Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 734. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1090  —  734. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 134 22. desember 1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      2. og 3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Lögin taka einnig til þjónustu, þ.m.t. þjónustu sem veitt er í tengslum við vöruviðskipti. Lög þessi gilda jafnt um vörur sem boðnar eru gegn gjaldi og endurgjaldslaust, þ.m.t. vöru sem framleidd er og notuð í sýningar- og auglýsingaskyni.
     b.      Orðin „til notkunar“ í 3. mgr. falla brott.
     c.      4. mgr. orðast svo:
                  Ákvæði 8. og 9. gr. laga þessara taka ekki til vöru eða þjónustu sem um gilda sérstök lög eða reglur um öryggi vöru eða þjónustu. Þar sem ákvæði sérlaga eru ófullnægjandi eða ganga skemmra en ákvæði IV. og V. kafla laga þessara skulu þau ákvæði gild. Hið sama á við um skyldur framleiðenda og dreifingaraðila eftir því sem við getur átt.

2. gr.

    Á eftir 3. gr. laganna kemur ný grein, 3. gr. a, svohljóðandi:

Hugtakið þjónusta.


    Orðið þjónusta merkir í lögum þessum þjónustu sem eingöngu eða að verulegu leyti er boðin neytendum.

3. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Ákvæði þessarar greinar eiga við um seljendur þjónustu eftir því sem við getur átt.

4. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Opinber markaðsgæsla merkir skipulagða viðleitni stjórnvalda til að tryggja að vörur og þjónusta á markaði uppfylli settar reglur um öryggi og heilsu- og umhverfisvernd. Opinber markaðsgæsla greinist í markaðseftirlit og töku stjórnvaldsákvarðana til að framfylgja reglum um öryggi vöru og þjónustu.
    Markaðseftirlit merkir skipulagt eftirlit með vörum og þjónustu á markaði. Það greinist í skoðun vöru annars vegar og skipulagða öflun upplýsinga um vörur og þjónustu á markaði hins vegar, m.a. með því að taka á móti ábendingum um vörur sem taldar eru hættulegar. Með skoðun vöru er átt við rannsókn á vöru og ákvörðun um hvort hún samræmist sérstökum eða almennum kröfum.

5. gr.

    Á eftir 7. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, er verða 7. gr. a og 7. gr. b, svohljóðandi:

    a. (7. gr. a.)

Tilnefndur aðili.


    Tilnefndur aðili er aðili sem stjórnvöld telja hæfan til að meta samræmi vöru við þau ákvæði laga og reglna sem um þær vörur gilda.

    b. (7. gr. b.)

Tilkynntur aðili.


    Tilkynntur aðili er tilnefndur aðili sem hlutaðeigandi stjórnvöld hafa tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnar ESB sem hæfan til að framkvæma samræmismat fyrir tilteknar vörur samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda um hlutaðeigandi vöru.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Örugg vara merkir sérhverja vöru sem við eðlileg eða fyrirsjáanleg notkunarskilyrði, þ.m.t. endingartíma, svo og kröfur sem gerðar eru um uppsetningu, viðhald og hvernig hún skal tekin í notkun, telst vera án áhættu fyrir einstaklinga, heilsu þeirra og eignir enda fullnægi hún almennum kröfum sem gerðar eru vegna almannahagsmuna um öryggi og vernd heilsu, svo og umhverfis. Við mat á öryggi vöru skal einkum haft til hliðsjónar:
                  1.      Eðli vörunnar, þ.m.t. samsetning hennar, umbúðir og samsetningar- og, þar sem við á, uppsetningar- og viðhaldsleiðbeiningar.
                  2.      Áhrif vörunnar á aðrar vörur ef fyrirsjáanlegt er að hún verði notuð með öðrum vörum.
                  3.      Framsetning vörunnar, merkingar og, ef við á, varnaðarorð og leiðbeiningar um notkun og förgun auk hvers kyns ábendinga eða upplýsinga um vöruna.
                  4.      Hvort varan er gerð fyrir tiltekinn markhóp neytenda sem getur stafað sérstök hætta af vörunni, t.d. börn og eldra fólk.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                  Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga við um þjónustu eftir því sem við getur átt.

7. gr.

    Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, 8. gr. a, svohljóðandi:

Afturköllun og vara tekin af markaði.


    Afturköllun merkir hverja þá ráðstöfun sem miðar að því að hættulegri vöru, sem framleiðendur eða dreifingaraðilar hafa þegar afhent eða boðið neytendum, verði skilað.
    Að vara sé tekin af markaði merkir hverja þá ráðstöfun sem miðar að því að koma í veg fyrir að hættuleg vara fari í dreifingu eða sé sýnd eða boðin neytendum.

8. gr.

