Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 649. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 966  —  649. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2003.

I.     Inngangur.
    Þjóðþing Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk á Grænlandi hinn 24. september 1985. Með því var formfest samstarf landanna þriggja, sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var nafninu breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur í þjóðþingum aðildarlandanna. Við þær breytingar voru einnig samþykktar nýjar vinnureglur og markmið samstarfsins skerpt.
    Markmið ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, gæta auðlinda og menningar Norður-Atlantshafssvæðisins, fylgja eftir samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna landanna og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfis-, auðlinda- og samgöngumál, aukið menningarsamstarf og íþrótta- og æskulýðsmál, svo að fátt eitt sé nefnt.
    Í Vestnorræna ráðinu sitja átján þingmenn, sex frá hverju aðildarríki. Vestnorræna ráðið kemur saman til ársfundar sem fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Þriggja manna forsætisnefnd, skipuð þingmanni frá hverju aðildarríki, stýrir starfi ráðsins á milli ársfunda. Ráðið heldur árlega þemaráðstefnu þar sem sérstakt málefni er tekið fyrir og getur auk þess skipað vinnunefndir um tiltekin mál. Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná fram markmiðum sínum með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landsstjórna, virkri þátttöku í norrænu samstarfi, samvinnu við norðurheimskautsstofnanir og skipulagningu á ráðstefnum og fundum.

II.     Kjör fulltrúa í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Í byrjun árs 2003 skipuðu Íslandsdeildina Einar Oddur Kristjánsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Hjálmar Árnason, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, Gísli S. Einarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Guðmundur Hallvarðsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Svanfríður Jónasdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Kjartan Ólafsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Einar K. Guðfinnsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðrún Ögmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Gunnar Birgisson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ólafur Örn Haraldsson, þingflokki Framsóknarflokks, Guðjón A. Kristjánsson, þingflokki Frjálslynda flokksins, og Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Í kjölfar alþingiskosninga var ný Íslandsdeild kjörin 27. maí. Hana skipa Birgir Ármannsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Hjálmar Árnason, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, Guðrún Ögmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Einar Oddur Kristjánsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Margrét Frímannsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Magnús Þór Hafsteinsson, þingflokki Frjálslynda flokksins. Varamenn voru Gunnar Birgisson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Anna Kristín Gunnarsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Magnús Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokks, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Helgi Hjörvar, þingflokki Samfylkingarinnar, og Sigurjón Þórðarson, þingflokki Frjálslynda flokksins. Íslandsdeildin var endurkjörin 1. október í upphafi 130. þings. Á fyrsta fundi Íslandsdeildar hinn 8. október var Birgir Ármannsson endurkjörinn formaður og Hjálmar Árnason varaformaður. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir gegndi starfi ritara Íslandsdeildar þar til 10. október en þá tók Arna Gerður Bang við starfi hennar.

III.     Störf Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins.
    Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins hélt sjö fundi á árinu. Helstu störf hennar lutu að miklum undirbúningi við yfirgripsmikla úttekt á starfsemi Vestnorræna ráðsins, en deildin lagði metnað sinn í að skila inn greinargóðum tillögum til breytinga. Íslandsdeild fjallaði auk þess um úrbætur á tilhögun barnabókaverðlauna ráðsins, og að frumkvæði Íslandsdeildar var efnt til samkeppni um sérstakt merki verðlaunanna. Vestnorræna veiðimenningarsýningin og einnig heilbrigðismál og grasrótarsamstarf á íþrótta- og menningarsviði komu til kasta Íslandsdeildar á árinu og voru drög lögð að því hvernig helst mætti styrkja þá málaflokka. Ungmennafélag Íslands fór þess á leit við fulltrúa Íslandsdeildar að félagið yrði formlega viðurkennt af hálfu Íslandsdeildar sem sérstakur samstarfsaðili í Ungmennasamstarfi Vestur- Norðurlanda (VestNorden Ungdomsforum). Íslandsdeild lýsti yfir einróma stuðningi sínum við slíka tilhögun og á grundvelli samkomulags um samstarf við Æskulýðsráð Grænlands (Grønlands Børne og Ungdoms Fælles Råd) og Æskulýðsráð Færeyja (Føroya Ungdómsráð) er Ungmennafélag Íslands fullgildur þátttakandi í Ungmennasamstarfi Vestur-Norðurlanda. Íslandsdeild samþykkti auk þess samhljóða að vekja athygli Vestnorræna ráðsins á hugsanlegri vestnorrænni handverkssýningu sem gæti orðið stór viðburður á borð við veiðimenningarsýninguna, en sýningin var sérstaklega kynnt á fundi Íslandsdeildar með Reyni Adolfssyni frá Akureyrarbæ.
    Hér á eftir er gerð ítarlegri grein fyrir helstu málefnum sem Íslandsdeild tók fyrir og unnið var að innan ráðsins.

