Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 637. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 951  —  637. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2003.

1.     Inngangur.
    Verulega reyndi á þanþol farsæls og stöðugs samstarfs Evró-Atlantshafsríkja á árinu 2003. Framan af ári settu opinskáar og háværar deilur um aðdraganda stríðsins í Írak, lögmæti aðgerða og stríðsreksturinn sjálfan umtalsvert mark á Atlantshafsbandalagið og verður ársins eflaust minnst sem eins hins erfiðasta í sögu þess. Örðugt og tímafrekt reyndist að brúa þá gjá sem myndaðist milli Bandaríkjanna og nokkurra Evrópuríkja í aðdraganda stríðsins og sá djúpstæði ágreiningur sem uppi var meðal aðildarríkja öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna vegna málefna Íraks endurspeglaðist í samskiptum NATO-ríkjanna. Á vettvangi Atlantshafsbandalagsins kom þessi ágreiningur t.a.m. glögglega fram í kjölfar bónar Tyrklandsstjórnar um að NATO efldi hernaðarlegan viðbúnað í landinu vegna hugsanlegra átaka í Írak. Eftir því sem á árið leið dró úr ágreiningi og sýnir þróun síðustu mánaða að Atlantshafsbandalaginu hafi verið forðað frá miklum skaða vegna hræringa á alþjóðavettvangi. Ljóst þykir að NATO-ríkin hafi komist yfir einn erfiðasta hjallann á vegferð Atlantshafsbandalagsins. En á sama tíma og Atlantshafsstrengurinn virtist hafa veikst að mun stóð Atlantshafsbandalagið að einhverjum mestu umbreytingum á starfi sínu frá upphafi. Veigamiklum ákvörðunum leiðtogafundarins í Prag haustið 2002 hefur þegar verið hrint að fullu eða að hluta í framkvæmd og þar með hefur mikið umbreytingaskeið hafist í samstarfi Evró-Atlantshafsríkja gegn nýjum ógnum á nýrri öld. Draga má árangur og þróun undangenginna mánaða saman í sjö þætti. Í fyrsta lagi munu sjö ný aðildarríki gerast formlegir aðilar að NATO á vormánuðum 2004. Ríkin hafa verið afar virkir þátttakendur í NATO-samstarfi undanfarin ár og lagt ríkulega af mörkum til viðhalds friðar og stöðugleika. Með stækkuninni í austurátt verður stuðlað að enn frekari styrk bandalagsins og auknum sveigjanleika. Í öðru lagi hefur átt sér stað endurskilgreining á athafnasvæði NATO. Ógnir þær sem steðja nú að ríkjum Atlantshafsbandalagsins eru sprottnar utan Evrópu og Norður-Ameríku. NATO hefur beint sjónum sínum í austurátt – út fyrir hið hefðbundna athafnasvæði sitt – og fela nýlegar ákvarðanir bandalagsins um hlutverk þess í Afganistan og Írak í sér viðurkenningu á þessari breytingu. NATO tók formlega við stjórn alþjóðagæsluliðsins í Afganistan í ágúst og var það í fyrsta sinn sem það tók að sér verkefni utan Evró-Atlantshafssvæðisins. Þá hefur NATO stutt áætlanagerð pólskra hersveita sem sinna gæsluverkefnum í Írak. Í þriðja lagi er vísað til ákvörðunar varnarmálaráðherra NATO-ríkjanna nítján um breytingar á herstjórn bandalagsins sem hafa það að markmiði að auka sveigjanleika, skilvirkni og styrk. Með herstjórnarbreytingunum er bandalaginu veittur aukinn styrkur til að beita sér með skjótum hætti þar sem íhlutunar er þörf. Í fjórða lagi hefur orðið mikill og skjótur árangur af uppbyggingu hraðliðs Atlantshafsbandalagsins sem tekin var ákvörðun um að stofna á leiðtogafundinum í Prag. Þá var á fundinum ákveðið að skilgreina baráttuna gegn útbreiðslu gereyðingarvopna sem eitt helsta forgangsmál bandalagsins og í því samhengi hefur verið ákveðið að koma á fót sérstakri miðstöð gegn útbreiðslu slíkra vopna. Í sjötta lagi hafa aðildarríkin leitast við að uppfylla skuldbindingar sínar um aukið bolmagn herja NATO-ríkjanna með það að markmiði að innan fárra ára muni þau hafa bætt veigamikla hernaðarþætti líkt og loft- og sjóflutninga, eldsneytistöku í lofti og leysistýrð skotfæri. Í sjöunda lagi náðu Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið sjö liða samkomulagi sem kennt er við Berlín-plús og kveður á um að ESB er tryggður aðgangur að herbúnaði Atlantshafsbandalagsins í þeim tilfellum þegar ESB beitir friðargæslusveitum sínum en NATO ekki. Markmið samkomulagsins er að tryggja að full samvinna verði milli ESB og NATO og að stofnanirnar vegi hvora aðra upp í stað þess að til tvíverknaðar komi.
    Þessi árangur færir heim sanninn um að þrátt fyrir að djúpur ágreiningur kunni að verða meðal bandalagsríkja um tiltekin málefni þá stendur það ekki í vegi fyrir þróttmikilli starfsemi bandalagsins til að tryggja frið og stöðugleika og verjast nýjum ógnum.
    Starfsemi NATO-þingsins og umræður á þess vegum á árinu tóku mið af helstu málefnum sem komu til kasta bandalagsins á árinu. Málefni Íraks voru afar fyrirferðarmikil í störfum þingsins allt árið og mótuðust umræður mjög af þeim deilum sem uppi voru í alþjóðasamfélaginu um hernaðaraðgerðirnar í Írak og erindrekstur innan öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Umræður á helstu fundum þingmannasamkundunnar voru hins vegar mun hófstilltari en við hafði verið búist og þótt nokkur skoðanamunur hefði ríkt framan af ári þá vakti athygli hve mikill vilji virtist ríkja meðal fulltrúa NATO-þingsins til að brúa þann klofning í afstöðu bandalagsríkja. Voru menn almennt sammála um að koma yrði í veg fyrir að öfl beggja vegna Atlantsála gerðu sér mat úr þessum klofningi. Af öðrum málum sem rædd voru á NATO- þinginu á árinu voru baráttan gegn hryðjuverkastarfsemi, niðurstöður leiðtogafundarins í Prag og umbreytingarnar á herstjórn bandalagsins, samstarf NATO og ESB, aukið samstarf við Miðjarðarhafsríkin, og nánari samvinna við Rússland og Úkraínu. Segja má að atburðir á árinu hafi sýnt fram á mikilvægi framlags NATO-þingsins og þeirrar viðleitni þingmanna að beita áhrifum sínum til að treysta Atlantshafsstrenginn.
    Af störfum Íslandsdeildar má helst nefna boð hennar um að Alþingi verði gestgjafi ársfundar NATO-þingsins haustið 2007.

2.     Íslandsdeild NATO-þingsins.
    Fram að alþingiskosningum 10. maí voru aðalmenn Íslandsdeildarinnar Árni R. Árnason, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Jónína Bjartmarz, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Gunnar Birgisson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Magnús Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Ný Íslandsdeild var skipuð í upphafi 129. þings. Aðalmenn voru Árni R. Árnason, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Magnús Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Einar Oddur Kristjánsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Dagný Jónsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Ágúst Ólafur Ágústsson, þingflokki Samfylkingarinnar.
    Andri Lúthersson var ritari Íslandsdeildarinnar.
    Samkvæmt samþykktum þingsins geta fulltrúar aðildarríkja tekið þátt í öllum nefndum þess. Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir árið 2003 var þannig:
Stjórnarnefnd: Árni R. Árnason.
Til vara: Magnús Stefánsson.
Stjórnmálanefnd: Árni R. Árnason.
Til vara: Einar Oddur Kristjánsson.
Varnar- og öryggismálanefnd: Magnús Stefánsson.
Til vara: Dagný Jónsdóttir.
Félagsmálanefnd: Guðmundur Árni Stefánsson.
Til vara: Ágúst Ólafur Ágústsson.
Efnahagsnefnd: Magnús Stefánsson.
Til vara: Dagný Jónsdóttir.
Vísinda- og tækninefnd: Guðmundur Árni Stefánsson.
Til vara: Ágúst Ólafur Ágústsson.
Miðjarðarhafshópur: Árni R. Árnason og Guðmundur Árni Stefánsson.

3.     Fundir sem Íslandsdeildin sótti á árinu.
    NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, vorfund og svo ársfund að hausti. Auk þess kemur stjórnarnefnd saman sérstaklega ár hvert, ýmist í lok mars eða byrjun apríl. Á svokölluðum febrúarfundum heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður-Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Nefndir og undirnefndir þingsins halda reglulega námstefnur og fundi á milli þingfunda. Jafnframt stendur varnar- og öryggismálanefnd árlega fyrir kynnisferð til eins eða fleiri aðildarríkja bandalagsins til að skoða ýmis hernaðarmannvirki og búnað. Á árinu voru haldnar tvær Rose-Roth námstefnur (sjá fskj. II, b-lið).
    Árið 2003 tók Íslandsdeildin þátt í febrúarfundunum í Brussel og fundi stjórnarnefndar sem haldinn var í París, vor- og ársfundum þingsins í Prag og Orlandó, auk fjögurra nefndafunda utan þingfunda.

