Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 364. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1061  —  364. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Valdimars L. Friðrikssonar um málefni fatlaðra.

     1.      Er svæðisstjórnum málefna fatlaðra á Reykjanesi og í Reykjavík gert kleift að uppfylla lögbundnar skyldur sínar varðandi þjónustu við fatlaða einstaklinga innan starfssvæðis þeirra?
    Í fyrirspurninni er vísað til svæðisstjórna málefna fatlaðra en rétt þykir að benda á að svæðisstjórnir voru lagðar niður með lögum nr. 59/1992. Í svari við þessari fyrirspurn er því gengið út frá því að fyrirspyrjandi eigi við þá þjónustu sem svæðisskrifstofum um málefni fatlaðra er ætlað að veita samkvæmt fyrrgreindum lögum.
    Lög um málefni fatlaðra taka til félagslegrar þjónustu sem ríkið tekur að sér að veita fötluðum til að tryggja þeim jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til að lifa eðlilegu lífi.
    Lögin flokkast undir sérlög og viðbótarlög í þeim skilningi að þau kveða á um þjónustu sem veita þarf afmörkuðum hópi, enda sé þörfin fyrir þjónustu meiri eða önnur en sú sem kveðið er á um í almennum lögum, til dæmis lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.
    Skyldur ríkisins til að veita þjónustu eru þrenns konar:
  –     Í fyrsta lagi stoðþjónusta sem skal miða að því að gera fötluðum kleift að starfa í samfélagi við aðra, sbr. 8. gr. laganna,
  –     í öðru lagi þjónustustofnanir í því skyni að koma til móts við sértækar þarfir fatlaðra, sbr. 9. gr. laganna, og
  –     í þriðja lagi búseta í samræmi við þarfir og óskir fatlaðra.
    Samkvæmt 48. gr. laganna skal þjónusta sem ríkið veitir greiðast úr ríkissjóði, þ.e. samkvæmt fjárlögum hverju sinni.
    Fjárlög setja þó lögum um málefni fatlaðra ákveðinn ramma. Hann á að vera í samræmi við þær skyldur sem lagðar eru á ríkið samkvæmt lögum um málefni fatlaðra.
    Af framansögðu er því ljóst að starfsemi svæðisskrifstofanna í Reykjavík og á Reykjanesi er ætlað að vera innan þess ramma sem fjárlög setja hverju sinni. Það liggur jafnframt fyrir að markmið félagsmálaráðuneytisins hverju sinni er að tryggja að markvisst sé unnið að því að tryggja jafnrétti og þátttöku fatlaðra í samfélaginu í samræmi við 1. gr. laga nr. 59/1992. Mikið hefur áunnist í því að ná þessu markmiði.

     2.      Ef ekki, á hverju stendur, og mun ráðherra beita sér fyrir því að auknum fjármunum verði varið til þess að bæta úr ástandinu?
    Eins og fram kom í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2004 er gert ráð fyrir 2,4% raunaukningu fjármagns á næstu árum til málaflokks fatlaðra. Þetta hlutfall svarar til 140–150 millj. kr. á ári.
    Frá árinu 1995 hafa framlög til málaflokksins aukist að raungildi um tæp 50%. Á verðlagi dagsins í dag eru framlög til málaflokksins um 1.800 millj. kr. hærri en þau voru árið 1995. Þau markmið, sem ráðuneytið setti sér í framhaldi af niðurstöðum úttektarskýrslu starfshóps um styttingu biðlista eftir þjónustu sem birt var í nóvember 2000, munu ná fram að ganga í lok árs 2005 eins og áætlanir gera ráð fyrir. Á árinu 2004 er gert ráð fyrir að hafin verði þjónusta við 22–25 fatlaða einstaklinga í búsetu. Búseta þessara einstaklinga mun skiptast á fimm sambýli, þ.e. tvö í Reykjavík, tvö á Reykjanesi og eitt á Suðurlandi. Í tillögum starfshóps var gert ráð fyrir að rýmum á sambýlum yrði fjölgað um alls 110 á árunum 2001–2005. Þar af var gert ráð fyrir 80 nýjum rýmum til að stytta biðlista og 30 rýmum til að mæta nýliðun á tímabilinu. Á árunum 2000–2003 hafa orðið til 68 ný rými, sbr. töflu 1.
    Í fjárlögum fyrir árið 2004 er heimild fyrir 22 nýjum rýmum. Í árslok 2004 munu því hafa orðið til 90 ný rými í samræmi við tillögur starfshópsins. Árið 2005 þurfa að verða til 20 ný rými svo að því markmiði sem sett var fram í nóvember 2000 verði náð.

