álfunnar sem sköpuðu aukinn vanda fyrir hinar nýfrjálsu þjóðir í austri. Sagði Ivantsjenkó enn fremur að mikilvægt væri að aðildarríki ÖSE gættu að því að missa ekki sýnina á efnahagsleg og umhverfisleg vandamál sem ríktu á ÖSE-svæðinu þrátt fyrir að hin pólitíska áhersla hefði óhjákvæmilega færst til þeirra mála er lytu að baráttunni gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Í umræðum um ályktun nefndarinnar kom almennt fram sú skoðun að tengja bæri efnahagslega þróun ÖSE-svæðisins við öryggi og stöðugleika þess. Stjórnarnefndin beindi alls þremur viðbótarályktunartillögum til 2. nefndar. Sú fyrsta var ályktun um baráttu gegn mansali og barnaþrælkun sem borin var upp af Bandaríkjamanninum Cristopher Smith. Þá var lögð fyrir nefndina ályktun bandaríska þingmannsins Benjamins Cardins um Miðjarðarhafsvíddina og að lokum ályktun Ítalans Marcellos Pacinis um hlutverk ÖSE í stækkaðri Evrópu. Allar ályktanirnar voru sendar áfram til meðferðar þingfundar. Í lok fundarins var kosið í trúnaðarstörf nefndarinnar og var Bandaríkjamaðurinn Benjamin Cardin kjörinn formaður, þýski þingmaðurinn Monika Griefahn varaformaður og Rússinn Leoníd Ivantsjenkó endurkjörinn skýrsluhöfundur.
    Í 3. nefnd (nefnd um lýðræði, mannréttindi og mannúðarmál) var tekin fyrir skýrsla hollenska þingmannsins Nebahat Albayrak auk þess sem efnt var til umræðna um fjórar viðbótarályktunartillögur sem stjórnarnefndin hafði beint til nefndarinnar. Í framsögu sinni sagði Albayrak fyrirséð að stækkun Atlantshafsbandalagsins og ESB mundi hafa í för með sér styrkara réttarríki meðal þeirra ríkja sem vænta aðildar. Sagði hún að stækkunarferlin hefðu þau áhrif að mikilvægi starfs ÖSE á vettvangi ykist til muna. Taldi hún að af þeim fjölmörgu verkefnum sem ÖSE starfaði að væru tvö öðrum brýnni, vernd minnihlutahópa annars vegar og mansal hins vegar. Hvað þetta varðaði taldi hún afar mikilvægt að Vestur-Evrópuríki beindu sjónum sínum að því sem gerðist í eigin ranni. Miklar umræður urðu um þau brýnu mál sem ályktunin fjallaði um. Í henni var m.a. kveðið á um að ÖSE setti á fót embætti sérlegs fulltrúa sem hefði með mansalsmál að gera. Þá var einnig kveðið á um útvíkkun starfs fulltrúa ÖSE í málefnum minnihlutahópa með það fyrir augum að hann gæti beitt sér fyrir aukinni vernd minnihlutahópa í eldri lýðræðisríkjum. Ályktunin var samþykkt og henni beint til þingfundar. Viðbótarályktunartillögurnar fjórar fjölluðu um baráttuna gegn gyðingahatri, ástand mála í Moldóvu, Alþjóðastríðsglæpadómstólinn og stríðsfanga Bandaríkjastjórnar sem haldið er í Guantanamó-herstöðinni. Hlutu þær allar afgreiðslu nefndarinnar. Í lok fundar var kosið í trúnaðarembætti nefndarinnar. Rússneski þingmaðurinn Elena Mizulina var endurkjörinn í embætti formanns og kanadíski þingmaðurinn Svend Robinson í embætti varaformanns. Þá var Nabahat Albayrak endurkjörinn sem skýrsluhöfundur.