a.    Febrúarfundir.
    Dagana 17. –19. febrúar sl. var efnt til svonefndra febrúarfunda NATO-þingsins í Brussel. Fundirnir fóru fram sömu helgi og fastafulltrúar aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins leituðust við að leysa úr þeim ágreiningi sem upp hafði komið vegna bónar ríkisstjórnar Tyrklands, skv. IV. gr. Norður-Atlantshafssáttmálans, um að NATO efldi hernaðarlegan viðbúnað í landinu vegna hugsanlegra átaka Bandaríkjanna og Bretlands við Íraksher. Sem kunnugt er höfðu fulltrúar Þýskalands, Belgíu og Frakklands ákveðið að hafna bón Tyrkja tímabundið og olli sú ákvörðun miklum deilum innan Norður-Atlantshafsráðsins. Í framhaldi af óeiningu þeirri er skapaðist ákvað framkvæmdastjóri NATO, Robertson lávarður, að beina málinu til varnaráætlunarnefndar bandalagsins (Defence Planning Committee) þar sem öll aðildarríkin nema Frakkland eiga sæti. Niðurstaða fékkst í málinu seint á sunnudagskvöldinu 17. febrúar. Óhjákvæmilega báru fundir NATO-þingsins með embættismönnum bandalagsins merki þeirra deilna sem uppi voru innan NATO og öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem og orðræðunnar vegna hugsanlegra stríðsátaka.
    Febrúarfundina sótti af hálfu Íslandsdeildar Árni R. Árnason, formaður, auk Andra Lútherssonar ritara. Fyrirkomulag fundanna var með venjubundnum hætti, þ.e. að embættismenn Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins héldu erindi um afmörkuð málefni og gáfu svo þingmönnum færi á að beina til þeirra spurningum. Auk slíkra funda áttu fulltrúar stjórnarnefndarinnar og bandaríska og kanadíska sendinefndin formlegan fund með Norður-Atlantshafsráðinu, þ.e. fastafulltrúum aðildarríkja NATO og framkvæmdastjóra bandalagsins. Þá áttu fulltrúar NATO-þingsins fund með utanríkismálanefnd Evrópuþingsins.
    Fundirnir 17. febrúar hófust á erindi dr. Edgars Buckleys, formanns varnaráætlunarnefndar NATO og aðstoðarframkvæmdastjóra bandalagsins. Buckley ræddi samskipti NATO við ESB um þessar mundir og sagði frá horfum þess efnis að ESB tæki yfir friðargæsluverkefni NATO í Makedóníu á vordögum. Þá vék hann að niðurstöðum leiðtogafundar NATO í Prag og ræddi fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á herstjórn og höfuðstöðvum NATO sem tækju mið af aukinni skilvirkni við nýtt hættumat. Þá ræddi hann áætlanir um svokallað hraðlið NATO sem kynntar höfðu verið í Prag. Sagði hann að um þessar mundir væru menn að ræða tæknilega útfærslu á hernaðaráætlunum. Buckley vék að baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi og sagði að fyrir lægi að miklar breytingar hefðu orðið á vilja innan bandalagsins til þess að takast á við verkefni sem féllu utan hins hefðbundna athafnasvæðis þess. Ræddi Buckley enn fremur um stöðu mála í Írak og rakti það hvernig bandalagið hefði stutt Tyrki í gegnum tíðina. Sagði hann að öll aðildarríki bandalagsins væru sammála um að koma þyrfti Tyrkjum til aðstoðar og styrkja varnir þeirra gegn hugsanlegum ógnum frá Írak en að ágreiningurinn snerist um útfærsluatriði og tímasetningar. Nokkrar umræður urðu um framsögu Buckleys og aðspurður sagði hann að afar óheppilegt hefði verið að sá tæknilegi ágreiningur sem uppi væri meðal aðildarríkja bandalagsins hefði komist í hámæli. Nokkuð var rætt um hvort NATO hefði, í þróun mála undanfarin missiri, misst trúverðugleika sinn og að hlutverk bandalagsins til framtíðar væri nokkuð óráðið. Þá var það nokkuð gagnrýnt að svo virtist sem menn hefðu ekki verið tilbúnir með fastmótaðar áætlanir bandalagsins um stuðning við Tyrki vegna ógnana Íraka. Bandarísku fulltrúarnir á fundinum sögðust vera hissa á þeirri stöðu sem upp væri komin og vísuðu til þess að með framgöngu sinni hefðu Þjóðverjar, Frakkar og Belgar gengið í berhögg við fastmótaða hefð um samstöðu bandalagsþjóðanna. Sameinuðu þjóðirnar væru vettvangur pólitískra skoðanaskipta en ekki Atlantshafsbandalagið. Fulltrúar fyrrnefndu þjóðanna þriggja vísuðu þessu á bug og sögðu að afstaða þeirra tæki mið af eðlilegri varkárni – ekki væri um neina stefnubreytingu að ræða. Lokaorð þessarar umræðu átti Daninn Helge Adam Möller sem sagði að ef Danmörk væri í hættu þá hefðu bandamenn fylkst um að verja landið. Nú væri hins vegar komin upp sú staða að engu væri að treysta og að ríkin þrjú yrðu að stefna að því að sýna hollustu sína.
    Næstu framsögu flutti Günther Altenburg, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO og yfirmaður stjórnmáladeildar bandalagsins, og ræddi um hvernig brúa mætti þá gjá sem myndast hefði milli Evrópuríkja og Bandaríkjanna í aðdraganda Íraksstríðsins. Altenburg rakti söguna og nefndi að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem einingin innan NATO væri í uppnámi. Spurningin væri hins vegar sú hvort þessi deila væri alvarlegri en fyrri deilur. Sagði hann að þetta viðkvæma deilumál hefði orðið að nokkurs konar almannatengslamáli þjóða í milli og að það hefði tengst sameiginlegri stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum og öðrum óskyldum málum. Sagðist hann þó hafa fulla trú á að úr ágreiningnum yrði leyst og minnti menn á hve samstiga þjóðir voru í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin og nefndi hve efnislega rýr umræðan um bæði hryðjuverk og útbreiðslu gereyðingarvopna var fyrir þær árásir. Atburðirnir hefðu verið mikil og ógnvænleg áminning og eining þjóða því mikil. Sagði hann að sögulega séð mundi klofningurinn vegna Íraksmálsins vissulega vera nokkuð alvarlegur en þó kæmi hann ekki í veg fyrir þá eindrægni sem ríkti meðal Atlantshafsríkja. Þetta væru mikilvæg skilaboð sem þingmenn yrðu að halda að bandalagsþjóðunum og varaði við því að lokum að láta skoðanakannanir stýra jafnmikilvægum málaflokki og öryggismálum Vesturlanda. Í umræðum sem á eftir fylgdu ræddu menn nokkuð um „gömlu“ og „nýju“ Evrópu og höfðu margir á orði að ríkin sjö sem boðið var til aðildarviðræðna á leiðtogafundinum í Prag mundu fylkja sér um stefnu Bandaríkjanna og Bretlands.
    Næstur tók til máls Harald Kujat, formaður hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins, og ræddi um breytingar í herafla bandalagsins. Sagði hann að meðal aðildarríkjanna ríkti mikil eindrægni um að umbreyta bandalaginu og auka þar með herstyrk þess og samhæfni herjanna. Beinist starfið nú aðallega að fimm atriðum: að bæta aðflutningsgetu bandalagsherjanna, að gæta samhæfni herjanna, bæta úr upplýsingastjórnun herstjórnar bandalagsherjanna, að öll aðildarríkin auki framlög sín til varnarmála, og að fjárframlög til bandalagsins sjálfs verði aukin. Sagði Kujat jafnframt að með yfirstandandi breytingum á herstjórn bandalagsins yrði það mun skilvirkara en áður og réði m.a. yfir hernaðargetu sem beita mætti hvarvetna.
    Fundir NATO-þingsins mánudaginn 18. febrúar hófust á framsögu Graham Messervy- Whiting, majórs og næstráðanda hjá herstjórnarskrifstofu Evrópusambandsins. Hann sagði frá skipulagi herstjórnar ESB hjá ráðherraráði sambandsins og helstu markmiðum starfsins. Sagði hann frá því að enn sem komið væri væru engin ákvæði um sameiginlega varnarskyldu aðildarríkjanna, líkt og gilti í Norður-Atlantshafssáttmálanum. Þó væri Framtíðarráðstefna ESB, sem skila mundi tillögum sínum síðsumars 2003, að ræða hugsanlegar útfærslur á þvílíku ákvæði og hefði endurskoðaðan Brussel-samning Vestur-Evrópusambandsins til hliðsjónar í þeim efnum. Þá hefði ESB ekki yfir neinni samræmdri herstjórn að ráða og í því tilliti væru tveir kostir til athugunar. Annars vegar kæmi til greina að sinna herstjórninni í samstarfi við NATO (sem þýddi að ESB gæti nýtt hernaðargetu bandalagsins) og hins vegar að henni yrði sinnt í gegnum heri aðildarríkjanna (sem þýddi að engin tenging væri við hernaðargetu NATO). Að endingu vék Messervy-Whiting að árangri ESB við að uppfylla höfuðmarkmið sameiginlegrar öryggis- og varnarmálastefnu ESB, sem kennd eru við Helsinki. Messervy-Whiting var spurður um árangur ESB við að byggja upp hersveitir sínar og hvort áætlanir um 60.000 manna herlið í lok ársins muni standast. Svaraði majórinn því til að ESB væri þegar reiðubúið til aðgerða ef þess yrði þörf og nefndi það t.a.m. að ESB væri í þann veginn að taka við gæsluhlutverki NATO í Makedóníu. Sagði hann jafnframt að árið 2003 væri ekki eiginlegur tímafrestur þess að koma hinu 60.000 manna herliði á laggirnar. Nokkrar umræður urðu um það meðal þingmanna hvort NATO eða ESB væri fyrsti valkostur er hættuástand mundi skapast í eða við jaðra Evrópu. Majórinn svaraði því til að öll aðildarrumsóknarríkin ættu í nánu samstarfi við ESB á þessu sviði og jafnframt á sviði borgaralegrar friðargæslu og nefndi Ísland sem dæmi. Næstur tók til máls Robert Bell, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO og yfirmaður herstuðningssviðs bandalagsins, sem ræddi um stefnumörkun bandalagsins á leiðtogafundinum í Prag. Ræddi Bell aðallega um fjármál bandalagsins og samræmingarstarf sem þar fer fram.
    Síðdegis var hefðbundinn fundur formanna landsdeilda NATO-þingsins og sendiherra aðildarríkja NATO í Norður-Atlantshafsráðinu í höfuðstöðvum NATO. Að venju sátu sendiherrar aðildarríkjanna fyrir svörum þingmanna en umræðum stjórnaði Ítalinn Minuto Rizzo, aðstoðarframkvæmdastjóri bandalagsins, í forföllum Robertsons lávarðar. Óhjákvæmilega var nokkuð rætt um atburði helgarinnar en á sunnudeginum náðist samkomulag um það í varnarmálanefnd bandalagsins hvernig haga bæri stuðningi bandalagsins við Tyrki eftir mikið samningaþóf sem helgaðist af andstöðu Þjóðverja, Belga og Frakka við tímasetningar og umfang hernaðarlegs viðbúnaðar. Fyrstur tók til máls Douglas Bereuter, forseti NATO- þingsins, og fór hann yfir það sem rætt hefði verið á fundum helgarinnar. Sagði hann að málflutningur þingmanna hefði einkennst af ríkri samstöðu í öllum grundvallaratriðum, jafnvel þótt menn hefði greint á um tímasetningar stuðningsins við Tyrki. Nefndi hann t.a.m. stuðning NATO-þingsins við Prag-yfirlýsinguna. Þá nefndi Bereuter aðdraganda stríðsins í Írak og mikilvægi þess að þingmenn aðildarríkja NATO efldu samstöðuna innan bandalagsins eftir það sem á undan var gengið í samskiptum nokkurra Evrópuríkja og Bandaríkjanna. Rizzo þakkaði Bereuter stuðninginn og fór yfir sáttafundinn í varnarmálanefndinni deginum áður. Sagði hann að fyrir lægi að ágreiningurinn hefði einskorðast við tímasetningar en ekki ákvörðunina um stuðning við Tyrklandsstjórn sem slíka. Þýski þingmaðurinn Markus Meckel tók undir orð aðstoðarframkvæmdastjórans en harmaði jafnframt að sáttin hefði ekki náðst fyrr. Sagði hann að ferlið hefði verið skaðsamlegt fyrir NATO. Þá vék hann að niðurstöðum leiðtogafundarins í Prag og fór yfir hvað þýsk stjórnvöld hefðu innt af hendi í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi. Að lokum lét hann í ljós þá skoðun sína að NATO tæki við stjórn friðargæslunnar úr hendi Þjóðverja í Afganistan. Nicholas Burn, sendiherra Bandaríkjanna hjá Atlantshafsbandalaginu, tók undir orð Meckels og sagði jafnframt að baráttan gegn hryðjuverkastarfsemi væri það mikilvægasta sem aðildarríki NATO stæðu í um þessar mundir. Þakkaði hann Evrópuríkjunum stuðninginn eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin og varaði menn við því að tapa sér í orðastríði því sem nú stæði. Mættu menn ekki gleyma þeim eindregna samstarfsvilja sem birst hefði eftir 11. september. Tók hann undir orð Meckels um að NATO ætti að taka við stjórn ISAF (alþjóðlegu friðargæsluliði í Afganistan). Meginhlutverk NATO til framtíðar væri friðargæsla og friðaruppbygging og að Bandaríkjastjórn hefði þetta að leiðarljósi. Á hinn bóginn sagði Burn að Bandaríkin hefðu átt í miklum pólitískum deilum við þrjú ríki í öryggisráðinu og að óhjákvæmilega hefði bandalagið skaðast vegna þessa. Taldi hann að ekki yrði unnt að bæta þetta upp með skjótum hætti og að eftir stæði að hik Þjóðverja, Belga og Frakka í bandalaginu hefði verið afar slæmt. Ef þessi staða kæmi upp aftur mætti ekki hika að nýju. Clark lávarður, formaður bresku landsdeildarinnar, tók stuttlega til máls og ræddi um yfirlýsingu þá sem Frakkar, Þjóðverjar og Belgar hefðu gefið út eftir að samkomulag náðist í varnarmálanefnd NATO um hernaðarviðbúnað í Tyrklandi vegna ástandsins í Írak. Rizzo sagði að ríkin bæru ábyrgð á þeirri yfirlýsingu og að efnislega hefði hann ekkert um hana að segja. Þá tók til máls sendiherra Belgíu sem sagði í fáum orðum frá því að Belgar hefðu verið hluti af þeirri sátt sem náðst hefði í varnarmálanefndinni. Sagði hann að fyrirvarar þeir sem Belgar hefðu sett væru hluti af lýðræðislegri umræðu innan stofnana líkt og NATO og ítrekaði að hvorki Belgar né önnur ríki tækju við fyrirmælum frá ríkisstjórnum annarra ríkja. Sagði hann stuðninginn aldrei hafa verið í hættu og minnti á framlag Belga til baráttunnar gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Danski þingmaðurinn Helge Adam Möller gagnrýndi í máli sínu þær þjóðir sem ekki vildu hóta því að beita Íraksstjórn hörku og sagði að afstaða þeirra einkenndist af tvískinnungi. Ef ekki væri vilji til að stöðva harðstjóra nú væri mun meiri hætta á að mál versnuðu síðar. Norski sendiherrann ræddi niðurstöður leiðtogafundarins í Prag og sagði að nú væri mikilvægast að aðildarríkin stæðu við fyrirheit sín um aukin framlög til öryggis- og varnarmála. Þá vék hann að deilum Bandaríkjanna við Evrópuþjóðirnar og sagði að NATO væri ekki eina stofnunin sem væri í erfiðri stöðu. Tók hann jafnframt undir framkomnar hugmyndir þess efnis að NATO tæki við stjórn friðargæsluliðsins í Afganistan. Því næst tók franski þingmaðurinn Pierre Lellouche til máls og ræddi stuttlega atburði helgarinnar innan NATO. Sagði hann að umræðan innan NATO hefði ekki beinst að öryggi Tyrklands sem slíku heldur fremur tímasetningu og eðlilegu ferli stjórnarerindreksturs í málinu. Hvað Írak áhrærði hefðu Frakkar aldrei útilokað beitingu hervalds og vísaði þingmaðurinn til orða Chiracs Frakklandsforseta þessu til stuðnings. Sagði Lellouche að starf Hans Blix, yfirmanns vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna, og sveita hans hefði skapað forsendur fyrir friðsamlegri lausn mála og að það væri skylda alþjóðasamfélagsins að forðast þannig stríðsrekstur í Írak. Forðast bæri að láta Saddam Hussein spilla samstöðu þjóða. Franski sendiherrann hjá NATO tók einnig til máls og minnti menn á að öryggismál af þessu tagi væru ekki kosningamál. NATO væri samstarfsvettvangur þjóða þar sem hvert ríki hefði jafnréttháa stöðu og bera ætti virðingu fyrir skoðunum annarra. Það sem skapaði þann vanda sem menn hefðu þurft að kljást við væri að þjóðir bæru ekki næga virðingu fyrir ólíkum skoðunum. Fastafulltrúi Tékklands hjá NATO sagðist vera sammála afstöðu Nicholas Burn um að ekki mættu verða tafir á því að hrinda skuldbindingum bandalagsins gagnvart Tyrklandi í framkvæmd. Sagði hann að ákvæði 4. gr. Norður-Atlantshafssáttmálans væri þess eðlis að óeðlilegt væri að hnika framkvæmdinni til með einum eða öðrum hætti. Líta bæri á ósk um stuðning NATO sem sjálfsagða því að ljóst væri að aðildarríki tækju ekki ákvörðun um að fara fram með slíka bón ef þeim fyndist sér ekki ógnað. Íraksstjórn væri í besta falli óábyrg og þess vegna mætu Tyrkir það svo að af henni stæði ógn. Ekki mætti efast um réttmæti þess mats og sagði sendiherrann enn fremur að hik það sem komið hafi á sum ríki kæmi við illa við almenning í aðildarríkjum NATO. Nokkrir fleiri urðu til þess að taka til máls um atburði helgarinnar og skýra út afstöðu ríkisstjórna sinna til bónar Tyrkja um aukinn hernaðarviðbúnað.
    Þriðjudaginn 19. febrúar voru haldnir fundir með fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB á skrifstofu hennar. Fyrstur til máls tók Günther Verheugen, sem fer með stækkunarmál í framkvæmdastjórninni. Ræddi Verheugen um stækkunarferlið og helstu breytingar sem gerst hefðu á síðustu mánuðum með tilliti til aðildarumsóknarríkjanna. Sagði hann að gríðarmikill árangur hefði náðst á undanförnum missirum og að hann væri vongóður um að öll ríkin mundu fullnægja tilskildum skilyrðum á árinu. Þá ræddi Verheugen einnig um Kýpur og stöðu mála í samningaviðræðum þjóðarbrotanna sem eyjuna byggja. Sagði hann að óháð því hvort tækist að semja um framtíðarskipan mála á Kýpur mundi gríski hlutinn ganga til aðildar við ESB. Dyrunum yrði enn haldið opnum fyrir tyrkneska hlutann ef samningaviðræður færu út um þúfur. Þá ræddi Verheugen sérstaklega um stöðuna í nýju ríkjunum og niðurstöður leiðtogafundarins í Kaupmannahöfn í desember. Sagði hann að þróunin hefði verið afar hröð og farsæl en margt væri enn ógert, sérstaklega í Búlgaríu og Rúmeníu og þó einkum í Tyrklandi sem ekki var boðin aðild að þessu sinni. Þá ræddi framkvæmdastjórinn um Framtíðarráðstefnu ESB og hvort nauðsyn bæri til að efna til fleiri ríkjaráðstefna (inter-governmental conferences) á vettvangi sambandsins. Sagði hann að á Framtíðarráðstefnunni mundu koma fram drög að stjórnarskrá ESB sem aðildarríkin þyrftu að taka afstöðu til og að sameiginlega öryggis- og varnarstefnu sambandsins bæri þar hátt. Sagði Verheugen að ef ESB ætlaði sér stóra hluti í þeim málaflokki yrðu aðildarríkin að koma sér saman um stefnu í stærstu málaflokkunum. Mikið hefði borið í milli að undanförnu og að ekki væri það vænlegt til árangurs. Þá sagði hann að lokum að með stækkun ESB öðlaðist sambandið nýja vídd. Sagðist hann vonast til að samskiptin yfir Atlantshafið bötnuðu verulega með inngöngu nýju ríkjanna í ljósi sterkra tengsla þeirra við Bandaríkin. Í umræðum um erindi framkvæmdastjórans var annars vegar rætt sérstaklega um Vestur-Balkanríkin og nauðsyn þess að flýta aðlögun þeirra að ESB og hins vegar um stöðu Tyrklands og horfur á aðild landsins í nánustu framtíð. Þá var nokkuð rætt um rétt aðildarríkja ESB til að taka sjálfstæða stefnu í mikilvægum málum líkt og gerst hefði í aðdraganda stríðsins gegn Írak. Svaraði Verheugen því til að ekki væri hægt að koma í veg fyrir að einstök ríki tjáðu sig um áherslur sínar en lagði jafnframt á það áherslu að þegar ákvörðun hefði verið tekin eða sameiginleg stefna hefði verið mótuð þá bæri aðildarríkjunum að verja hana. Evrópubúar krefðust þess að álfan talaði einni röddu.
    Þá tók til máls Pascal Lamy, sem fer með viðskiptamál í framkvæmdastjórn ESB, og fjallaði um viðskiptatengsl Evrópu og Bandaríkjanna. Í máli sínu vék Lamy aðallega að hversu miklir hagsmunir væru í húfi fyrir ESB og Bandaríkin að viðskipti yfir Atlantshafið gengju hnökralítið í ljósi þess hve háðar þessar viðskiptablokkir væru hvor annarri. Nefndi hann að 20 af hundraði útflutnings hvorrar blokkar um sig færi til hinnar og að hlutfall þetta væri mun hærra ef horft væri til beinna erlendra fjárfestinga. Væri þetta hlutfall að aukast fremur en öfugt. Hvorir tveggja hefðu mikilla hagsmuna að gæta í því að auka alþjóðaviðskipti og efla fyrirkomulag á lausn deilumála á því sviði. Rakti hann þau mál sem komið hefðu til kasta gerðardóms Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og sagði flest málin til komin vegna stáliðnaðarins sem nauðsynlegt væri að stokka upp. Þá nefndi hann líka dæmi um erfðabreytt matvæli sem komið hefðu til kasta Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þar bæri mikið í milli og öll úrlausn erfið. Nokkrar umræður urðu um framsögu Lamys og þá aðallega vegna stálmálsins svonefnda og hinnar sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB. Árni R. Árnason spurði Lamy um stöðu og horfur á uppfærslu EES-samningsins og óbilgjarnar kröfur ESB á hendur EFTA-ríkjunum. Lamy svaraði litlu öðru en því að þau mál væru í skoðun og að framkvæmdastjórnin hefði fulla trú á að lausn næðist í þeim málum sem enn væri ósamið um.
    Að lokum var efnt til sameiginlegs fundar fulltrúa NATO-þingsins og utanríkismálanefndar Evrópuþingsins í Evrópuþinginu. Fundinum var stjórnað sameiginlega af Douglas Bereuter, forseta NATO-þingsins, og Elmar Brok, formanni utanríkismálanefndar Evrópuþingsins. Fundinn ávörpuðu Yiannos Papantoniou, varnarmálaráðherra Grikklands sem fór með formennsku í ráðherraráði ESB fyrri hluta árs 2003, og Rainer Feist, næstráðandi sameiginlegs herafla Evrópu (DSACEUR). Í máli sínu fóru framsögumenn yfir árangur sameiginlegrar öryggis- og varnarmálastefnu ESB á síðustu missirum og helstu markmiðin fram undan.