IV.     Úttekt á starfsemi Vestnorræna ráðsins.
    Á ársfundi Vestnorræna ráðsins í Stykkishólmi í ágúst 2002 var samþykkt tillaga forsætisnefndar (upphaflega frá Íslandsdeild) um að forsætisnefnd yrði falið að gera úttekt á starfsemi ráðsins og skila greinargerð á ársfundi í Færeyjum. Sérstaklega var tiltekið að úttektin ætti að ná til starfsreglna ráðsins, efnahagsreglna, skrifstofureksturs og til þess hversu mikla áherslu ráðið eigi að leggja á alþjóðastarf og/eða samstarf og grasrótarstarf innan Vestur-Norðurlanda.
    Á fundi forsætisnefndar 17. febrúar var ákveðið að landsdeildir skyldu skila inn stuttum greinargerðum um helstu veikleika í starfsemi ráðsins fyrir 1. mars. Íslandsdeild hélt fundi 19. og 27. febrúar þar sem tillögur deildarinnar voru samþykktar og sendar áleiðis til framkvæmdastjóra ráðsins.
    Nokkuð ber á mismunandi áherslum landsdeilda um starfsemi ráðsins, sérstaklega hvað varðar skrifstofurekstur og framkvæmdastjórastöðu ráðsins, sem og þátttöku í alþjóðlegu starfi. Í tillögum sínum bendir Íslandsdeild sérstaklega á að starfsreglum ráðsins sé ábótavant og framfylgt á óviðunandi hátt, einkum hvað varðar ákvæði um tímamörk, t.d. útsendingu fundargagna, tillöguflutning, fjárhagsáætlun, milliuppgjör, ársreikning o.fl. Til þess að landsdeildir geti tekið afstöðu til tiltekinna mála verða gögn að berast með góðum fyrirvara fyrir fundi, eins og tíðkast í öllum öðrum alþjóðastofnunum þjóðþinga sem Alþingi á aðild að.
    Hvatt er til þess í greinargerð Íslandsdeildar að forsætisnefnd ræði kosti þess og galla að lengja formennskutímabilið úr einu ári í tvö ár. Færeyingar og Grænlendingar nefna formennskuna ekki í sínum tillögum. Einnig ræddi Íslandsdeildin á fundum sínum hvort nauðsynlegt væri að hafa fullt stöðugildi fyrir framkvæmdastjórn og skrifstofurekstur ráðsins. Deildin vill að ráðið ræði hvort breyta megi framkvæmdastjórastöðunni í hálft starf þegar ráðningarsamningur núverandi framkvæmdastjóra rennur út. Íslandsdeild hefur lagt áherslu á að ráðið einbeiti sér að kjarnastarfi sínu, þ.e. að efla tengsl á milli vestnorrænu landanna, og að takmarkaðir kraftar ráðsins beinist ekki um of að alþjóðastarfi.
    Þá leggur Íslandsdeild til að málsmeðferð tillagna sem lagðar eru fyrir ársfundi ráðsins verði vandaðri. Í því sambandi er nefnt að drög að tilmælum til ríkisstjórna landanna skulu lögð fram með meiri fyrirvara, kannað verði í þaula hvort þau skarist við sams konar tilmæli annarra þingmannasamtaka, svo sem Norðurlandaráðs og Norðurskautsráðs, og að tillögurnar verði sendar umsagnaraðilum ef þurfa þykir.
    Samþykkt var á fundi forsætisnefndar í Ósló í október sl. að ekki þyrfti að gera breytingar á stofnsamningi Vestnorræna ráðsins heldur ætti að einbeita sér að starfsreglum ráðsins og endurbótum á þeim. Embættismenn ættu að fara í gegnum starfsreglur og fjármálareglur ráðsins í samráði við landsdeildir og setja fram nákvæmar tillögur um breytingar. Miða ætti við að þessar tillögur yrðu tilbúnar í febrúar 2004 og þær sendar til annarra landsdeilda. Síðan yrði haldinn embættismannafundur til að fara yfir allar tillögur og athuga hvort ástæða væri til að vinna áfram í málinu, þ.e. hvort líklegt sé að hægt verði að ná samstöðu um breytingar eða ekki, áður en málið væri lagt fyrir forsætisnefnd.