    Efnt var til þingfundar miðvikudaginn 9. júlí. Meðal dagskrárliða var skýrsla gjaldkera
þingsins, kanadíska þingmannsins Jerry Grafstein, og skýrsla framkvæmdastjóra ÖSE-þingsins, Spencer Oliver. Þá var efnt til almennra umræðna um skýrslur og ályktunardrög málefnanefndanna. Í umræðum kom fram að ÖSE væri einstök stofnun með einstaka eiginleika. Þá var bent á mikilvægi ÖSE-þingsins því að þar sætu fulltrúar þriggja heimsálfa sem ættu hagsmuna að gæta í friðsamlegri og stöðugri Evrópu. Væri ÖSE-þingið því í kjörstöðu til að ræða þau mál sem helst brynnu á íbúum ÖSE-svæðisins og ríkja þar í kring. Þá beindust umræður nokkuð að starfsemi og skipulagi ÖSE og umbótum þeim sem framkvæmdastjórinn hefði beitt sér fyrir. Nokkrir bentu á nauðsyn þess að ÖSE einbeitti sér í auknum mæli að málefnum sem sneru að ÖSE-svæðinu í heild sinni, þ.e. vandamálum líkt og mansali, í stað ofuráherslunnar á starfsemi ÖSE innan nýfrjálsra ríkja. Þá voru ályktanir málefnanefnda og viðbótarályktanir samþykktar. Ályktanirnar voru steyptar í skjal sem nefnist Rotterdam-yfirlýsing ÖSE-þingsins. Þá hlýddu þingmenn á ávörp Bruce Georges, forseta ÖSE-þingsins, Inge Lönning, forseta Norðurlandaráðs, og Geertje Lycklama a Nijeholt, formanns hollensku sendinefndarinnar. Í lok fundarins var kjörið í trúnaðarembætti þingsins. Bruce George var endurkjörinn forseti. Í kosningum til embætta varaforseta voru sex í kjöri. Þeir sem flest atkvæði hlutu voru Georgíuþingmaðurinn Nino Bujanadze, tyrkneski þingmaðurinn Nevzat Yaltcintas og sænski þingmaðurinn Tone Tingsgård. Voru þau öll kjörin til þriggja ára. Þá var ítalski þingmaðurinn Giovanni Kessler kjörinn í embætti varaforseta til eins árs. Þá var Jerry Grafstein endurkjörinn til tveggja ára í embætti gjaldkera.
    Auk funda í málefnanefndum og þingfundar var efnt til sérlegra funda til hliðar við þinghaldið. Fundur var haldinn um málefni Miðjarðarhafsins auk þess sem sérnefnd ÖSE- þingsins um gagnsæi og góð vinnubrögð og nefnd um málefni Abkasíu héldu fund. Þá var efnt til málþings um ástand mála í Moldóvu og Hvíta-Rússlandi. Að venju var efnt til sérlegs kvennafundar ÖSE-þingsins í boði hollensku sendinefndarinnar. Þess má geta að íslenska sendinefndin var hin eina á ÖSE-þinginu í Rotterdam sem var eingöngu skipuð konum.

c.    Aukastjórnarnefndarfundur.
    Stjórnarnefnd ÖSE-þingsins kom saman til fundar í Rómaborg 10. október í tengslum við ráðstefnu um málefni Miðjarðarhafsins og ráðstefnu um trúfrelsi sem haldnar voru á vegum ítalska þingsins dagana 9. og 11. október. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Pétur H. Blöndal formaður, auk Andra Lútherssonar ritara. Meginefni fundarins var samskipti ÖSE- þingsins við Miðjarðarhafsríkin en mikill áhugi hefur verið á því að efla þau tengsl, ekki síst í ljósi hinnar alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkum. Þá var enn fremur á fundinum rætt um stöðu trúfrelsis á ÖSE-svæðinu og meinta aðför að tjáningarfrelsinu í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin árið 2001. Stjórnarnefndarfundurinn tengdist því beint ráðstefnum þeim sem ÖSE-þingið og ítalska þingið stóðu að þar sem fjallað var á gagngeran hátt um stöðu Miðjarðarhafsríkjanna og Miðausturlanda og hlutverk Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í eflingu samskipta við þau ríki sem á svæðinu eru, einkanlega samskipti þjóðþinga í milli.