b.    Fundur stjórnarnefndar.
    Laugardaginn 5. apríl kom stjórnarnefnd NATO-þingsins saman í París. Fundinn sat af hálfu Íslandsdeildar Andri Lúthersson ritari. Á fundinum var m.a. rætt um skipulag starfsemi þingsins, samskiptin við aukaaðildarríki og fulltrúafjölda landsdeilda nýrra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins. Í lok fundarins var nokkrum tíma varið í að ræða málefni hernaðaraðgerða Bandaríkjanna, Bretlands og bandamanna þeirra í Írak. Var samstaða um það að stjórnarnefndin gæfi ekki frá sér sérstaka yfirlýsingu vegna málsins heldur var aðeins um almennar umræður að ræða þar sem fulltrúar viðruðu skoðanir sínar.
    Umræður hófust á umfjöllun um árlega áfangaskýrslu framkvæmdastjóra NATO-þingsins, Simons Lunn, um helstu markmið í starfi þingsins og nefnda þess. Í framsögu um skýrsluna sagði Lunn að öll líkindi væru til að málefni Íraks yrðu fyrirferðarmikil í störfum þingsins á starfsárinu en of snemmt væri að ræða um í hvaða farveg þau mál færu. Þá mundi framhald verða á gagngerri umfjöllun allra málefnanefndanna um baráttuna gegn hryðjuverkastarfsemi og sagði að þær hefðu á undanförnum missirum skilað afar gagnlegum skýrslum um hina fjölmörgu anga þess máls. Í ljósi niðurstaðna leiðtogafundarins í Prag þar sem sjö nýjum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu var boðið til aðildarviðræðna við NATO mundi áherslan í umfjöllun NATO-þingsins líklegast beinast frekar að Rússlandi, Úkraínu og Hvíta-Rússlandi á komandi mánuðum sem og stöðu mála í Kákasus. Sagði hann frá ferðum nefnda NATO- þingsins til Georgíu og fyrirhugaðri ferð til Moldóvu. Þá vék hann að Miðjarðarhafssvæðinu og sagði að Miðjarðarhafshópur NATO-þingsins hefði sinnt afar mikilvægu starfi á undanförnum árum sem hefði skilað sér í auknum samskiptum þjóðþinga NATO-ríkja og ríkja norðanverðrar Afríku og ríkjanna fyrir botni Miðjarðarhafs. Meginmálið á næstunni yrði þó að öllum líkindum samskipti Bandaríkjanna og Evrópuríkjanna í bandalaginu og hvernig NATO-þingið gæti lagt sitt af mörkum til að brúa þá gjá sem myndast hefði innan raða bandamanna á síðustu vikum og mánuðum vegna Íraksmálsins. Að endingu sagði Lunn stuttlega frá vel heppnaðri Rose-Roth námstefnu í Belgrad og taldi það til marks um góð samskipti við stjórnvöld í Serbíu og Svartfjallalandi að ákveðið hefði verið að halda ráðstefnuna þrátt fyrir óróa þann sem hefði óhjákvæmilega skapast eftir morðið á Zoran Djindjic, forsætisráðherra Serbíu, stuttu áður. Nokkrar umræður urðu um skýrslu Lunns og sagðist Pólverjinn Longin Pastusiak óttast að NATO-þingið ætlaði sér e.t.v. um of í störfum sínum og taldi að markmiðin væru of mörg. Taldi hann að meginmarkmiðin ættu að vera Íraksmál, úrbætur í samskiptum NATO-ríkja og framtíð bandalagsins sjálfs. Fleiri urðu til þess að taka í sama streng og sagðist t.a.m. hollenski þingmaðurinn Joos van Gennip hafa áhyggjur af því að starfsfólk skrifstofu NATO-þingsins annaði ekki þeim fjölmörgu verkefnum sem nefndir þingsins hefðu tekið sér á hendur. Þá varð nokkur umræða um hvort efna ætti til árlegs fundar NATO-þingsins í Washington, svokallaðs Trans-Atlantic Forum, fyrr en í desember. Í umræðum kom fram að í ljósi þeirrar gjár sem myndast hefði milli Bandaríkjanna og Þýskalands og Frakklands væri ráðlegt að halda fundinn fyrr á árinu. Buðust Kanadamenn t.a.m. til þess að halda fundinn ef Bandaríkjamenn ættu örðugt með það. Niðurstaðan varð sú að kannaðar yrðu leiðir til að flýta Trans-Atlantic Forum. Þá var umræðum vikið að samskiptum NATO-þingsins og Rússlands og kom fram í máli Rafaels Estrella, formanns sérlegrar samstarfsnefndar NATO-þingsins og rússnesku Dúmunnar, að af störfum nefndarinnar undanfarið mætti dæma að vilji Rússa til samstarfs væri mun ríkari en áður. Nokkrar umræður urðu um málefni Tsjetsjeníu-héraðs og fannst sumum fundarmönnum það skjóta nokkuð skökku við að á sama tíma og rússnesk stjórnvöld styddu einarðlega hina alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi og stæðu jafnframt gegn stríðsrekstrinum í Írak, þá virtist aðför rússneska hersins að Tsetsjenum ekkert linna. Simon Lunn ræddi um fundarhöld NATO-þingsins í Moskvu og sagði að komið hefði í ljós að afar erfitt væri að eiga vandaða efnislega fundi með fulltrúum Dúmunnar. Kenndi hann skipulagsleysi að nokkru um hve illa hefði tekist til á sameiginlegum nefndafundum í Moskvu.
    Þá var vikið að málefnum Úkraínu og samskiptum NATO-þingsins og úkraínsku Rödunnar. Um eins árs skeið hefur NATO-þingið starfrækt sérlega nefnd sem hefur haft eftirlit með samstarfssáttmála NATO og Úkraínu (e. Joint Monitoring Group on the NATO – Ukraine Charter). Sagði Peter Viggers, formaður stjórnmálanefndar NATO-þingsins, að á síðasta fundi nefndarinnar með úkraínskum þingmönnum í Brussel í mars hefði komið fram sú hugmynd að breyta nafni nefndarinnar þannig að fram kæmi að um samstarfsvettvang á jafnræðisgrunni væri að ræða. Taldi Viggers að nafnbreytingin kynni að liðka fyrir samstarfi NATO og Úkraínu, sem oft hefði verið nokkuð stirt. Urðu margir til þess að taka undir orð Viggers. Franski þingmaðurinn Pierre Lellouche sagði að NATO-þinginu bæri að styðja við bakið á úkraínsku Rödunni þar eð það hefði sýnt sig á síðustu mánuðum að þjóðþingið væri í raun eina pólitíska aðhaldið við ofríki forseta landsins. Nafnbreytingin var samþykkt og heitir nefndin nú samstarfsráð NATO-þingsins og úkraínska þingsins (e. NATO-Ukraine inter-parliamentary council).
    Á fundi stjórnarnefndarinnar var vikið að tilhögun þess er þjóðþing nýrra aðildarríkja NATO taki sæti sem aðilar að NATO-þinginu og þá sérstaklega stærð sendinefnda þeirra. Skrifstofa NATO-þingsins hafði, fyrir fundinn, lagt drög að því hversu sendinefndirnar gætu verið stórar, með tilliti til fyrri reynslu og íbúatalna ríkjanna. Samkvæmt tillögunum mundu Eistar, Slóvenar og Lettar eiga rétt á þriggja manna sendinefndum hver þjóð. Litháíska þingið fengi fjögur sæti á NATO-þinginu, Slóvakar fimm, Búlgarar sex og Rúmenar tíu sæti. Samkvæmt þessu yrði fjöldi fulltrúa frá aðildarríkjum NATO 248 í stað 214 eins og nú er. Nokkrar umræður urðu um þessar tillögur forseta NATO-þingsins sem stjórnarnefndinni var ætlað að afgreiða. Þótti mönnum sem allmikils misræmis gætti í þessum útreikningum ef miðað væri við mannfjöldatölur og þá sérstaklega með tilliti til fulltrúafjölda ríkjanna sem þegar hefðu verið um árabil í NATO. T.a.m. var bent á að þótt Tyrkir væru hátt í 67 milljónir væru aðeins 12 fulltrúar í sendinefnd tyrkneska þingsins en Bretar, sem eru tæpar 60 milljónir, ættu 18 fulltrúa á NATO-þinginu. Í umræðum kom fram að NATO-þingið hefði tekið nokkuð mið af stærð sendinefnda á Evrópuráðsþinginu og á ÖSE-þinginu í seinni tíð og ljóst að hlutföllin hefðu breyst nokkuð á nokkrum áratugum. Jafnframt kom fram að heildrænar breytingar á þessum málum yrðu afar erfiðar í framkvæmd og í raun enginn tilbúinn til að taka á þeim vanda sem upp gæti komið í kjölfar þessa. Fulltrúar nýju aðildarríkjanna sjö sögðust allir vera sáttir við tillögurnar. Simon Lunn sagði að ef í náinni framtíð kæmi fram eindreginn vilji til þess að breyta þessari skipan mála þá yrði það gert. Tillagan var samþykkt.
    Þá lá fyrir stjórnarnefndinni að samþykkja stærð sendinefnda þjóðþinga Aserbaídsjan og Armeníu, sem boðin var aukaaðild að NATO-þinginu á stjórnarfundi þess í Istanbúl. Auk þess tók stjórnarnefndin afstöðu til umsóknar Svía um aukaaðild að NATO-þinginu. Svíþjóð ásamt hinum þremur hlutlausu ESB-ríkjunum, Finnlandi, Austurríki og Írlandi, var boðin aukaaðild að NATO-þinginu árið 1997. Tóku Finnar og Austurríkismenn því boði. Svíar völdu þann kost að eiga áheyrnaraðild en í desember 2002 ritaði forseti sænska þingsins bréf til NATO-þingsins þar sem farið var fram á aukaaðild. Féllst stjórnarnefndin á aukaaðildarbeiðnina á fundinum og jafnframt var ákveðið að Armenar ættu þrjá fulltrúa á NATO- þinginu og Aserar og Svíar fimm fulltrúa hvor þjóð.
    Á þingfundi ársfundar NATO-þingsins í Istanbúl kom upp nokkur ringulreið vegna afgreiðslu munnlegra breytingartillagna sem lagðar voru fram í umræðum þingsins. Eftir nokkurt þóf um framkomnar munnlegar breytingartillögur bannaði varaforseti þingsins að leggja mætti fram slíkar tillögur, til að gæta samræmis í störfum þingsins. Olli þetta nokkurri óánægju og ákvað fastanefnd þingsins því að mál þessi yrðu tekin fyrir á stjórnarnefndarfundinum í París. Var lagt til að fundarsköpum þingsins yrði breytt á þann veg að frambornar munnlegar breytingartillögur mætti ræða og taka afstöðu til þeirra á þingfundi ef meiri hluti viðstaddra fulltrúa væri samþykkur því. Nokkrar umræður urðu um þetta og þótti mörgum sem að með þessari breytingu væru völd forsetans skert of mikið. Þá yrði að vera rúm fyrir breytingartillögur til að koma í veg fyrir að villandi málfar slæddist í ályktunartexta í meðförum þingsins. Ákveðinn sveigjanleiki yrði að vera til breytinga. Niðurstaða fundarins varð sú að fresta því að taka ákvörðun um málið þar til á næsta stjórnarnefndarfundi. Þá var samþykkt tillaga forsetans um að festa í sessi fyrirkomulag það um framlögn skriflegra breytingartillagna sem hafði verið til reynslu frá stjórnarnefndarfundinum í Rómaborg 2001. Samkvæmt reglunum getur formaður landsdeildar lagt breytingartillögur fram fyrir hönd landsdeildar sinnar. Ella þarf a.m.k. fimm undirskriftir frá þremur ríkjum. Að lokum var tekin fyrir skýrsla þýska þingmannsins Lothar Ibrügger um fjármál NATO-þingsins.
    Síðdegi laugardagsins 5. apríl var varið í að ræða málefni Íraks og afstöðu NATO-ríkjanna til stríðsins í landinu. Búist hafði verið við allnokkrum ágreiningi milli Bandaríkjamanna og þeirra Evrópuríkja sem mest höfðu mótmælt aðgerðum bandamanna. Þótt skoðanamunur hefði verið nokkur á fundinum voru ummæli hófstillt og athygli vakti hve mikill vilji virtist ríkja meðal fulltrúanna til að brúa þann klofning í afstöðu NATO-ríkja sem orðið hafði síðustu daga og vikur á undan fundinum. Sammæltust fulltrúar stjórnarnefndarinnar jafnframt um að gefa ekki út sameiginlega yfirlýsingu að fundinum loknum heldur aðeins að ræða málefnin á lokuðum fundi. Þá sagðist Douglas Bereuter, forseti NATO-þingsins, ekki taka efnislega afstöðu til stríðsaðgerðanna meðan hann gegndi embættinu heldur eftirláta það formönnum landsdeildanna. Rafael Estrella, fyrrum forseti NATO-þingsins, tók fyrstur til máls og sagðist fagna afstöðu forsetans þar sem ágreiningurinn væri milli NATO-ríkja en ekki milli t.a.m. NATO og Rússlands eins og í átökunum um Kosovo-hérað. Sagðist Estrella jafnframt óttast að harðlínustefna Bandaríkjamanna kynni að vera sem olía á eld þann er logaði í Miðausturlöndum og sagðist efast um friðarvilja þeirra í deilum Palestínumanna og Ísraela. Sagði hann að hin pólitíska samstaða sem ríkt hefði um árabil milli Bandaríkjanna og Evrópuríkjanna væri brostin og að afar erfitt yrði að koma hlutum í samt lag aftur. Taldi hann þó að fulltrúar NATO-þingsins bæru mikla ábyrgð í því að leitast við að fá menn til að ræða saman á sömu forsendum. Þá sagði hann að Evrópuríkin yrðu að sinna heimavinnu sinni betur í ljósi mikils skoðanaágreinings þeirra sjálfra í millum. Menn yrðu að átta sig á að Bandaríkin og Evrópuríkin þyrftu að standa við sameiginlegar hnattrænar skyldur sínar. Tyrkneski þingmaðurinn Vahid Erdem sagði í ávarpi sínu að mun auðveldara yrði fyrir Bandaríkin að vinna stríðið en að vinna friðinn. Af þessum sökum væri mikilvægast að tryggja samstöðu NATO-ríkja eins fljótt og auðið yrði. Sagði hann Tyrki hafa afar slæma reynslu af hernaði í Miðausturlöndum og sagðist hann kvíða neikvæðum afleiðingum stríðsins ef það drægist á langinn og þá sérstaklega á viðkvæman efnahag Tyrklands. Þýski þingmaðurinn Karl Lamers sagði að mikil spenna væri í loftinu vegna aðgerða Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra í Írak og að ekki mætti gleyma skoðunum þeirra milljóna manna sem mótmælt hefðu í höfuðborgum Evrópu. Sagðist hann telja að spurningin sem eftir stæði væri hvort þjóðir Atlantshafssamfélagsins ættu samleið í öryggismálum. Við blasti gagnólíkt mat þjóða á þeim vandamálum sem uppi væru. Því lægi beinast við að spyrja hvort stefna þjóða væri samþættanleg. Lagði hann mikla áherslu á að Evrópuþjóðir yrðu að leysa úr ágreiningsefnum sínum áður en þau væru borin á borð alþjóðasamfélagsins og þá þyrftu þær sérstaklega að huga að stefnu varðandi uppbyggingarstarf í Írak að stríði loknu. Breski þingmaðurinn Alice Mahon sagðist vera mjög gagnrýnin á stefnu ríkisstjórnar sinnar í málinu og hafði áhyggjur af því að almenningur teldi að um nokkurs konar krossferð væri að ræða. Í máli þýska þingmannsins Markus Meckels komu fram þungar áhyggjur af stríðsrekstri Bandaríkjamanna og þeim skilaboðum til umheimsins sem í honum fælist. Minnti hann á að deilumál Ísraela og Palestínumanna mættu ekki gleymast og ljóst væri að alþjóðasamfélagið yrði að koma fram með heildstæða stefnu í málefnum Miðausturlanda. Spurði hann hvort þetta væri vísirinn að því sem gerast mundi í Sýrlandi og Íran og jafnframt hvort þetta væri upphafið að endalokum Atlantshafsbandalagsins. Norski þingmaðurinn Jan Tore Sanner tók til máls í umræðunum og minnti fundarmenn á að Noregur hefði verið í forsæti öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna þegar ályktun 1441 hefði verið samþykkt. Sagðist hann harma þá leið sem farin hefði verið í Írak og vonaðist til þess að þetta yrði ekki vísir að því sem koma skyldi. Sagði hann að Noregsstjórn hefði sett sig á móti stríðinu en það þýddi þó alls ekki að Noregur væri hlutlaust ríki. Hollenski þingmaðurinn Joos van Gennip skýrði fundarmönnum frá helstu forsendum stuðningsyfirlýsingar hollenskra stjórnvalda og lagði jafnframt áherslu á að alþjóðasamfélagið hlyti stórt hlutverk við stjórn og enduruppbyggingu Íraks að stríði loknu. Þá sagði hann að umfangsmikillar áætlunar á borð við Marshall-aðstoðina í Evrópu eftir heimsstyrjöldina síðari væri nú þörf í Miðausturlöndum. Bandaríski þingmaðurinn Joel Hefley sagði í ávarpi sínu að Bandaríkjastjórn hefði gert allt sem í hennar valdi hefði staðið til að koma í veg fyrir að stríðið brytist út. Sagði hann að Bandaríkjunum hefði verið nauðugur einn kostur að ráðast gegn Íraksstjórn vegna afstöðu Frakka sem sögðust mundu setja sig á móti nýrri ályktun öryggisráðsins. Sagði hann að vinaþjóðir mættu ekki ausa hvor aðra auri og að menn yrðu að huga að framtíðinni í stað þess að dvelja við það sem þegar hefði gerst. Menn þyrftu ekki annað en að líta á stöðu mála í Afganistan nú til að draga þá ályktun að afstaða Bandaríkjanna í Miðausturlöndum væri sú rétta. Ítalski öldungadeildarþingmaðurinn Giovanni Forcieri skýrði frá stuðningi ítalskra stjórnvalda við aðgerðirnar í Írak og hið sama gerði Manuel Atencia, formaður spænsku landsdeildarinnar. Franski þingmaðurinn Pierre Lellouche sagðist vera á þeirri skoðun að stríðið hefði verið réttlætanlegt en ekki forgangsmál og að það hefði verið háð á röngum tíma. Sagði hann að Sameinuðu þjóðirnar væru sannarlega í sárum eftir það sem á undan hefði gengið, Evrópusambandið væri sem lamað í afstöðu sinni og að Atlantshafsbandalagið væri klofið. Sagði hann að mat manna væri að Evrópa og Bandaríkin væru að færast í sundur og að öfl beggja vegna Atlantsála gerðu sér mikinn mat úr þessum klofningi. Menn yrðu að átta sig á að um nokkurs konar trúarstríð væri að ræða og að innan hins íslamska heims væri eindregin andstaða gegn hinu vestræna módeli. Vestrænum þjóðum yrði að takast að brúa það bil sem skapast hefði. Að lokum tók bandaríski þingmaðurinn John Tanner til máls og sagði í ræðu sinni að ljóst væri af því sem á undan hefði gengið að Bandaríkjamenn ættu ekki að standa einir að málum í Írak eftir að stríðinu lyki. Bandaríkjastjórn gæti það vissulega en ef rétt ætti að halda á málum þá yrði alþjóðasamfélagið að vera með í ráðum.
    Að lokum var ákveðið að hafa almennar umræður um málefni Íraks á vorfundi NATO- þingsins í Prag í maí.