V.     Barnabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins.
    Samkeppni fór fram um hönnun merkis barnabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins og bárust ráðinu margar skemmtilegar tillögur. Ákvörðun um val á merki var tekin á fundi forsætisnefndar í Ósló í október sl. Verðlaunin hreppti Íslendingur, Halldór Einarsson að nafni, og skýrði Jonathan Motzfeldt frá úrslitum samkeppninnar opinberlega á veiðimenningarsýningunni við opnun Bryggen í nóvember sl.
    Markmiðið með barnabókaverðlaununum er að hvetja vestnorræna barna- og unglingabókahöfunda til dáða. Auk þess er vonast til að með verðlaununum verði ungmennum Vestur-Norðurlanda gert betur kleift að kynna sér vestnorrænar bókmenntir og menningu. Þær bækur sem hljóta tilnefningu eru á vegum menntamálaráðuneyta landanna þýddar á vestnorrænu málin og skandinavísku og gert er ráð fyrir því að bækurnar komi að gagni í fræðslustarfi landanna. Verðlaunin verða veitt annað hvert ár, næst árið 2004.

VI.     Vestnorræna veiðimenningarsýningin.
    Norrænu húsin á Íslandi og í Færeyjum og Norræna stofnunin á Grænlandi hafa hug á að standa áfram fyrir uppsetningu vestnorrænnar veiðimenningarsýningar sem vakið hefur mikla og verðskuldaða athygli. Sýningin þykir einstaklega vel heppnuð og hefur hvarvetna hlotið mikið lof. Sýningin hefur farið víða og m.a. verið sett upp í Færeyjum, í Reykjavík, á Akureyri, í Nuuk, í Kaupmannahöfn, á Hjaltlandseyjum og á Írlandi. Fyrirhugað er að sýningin verði einnig sett upp í Stokkhólmi og Helsinki á næstunni og hugsanlega í fleiri löndum síðar. Vegna þess hve sýningin hefur fengið góðar viðtökur er stefnt að því að fara með hana á EXPO 2005 í Aichi í Japan. Norrænu húsin þrjú vinna nú að því marki og hefur forstöðumaður Norrænu stofnunarinnar í Nuuk forgöngu um málið. Það er eindreginn vilji Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins að áframhald verði á sýningunni, en til þess að svo geti orðið þarf meira fjármagn að koma til. Hugmyndin er því sú að vestnorrænu löndin þrjú leggi hvert um sig fram 500.000 dkr. til að tryggja áframhald sýningarinnar og mögulega þátttöku í EXPO 2005. Hvað Ísland varðar er málið í höndum forstöðumanns Norræna hússins í Reykjavík sem lagt hefur fram umsókn til utanríkisráðherra um að veita 500.000 dkr. til verkefnisins. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins sendi bréf til utanríkisráðherra í desember sl. til þess að fylgja þessu erindi eftir.