    Fundirnir hófust fimmtudaginn 9. október með málstofu um löggjöf í trúmálum og trúfrelsi. Fundinn ávörpuðu þeir Pier Ferdinando Casini, forseti neðri deildar ítalska þingsins, sem ræddi um trúfrelsi og umburðarlyndi í trúmálum einkum út frá sjónarhóli Evrópusambandsins og stjórnarskrárdrögum þess sem höfðu verið mikið í umræðunni, Bruce George, forseti ÖSE-þingsins, sem lagði áherslu á að það væru ekki trúarbrögðin sem kyntu undir ofbeldisverkum heldur tilteknir einstaklingar sem það gerðu, og Marcello Pacini, sem ræddi opinskátt um vandann við trú og trúarofstæki og hve mikil ógn við friðinn trú geti orðið, sérstaklega ef tekið væri mið af stöðu mála í Miðausturlöndum og á Balkanskaga. Því næst tóku framsögumenn til máls en þeir voru Adbelfattah Amor, sérlegur fulltrúi mannréttindastofnunar SÞ í trúfrelsismálum, og Silvio Ferrari, prófessor í trúarbragðafræði við háskólann í Mílanó. Ræddu þeir um löggjöf í trúmálum og nauðsynleg skilyrði fyrir raunverulegu trúfrelsi ríkti. Síðari hluta fimmtudagsins 9. október var efnt til málþings um trúarlegt umburðarlyndi í vestrænum samfélögum. Framsögumenn voru þær Catherine Cookson, prófessor í trúarbragðafræðum við háskólann í Virginíu í Bandaríkjunum, og Brigitte Basdevant- Gaudamet, sérfræðingur í kirkju- og trúmálum við Sorbonne-háskóla. Almennar umræður að loknu áhugaverðu framlagi framsögumannanna beindust mestmegnis að þeim þjóðernis- og trúarbragðaátökum sem standa yfir eða hafa staðið í Evrópu eða við útmörk álfunnar. Nokkur spenna virtist ríkja í samskiptum Tyrkja og Grikkja vegna málefna Kýpur sem klædd voru í trúarlegan búning í málflutningi nokkurra þingmanna.
    Fundahöld föstudaginn 10. október hófust á pallborðsumræðum þingmanna um trúmál með þátttöku þriggja gesta. Þeir voru Ba Babacar, áheyrnarfulltrúi samtaka íslamskra ríkja hjá SÞ í Genf, Amnon Rubinstein, prófessor við Radziner-háskólann í Ísrael, og Tad Stadnke, sem starfar hjá „US Commission on International Religious Freedom“. Á fundinum varð framhald á orðasennu Tyrkja og Kýpur-Grikkja frá því deginum áður. Nokkuð var rætt um hlutverk ÖSE í hinni óleystu Kýpur-deilu. Að fundi loknum hlutu þátttakendur á ráðstefnunni áheyrn hjá Jóhannesi Páli páfa í Vatíkaninu.
    Síðdegis föstudaginn 10. október fór hinn eiginlegi stjórnarnefndarfundur fram. Í inngangsávarpi sínu fór Bruce George, forseti ÖSE-þingsins, yfir það helsta sem borið hefði við í störfum ÖSE-þingsins frá ársfundinum í Rotterdam í júlí. Nefndi hann árangur ráðherrafundarins í Lissabon og skýrði frá þátttöku sinni í ráðherraráðsfundinum í Vínarborg í september þar sem hann innti eftir því hvernig fylgt hefði verið eftir ályktunum ÖSE-þingsins í Rotterdam-yfirlýsingunni. Þá greindi George frá opinberum heimsóknum sínum í krafti embættis síns. Ræddi forsetinn einnig um mikilvægi þess að meðhöndla þau samstarfsríki ÖSE sem standa utan stofnunarinnar sem jafningja í öllu tilliti og forðast að setja þau út í horn í tilteknum málum sem upp kunna að koma í alþjóðasamskiptum. Þá vék George einnig að kosningaeftirlitshlutverki ÖSE-þingsins og sagði að óæskilegt væri að aðrar stofnanir en ÖSE, þ.e. Evrópuráðið og Evrópusambandið, tækju yfir skyldur og skuldbindingar ÖSE á sviði