c.    Vorfundur.
    Dagana 24.–28. maí var árlegur vorfundur NATO-þingsins haldinn í Prag. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður, og Jónína Bjartmarz, auk Andra Lútherssonar ritara. Að vanda var vorfundurinn skipulagður sem eins konar undirbúningsfundur fyrir ársfund þingsins sem halda átti í Orlandó 7.–11. nóvember. Í málefnanefndum voru til umræðu skýrslu- og ályktunardrög sem samþykkja átti í Orlandó, auk þess sem ýmsir gestir ávörpuðu fundi nefndanna og svöruðu spurningum þingmanna. Það sem hæst bar á fundinum í Prag var stríðið í Írak og eftirmál þess, þar á meðal pólitísk samskipti NATO-ríkjanna, árangurinn af baráttunni gegn skipulegri hryðjuverkastarfsemi, útbreiðsla gereyðingarvopna og mat á hlutverki nýs og stærra Atlantshafsbandalags á nýrri öld.
    Fyrsta fundardag fór fram annar fundur nýstofnaðrar samstarfsnefndar NATO-þingsins og rússneska þingsins. Stjórnarnefnd NATO-þingsins kom saman til fundar mánudaginn 26. maí og þingfundur var haldinn lokadaginn, 28. maí.
    Á fundi stjórnmálanefndarinnar var rætt um skýrslur um stöðu mála í Írak og áhrif stríðsins á starfsemi Atlantshafsbandalagsins, viðhorf Atlantshafsþjóða til ástands í öryggis- og varnarmálum og framlag Evrópuríkja til varnarmála, og samstarfsverkefni NATO á sviði stöðugleika í Mið- og Austur-Evrópu. Fund nefndarinnar ávörpuðu þeir Cyril Svoboda, utanríkisráðherra Tékklands, sem ræddi um framlag Tékka til NATO, William L. Nash, forstöðumaður Council on Foreign Relations í Washington D.C., sem ræddi um afleiðingar stríðsins í Írak og framlag Evrópuþjóða til varnarmála, og William Drozdiak, forstöðumaður Brussel- skrifstofu German Marshall-Fund of the United States, sem ræddi um þá gjá sem myndast hefði í samskiptum Bandaríkjanna og Evrópuríkja vegna stríðsins í Írak. Umræður á fundum nefndarinnar snerust að mestu um þær pólitísku spurningar sem kviknuðu í kjölfar stríðsins í Írak og áhrif þess á alþjóðasamfélagið, sérstaklega á Atlantshafssamstarfið. Þá ræddu fulltrúar nefndarinnar um hlutverk bandalagsins í öryggismálum Evró-Atlantshafssvæðisins, árangur af baráttunni gegn skipulegri hryðjuverkastarfsemi, og stækkunaráform NATO og samstarfsverkefni bandalagsins sem ákveðin höfðu verið á leiðtogafundinum í Prag á fyrra ári. Af umræðunum að dæma var ljóst að mikill einhugur ríkir um það innan bandalagsins að stofnunin verði sem endranær í fararbroddi við að tryggja öryggi og varnir Evró-Atlantshafssvæðisins. Þá var samhljómur um að alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi, útbreiðsla gereyðingarvopna og svæðisbundinn óstöðugleiki væru mestu ógnirnar við öryggi nú um stundir. Þeir sem til máls tóku, þ.m.t. Cyril Svoboda, utanríkisráðherra Tékklands, fögnuðu framtíðaraðild nýju NATO-ríkjanna sjö og ræddu um að samstarfsverkefni bandalagsins yrðu afar mikilvæg ef litið væri til nánustu framtíðar. Þá kom enn fremur fram einróma stuðningur við að NATO tæki að sér nýtt og aukið hlutverk í Afganistan og hugsanlega í Írak.
    Á fundi varnar- og öryggismálanefndarinnar voru ræddar skýrslur um deilurnar um Írak og áhrif þeirra á bandalagið, árangurinn af baráttunni gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi, endurbætur á herstjórnarskipulagi NATO og hraðlið bandalagsins, og árangur nýrra aðildarríkja í hernaðarlegu aðlögunarferli NATO. Fund varnar- og öryggismálanefndarinnar ávörpuðu þeir Miroslav Kostulka, aðstoðarvarnarmálaráðherra Tékklands, og sir Tim Garden, prófessor við King's College í Lundúnum, sem ræddi um þann hernaðarlega lærdóm sem draga mætti af stríðinu í Írak. Meginumræðuefni funda nefndarinnar var skýrslan um átökin í Írak og áhrif þeirra á bandalagið. Miklar umræður urðu um efnisatriði skýrslunnar og í lok þeirra virtist vera nokkur samstaða um það meðal fundarmanna að endurreisnarstarfið í Írak ætti að byggjast á fjölþjóðlegum grunni og að þátttaka NATO í því starfi yrði til gæfu. Margir nefndarmanna höfðu á orði að með auknu hlutverki NATO í Írak yrði auðveldara að brúa þá gjá sem myndast hefði milli Bandaríkjanna og Evrópu. Í ávarpi sínu sagði Kostulka frá reynslu Tékka við aðlögun að herstjórn NATO og miðlaði af reynslu þjóðarinnar til væntanlegra nýrra aðildarríkja NATO.
    Á fundi félagsmálanefndarinnar var rætt um skýrslur um borgaralega vernd á ófriðartímum, stöðu rússneska minni hlutans í Eystrasaltsríkjunum, skipulega glæpastarfsemi – mansal og eiturlyf í Evrópu, og skýrslu um vernd borgara gegn hryðjuverkum samkvæmt nýrri hermálaáætlun NATO. Fund nefndarinnar ávörpuðu þau Anna Politkovskaya blaðamaður, sem ræddi um stríðsátökin í Tsjetsjeníu, Olivier Roy, forstöðumaður frönsku vísinda- og rannsóknamiðstöðvarinnar (CNRS), sem ræddi um hreyfingar strangtrúaðra múslíma og hættuna sem af þeim stafar, og Jiri Pehe, forstöðumaður New York háskóla í Prag og fyrrum aðstoðarmaður Vaclavs Havels, fyrrverandi forseta Tékklands. Fjallaði hann um umfjöllun tékkneskra fjölmiðla um stríðið í Írak og áhrif þess á viðhorf almennings gagnvart Evrópusambandinu og NATO. Fyrirlestur Önnu Politkovskaya um ástand mála í Tsjetsjeníu vakti mikla athygli fundarmanna og jafnframt miklar og heitar umræður um framgöngu rússneskra hersveita í Norður-Kákasushéraðinu. Politkovskaya var afar berorð í fyrirlestri sínum og gagnrýndi Rússlandsstjórn harðlega fyrir stríðsreksturinn í Tsjetsjeníu. Þá var hún óspör á gagnrýni á alþjóðasamfélagið fyrir að hafa gleymt stríðinu í Norður-Kákasus og þá sérstaklega eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin og í aðdraganda stríðsins í Írak. Sagði hún það vera samfélagslega og siðferðilega skyldu Vesturlanda að knýja á um að mannréttindi séu virt í Tsjetsjeníu og að efnahagslegir eða pólitískir hagsmunir mættu ekki blinda NATO- þjóðir þegar mannréttindi væru annars vegar. Fulltrúar Rússa á fundinum mótmæltu ræðu Politkovskaya harðlega. Þá var tekin til umræðu á fundinum sérleg skýrsla rússneska þingmannsins Luboc Siska um stöðu rússneska minni hlutans í Eystrasaltsríkjunum. Formaður nefndarinnar hafði gefið Siska færi á að leggja fram og ræða skýrslu sína þrátt fyrir að það væri nokkuð á skjön við hefðir nefndarinnar um að sérskipaðir skýrsluhöfundar legðu einir skýrslur sínar fyrir nefndina. Skýrslan var rædd á fundinum og í henni voru ríkisstjórnir Eystrasaltsríkjanna, einkum Lettlands, gagnrýndar fyrir að hafa skellt skollaeyrum við ráðleggingum ýmissa alþjóðastofnana um að bæta rétt rússneska minni hlutans til að nema og tala rússnesku auk annarra álitaefna. Fulltrúar Eystrasaltsríkjanna mótmæltu skýrslunni harðlega á fundinum. Niðurstaða fundarins varð sú að skýrslan yrði ekki tekin fyrir á ársfundinum í Orlandó í nóvember, heldur yrði málið rætt á almennum nótum auk þess sem sérlegur sérfræðingur Evrópuráðsþingsins í þessum málefnum yrði fenginn til að skýra fulltrúum NATO-þingsins hlutlægt frá stöðu mála. Virtust nefndarmenn sætta sig við þá niðurstöðu.
    Á fundi efnahagsmálanefndarinnar voru teknar fyrir skýrslur um efnahagsþróun á forsendum öryggismála, Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), hagkerfi Rússlands undir stjórn Pútíns forseta, auk sérlegrar skýrslu rússneska þingmannsins Victors Voitenko um eiturlyfjasmygl frá Afganistan og hætturnar sem slík starfsemi skapar í Evrópu. Fund nefndarinnar ávörpuðu þeir Peter Jezek, aðstoðarutanríkismálaráðherra Tékklands, sem svaraði fyrirspurnum fundarmanna, James Darcy, gestakennari við Overseas Development Institute í Lundúnum, og Linnett Deily, varafastafulltrúi sendinefndar Bandaríkjastjórnar hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni í Genf (WTO).
    Á fundi vísinda- og tækninefndar NATO-þingsins voru teknar til umræðu skýrsla um baráttuna gegn útbreiðslu gereyðingarvopna á 21. öld og afar áhugaverð skýrsla þýska þingmannsins Lothars Ibrüggers um vígvæðingu í himingeimnum og hnattrænt öryggi. Fund nefndarinnar ávörpuðu þau Martin Pecina, aðstoðar iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem fjallaði um kjarnorkuiðnað í Tékklandi, og Dana Drabova, forstöðumaður kjarnorkuöryggismála í Tékklandi. Svöruðu þau Pecina og Drabova fjölmörgum spurningum þingmanna enda hafa kjarnorkuöryggismál í Tékklandi verið nokkuð til umræðu á undanförnum mánuðum, einkum eftir mótmæli Þjóðverja við rekstri Temelin-kjarnorkuversins í suðausturhluta Tékklands. Þá flutti Olivier Lepick, fræðimaður við frönsku alþjóðamálastofnunina, fyrirlestur um áform Íraksstjórnar á sviði efna- og lífefnavopnaframleiðslu. Að lokum hélt William C. Potter, prófessor og yfirmaður rannsóknastofnunarinnar Center for Nonproliferation Studies við Monterey Institute of International Studies (MIIS), fyrirlestur um viðhorf Bandaríkjamanna og Rússa til baráttunnar gegn útbreiðslu gereyðingarvopna. Í afar athyglisverðum fyrirlestri kom Potter víða við og svaraði fjölmörgum spurningum nefndarmanna um útbreiðslu gereyðingarvopna, ástand vopnabúrs Rússlandsstjórnar og hættuna af því að hryðjuverkaöfl kæmu höndum yfir slík vopn. Nokkuð var deilt á fundinum um málefni sem lúta að útbreiðslu gereyðingarvopna og eftirlitshlutverki alþjóðasamfélagsins enda voru þau mál mikið í deiglunni eftir stríðið í Írak.
    Fyrir fundi samstarfsnefndar NATO-þingsins og rússneska þingsins lá tillaga rússneska þingmannsins Victors Ozerovs um að ræða málefni Íraks á fundinum. Rafael Estrella, fyrrum forseti NATO-þingsins og formaður sérlegrar nefndar NATO-þingsins sem fer með málefni Rússlands, samþykkti þá tillögu og sagðist fagna því að nefndarmenn fengju færi á að ræða opinskátt um brennandi mál með þátttöku aðildarríkjanna nítján auk Rússlands. Nýju aðildarríkin sjö höfðu enn fremur rétt til að sitja fundinn. Í aðdraganda umræðunnar um Írak kom fram að Rússar vildu gjarnan fjölga fundum samstarfsnefndarinnar og ekki einskorða þá við vorþingin og ársfundina að hausti. Tekið var vel í tillögur þessar og sagðist formaðurinn mundu ræða mál þessi við forseta NATO-þingsins, Bandaríkjamanninn Douglas Bereuter. Í máli rússnesku þingmannanna komu fram ábendingar um þrennt sem betur mætti fara í samskiptum Rússlands og Atlantshafsbandalagsins, sem kristallast hefði í umræðum um stríðið í Írak. Í fyrsta lagi var það harmað að vettvangur NATO-þingsins hefði ekki verið notaður meira en raun bar vitni og sögðu rússnesku þingmennirnir að ef formleg og óformleg tengsl þingmanna hefðu verið nýtt hefði e.t.v. verið unnt að koma í veg fyrir þær diplómatísku deilur sem urðu í aðdraganda stríðsins. Í öðru lagi töldu þeir að NATO-þinginu bæri að ræða afleiðingar stríðsins á alþjóðlegar skuldbindingar ríkja og virðingu fyrir alþjóðalögum. Sögðust þeir fagna að Sameinuðu þjóðirnar hefðu loks veitt bandamönnum lagalegan grunn fyrir aðgerðum sínum en gagnrýndu þó framferði Bandaríkjamanna og Breta og sögðu að allt yrði að gera til að koma í veg fyrir að slík staða kæmi aftur upp. Í þriðja lagi bentu Rússar á að þingmenn yrðu að setja virðingu fyrir alþjóðalögum í fyrsta sæti í störfum sínum og beita áhrifum sínum á stjórnvöld til að svo mætti verða. Nýta ætti það formlega samstarf, t.a.m. á vegum samstarfsnefndarinnar, til að draga úr spennu þegar stóratburðir ættu sér stað. Þá tóku þingmenn frá aðildarríkjunum til máls og skýrðu flestir þeirra frá afstöðu ríkisstjórna sinna til stríðsins í Írak. Nokkrir lýstu þó persónulegum skoðunum og ýmist gagnrýndu stríðsreksturinn, líkt og breski þingmaðurinn Alice Mahon, eða lýstu yfir stuðningi við hann þvert á opinbera stefnu ríkisstjórna sinna, líkt og franski þingmaðurinn Pierre Lellouche. Samhljómur var þó á fundinum um það að því bæri að fagna að tekist hefði að hrinda ógnarstjórn Saddams Husseins en jafnframt höfðu menn nokkrar áhyggjur af framhaldinu og óstöðugleikanum sem virtist ríkja í Írak þrátt fyrir viðveru erlends herliðs í landinu.
    Fundur stjórnarnefndarinnar mánudaginn 26. maí hófst á því að forseti NATO-þingsins fór yfir skrifleg viðbrögð Robertsons lávarðar við ályktunum NATO-þingsins frá ársfundinum í Istanbúl, sem dreift hafði verið fyrir fundinn. Þá fór framkvæmdastjóri NATO-þingsins, Simon Lunn, yfir starfsemi þingsins á næstu mánuðum og bætti upplýsingum við skýrslu sína sem lögð hafði verið fyrir fund stjórnarnefndarinnar á fundi hennar í París í apríl. Nokkrar umræður urðu um störf Miðjarðarhafsnefndarinnar í framhaldi af máli Lunns og þá sérstaklega hvar haustfundur nefndarinnar ætti að fara fram. Stakk Rafael Estrella upp á því að fundurinn yrði í Jerúsalem en flestum nefndarmanna þótti það óráðlegt miðað við ástand mála fyrir botni Miðjarðarhafs. Spánverjar buðust þá til að halda fundinn í Malaga og varð það úr. Athuga skyldi hvort forsendur yrðu fyrir fundi í Jerúsalem á næsta ári. Þá héldu formenn málefnanefnda og undirnefnda þeirra framsögur um helstu þætti í starfsemi þeirra. Peter Viggers, formaður samstarfsnefndar NATO-þingsins og Úkraínu, sagði nefndarmönnum frá nafnbreytingum þeim sem tekin hefði verið ákvörðun um á fundi nefndarinnar í París í apríl og ræddi almennt um ástand mála í landinu. Í umræðum kom fram að menn væru afar vongóðir um að nánari tengsl NATO-þingsins og úkraínsku Rödunnar mundu hafa jákvæð áhrif á stjórnarfar í landinu til langs tíma litið og höfðu menn á orði að þau persónuleg tengsl sem skapast hefðu í störfum nefndarinnar nýttust vel í erindrekstri Atlantshafsbandalagsins í landinu. Eftir þessar umræður var vikið að boðuðum breytingum á þingsköpum NATO- þingsins. Um smávægilegar breytingar var að ræða, þ.e. breytt verklag við framlögn breytingartillagna sem hafði það að markmiði að draga úr fjölda breytingartillagna sem nytu lítils stuðnings. Voru þær breytingar samþykktar mótatkvæðalaust. Þá voru samþykktar breytingar sem gerðu ráð fyrir að sitjandi þingforseti gæti tekið við munnlegum breytingartillögum ef hann teldi þær uppfylla skilyrði. Þá varð framhald á umræðum frá stjórnarnefndarfundinum í París um fjölda þeirra sem skipuðu landsdeildir. Nokkur óánægja hafði komið fram hjá Tyrkjum vegna þessa máls í ljósi þess að landið er fjölbýlla en t.a.m. Bretland, sem aftur á fleiri sæti á NATO-þinginu en greiðir þó lægri árgjöld. Var samþykkt að ræða nýjar tillögur að fyrirkomulagi á næsta fundi. Þá var ákveðið að þingfundurinn 28. maí mundi greiða atkvæði um tillögu stjórnarnefndar um að Svíar tækju sæti sem aukaaðilar að NATO-þinginu í kjölfar umsóknar sænska þingsins sem samþykkt hafði verið á stjórnarnefndarfundinum í París. Var það samþykkt. Að lokum fór gjaldkeri þingsins yfir fjármál þess og rætt var um nefndarfundi og þing sem haldin yrðu á næstu árum.
    Þingfundinn, sem efnt var til að morgni 28. maí, ávörpuðu þeir Douglas Bereuter, forseti NATO-þingsins, Robertson lávarður, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, og Vladimir Spidla, forsætisráðherra Tékklands. Svöruðu þeir Robertson lávarður og Spidla völdum spurningum fulltrúa NATO-þingsins. Að lokum var efnt til almennra umræðna um stríðið í Írak og eftirmál þess. Alls tóku 39 þingmenn til máls í umræðunum. Engar ályktanir lágu fyrir þinginu til meðferðar. Aukaaðild Svíþjóðar var samþykkt með lófataki.