Tafla 1. Áætlun biðlistanefndar um ný rými á sambýlum og framkvæmd.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Tafla 2. Áætluð staða biðlista eftir sambýlum í árslok 2005.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Loks má geta þess að í lok nóvember sl. lauk síðasta áfanga útskriftar um 20 einstaklinga á sambýli á höfuðborgarsvæðinu sem höfðu áður búið á Kópavogshæli. Var þetta gert í samræmi við samkomulag félagsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra frá því í janúar 2002. Árið 1995 fengu 566 manns þjónustu á sambýlum og í íbúðum. Árið 2004 verða þeir 803. Þetta er um 42% aukning.
    Með vísan til þeirrar raunaukningar á fjármagni til þjónustu við fatlaða má gera ráð fyrir því að um eiginlega biðlista eftir þjónustu í búsetu verði ekki að ræða í lok árs 2005.
    Það er því ljóst að mikil aukning hefur orðið í þjónustu við fatlað fólk, þjónustan hefur batnað og fleiri fá nú þjónustu en nokkru sinni fyrr.

     3.      Hvernig hyggst ráðherra ná markmiðum laga nr. 59/1992 varðandi þjónustu við fatlaða?

    Markmið laga um málefni fatlaðra frá 1992 eru viðamikil og taka á mörgum þáttum í þjónustu við fatlað fólk. Samkvæmt markmiðsgrein laganna skal stefnt að jafnrétti og fullri þátttöku fatlaðra í samfélaginu. Það er mat ráðuneytisins að það sé sanngjörn og eðlileg krafa að stefna að þessum markmiðum. Jafnframt er þó ljóst að verkefnið er viðamikið og seint munu allir líta svo á að þessum markmiðum verði náð. Hér að framan hefur því verið lýst hvernig ráðuneytið hyggst takast á við einstök verkefni eins og búsetumál sem skipta flesta mestu máli í þessari heildarmynd. Einnig er brýnt að aðrir nauðsynlegir þættir í þjónustu við fatlaða komi einnig til framkvæmda. Ráðherra mun því á næstunni kalla eftir samvinnu og samráði hagsmunaaðila, starfsfólks, sveitarfélaga og þeirra sem starfrækja þjónustu við fatlaða við stefnumótun félagsmálaráðuneytisins í málaflokknum til framtíðar. Sú vinna hefur það að markmiði að tryggja aðgengi og þátttöku allra að samfélaginu og ná þar með markmiðum laga um málefni fatlaðra. Þess ber þó að geta að það er ekki einungis hlutverk félagsmálaráðherra að tryggja að þessi markmið nái fram að ganga heldur samfélagsins alls. Allir þurfa að leggja sitt af mörkum, ríkið, sveitarfélögin, launþegahreyfingin, atvinnurekendur og almenningur.
    Síðastliðið haust hófst vinna innan Stjórnarráðsins að frumkvæði félagsmálaráðuneytisins við að kynna hugmyndafræði til að tryggja aðgengi fyrir alla. Þar er því beint til ráðuneyta og undirstofnana að skoða á hvern hátt þau geti tryggt að sú þjónusta sem þau veita sé aðgengileg öllum.
    Mat ráðuneytisins er að til þess að ná markmiðum sem stefnt er að þurfi að leggja ríka áherslu á að breyta viðhorfum í samfélaginu og er það í raun forsenda þess að raunverulegar breytingar nái fram að ganga. Það að horfa á getu fólks en ekki hömlun felur í sér nýja sýn á þá sem eru á einhvern hátt fatlaðir og er leiðarvísir í stefnumörkun ráðuneytisins í þessum málum.