VII.    Þemaráðstefna um heilbrigðismál.
    Dagana 10.–13. júní 2003 var þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um heilbrigðismál haldin í Ilulissat á Grænlandi. Fyrir hönd Íslandsdeildar sátu ráðstefnuna Birgir Ármannsson formaður, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Birkir J. Jónsson, Helgi Hjörvar og Magnús Þór Hafsteinsson, auk Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur ritara.
    Í upphafi flutti formaður Vestnorræna ráðsins, Jonathan Motzfeldt, stutta tölu þar sem fram kom að heilbrigðismál væru þema ráðstefnunnar að tillögu Grænlendinga. Heilbrigðismál væru afar vandasamur málaflokkur á Grænlandi enda væri heilbrigði og almennri heilsu Grænlendinga mjög ábótavant. Erfitt er að manna stöður á sjúkrahúsum þar og margir sjúklingar eru fluttir til Danmerkur, en barnadauði er t.d. þrisvar sinnum meiri á Grænlandi en í Danmörku. Motzfeldt sagði einu lausn Grænlendinga liggja í auknu samstarfi á þessu sviði og því væri ráðstefna sem þessi afar brýn.
    Á ráðstefnunni kom fram að öll löndin eiga við ýmis sameiginleg vandamál að glíma í heilbrigðismálum. Skortur er á sérhæfðu starfsfólki í öllum löndunum, þó langmestur á Grænlandi. Peter Bjerregard, sérfræðingur við heilbrigðisstofnunina í Nuuk, sagði tóbaksreykingar vera illviðráðanlegt vandamál á Grænlandi, en um 70% Grænlendinga reykja. Tíðni sjálfsvíga er auk þess afar há, einkum á meðal ungra karlmanna. Bjerregard sagði tíðni sjálfsvíga fara stöðugt hækkandi en stærst væri vandamálið á austurströnd Grænlands.
    Ann Birkekær Kjeldsen lýsti starfi sérstakrar heilbrigðisstofu sem er nýkomin á laggirnar á Grænlandi þar sem áhersla er lögð á forvarnir og fræðslu. Sérstaklega er lögð áhersla á heilbrigðisvandamál er tengjast lífsstíl, svo sem áfengis- og tóbaksvarnir, ávana- og fíkniefnavarnir. Jörgen Dreyer sagði erfitt að finna gott fólk til starfa í heilbrigðisgeiranum á Grænlandi. Ýmislegt hefði verið gert til að laða fólk til starfa, m.a. með skattfríðindum, fríu húsnæði, fríum ferðum o.fl. Þessi kjör væru hins vegar að rýrna og ekki væri lengur unnt að bjóða upp á ýmis fríðindi sem áður var gert. Dreyer sagði að í Danmörku væri heilbrigðisstarfsfólk almennt hvatt til að kynna sér aðstæður á Grænlandi og reynt væri með ýmsu móti að fá það til starfa. Róðurinn væri þungur en Dreyer var þó vongóður um batnandi heilbrigðisþjónustu á Grænlandi.
    Heðin Thomsen, yfirlæknir frá Færeyjum, fór yfir stöðu heilbrigðismála í Færeyjum, sérstaklega hvað varðar neyslu áfengis og tóbaks. Neyslan hefur í heild aukist, fyrst og fremst sökum mikillar neyslu léttvíns en neysla sterkra drykkja hefur staðið í stað. Pehr Löv frá Norðurlandaráði fjallaði um ESB-reglur í heilbrigðismálum og hvernig þær snerta Norðurlönd. Hann sagði heilbrigðisútgjöld hafa hækkað til muna alls staðar á Norðurlöndum og að kröfur almennings jöðruðu við að vera kröfur um fullkominn líkama og fullkomna þjónustu. Hann sagði að hlutfallslega mundu færri þegnar standa undir kostnaði heilbrigðiskerfisins í framtíðinni og því yrðu Norðurlöndin að vinna saman í þessum málum. Löv lagði áherslu á mikilvægi fjarlækninga og sagði að með þeim yrði hægt að flytja sérfræðiþekkingu til fámennari staða.
    Ingolf Pedersen fjallaði um skipulag og uppbyggingu íslenskrar heilbrigðisþjónustu og Margrét Björnsdóttir fjallaði um heilbrigðisáætlun Íslands til ársins 2010. Grænlendingar sýndu heilbrigðisáætlun Íslendinga mikinn áhuga. Nokkur umfjöllun varð um samning sem í gildi er á milli Íslands og Grænlands frá árinu 1997 um að Íslendingar sinni bráðatilfellum frá Grænlandi. Í erindum á ráðstefnunni kom fram að heilbrigðisyfirvöld Grænlands og Íslands munu á næstunni fara yfir hvernig samningurinn hefur gengið og hvernig best sé að auka samstarfið. Grænlendingar senda fjölmarga sjúklinga til Danmerkur í meðferð og reka sjálfir sjúkrahótel í Kaupmannahöfn fyrir Grænlendinga, en hafa hug á að leita meira til Íslands. Einnig kom fram að Færeyingar hafa mikinn áhuga á að auka samstarf sitt við Íslendinga, en Færeyingar senda um 1.200 sjúklinga árlega til Danmerkur í meðferð. Íslendingar geta boðið upp á víðtæka sérhæfða heilbrigðisþjónustu enda eru fáir sendir til útlanda í meðferð héðan eða um 100 manns alls árlega.
    Íslensku þingmennirnir og embættismenn lýstu áhuga á auknu samstarfi, enda gætu Íslendingar vafalaust miðlað reynslu sinni og þekkingu til næstu nágranna sinna á þessu sviði. Fundarmenn bentu einnig á að aukið samstarf gæti bæði sparað fjármagn sem og bætt þjónustu á þeim svæðum landanna sem mest þyrftu á því að halda. Fulltrúar íslenska heilbrigðisráðuneytisins bentu sérstaklega á möguleika á samstarfi varðandi reykingavarnir, áfengis- og vímuefnavarnir, geðvernd og fjarlækningar.
    Í lok ráðstefnunnar var samþykkt einróma ályktun sem kallaði á aukið samstarf vestnorrænu landanna í heilbrigðismálum.