d.    Ársfundur.
    Dagana 7.–11. nóvember var ársfundur NATO-þingsins haldinn í Orlandó. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður, Magnús Stefánsson og Einar Oddur Kristjánsson, auk Andra Lútherssonar ritara. Meðal fjölmargra áhugaverðra málefna sem afstaða var tekin til var Íraksstríðið, aðdragandi þess og eftirmál og var það sú umræða sem helst setti mark á fundinn líkt og á fyrri fundum NATO-þingsins á árinu. Auk þess var mikið rætt um breytingar á herstjórn Bandaríkjahers og afstöðu og meintar áherslubreytingar Bandaríkjanna til fjölþjóðastofnana og alþjóðlegs samstarfs. Þá beindust umræður enn fremur að nýjum ógnum sem að Vesturlöndum steðja af hendi hryðjuverkahópa og m.a. rætt um áhugaverðar skýrslur um útbreiðslu gereyðingarvopna. Í málefnanefndum voru til umræðu skýrslu- og ályktunardrög sem samþykkt voru á þingfundi, auk þess sem ýmsir gestir ávörpuðu fundi nefndanna og svöruðu spurningum þingmanna. Bandaríkjamaðurinn Douglas Bereuter var endurkjörinn í embætti forseta NATO-þingsins. Á fundinum var Guðmundur Árni Stefánsson kjörinn í embætti skýrsluhöfundar undirnefndar félagsmálanefndar NATO-þingsins sem fjallar um lýðræðislega stjórnarhætti. Þá tilkynnti Íslandsdeildin að Alþingi yrði gestgjafi ársfundar NATO-þingsins haustið 2007.
    Á fundi stjórnmálanefndar voru til umræðu skýrslur um aðgerðir til að styrkja Atlantshafsstrenginn í kjölfar Íraksstríðsins, lærdóminn og ályktanir þær sem draga mætti af Íraksstríðinu, viðhorf til öryggismála beggja vegna Atlantsála og framlag Evrópu til NATO og framlag NATO til stöðugleika í Mið- og Austur-Evrópu. Afgreiddi nefndin eina ályktun sem vísað var til þingfundarins og fjallaði um Atlantshafsstrenginn í kjölfar Íraksstríðsins. Fundinn ávörpuðu þeir: Gregory Treverton, sérfræðingur hjá RAND-stofnuninni í Bandaríkjunum, sem fjallaði í erindi sínu um eftirmál Íraksstríðsins með tilliti til samstarfs Evrópuríkja og Bandaríkjanna í baráttunni gegn skipulegri hryðjuverkastarfsemi, George Perkovich, forstöðumaður hjá Carnegie-friðarstofnuninni, sem fjallaði um færar leiðir til að sporna við auknum ágangi útlagaríkja, Nicholas Burns, sendiherra Bandaríkjastjórnar hjá Atlantshafsbandalaginu, sem fjallaði um samskipti Bandaríkjanna og Evrópuríkja innan NATO og helstu áherslur Bandaríkjanna í Atlantshafssamstarfinu, og John C. Hulsman, sérfræðingur hjá Heritage-stofnuninni, sem ræddi um hvernig brúa mætti bilið milli Bandaríkjanna og Evrópu í kjölfar Íraksstríðsins.
    Í máli Trevertons kom fram að samskipti Bandaríkjanna og Evrópuríkja hefðu ekki verið jafnstirð og nú frá því í heimsstyrjöldinni síðari. Taldi hann að jafnvægi Evrópu hefði raskast með stækkun NATO og ESB og með hinni sameiginlegu mynt og áherslunni á sambandsríki Evrópu. Sagði hann að Evrópubúar og Bandaríkjamenn hefðu ekki sömu heimssýn um þessar mundir og að það kynni að vera hættulegt stöðugleikanum sem gætt hefði í samskiptunum yfir hafið. Rakti hann ýmis dæmi máli sínu til stuðnings og dró upp nokkuð dökka mynd af framtíð Atlantshafsstrengsins. Miklar umræður urðu eftir erindi Trevertons og Frakkar og Þjóðverjar voru áberandi nokkuð gagnrýnir á þá sýn sem framsögumaður veitti á alþjóðamál líðandi stundar. Því næst tók til máls George Perkovich sem sagði í erindi sínu að hugtakið „útlagaríki“ kallaði á nánari skilgreiningu sem tæki mið af þeim sértæku herfræðilegu og pólitísku ógnum sem hvert slíkra ríkja ylli. Taldi hann að hvert ríki væri háð eigin forsendum og þyrfti að meðhöndlast á sértækan hátt. Orðræða á borð við „öxulveldi hins illa“ væri því gagnslítil og beinlínis skaðleg ef markmiðið ætti að vera að sporna við áhrifamætti slíkra útlagaríkja. Ræddi hann um stefnu Bandaríkjanna og Evrópuríkja gagnvart Írak, Íran og Norður-Kóreu og lagði áherslu á að Evrópuríkin mættu ekki hlaupast undan ábyrgð hvað hin tvö síðarnefndu varðaði. Þá sagði hann þessi ríki ekki þau einu sem sýndu útlagatilburði, Líbýa, Sádi-Arabía og ekki síst Pakistan væru ríki sem NATO-þjóðirnar yrðu að einbeita sér að á næstunni. Mikil nauðsyn væri á því að aðildarríki NATO mótuðu stefnu sem miðaði að því að hindra mögulegar ógnir sem af þessum ríkjum gæti hugsanlega stafað. Ræddi hann sérstaklega um framtíð Pakistan sem hann taldi vera knýjandi spurningu sem bandalagið í heild sinni yrði að búa sig undir að svara. Í umræðum virtist vera nokkuð mikill samhljómur um að greining Perkovich væri réttmæt og komu fram nokkrar áhyggjur af framtíðarþróun í Pakistan. Þá beindust umræður að nokkru leyti að því hvort hernaðaraðgerðir í forvarnaskyni hefðu tekið við af fælingarkenningunni sem meginstoð bandarískrar öryggisstefnu í valdatíð Bush-stjórnarinnar og hlutverki Sameinuðu þjóðanna í breyttri heimsmynd. Þriðji framsögumaður fundar stjórnmálanefndarinnar var Nicholas Burns, sendiherra Bandaríkjastjórnar hjá NATO. Sagði hann að árið 2003 hefði verið afar erfitt hvað samskiptin yfir hafið varðaði. Hins vegar væru flestöll deilumálin nú að baki og að sátt ríkti um hvert stefna bæri. Sagði hann að fimm umfangsmiklar breytingar væru í vændum innan bandalagsins sem vörðuðu hlutverk þess, varnarviðbúnað, aðild, samstarfsríkin og síðast en ekki síst samskiptin við ESB. Breytingar þessar ættu sér stað á sama tíma og sjónir bandalagsins beindust æ meir og lengra í austurátt, til Miðausturlanda, Mið-Asíu, Íraks, Norður-Afríku og Afganistan. Sagði hann að mikið lægi undir að aðildarríkin leituðu allra mögulegra leiða til að jafna út hinn gríðarlega mun á hernaðarútgjöldum og hernaðargetu milli Bandaríkjanna og Evrópu. Önnur mikilvæg úrlausnaratriði á næstu missirum væru hve fáum hersveitum Evrópuríkin geta beitt á sérhverjum tíma og ósveigjanleiki þeirra, takmarkanir opnunarstefnunnar (open- door policy) gagnvart fyrrverandi Varsjárbandalagsríkjum, og umræður um sjálfstæðar höfuðstöðvar herafla ESB. Þá vék Burns nokkrum orðum að verkefnum NATO í Afganistan á vegum ISAF og fagnaði því hve árangurinn hefði reynst mikill á stuttum tíma. Sendiherrann lagði mikla áherslu á það í málflutningi sínum að Bandaríkin og Evrópa mættu ekki glata niður þeirri einingu sem einkennt hefði hið nána samstarf innan NATO og að NATO og ESB nytu þeirrar gæfu að starfa náið saman. Hvað Atlantshafsstrenginn varðaði sagði Burns að Bandaríkin mundu hvergi hvika frá áherslu sinni á fjölþjóðlegt samstarf og hygðust beina ríkari sjónum að samstarfinu innan NATO og að Evrópu. Sagði hann að Bandaríkin þyrftu á NATO og Evrópu að halda og með sama hætti bæri Evrópuríkjum skylda til að hafna öllum and-bandarískum hneigðum sem bæri nokkuð í evrópskum fjölmiðlum. Evrópuríkin ættu hvorki að beita ESB gegn Bandaríkjunum né að keppa við Bandaríkin á alþjóðavettvangi. Að lokum sagði Burns að Bandaríkin vonuðust til að Evrópa yrði senn sjálfstæð og öflug. Umræður snerust að megninu til um fyrirætlanir ESB á sviði öryggis- og varnarmála og samskipti þess við Atlantshafsbandalagið. Burns var spurður um álit sitt á málum er varða hugmyndir um ákvæði um sameiginlega varnarskyldu ESB-ríkja, um áætlanir um höfuðstöðvar herdeilda ESB í Tervuren í Belgíu og enn fremur um líkur á því að Bandaríkjamenn drægju úr viðveru herdeilda sinna í Evrópu. Burns svaraði því til að Bandaríkin mundu áfram sem endranær halda í heiðri skuldbindingar sínar samkvæmt Norður-Atlantshafssáttmálanum og ætluðu sér ekki að yfirgefa Evrópu. Þá sagði sendiherrann að Bandaríkin styddu heilshugar Berlín-plús samkomulagið þar sem fram kæmi, með skýrum hætti, að sameiginleg öryggis- og varnarstefna ESB væri ekki gagnstæð NATO né yki hættu á tvíverknaði. Þá svaraði Burns spurningum um Miðjarðarhafssvæðið á þá leið að hann gæti vel séð fyrir sér að líkan í ætt við Samstarf í þágu friðar (Partnership for Peace, PfP) mundi henta vel á því svæði. Að lokum sagði sendiherrann að hvað spennuna í samskiptum Bandaríkjanna og ESB á sviði varnarmála varðaði þá væru „þeir sem græfu undan NATO hinir sömu og græfu undan skuldbindingum Bandaríkjanna í Evrópu“. Meginvandi ESB á sviði öryggis- og varnarmála væri tjáskipta- og upplýsingaskortur. Síðasti fyrirlesari á fundi stjórnmálanefndarinnar var John C. Hulsman, sérfræðingur hjá Heritage-stofnuninni, og sagði hann í erindi sínu að samskiptin yfir Atlantsála hefðu sjaldan eða aldrei verið verri. Stóran hluta skýringarinnar sagði Hulsman vera þann að meiri hluti stjórnmálaelítu Evrópuríkja áliti Bandaríkin vera hluta vandans í alþjóðasamskiptum samtímans, mun fremur en hluta lausnarinnar á hinum fjölmörgu hnattrænu vandamálum sem að steðjuðu. Þá taldi fyrirlesarinn einnig að Evrópubúar mundu í síauknum mæli skilgreina sig sem mótstöðuafl vil Bandaríkin. Miklar og líflegar umræður urðu um erindi Hulsmans.
    Í varnar- og öryggismálanefnd voru til umræðu skýrslur um Íraksstríðið og áhrif þess á NATO, árangur nýrra aðildarríkja NATO, framvinduna í baráttunni við hryðjuverkaógnina, aðgerðir bandalagsins í Írak, breytingar á herafla Bandaríkjanna erlendis, og breytingar á herstjórn NATO og hraðlið NATO. Afgreiddi nefndin ein ályktunardrög, um aðgerðir bandalagsins í Írak, og sendi til þingfundar. Fundinn ávörpuðu þrír gestafyrirlesarar. Fyrstur mælti Richard B. Myers, hershöfðingi og yfirmaður herráðs Bandaríkjanna, sem fjallaði um þær breytingar sem óumflýjanlegar eru innan NATO á næstu árum og áratugum. Í erindinu lagði Myers megináherslu á hve örðugt væri að mæta hinum nýju aðsteðjandi ógnum. Þessi staða kallaði á að bandalagið yrði að vera fært til að mæta þessum marghliða ógnum með afar skömmum fyrirvara. Sýndi Myers fundarmönnum leikið myndband sem sýndi hættuástand er skapaðist þegar eldflaugaárás úr óþekktum kafbáti í Miðjarðarhafi ógnaði stórri evrópskri borg og viðbrögð bandalagsherja við þeirri ógn. Sama myndband hafði verið sýnt á nýliðnum fundi varnarmálaráðherra NATO í Colorado Springs. Myndbandið og erindi Myers kallaði á sterk viðbrögð fundarmanna og sýndi fram á nauðsyn þess að bandalagsherirnir gætu starfað náið saman á grunni samhæfanlegra hergagna og tæknibúnaðar. Þá hélt Ian Brzezinski, varaaðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, erindi sem fjallaði mestum hluta um sýn Bandaríkjastjórnar á framtíð Íraks. Ræddi Brzezinski einnig um breytingarnar á NATO, þ.m.t. hraðliðið, varnir gegn árásum með gereyðingarvopnum og Berlín-plús samkomulag NATO og ESB. Að lokum ræddi Clark Murdock, sérfræðingur hjá Center for Strategic and International Studies, um breytingar á herafla Bandaríkjanna erlendis í ljósi endurskoðaðrar áætlunar varnarmálaráðuneytisins (Quadrennial Defence Review 2001) sem hrint var í framkvæmd í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin.