     4.      Hver er stefna ráðherra varðandi skammtímavistun fyrir fatlaða og stoðþjónustu við foreldra sem vilja hafa fötluð börn sín lengur heima?
    Markmið ráðuneytisins byggjast á lögunum um málefni fatlaðra og reglugerð um þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra. Í reglugerðinni er m.a. sérstaklega fjallað um þjónustu skammtímavistana og stuðningsfjölskyldna.
    Markmið skammtímavistana er að fjölskyldur fatlaðra eigi kost á því að börn þeirra njóti tímabundinnar dvalar þegar þörf krefur.
    Markmið og áætlanir ráðuneytisins gera ráð fyrir því að þeirri þörf verði að mestu fullnægt á næstu tveimur árum. Í dag er áætluð þörf fyrir ný skammtímavistunarúrræði um 15 pláss.

Tafla 3. Fjölgun skammtímavistunar árin 2001–2003 og þörf fyrir skammtímavistun í október 2003, skipt eftir svæðum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Tekið skal fram að með fjölgun sambýlisplássa á undanförnum árum hefur svigrúm til að bjóða nýjum einstaklingum þá þjónustu aukist verulega. Algengt er að áður en til búsetudvalar kemur hafi einstaklingar nýtt sér þjónustu skammtímavistunar í verulegum mæli, oft hámarksþjónustu eða um 14 sólarhringa á mánuði. Þetta á sérstaklega við um aðstæður sem hafa ríkt á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. í Reykjavík og á Reykjanesi.
    Samkvæmt töflu 3 hefur skammtímavistunarrýmum í Reykjavík fækkað um þrjú árið 2003. Skýringin á því er sú að heimili þar sem áður var skammtímavistun var breytt í heimili fyrir börn. Hagsmunum barna, sem áður höfðu dvalið í skammtímavist, var talið betur borgið með því að bjóða þeim og fjölskyldum þeirra upp á dvöl á heimili fyrir börn. Kom það m.a. til af mikilli þörf þessara barna fyrir þjónustu.
    Ekki liggur fyrir mat á þörf fyrir stuðningsfjölskylduþjónustu en gert er ráð fyrir því að á næstu tveimur árum takist að koma til móts við mikinn hluta þeirrar þarfar sem er til staðar.

     5.      Hyggst ráðherra fjölga úrræðum í dagþjónustu og á vernduðum vinnustöðum?
    Stefna ráðuneytisins er að úrræðum, sem fötluðum er boðið í hæfingu og iðju, muni fjölga í samræmi við þær þarfir og óskir sem fram munu koma í þeirri stefnumótun sem fyrr var nefnd. Það liggur fyrir að þjónustuþörfinni er að mestu leyti mætt úti á landi og því er sjónum beint fremur að þörfum á höfuðborgarsvæðinu í þessu sambandi.
    Dagvist, vernduð vinna eða vinna með stuðningi verður alltaf að miðast við getu hvers og eins. Markmiðið er því að allir hafi möguleika á uppbyggilegri og gefandi iðju, hæfingu eða atvinnu utan heimilis í samræmi við getu og áhuga. Félagsmálaráðuneytið mun leggja sérstaka áherslu á að styrkja þau úrræði sem tengjast atvinnu með stuðningi þar sem það þjónar með skýrum hætti markmiðunum um jafnrétti og fulla þátttöku fatlaðra í samfélaginu.
    Ráðuneytið stendur nú fyrir upplýsingaöflun um stöðu atvinnumála fatlaðra til að geta með skýrari hætti lagt drög að stefnu í þessum málum.