VIII.     Ársfundur Vestnorræna ráðsins.
    Dagana 14.–16. ágúst 2003 var ársfundur Vestnorræna ráðsins haldinn á Eiði í Færeyjum. Fyrir hönd Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sátu fundinn Birgir Ármannsson formaður, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Einar Oddur Kristjánsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Magnús Stefánsson og Magnús Þór Hafsteinsson, auk Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, ritara Íslandsdeildar.
    Í erindi sínu um störf Vestnorræna ráðsins lagði Jonathan Motzfeldt, formaður ráðsins, áherslu á að tengsl ráðsins við aðrar alþjóðlegar stofnanir yrðu styrkt. Hann sagði það Grænlendingum mikilvægt að geta nýtt Vestnorræna ráðið sem alþjóðlegan vettvang og að hann væri fylgjandi útgjöldum ráðsins til alþjóðasamstarfs. Hann kvað endurmat á starfsemi ráðsins vera jákvætt framtak og að fyrir lægi að taka afstöðu til ýmissa mála um framtíð ráðsins. Formaður Íslandsdeildar, Birgir Ármannsson, skýrði frá störfum deildarinnar á árinu. Birgir sagði vinnu við endurmat á starfsemi Vestnorræna ráðsins hafa sett mikinn svip á störf Íslandsdeildar á liðnu ári. Íslandsdeild þótti nokkuð hafa dregið úr krafti ráðsins og vildi reyna að blása til nýrrar sóknar með ferskum hugmyndum um rekstur og starfsemi. Íslandsdeild þótti sýnt að helstu veikleikar ráðsins væru m.a. að það beindi takmörkuðum kröftum sínum í of margar áttir. Birgir benti á að ráðið kemur aðeins tvisvar saman á ári og hann sagði því mikilvægt að skilgreina skýrt þau svið sem unnið væri að hverju sinni og fylgja verkefnum starfsmanns ráðsins eftir. Birgir sagði að það væri ef til vill ekki tilviljun að á þemaráðstefnum, þar sem búið væri að þrengja umfang starfsins að tilteknu efni, væri ráðið að mörgu leyti öflugast. Í tillögum sínum og athugasemdum lagði Íslandsdeild áherslu á nokkur grundvallaratriði, til dæmis það að lengja formennskutímabilið í tvö ár. Slíkt gæfi formanni ráðsins og formennskuríkinu hverju sinni lengri tíma til að koma sér inn í málin. Birgir sagði margt annað þess vert að skoða betur, en ljóst væri að starfsemi ráðsins og rekstur gæti á ýmsum sviðum verið skilvirkari. Birgir minnti á að starfs- og vinnureglur ráðsins ætti í hvívetna að halda í heiðri og þörf væri á sérstöku átaki til að halda ráðinu virku og kraftmiklu.
    Sverri Hansen, forstöðumaður Vestnorræna sjóðsins, fjallaði um starfsemi sjóðsins og greindi frá þeim verkefnum sem sjóðurinn hefur styrkt á undanförnum árum. Líflegar umræður urðu um starfsemi sjóðsins, en Færeyingar gagnrýndu meðal annars þau verkefni sem valin hafa verið sem styrkhæf. Þeir sögðu að fyrst og fremst ætti að styðja nýsköpunarverkefni og frumkvöðla sem byggt gætu upp spennandi atvinnustarfsemi á Vestur-Norðurlöndum. Í stað þess virtist sem sömu verkefnin væru styrkt ár frá ári jafnvel þótt þau bæru sig augljóslega ekki. Kaspar Lytthans, forstöðumaður NORA, tók því næst til máls og kynnti starfsemi NORA. Hann sagði verkefnin sem NORA styddi vera af fjölbreytilegum toga og að starfið gengi vel. Hann sagði auk þess að NORA hefði staðið fyrir ráðstefnu um vestnorræn