    Í félagsmálanefnd voru til umræðu skýrslur um almannavarnir í Evrópu, varnir almennings gegn hryðjuverkaógninni, og eiturlyfjasmygl og mansal í Evrópu. Afgreiddi nefndin ályktun um mansal og sendi til meðferðar þingfundar. Fund félagsmálanefndarinnar ávörpuðu þau Ron Castleman, yfirmaður almannavarnadeildar heimavarnaráðuneytis Bandaríkjanna, sem ræddi um úrbætur á sviði almannavarna eftir hryðjuverkin 2001, Tomas W. Raffanello, sérfræðingur alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) í baráttunni gegn eiturlyfjasmygli, James O'Brien, einn forsvarsmanna The Albright Group, sem ræddi stöðu mála í Kosovo-héraði, Rainer Hoffmann, yfirmaður málefna minnihlutahópa hjá Evrópuráðinu, sem ræddi um stöðu rússneska minni hlutans í Eystrasaltsríkjunum, og Barnett Rubin, lektor við New York háskóla, sem ræddi um stöðu mála í Afganistan. Í lok fundarins var Guðmundur Árni Stefánsson kjörinn í embætti skýrsluhöfundar undirnefndar félagsmálanefndar NATO- þingsins sem fjallar um lýðræðislega stjórnarhætti. Á árinu mun skýrsluhöfundur rita skýrslu um smygl og sölu barna í Evrópu sem tekin verður fyrir á vorfundinum í Bratislava og ársfundinum í Rómaborg. Á fundinum var rætt að til öflunar gagna vegna skýrslunnar muni nefndin fara til Moldóvu og Albaníu.
    Í efnahagsnefnd voru til umræðu skýrslur og ályktanir nefndarinnar um hagkerfi Rússlands í forsetatíð Pútíns, aðsteðjandi hættur í Evrópu vegna eiturlyfjasmygls frá Afganistan, viðskipti Bandaríkjanna og Evrópu í kjölfar Doha- og Cancun-samningalotna Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), og samspil efnahags- og öryggismála. Nefndin afgreiddi á fundi sínum ályktun um efnahags- og öryggismál sem vísað var til meðferðar þingfundar. Fundinn ávörpuðu þeir Arvind Panagariya, prófessor við háskólann í Maryland, sem fjallaði um frelsi í alþjóðaviðskiptum, og John Williamson, sérfræðingur við Institute for International Economics, sem fjallaði um bandaríska hagkerfið í tíð Bush-stjórnarinnar.
    Í vísinda- og tækninefnd voru til umræðu skýrslur um hömlur gegn útbreiðslu gereyðingarvopna á 21. öld, og geimvopn og hnattrænt öryggiskerfi. Nefndin afgreiddi ályktunardrög um hömlur gegn útbreiðslu gereyðingarvopna og afstöðu Bandaríkjanna og Evrópu sem send voru þinginu til meðferðar. Fund nefndarinnar ávörpuðu James O. Ellis aðmíráll, sem fjallaði um fyrirætlanir Bandaríkjastjórnar hvað geimvopn varðar, Dennis Gormley, sérfræðingur við Monterrey-stofnunina, sem fjallaði um aukna áherslu á ómönnuð eftirlitsför, og Clayton Mowry, forseti Arianespace, sem sagði frá verkefnum fyrirtækisins á sviði geimvísinda.
    Á fundinum í Orlandó var í þriðja sinn efnt til fundar nýstofnaðrar samstarfsnefndar NATO-þingsins og rússneska þingsins. Nefndin, sem er skipuð fulltrúum þjóðþinga aðildarríkjanna nítján og beggja deilda rússneska þingsins, endurspeglar náinn samstarfsvettvang NATO-ríkjanna og Rússlands. Fundurinn var á almennum nótum en til grundvallar umræðum lá skýrsla um ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum í Mið-Asíu og áhrif þess svæðis á öryggi Rússlands og NATO-ríkjanna.
    Stjórnarnefndarfundurinn fór fram mánudaginn 10. nóvember. Fundurinn hófst á því að forseti þingsins, Douglas Bereuter, fór yfir störfin sem fram undan voru og sagði að svo virtist sem tilmæli stjórnarnefndarinnar undanfarin ár um að fjölda breytingartillagna bæri að stilla í hóf væru að skila árangri. Því næst hélt Simon Lunn, framkvæmdastjóri NATO- þingsins, erindi um störf þingsins og helstu áfanga á næstu árum. Vék hann einnig stuttlega að störfum málefnanefndanna og ítrekaði að forðast bæri á allan hátt að nefndirnar fjölluðu um sömu eða svipuð mál. Þá var umræðum vikið að málefnum Aserbaídsjan, sem var, ásamt Armeníu, veitt áheyrnaraðild að NATO-þinginu á ársfundinum í Istanbúl 2002. Sagði forsetinn að samstarfið við Asera hefði verið ágætt en hins vegar gæfu niðurstöður nýlegra forsetakosninga og framkvæmd þeirra tilefni til áhyggna. Ástand mála í Georgíu ylli einnig miklum áhyggjum og ræddi Bereuter um á hvern hátt NATO-þingið gæti beitt sér í málinu. Nokkrir urðu til þess að ræða málefni áheyrnaraðildarríkjanna og sagði m.a. hollenski þingmaðurinn Bert Koenders að það hefðu verið mistök að veita Aserbaídsjan áheyrnaraðild á síðasta ári og tóku margir undir þau sjónarmið. Niðurstaðan varð sú að forseti þingsins mundi senda stjórnvöldum í Georgíu, Aserbaídsjan og Armeníu bréf þar sem áhyggjum væri lýst og þau hvött til að fylgja lýðræðislegum háttum í hvívetna. Þá var vikið að samskiptum NATO við Rússland og þá sérstaklega samskiptum þjóðþinganna. Forsetinn sagði að mikill árangur hefði náðst í samstarfsnefnd NATO-þingsins og rússneska þingsins og kom með þá tillögu að sameiginleg eftirlitsnefnd NATO-þingsins og rússneska þingsins yrði lögð niður og samstarfsnefndin tæki við skuldbindingum hennar. Nokkrir þingmenn tóku undir þetta en Peter Viggers, formaður stjórnmálanefndarinnar og eftirlitsnefndarinnar, minnti á að innan eftirlitsnefndarinnar hefðu verið unnin mikilvæg störf og að hætta væri á að sú starfsemi mundi minnka ef samstarfsnefndin tæki við. Næstur tók til máls franski þingmaðurinn Pierre Lellouche sem sagði að það ylli sér verulegum áhyggjum hve lítið afstaða Rússa hefði breyst í alþjóðlegu samstarfi frá því fyrir lok kalda stríðsins. Enn væri NATO-þingið og önnur fjölþjóðasamtök að fást og kljást við sömu aðila og ríktu á Sovéttímanum og að sama hugarfarið réði ríkjum. Nokkrar umræður urðu um þetta og samhljómur var um að væntingar Rússa í samskiptum sínum við NATO væru e.t.v. of miklar. Aðrir, t.a.m. pólski þingmaðurinn Longin Pastusiak, voru á þeirri skoðun að í rússnesku sendinefndinni væru að öllum líkindum fulltrúar sem aðhylltust ekki mjög hófsamar skoðanir og að NATO-þingið gæti hugsanlega komið þeim skilaboðum á framfæri við stjórn rússneska þingsins. Slíkt væri væntanlega mun líklegra til árangurs. Þá héldu formenn málefnanefnda og undirnefnda þeirra framsögur um störfin á næstunni og ferðir þær sem áætlaðar hefðu verið. Að því loknu reifaði forsetinn hugmyndir um að bæta þyrfti þingsköp NATO-þingsins til að taka mið af hinum aukna fjölda fulltrúa þjóðþinga aðildarríkja samfara stækkun NATO. Fyrirsjáanlegt væri að vandi mundi skapast með tilliti til fjölda embætta varaformanna og annarra trúnaðarstaða ef breytingar yrðu ekki gerðar til að taka mið af nýju ríkjunum sjö. Í lok fundarins var rætt um fundarvettvang NATO-þingsins á næstu missirum og árum. Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Íslandsdeildar, tilkynnti að Alþingi hefði ákveðið að bjóða NATO-þinginu að halda ársfund sinn í Reykjavík árið 2007. Var rausnarlegu boði Alþingis fagnað af fundarmönnum.
    Hinn eiginlegi þingfundur fór fram þriðjudaginn 11. október að viðstöddum á áttunda hundrað manns. Fundinn ávörpuðu þeir Jeb Bush, ríkisstjóri Flórída, George Robertson lávarður, framkvæmdastjóri NATO, sem ávarpaði NATO-þingið í síðasta sinn í starfi sínu, John A. Gordon, ráðgjafi Bandaríkjaforseta í málefnum er varða heimavarnir, og Marc Grossman, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna. Hinir þrír síðastnefndu svöruðu spurningum þingmanna. Í umræðum um erindi Grossmans spurði Guðmundur Árni Stefánsson um afstöðu Bandaríkjamanna til þess hvort og í hvaða mæli Atlantshafsbandalagið eigi að beita sér í deilunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Grossman svaraði því til að þessi mál væru til sífelldrar skoðunar án þess að víkja sérstaklega að hugsanlegum þætti NATO. Sagði hann að það hefði komið skýrt fram í málflutningi forsetans að framtíðarlausnin væru tvö sjálfstæð og fullvalda ríki en að til að svo mætti verða yrðu Palestínumenn að taka á hryðjuverkavandanum. Því næst var efnt til kjörs forseta, varaforseta og gjaldkera þingsins. Douglas Bereuter var sjálfkjörinn í embætti forseta og ítalski þingmaðurinn Giovanni Lorenzo Forcieri, Frakkinn Pierre Lellouche, Pólverjinn Longin Pastusiak og Bandaríkjamaðurinn John Tanner voru kjörnir í embætti varaforseta. Þjóðverjinn Lothar Ibrügger var endurkjörinn gjaldkeri þingsins. Þá tilkynnti forsetinn að ráðningarsamningur þingsins við Simon Lunn hefði verið endurnýjaður af stjórnarnefndinni og rynni út í lok árs 2007. Því næst tók þingheimur til meðferðar ályktanir málefnanefnda NATO-þingsins sem voru alls fimm talsins. Í umræðum um ályktun stjórnmálanefndarinnar um aðgerðir til að bæta Atlantshafsstrenginn í kjölfar Íraksstríðsins hélt Guðmundur Árni Stefánsson ræðu og sagði það mál vera hið mikilvægasta og mest knýjandi í seinni tíð. Sagðist hann þó sannfærður um, miðað við umræður undangenginna daga á NATO-þinginu, að NATO-ríkin beggja vegna Atlantsála næðu að brúa þá gjá sem myndast hefði á umliðnum mánuðum en hinu mætti þó ekki gleyma að staðan í Írak væri enn afar vandasöm og hættuleg. Sagðist Guðmundur Árni hafa áhyggjur af stöðunni, sérstaklega ef hugað væri að undirbúningi aðgerða í Írak. Taldi þingmaðurinn að ef alþjóðasamfélagið, og þá sérstaklega NATO-ríkin, hefði borið gæfu til að ræða ágreiningsefnin á opinskáan hátt hefði að öllum líkindum verið unnt að koma í veg fyrir mörg hinna afdrifaríku mistaka sem gerð hefðu verið. Í húfi væri framtíð Atlantshafsbandalagsins, skilvirkustu varnarsamtaka veraldar. Sagði hann enn fremur að framlag NATO-þingsins hefði líklega aldrei verið eins mikilvægt og nú um stundir og að þingmönnum sem þar sætu bæri skylda til að tryggja öryggi þjóða sinna með því að beita áhrifum sínum í þá veru að brúa gjána sem myndast hefði. Að lokum bauð Guðmundur Árni fulltrúa NATO-þingsins velkomna til Íslands haustið 2007.