kosningaeftirlits í ljósi þess að þær sendi meiri mannskap til eftirlitsstarfa. Lagði forsetinn hart að þingmönnum að bera þann boðskap heim til þjóðþinganna sem yrðu að veita meiri fjármuni til kosningaeftirlitsstarfa á vegum ÖSE-þingsins en hingað til hefði verið raunin. Þá ræddi Marcello Pacini, formaður ítölsku landsdeildarinnar, um árangurinn af ráðstefnunni um trúfrelsi og þau málefni sem væru efst á baugi í Miðjarðarhafssamstarfinu. Sagðist hann hafa orðið fyrir vonbrigðum með að fulltrúar Ísraels og Palestínu, sem boðið var til fundarins, skyldu ekki hafa þegið boðið. Í kjölfar þessa upphófust nokkrar umræður um þetta mál þar sem Ísraelsmenn voru sakaðir um að hafa lagt stein í götu fulltrúa palestínsku heimastjórnarinnar sem hafi ætlað að sækja fundinn í Rómaborg. Þá tók kanadíski þingmaðurinn Jerry Grafstein, gjaldkeri þingsins, til máls og fór yfir fjármál þingsins. Sagði hann að 30.000 evra afgangur yrði á árinu og að hann yrði settur í sérstakan sjóð sem nota ætti til að bera kostnað af óvæntum útgjaldaliðum. Því næst tók framkvæmdastjórinn Spencer Oliver til máls og sagði frá starfi skrifstofunnar. Hvatti hann þær landsdeildir sem leið ættu um Kaupmannahöfn að sækja skrifstofuna heim. Ræddi hann einnig um fyrirhugaða vefsíðu ÖSE-þingsins sem yrði með öllu óháð vefsíðu ÖSE og skýrði þingmönnum frá því að sú leið hefði verið valin til að koma í veg fyrir þær tilhneigingar ÖSE í Vínarborg að ritstýra vef þingsins.
    Þá tók Jan Kubis, framkvæmdastjóri ÖSE, til máls og sagði að koma sín til Rómaborgar væri til marks um þau góðu samskipti sem ríktu milli þingmannasamkundunnar og stofnunarinnar. Þátttaka Bruce Georges í fundum ráðherraráðsins væri og til marks um þetta auk mikilvægrar starfsemi tengslaskrifstofu ÖSE-þingsins í Vínarborg. Þá vék Kubis að málefnum fjárlaga ÖSE en þau voru meginástæða þess að framkvæmdastjóranum var boðið til fundarins. Landsdeildum ÖSE-þingsins höfðu verið send drög að fjárhagsáætlun stofnunarinnar fyrir árið 2004 til kynningar stuttu fyrir fundinn, á sama tíma og fastanefndir aðildarríkjanna fengu þau í hendur. Hins vegar var tíminn ansi stuttur til að kynna sér öll efnisatriði fjárlaganna og því þótti ráðlegt að framkvæmdastjórinn kynnti helstu breytingar fyrir þingmönnum. Var þetta í annað sinn sem framkvæmdastjóranum var boðið til aukastjórnarnefndarfundar ÖSE-þingsins að hausti. Í framsögu sinni sagði Kubis að drögin sem send hefðu verið út endurspegluðu pólitískar áherslur framkvæmdastjórnarinnar og væru því alls ekki yfir gagnrýni hafin. Sagði hann jafnframt að allur samanburður við fyrri fjárhagsáætlanir væri torveldur þar sem skipulag áætlunarinnar nú væri með öðrum hætti. Fjárlögin væru þannig úr garði gerð að áhersla væri lögð á verkefni stofnunarinnar í stað skrifstofanna eins og áður var. Með þessu væri ráðherraráðið að samþykkja framkvæmd tiltekinna verkefna þegar aðildarríkin samþykktu fjárlögin í heild sinni og hugsanlega kæmi þetta verklag í veg fyrir ágreining síðar. Hins vegar kallaði þetta á mikinn erindrekstur, samhæfingar- og samningavinnu á fyrstu stigum ferlisins. Sagði hann einnig að gerð áætlunarinnar hefði verið mun minna miðstýrt en áður, þ.e. að vettvangsskrifstofur ÖSE hefðu haft mun