málefni í Reykjavík fyrr á árinu sem hefði verið vel heppnuð. Birgir Ármannsson spurði hvers vegna NORA hefði enn ekki svarað ályktunum Vestnorræna ráðsins frá síðasta ársfundi. Í þeim ályktunum var annars vegar skorað á NORA að kanna grundvöll ferjusiglinga á milli Norður-Ameríku og Vestur-Norðurlanda, en hugmyndin kom upprunalega fram á þemaráðstefnu ráðsins um samgöngumál sumarið 2002. Hins vegar var skorað á NORA að kanna hvernig samþætta mætti betur vestnorræna sjóði og gera þá skilvirkari. Birgir lýsti undrun sinni á því að ekkert hefði af þessu heyrst frá NORA og í sama streng tók Guðrún Ögmundsdóttir. Kaspar Lytthans svaraði því til að þessi mál hefðu verið könnuð óformlega og komið hefði í ljós að grundvöllur fyrir þessum málum væri hæpinn og því lítið hægt að gera. Guðrún Ögmundsdóttir spurði þá hvers vegna ráðstefnan í Reykjavík hefði ekki verið betur kynnt alþingismönnum og öðrum, en hvorki þingmenn né starfsmenn hefðu fengið að vita af fyrirhugaðri ráðstefnu fyrr en á síðustu stundu. Lytthans svaraði því til að ráðstefnan hefði vissulega komið seint til og ef til vill hefði eitthvað farið úrskeiðis við upplýsingaflæði, en NORA hefði þó lagt sig fram við að gera málefnin áhugaverð og beina kastljósinu að Vestur-Norðurlöndum.
    Minni umræða varð um tillögur landsdeilda um endurmat á starfsemi ráðsins en efni stóðu til. Tillögur allra ríkjanna beindust þó sameiginlega m.a. að því að fylgja starfsreglum ráðsins fastar eftir, halda í heiðri vinnureglum um tímafresti, skýrslugerð og fleira þess háttar. Grænlendingar lögðu sérstaka áherslu á að ráðið ætti að vera virkt á alþjóðlegum vettvangi og þá sérstaklega að ræða hreinskilnislega samskipti við Evrópusambandið. Guðrún Ögmundsdóttir hvatti menn til að vera vakandi yfir þróun Norðurbryggju í Kaupmannahöfn og að mikilvægt væri að Vestnorræna ráðið hefði sýnileika og styrk á þeim vettvangi.
    Tvær ályktanir voru samþykktar á fundinum. Annars vegar var samþykkt ályktun þar sem skorað er á ríkisstjórnir landanna að koma á frekara samstarfi í heilbrigðismálum og leita leiða til að löndin geti samnýtt krafta sína í heilbrigðisþjónustu. Í ályktuninni er auk þess skorað á heilbrigðisyfirvöld að gefa árlega skýrslu um samstarfið sem og þau verkefni sem sameiginlega hafi verið ráðist í. Hins vegar var samþykkt ályktun um að auka samráð landanna þriggja um sjálfbæra nýtingu fiskstofna. Í greinargerð ályktunarinnar segir að löndin öll reiði sig öðru fremur á auðlindir hafsins og því sé framtíð þjóðanna undir því komin að umgengni um auð hafsins sé byggð á sjálfbærum grunni. Ályktanir fundarins voru samþykktar samhljóða.

IX.     Ályktanir Vestnorræna ráðsins á ársfundi á Eiði 14.–16. ágúst 2003.
          Tillaga til þingsályktunar um aukna samvinnu Vestur-Norðurlanda í heilbrigðismálum.
          Tillaga til þingsályktunar um aukið samstarf Vestur-Norðurlanda um sjálfbæra nýtingu sameiginlegra fiskstofna.

Alþingi, 25. febr. 2004.



Birgir Ármannsson,


form.


Hjálmar Árnason,


varaform.


Guðrún Ögmundsdóttir.



Einar Oddur Kristjánsson.


Margrét Frímannsdóttir.


Magnús Þór Hafsteinsson.