e.    Transatlantic Forum NATO-þingsins.
    Dagana 8. og 9. desember efndi NATO-þingið og Atlantshafsráð Bandaríkjanna, ásamt National Defence University, til fundar um helstu málefni Atlantshafssamstarfsins í Washington D.C. – fundurinn nefnist Transatlantic Forum. Fundurinn fór fram í húsakynnum National Defence University í McNair-virki í Washington og var þetta í þriðja sinn sem slíkur fundur var haldinn. Þátttakendur voru þingmenn nokkurra aðildarríkja og aukaaðildarríkja NATO-þingsins auk embættismanna og sérfræðinga í alþjóðamálum. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Guðmundur Árni Stefánsson varaformaður og Magnús Stefánsson, auk Andra Lútherssonar ritara. Þá sótti Auðunn Atlason, sendiráðunautur við sendiráð Íslands í Washington D.C., fundinn. Segja má að megintilgangur Transatlantic Forum sé að gera fulltrúum NATO-þingsins kleift að ræða sameiginleg málefni er varða öryggi og varnir Evrópu og Bandaríkjanna við þá aðila í bandaríska stjórnkerfinu sem næst eru ákvarðanatökuferlinu. Þátttaka hefur verið afar góð á þessum fundum og umræður hreinskiptnar og upplýsandi. Fundurinn var skipulagður á þann hátt að nokkur svið alþjóðamála sem hátt hafði borið á undangengnum missirum voru tekin fyrir. Þar má nefna varnarviðbúnað og hernaðargetu, hættuástandsstjórnun, friðargæslu, baráttuna gegn hryðjuverkastarfsemi og helstu málefni leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins í Istanbúl vorið 2004. Tilhögun fundanna var sú að bandarískir sérfræðingar héldu framsögur um málefnin og sátu svo fyrir svörum þingmanna og annarra þátttakenda á fundinum. Sú regla hefur verið viðhöfð á þessum fundum að ekki er vísað beint í ummæli tiltekinna framsögumanna eða þingmanna.
    Framsögumenn á fundinum voru James Steinber, sérfræðingur hjá Brookings-stofnuninni, Gary Schmitt, sérfræðingur við stofnunina Project for the New American Century, James Townsend, frá NATO og Evrópumálaskrifstofu bandaríska varnarmálaráðuneytisins, Montgomery C. Meigs, fyrrum herforingi og prófessor við Lyndon B. Johnson School of Public Affairs, Frederick D. Barton, ráðgjafi í alþjóðaöryggismálum við Center for Strategic and International Studies, dr. Seth Carus, aðstoðarforstöðumaður rannsóknastofnunar National Defence University í málefnum gereyðingarvopna, Art Cummings, sérfræðingar hjá alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI), Robert E. Hunter, fyrrum sendiherra Bandaríkjastjórnar hjá NATO og sérfræðingur hjá RAND-stofnuninni, Jeffrey Simon, sérfræðingur hjá National Defence University, Dan Fried, deildarstjóri hjá þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna, og Jim Hoegland, dálkahöfundur á dagblaðinu Washington Post.
    Þingmenn og framsögumenn frá öllum NATO-ríkjunum virtust vera sammála um að leita bæri allra leiða til að styrkja Atlantshafsstrenginn eftir erfitt ár í samskiptunum yfir hafið. Almennt var álitið að tónninn í samskiptunum væri að mildast og fylgja þyrfti því eftir beggja vegna Atlantsála. Bent var á það að þrátt fyrir fyrirferðarmikla umræðu um að gjáin milli Bandaríkjanna og Evrópu væri orðin nær óbrúanleg og að mikið bæri í milli hvað varðaði framtíðarsýn sömu aðila til alþjóðasamskipta, þá sýndu rannsóknir meðal kjósenda bæði í Bandaríkjunum og Evrópu að viðhorf almennings beggja vegna Atlantshafsins væri í nær engu frábrugðin er kæmi að alþjóðamálum almennt og öryggismálum sérstaklega. Þá sýndu niðurstöður með óyggjandi hætti að almenningur væri á þeirri skoðun að Bandaríkin og Evrópa deildu með sér sömu lífsgildum. Þar fyrir utan væru Evrópubúar metnir sem helstu bandamenn Bandaríkjanna og að hefð væri fyrir skilvirku samstarfi. Það sama átti við í niðurstöðum rannsókna í Bandaríkjunum um afstöðuna til Evrópu. Á hinn bóginn væru sviptingar í samskiptum Bandaríkjanna og Evrópu óumflýjanlegar. Var rætt um að í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin hefðu bandarísk stjórnvöld afráðið að aðgerðaleysi byði heim meiri hættu en að beita hervaldi en á sama tíma hefðu Evrópubúar verið afhuga beitingu hervalds. Þá hefðu Bandaríkjamenn verið tortryggnir í garð Evrópu og talið að afstaða Evrópubúa kynni að endurspeglast í sameiginlegri öryggis- og varnarmálastefnu ESB. Bandaríkjamenn hefðu lengi verið mjög áfram um að Evrópusambandsríkin bættu við hernaðargetu sína en voru uggandi um að framkomnar tillögur um þróun öryggis- og varnarmálastefnunnar kynnu að valda óþarfa tvöföldun herstjórnar og að hugsanlegar sameiginlegar varnarskuldbindingar ESB-ríkja í stjórnarskrá sambandsins mundu grafa undan stuðningi Norður-Ameríkuríkja við Atlantshafssáttmálann. Þingmenn Evrópuríkja sem til máls tóku fögnuðu áframhaldandi stuðningi Bandaríkjamanna við ESB og NATO en sumir þeirra lýstu þó nokkrum áhyggjum af því að Bandaríkin kynnu að nota Atlantshafsbandalagið í meira mæli sem vettvang til að afla liðsmanna í „bandalag viljugra ríkja“ í hvert sinn sem hættur steðji að. Töldu þeir að hættan á því hefði aukist mjög í kjölfar þess að NATO beitti V. gr. stofnsáttmálans í fyrsta sinn hinn 12. september 2001 og voru á þeirri skoðun að hernaðaraðgerðir þær sem farið var út í gegn Talibönum í Afganistan og hryðjuverkasamtökunum al Qaeda hefðu átt að vera undir merkjum NATO. Framsögumenn voru að hluta til sammála þessu mati og töldu að meira hefði mátt gera úr beitingu V. gr. Þá urðu nokkrir þeirra til að gagnrýna stefnu bandarískra stjórnvalda um að fara út í einhliða aðgerðir en jafnframt kom fram á fundinum að innan bandaríska stjórnkerfisins hefðu ákveðnir lærdómar verið dregnir og að stjórnin væri nú mun hallari undir samstarf ríkja. Í þessu tilliti var bent á að allar forsendur hefðu verið til staðar til að aðgerðir í Afganistan (e. Operation Enduring Freedom) undir merkjum bandalagsins þrátt fyrir að sum aðildarríkin hefðu verið á móti stríðsaðgerðunum.
    Á fundinum kom fram að ein helsta ástæða þess að Bandaríkjastjórn hefði verið jákvæðari í garð Atlantshafsbandalagsins á síðustu missirum væru ákvarðanirnar sem teknar voru á leiðtogafundinum í Prag haustið 2002, auk þeirra aðgerða sem í kjölfarið komu, svo sem yfirfærsla friðargæslu í Afganistan (ISAF) til bandalagsins og aðstoð við áætlanagerð þess fyrir pólskar herdeildir í Írak. Samhljómur var meðal fundarmanna um að þessar ákvarðanir hefðu leitt til þess að spurningunum um hvort, hvenær og hvar NATO gæti beitt sér utan hins skilgreinda NATO-svæðis hefði nú endanlega verið svarað. Þá hefðu ákvarðanirnar og aðgerðir í kjölfar þeirra hrundið af stað úrbótum á ýmsum sviðum sem hefðu það að markmiði að auka hernaðargetu bandalagsins svo að það geti spornað við hryðjuverkavánni. Á fundinum var því fagnað að NATO hefði sýnt ríkan vilja til að takast á hendur verkefni utan hins skilgreinda NATO-svæðis og að þróa búnað og vinnuferla með það fyrir augum að sem best verði staðið að framkvæmd slíkra verkefna. Höfðu menn á orði að NATO ætti í auknum mæli að beita sér í málefnum „Stór-Miðausturlanda“ (e. Greater Middle East, sem er hugtak sem æ oftar er notað yfir svæðið sem markast af Norður-Afríku í vestri, Afganistan í austri, Kákasus í norðri og Persaflóaríkjunum í suðri) í ljósi þess að vestrænum samfélögum stafaði mest ógn frá því svæði og að Atlantshafsbandalagsríkin yrðu að endurhugsa leiðir til að stemma stigu við þeim ógnum. Sérstaklega var rætt um að byggja á afar farsælli reynslu af Samstarfi í þágu friðar (e. PfP, Partnership for Peace) og Miðjarðarhafssamstarfi NATO og víkka það út til fleiri ríkja á svæðinu með það fyrir augum að auka samstarf og skapa grundvöll fyrir lýðræðislegum umbótum. Margir ræddu um að gæta þyrfti mikillar varkárni hvað íhlutun NATO á Stór-Miðjarðarhafssvæðinu varðaði en að sama skapi voru bandarískir fundarmenn á því máli að aukinna samskipta og hugsanlega íhlutunar væri þörf. Tóku sumir þeirra svo djúpt í árinni að lífvænleiki NATO byggðist að hluta til á því að samstaða næðist um hlutverk bandalagsins á svæðinu.
    Á fundinum ríkti mikil samstaða um að heimsfriðnum stafaði mest ógn af hryðjuverkastarfsemi og útbreiðslu gereyðingarvopna nú um stundir. Framsögumenn ræddu um að fram að hryðjuverkaárásunum 11. september hefðu stjórnvöld fjallað um þessar ógnir sem aðskilin málefni en í kjölfar árásanna hefðu líkindin á því að hryðjuverkahópar nýttu sér hvers kyns gereyðingarvopn aukist til muna og því væri leitast við að haga viðbúnaði í samræmi við það. Mesta hættan væri sem endranær að hryðjuverkamenn notuðu hefðbundna árásartækni en þó væru leyniþjónustustofnanir fullvissar um að hópar á borð við al Qaeda leituðu eftir vopnum sem yllu miklu mannfalli. Hvað gereyðingarvopnin varðaði væri hættan á útbreiðslu lífefnavopna einna mest knýjandi. Kæmi þar tvennt aðallega til, annars vegar væri tæknibúnaður til framleiðslu slíkra efna orðinn mjög aðgengilegur og hins vegar að með beitingu lífefnavopna væri unnt væri að valda stórfelldu mannfalli með fremur lítilli fyrirhöfn. Væri það því stefna Bandaríkjastjórnar að efla mjög varnarviðbúnað á því sviði. Þar með væri þó ekki sagt að varnarviðbúnaður vegna annarra gereyðingarvopna sæti á hakanum því að aukin áhersla væri á slíkar aðgerðir í sambandi við öll hugsanleg gereyðingarvopn, ekki síst með tilliti til kjarnavopna, en á því sviði hefði lítið gerst frá lokum kalda stríðsins. Þá var nokkuð rætt um hömlur á útbreiðslu gereyðingarvopna og var það álit framsögumanna að geta alþjóðasamfélagsins til að stemma stigu við þeirri vá mundi að miklu leyti taka mið af þeim vandamálum sem nú væri við að glíma, þ.e. staða mála í Íran og Norður-Kóreu. Ef alþjóðakerfið næði ekki tilskildum árangri og ef tiltekin ríki kæmust upp með að hunsa eftirlit alþjóðastofnana, þá yrði lítið sem stæði í veginum fyrir stjórnvöldum sem staðráðin væru að koma sér upp gereyðingarvopnum. Nokkuð var rætt um baráttuna gegn skipulegri hryðjuverkastarfsemi og kom fram hjá fundarmönnum að ákaflega mikill árangur hefði náðst í milliríkjasamvinnu frá því að ráðist var á Bandaríkin 2001. Meginmarkmiðið nú væri alþjóðlegt forvarnastarf og nefndu bandarísku framsögumennirnir mörg dæmi um náið samstarf Bandaríkjanna við bandamenn sína í tilteknum málum. Kom fram að þessi samvinna tæki á sig ýmsar myndir og að hefðbundinni verkaskiptingu á milli mismunandi stjórnarstofnana (leyniþjónustu, rannsóknaraðila, efnahagsbrotadeilda og saksóknaraembætta) hefði á tíðum verið ýtt til hliðar með afar góðum árangri. Almenn samstaða var um þessi mál meðal fundarmanna þótt ljóst væri að menn voru ekki á eitt sáttir um stöðu fanga Bandaríkjastjórnar í herstöðinni við Guantanamo-flóa.
    Rætt var um að yfirstandandi umbreytingaferli NATO hefði hafist formlega á leiðtogafundinum í Prag en jafnframt að á vorfundinum í Istanbúl yrðu umbreytingarnar formfestar og aðgerðabundnar enn frekar. Þá yrði eitt meginmarkmiðanna að endurskapa eininguna sem einkennt hefði starf NATO á síðasta áratug. Í þessu tilliti var aftur bent á að afar mikilvægt yrði fyrir árangur fundarins og lífvænleika bandalagsins að sýnt yrði fram á vilja þess til að beita sér í málefnum Stór-Miðausturlanda. Þá yrði að sýna fram á árangur á öðrum sviðum, t.a.m. í tengslum við hraðsveitir NATO og þá ekki síður skuldbindingar evrópsku aðildarríkjanna til að auka útgjöld í varnarmálum. Hraðsveitir bandalagsins væri aðeins einn þáttur aukinna skuldbindinga. Þá var einnig áhugaverð umræða um ákvarðanatökuferlið innan NATO. Hvorki þingmenn né framsögumenn gátu bent á aðra betri leið en samstöðuregluna sem gilt hefði innan bandalagsins frá upphafi. Þá var nefnt að með auknum fjölda aðildarríkja og nýjum verkefnum yrði rík þörf á því að taka ákvarðanir skjótt. Nauðsyn krefði t.a.m. að unnt yrði að beita hraðsveitum fyrirvaralítið, ekki væri nægilegt að hafa á að skipa hersveitum og búnaði sem beita mætti með litlum fyrirvara ef ákvarðanatökuferlið væri svifaseint. Á það var bent að hugsanlega hefði nú runnið upp sá tími að bandalagið yrði að ræða um tvívíddarþróun sína, þ.e. annars vegar um þróun og uppbyggingu á hernaðarsviðinu með tilkomu hraðsveita og búnaðar sem hentaði núverandi öryggis- og varnarþörfum og hins vegar um þróun hinnar pólitísku víddar þar sem leitast væri við að brúa þá gjá sem myndast hefði milli Evrópu og Bandaríkjanna. Ræða þyrfti færar leiðir til að beita bandalaginu í Stór-Miðausturlöndum og um úrbætur á ákvarðanatökuferlinu innan bandalagsins. Almennt má segja að ríkt hafi nokkur bjartsýni um árangur Istanbúl-fundarins. Voru menn á því að ágreiningsefnin hefðu ekki vikið úr vegi en að þau væru hins vegar ekki eins áberandi og fyrir nokkrum mánuðum.
    Almennt má segja að niðurstaða fundarins hafi verið sú að ágreiningur muni áfram verða uppi meðal bandalagsríkjanna líkt og verið hefur allt frá stofnun NATO, þótt í mismiklum mæli hafi verið. Hins vegar þótti ljóst að bandamenn hefðu komist yfir einn erfiðasta hjallann á vegferð Atlantshafsbandalagsins fyrri hluta ársins 2003. Veigamiklum ákvörðunum leiðtogafundarins í Prag hefði þegar verið hrundið í framkvæmd og þar með hefði mikið umbreytingaskeið hafist í samstarfi Atlantshafsríkja gegn nýjum ógnum á nýrri öld. Álitið var að framtíð og lífvænleiki bandalagsins réðist af því hvernig aðildarríkjunum farnaðist í að uppfylla skuldbindingar sínar sem markaðar voru í Prag og verða frekar útfærðar á komandi leiðtogafundi í Istanbúl. Trúverðugleiki bandalagsins og pólitísk eining aðildarríkjanna væri undir því komin hvernig bandalagið nálgaðist fjölmörg knýjandi málefni á sviði öryggis- og varnarmála í umhverfi bandalagsríkjanna. Þá mundu hin sjö nýju aðildarríki bandalagsins, sem ganga munu formlega í NATO á fundinum í Istanbúl, stuðla að meiri styrk og auknum sveigjanleika. Framtíðarverkefni bandalagsins eru mörg og brýn. Eitt helsta verkefnið er að ákvarða hvernig tekið verði á málefnum Stór-Miðausturlanda. Ljóst þykir að allir eru á einu máli um þörfina á að breikka og dýpka samstarf við ríkin sunnan og austan við Evrópu en á hinn bóginn kann að verða ágreiningur um með hvaða hætti bandalagið beiti pólitískum og hernaðarlegum styrk sínum á svæðinu. Annað verkefni sem brýn þörf þykir á að leysa er sambandið og samstarfið við Evrópusambandið. Bandalagsríkjunum beri að tryggja skilvirkt samstarf við ESB sem byggi á þeirri forsendu að stofnanirnar bæti hvor aðra upp í stað þess að samkeppni ríki á sviði evrópskra öryggis- og varnarmála. Náið og farsælt samstarf ESB og NATO er lykillinn að því að árangur náist í að vinna bug á ógnum sem steðja bæði að Norður-Ameríku og Evrópu. Ljóst þykir af umræðum á fundi NATO-þingsins í Washington að umfjöllun um þessi mál og önnur brýn mál muni verða mun hófstilltari á næstu mánuðum en raunin var á árinu 2003.

