Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 687. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1016  —  687. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, með síðari breytingum.

Flm.: Dagný Jónsdóttir, Birkir J. Jónsson, Magnús Stefánsson,


Kristinn H. Gunnarsson, Hjálmar Árnason, Jónína Bjartmarz.

1. gr.

    5.–7. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Námsmenn, sem fá lán úr sjóðnum, skulu undirrita skuldabréf við lántöku til tryggingar endurgreiðslu lánsins ásamt vöxtum og verðtryggingu þess allt að tiltekinni hámarksfjárhæð.
    Stjórn sjóðsins er heimilt að veita námslán allt að þeirri fjárhæð sem tilgreind er í skuldabréfi skv. 5. mgr. Sæki námsmaður um hærra lán en skuldabréfið gerir ráð fyrir þarf hann að leggja fram nýtt skuldabréf, sbr. 5. mgr.
    Stjórn sjóðsins ákveður hvaða skilyrðum lántakendur skuli fullnægja.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Eitt af meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar er að Lánasjóður íslenskra námsmanna gegni áfram því hlutverki að vera félagslegur jöfnunarsjóður sem tryggi öllum tækifæri til náms. Liður í að tryggja slíkt markmið er að fella burt ábyrgðarmannakröfu á námslánum. Í frumvarpi þessu er því lagt til að það fyrirkomulag að námsmenn sem fá lán úr Lánasjóði íslenskra námsmanna skuli leggja fram yfirlýsingu a.m.k. eins manns um að hann taki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins ásamt vöxtum og verðtryggingu verði fellt úr gildi. Þess í stað ábyrgist hver námsmaður einn endurgreiðslu eigin láns.
    Vitað er að þó nokkur fjöldi námsmanna hefur ekki tök á að leita til aðstandenda eða annarra til að ábyrgjast námslánin. Þessir námsmenn eiga ekki kost á að stunda nám. Mikilvægt er að leiðrétta þetta óréttlæti.