meira um áætlunina að segja en áður tíðkaðist. Alls hljóða fjárlög stofnunarinnar upp á 185 milljónir evra og þar af renna 78% fjármagnsins til vettvangsskrifstofa og tiltekinna verkefna stofnunarinnar á ÖSE-svæðinu. Afgangurinn rynni til aðalskrifstofunnar og hliðarstofnana og er þar um nokkra hækkun að ræða. Var þetta nokkuð gagnrýnt af þingmönnum sem flestir töldu að fénu væri betur varið úti á vettvangi. Þá ræddi framkvæmdastjórinn nokkuð um vanda sem skapast við ráðningu innlends starfsfólks og svaraði spurningum þingmanna um hugsanlegt aukið hlutverk ÖSE-þingsins í fjárlagaferlinu, hvort ekki bæri að gera kynjajafnréttisverkefnum ÖSE hærra undir höfði, hvort rétt væri að baráttunni gegn skipulegri hryðjuverkastarfsemi hefði verið gert of hátt undir höfði á kostnað verkefna til að stemma stigu við mansali, auk annarra spurninga. Almennt kom fram mikil ánægja með það að framkvæmdastjórinn kæmi og upplýsti þingið um helstu stefnumál ÖSE eins og þau birtust í fjárlögunum en margir kvörtuðu þó undan því að lítill tími gæfist til yfirlegu svo stórs plaggs og einnig þótti mörgum sem tími væri til kominn að ÖSE-þingið fengi stærra og veigameira hlutverk við gerð fjárlaganna. Kom þar fram hugmynd um að ÖSE-þingið tæki að sér að bera saman fjárlögin við yfirlýsingar ársfundarins hverju sinni og kostnaðargreina og meta hvort þar sé tilhlýðileg samsvörun eða ekki.
    Eftir framsögu Kubis fluttu formenn sérnefnda ÖSE-þingsins skýrslur um störf nefndanna. Auk þess voru almennar umræður.
    Laugardaginn 11. október var efnt til málstofu um málefni Miðjarðarhafsins með þátttöku sérlegra gesta. Málþingið var afar áhugavert enda höfðu málefni svæðisins, og þá einkanlega vandinn fyrir botni Miðjarðarhafs, verið mikið í deiglunni undangengna mánuði og missiri. Almennt ræddu framsögumenn og þingmenn um vonbrigðin með þróun mála í Miðausturlöndum og eftirköst Íraksstríðsins. Af helstu framsögumönnum má nefna sérlega áhugavert erindi Marc Otte, sérlegs erindreka Evrópusambandsins í Miðausturlöndum, sem dró upp afar dökka og raunsæja mynd af ástandinu, einkum þegar kom að leiðtogavanda Palestínumanna. Þá ávarpaði Franco Frattini, utanríkisráðherra Ítalíu, málþingið og sagði frá áhersluatriðum Ítala í formennskutíð sinni hjá ESB.

Alþingi, 11. febr. 2004.



Pétur H. Blöndal,


form.


Dagný Jónsdóttir,


varaform.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Fylgiskjal I.


Markmið og skipulag ÖSE-þingsins.


    Samkvæmt starfsreglum ÖSE-þingsins er því ætlað að:
     1.      meta árangurinn af ÖSE-samstarfinu,
     2.      ræða mál sem eru á dagskrá funda leiðtoga og utanríkisráðherra ÖSE-ríkjanna,
     3.      þróa leiðir til að koma í veg fyrir og leysa úr ágreiningi,
     4.      stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana í ÖSE-ríkjunum,
     5.      leggja sitt af mörkum til þróunar, samskipta og samstarfs stofnana ÖSE.
    Samkvæmt starfsreglum ÖSE-þingsins er miðað við að þau ríki sem undirritað hafa Helsinki-sáttmálann frá 1975 og Parísaryfirlýsinguna frá 1990 eigi aðild að þinginu og að þau taki þátt í ÖSE-samstarfinu. Nú eiga 55 þing ÖSE-ríkjanna aðild að ÖSE-þinginu. Gert er ráð fyrir 317 fulltrúum á þinginu og þar af á Alþingi þrjá.