f.    Nefndafundir.
    Alls tóku fulltrúar Íslandsdeildarinnar þátt í fjórum nefndafundum utan venjubundinna þingfunda NATO-þingsins, febrúarfundanna svonefndu og Transatlantic Forum NATO- þingsins í Washington. Guðmundur Árni Stefánsson varaformaður sótti fund í eftirlitsnefnd NATO-þingsins í málefnum Úkraínu sem efnt var til í Brussel í byrjun mars. Þá fór hann í ársferð NATO-þingsins sem var á Ítalíu í lok ágústmánaðar og sótti fund Miðjarðarhafshópsins í Malaga í byrjun október. Guðmundur Árni Stefánsson og Magnús Stefánsson sóttu, auk ritara, Transatlantic Forum NATO-þingsins sem haldið var í Washington í byrjun desember.

Alþingi, 20. febr. 2004.



Guðmundur Árni Stefánsson,


varaform.


Magnús Stefánsson.


Einar Oddur Kristjánsson.




Fylgiskjal I.

Ályktanir NATO-þingsins árið 2003.


Ársfundur í Orlandó 7.–11. nóvember:
          ályktun nr. 323, um mansal,
          ályktun nr. 324, um aðgerðir bandamanna í Írak,
          ályktun nr. 325, um efnahagsþróun og öryggismál,
          ályktun nr. 326, um aðgerðir til að bæta Atlantshafsstrenginn í kjölfar Íraksstríðsins,
          ályktun nr. 327, um hömlur gegn útbreiðslu gereyðingarvopna á 21. öld.



Fylgiskjal II.

Almennt um NATO-þingið.

    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hafa allt frá árinu 1955 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða sameiginleg hagsmunamál og áhyggjuefni. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðasta áratug fjölgaði aðildar- og aukaaðildarríkjum á þinginu og hefur starfssvið þess því verið víkkað til móts við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Sextán ný lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja hafa nú aukaaðild að þinginu (auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands) sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu sem beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild og efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Með Rose-Roth áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í þessum ríkjum (sjá nánar í b-lið).

a.    Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu, en með tímanum jókst skilningur manna á því að nauðsyn væri á einhvers konar skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við og til stuðnings Atlantshafsbandalaginu (NATO). Þingið hefur því enga formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að upplýsa þingmenn og efla samstöðu þjóðþinga á milli. Þingið gerir þingmönnum aðildarríkja bandalagsins, og nú einnig þingmönnum ríkja Mið- og Austur-Evrópu, kleift að koma á framfæri áhuga- og áhyggjuefnum ríkja sinna og skiptast á viðhorfum í ýmsum löndum og svæðum til mikilvægra sameiginlegra hagsmunamála. Fulltrúar á þingið eru kjörnir af þjóðþingum með aðferðum sem þjóðþingin ákveða. Þar endurspeglast því afar breitt svið pólitískra skoðana. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti. Fundir eru haldnir í aðildar- og aukaaðildarríkjunum til skiptis í boði þjóðþinganna.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum, stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, félagsmálanefnd, efnahagsnefnd, og vísinda- og tækninefnd. Þessar nefndir eru bæði vinnuhópar og meginvettvangur umræðna. Þær rannsaka og fjalla um samtímamál er koma upp á starfssviði þeirra. Óski nefnd þess að gera ítarlega rannsókn á tilteknu máli getur hún kosið undirnefnd eða komið á fót vinnuhópi til að afla um það upplýsinga. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tillagna, yfirlýsinga eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tillögum er beint til Norður-Atlantshafsráðsins og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða en ályktunum þingsins er beint til ríkisstjórna aðildarríkja.
    Þótt þingið sé óháð Atlantshafsbandalaginu hafa samskipti þingsins við bandalagið, sem fyrr segir, smám saman tekið á sig fastara form og meðal formlegra samskipta má nefna formlegt svar við tillögum þingsins af hálfu framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Atlantshafsráðsins, ávarp framkvæmdastjóra bandalagsins á vorfundum og ársfundum þingsins, aukafundi nefnda í Brussel í febrúarmánuði ár hvert, til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO, SHAPE (Supreme Headquarters Allied Powers in Europe C æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og einnig Evrópusambandsins og loks fundi forustumanna í þinginu og Atlantshafsráðsins til gagnkvæmra skoðanaskipta.

b.    Samskiptin við ríki Mið- og Austur-Evrópu.
    Eins og Atlantshafsbandalagið sjálft hefur þingið endurskoðað hlutverk sitt í ljósi mikilla breytinga á alþjóðavettvangi. Þótt enginn vafi leiki á þörf fyrir bandalagið og hið einstæða samband sem það felur í sér milli þjóða beggja vegna Atlantsála er þörf breytinga til aðlögunar að nýjum aðstæðum sem skapast hafa. Umfram allt kallar þetta á þróun fyrirkomulags í öryggismálum sem byggist á samvinnu og umræðum fremur en árekstrum. NATO þingið (þá Norður-Atlantshafsþingið) hóf tilraunir til að koma á samskiptum við þjóðir Mið- og Austur-Evrópu árið 1987. Það var þó ekki fyrr en í nóvember 1990, á ársfundi í Lundúnum, að samskiptum þessum var komið í fastara form er þjóðþing Búlgaríu, Tékkóslóvakíu (nú Tékklands og Slóvakíu), Ungverjalands, Póllands og fyrrverandi Sovétríkjanna (nú Rússlands) fengu aukaaðild að þinginu. Síðan þá hafa þjóðþing Albaníu, Georgíu, Hvíta- Rússlands, Eistlands, Lettlands, Litháens, Moldóvu, Rúmeníu, Slóveníu, Úkraínu, Króatíu, Armeníu og Aserbaídsjan fengið aukaaðild að þinginu. En auk þessara Mið- og Austur- Evrópuríkja eiga Austurríki, Sviss, Svíþjóð og Finnland aukaaðild að NATO-þinginu. Mikilvægi aukaaðildarinnar felst í því að hún veitir löggjöfum ríkjanna tækifæri til að taka virkan þátt í störfum þingsins.
    Þingið hefur einnig átt frumkvæði að öðrum áætlunum er varða Mið- og Austur-Evrópu. Í samræmi við áætlun sem sett var fram árið 1991 af tveimur bandarískum þingmönnum og nú fyrrverandi forsetum Norður-Atlantshafsþingsins, þeim Charlie Rose og William V. Roth Jr., beinir NATO-þingið nú kröftum sínum í ríkum mæli að því að efla þróun þingræðis í Mið- og Austur-Evrópu. Meginþátturinn í Rose-Roth áætluninni er röð námstefna og ráðstefna þar sem fjallað er um sérstök vandamál Mið- og Austur-Evrópulanda þar sem reynsla og þekking þingfulltrúa kemur að gagni og þingið getur lagt mikið af mörkum vegna sérstöðu sinnar sem fjölþjóðlegur umræðuvettvangur. Margar þessara námsstefna fjalla beint eða óbeint um samskipti hers og borgaralegra stjórnvalda, einkum um lýðræðisleg yfirráð yfir herafla. Þeim er ætlað að miðla upplýsingum og sérþekkingu sem nauðsynleg er til þess að tryggja virka þátttöku þjóðþinga í gerð varnaráætlana og taka ákvörðun um fjárveitingar til varnarmála og herafla. NATO-þingið býður einnig starfsmönnum frá löndum Mið- og Austur-Evrópu til stuttrar rannsóknardvalar (í þrjá til sex mánuði) á skrifstofu þingsins í Brussel. Einnig hefur verið komið á laggirnar þjálfunaráætlun til að starfslið þjóðþinganna geti öðlast beina reynslu af starfsemi alþjóðlegra stofnana.
    Af margvíslegri starfsemi NATO-þingsins sem að framan er lýst má vera ljóst að þingið hefur bætt nýrri vídd við hefðbundið hlutverk sitt að hlúa að Atlantshafstengslunum.

c.    Fulltrúar á NATO-þinginu og embættismenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 214 þingmenn frá aðildarríkjunum 19. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn frá öldungadeild og fulltrúadeild bandaríska þingsins. Sendinefndir Frakklands, Þýskalands, Ítalíu og Bretlands skipa 18 þingmenn hverja. Kanada, Pólland, Spánn og Tyrkland senda 12 fulltrúa hvert ríki. Frá Belgíu, Grikklandi, Hollandi, Portúgal, Tékklandi og Ungverjalandi koma sjö frá hverju ríki. Danmörk og Noregur senda fimm fulltrúa hvort ríki og Ísland og Lúxemborg þrjá. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í öllum störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Alls eiga 86 þingmenn frá 20 aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndafundum, utan stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Hafa þeir þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur. Þess ber að geta að á árinu 2003 hlutu fulltrúar ríkjanna sjö sem gerast munu formlegir aðilar að NATO vorið 2004, rétt til að sitja fundi stjórnarnefndarinnar og fundi samstarfsnefndar NATO-þingsins og rússneska þingsins. Höfðu þeir málfrelsi en ekki atkvæðisrétt.
    Embættismenn þingsins eru sex og eru fimm þeirra kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi (forseti og fjórir varaforsetar). Sjötti embættismaðurinn er gjaldkerinn en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár af stjórnarnefndinni. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti formenn allra landsdeilda aðildarríkja NATO, forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn.

d.    Fjármögnun.
    Starfsemi þingsins er fjármögnuð með framlögum þjóðþinga eða ríkisstjórna aðildarríkja. Framlög eru reiknuð á grundvelli þeirra viðmiða sem notuð eru við gerð fjárhagsáætlunar NATO um kostnað annan en herkostnað. Til að standa straum af hluta kostnaðar við árlegt þinghald greiðir NATO einnig framlag til þingsins ár hvert.


Fylgiskjal III.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.