    Starfsreglur ÖSE-þingsins gera ráð fyrir að þingið komi saman í júlí ár hvert og standi fundur þess eigi lengur en fimm daga. Þá er gert ráð fyrir að málefnanefndir komi saman í Vínarborg ár hvert og hlýði þar á framlag embættismanna ÖSE. Auk þingfundar er miðað við að innan þingsins starfi þrjár fastanefndir sem fjalli um mál á afmörkuðu sviði. Formaður, varaformaður og framsögumaður hverrar nefndar eru kjörnir af nefndunum í lok þingfundar ár hvert. Framsögumaður nefndar velur umræðuefnið sem tekið er fyrir í nefndinni það ár í samráði við formann og varaformann. Hann undirbýr skýrslu sem lögð er fyrir nefndina ásamt drögum að ályktun. Fastanefndirnar eru nefnd um stjórnmál og öryggismál (1. nefnd), nefnd um efnahagsmál, vísindamál, tæknimál og umhverfismál (2. nefnd) og nefnd um lýðræði og mannréttindamál (3. nefnd). Heimilt er forseta þingsins að boða til aukaþings ef stjórnarnefnd þingsins ákveður svo.
    Stjórnarnefnd þingsins (Standing Committee) er ætlað að undirbúa störf þingsins. Hún er skipuð forseta ÖSE-þingsins, varaforsetunum níu, gjaldkera, formönnum málefnanefndanna þriggja og formönnum sendinefnda einstakra þjóðþinga, alls 69 fulltrúum. Framkvæmdastjórn þingsins (Bureau) er skipuð forseta þess, varaforsetum og gjaldkera. Henni er ætlað að fylgjast með að ákvörðunum þingsins sé framfylgt og ákvarða um málefni sem upp kunna að koma á milli funda stjórnarnefndar.
    Samkvæmt þingsköpum ÖSE-þingsins skal þingið og framkvæmdastjórnin taka ákvarðanir með meiri hluta atkvæða en ákvarðanir stjórnarnefndarinnar skulu teknar samkvæmt afbrigði af svokallaðri samstöðureglu (consensus rule) sem gildir á fundum fulltrúa ríkisstjórna ÖSE-ríkjanna. Stjórnarnefnd þingsins lýtur svokallaðri consensus minus two reglu sem felur í sér að þrjú eða fleiri ríki geta fellt einstök mál í nefndinni.
    Fulltrúi ráðherraráðs ÖSE ávarpar þingið á ársfundi þess og gefur skýrslu um málefni ÖSE og verkefni sem unnið er að hjá stofnuninni. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til ráðherrans sem mætir sem fulltrúi ráðherraráðsins. Opinber tungumál þingsins eru sex, enska, franska, þýska, ítalska, rússneska og spænska, og er túlkað jafnharðan. Fylgiskjal II.


Skipan ÖSE-þingsins.


Fjöldi þingsæta hvers aðildarríkis Fjöldi þingsæta alls
A. Bandaríkin 17 17
B. Rússland 15 15
C. Þýskaland, Frakkland, Ítalía og Bretland 13 52
D. Kanada og Spánn 10 20
E. Úkraína, Belgía, Holland, Pólland, Svíþjóð og Tyrkland 8 48
F. Rúmenía 7 7
G. Austurríki, Danmörk, Finnland, Grikkland, Ungverjaland, Írland, Noregur, Portúgal, Tékkland, Sviss, Hvíta-Rússland, Úsbekistan og Kasakstan 6 78
H. Búlgaría og Lúxemborg 5 10
I. Júgóslavía og Slóvakía 4 8
J. Kýpur, Ísland, Malta, Eistland, Lettland, Litháen, Albanía, Slóvenía, Króatía, Moldóva, Tadsjikistan, Túrkmenistan, Georgía, Kirgistan, Armenía, Aserbaídsjan, Bosnía og Hersegóvína og fyrrverandi Júgóslavíulýðveldið Makedónía 3 54
K. Andorra, Liechtenstein, Mónakó og San Marínó 2 8
Samtals 317
Vatíkanið getur sent allt að tveimur áheyrnarfulltrúum á fundi ÖSE-þingsins.