    Í stað 2. mgr. 9. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar sem orðast svo:
    Vara telst vera örugg ef hún er í samræmi við skilyrði sem fram koma í innlendum stöðlum, sem innleiða Evrópustaðla, sem birtir hafa verið hér á landi og í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins í samræmi við ákvæði tilskipunar um öryggi vöru.
    Í þeim tilvikum þar sem ákvæði um öryggi vöru er ekki að finna í reglum eða stöðlum í samræmi við 1. og 2. mgr. skal öryggi vörunnar m.a. metið með hliðsjón af eftirfarandi:
     1.      Íslenskum stöðlum.
     2.      Tilmælum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þar sem fram koma viðmiðunarreglur um mat á öryggi vöru.
     3.      Gildandi lögum og reglum um góðar starfsvenjur varðandi öryggi vöru innan viðkomandi atvinnugreinar.
     4.      Alþjóðlegum stöðlum, öðrum en þeim sem getið er í 2. mgr.
     5.      Öðrum viðeigandi atriðum, þar á meðal eðli vöru, öðrum vörum sem hún er notuð með, tæknistigi og tækni og því öryggi sem neytendur geta vænst með réttu.
    Ef ekki eru til sérákvæði í tilskipunum Evrópusambandsins um öryggi tiltekinnar vöru telst viðkomandi vara örugg ef hún er í samræmi við sérreglur í landslögum þess EES-ríkis þar sem hún er markaðssett enda séu slíkar reglur í samræmi við grundvallarreglur Evrópusambandsins og EES-samningsins um leyfilegar takmarkanir að því er varðar öryggi vöru.

9. gr.

    Á eftir 9. gr. laganna kemur ný grein, 9. gr. a, svohljóðandi:
    Framleiðandi vöru skal að eigin frumkvæði veita upplýsingar um þá áhættu sem fylgir vöru og gera varúðarráðstafanir gegn slíkri áhættu ef áhættan er ekki augljós. Það að slíkar upplýsingar séu veittar leiðir ekki til undanþágu frá öðrum ákvæðum laga þessara.
    Framleiðendum og dreifingaraðilum ber að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að hættuleg vara komist á markað, t.d. með því að fela tilnefndum eða tilkynntum aðila yfirferð samræmisyfirlýsingar þegar þess er krafist samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda um hlutaðeigandi vöru, gera úrtaksprófanir á markaðssettum vörum, taka kvartanir til meðferðar og veita upplýsingar um hættueiginleika vörunnar, framleiðanda hennar og tilvísunarnúmer vörunnar, eða þar sem við á, framleiðslulotunnar sem hún tilheyrir.
    Dreifingaraðila vöru er skylt að gæta þess vandlega að farið sé að gildandi öryggiskröfum og afhenda ekki vörur sem hann veit eða má vita að uppfylli ekki þessar kröfur með hliðsjón af þeim upplýsingum sem hann hefur undir höndum og sem fagmaður.
    Ef framleiðendur og dreifingaraðilar vita eða hafa mátt vita að vara sem þeir hafa markaðssett stofni neytendum í hættu eða veruleg áhætta geti fylgt áframhaldandi notkun hennar án frekari öryggisráðstafana eða úrbóta skulu þeir tafarlaust tilkynna eftirlitsstjórnvöldum um það. Í slíkum tilvikum ber þeim að upplýsa eftirlitsstjórnvald um þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í því skyni að koma í veg fyrir að neytendum sé stofnað í hættu. Upplýsingar samkvæmt þessari málsgrein er skylt að senda eftirlitsstjórnvöldum í þeim aðildarríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem viðkomandi vörur hafa verið markaðssettar eða afhentar neytendum á annan hátt. Ef um alvarlega áhættu er að ræða skulu þessar upplýsingar fela í sér að minnsta kosti eftirfarandi atriði:
     1.      Upplýsingar sem gera kleift að bera nákvæm kennsl á viðkomandi vöru eða framleiðslulotu.
     2.      Nákvæma lýsingu á hættunni sem viðkomandi vörur hafa í för með sér.
     3.      Allar tiltækar upplýsingar sem kunna að vera nauðsynlegar til að rekja uppruna vörunnar.
     4.      Lýsingu á aðgerðum sem gripið er til í því skyni að koma í veg fyrir að neytendum sé hætta búin.
    Dreifingaraðilum er skylt að halda utan um skjöl sem nauðsynleg eru til að rekja uppruna vöru. Skjöl skulu geymd í þann tíma sem telst eðlilegur miðað við endingartíma vörunnar, þó aldrei skemur en skylt er að geyma skjöl samkvæmt ákvæðum bókhaldslaga.
    Ef aðgerðir þær sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. eru ekki nægilegar er framleiðendum og dreifingaraðilum skylt að afturkalla vöru eða taka hana af markaði samkvæmt ákvörðun eftirlitsstjórnvalds.
    Framleiðendur og dreifingaraðilar skulu ekki flytja út frá Íslandi vöru eða þjónustu til landa utan Evrópska efnahagssvæðisins hafi hún verið tekin af markaði vegna hættu sem neytendum stafar af vörunni eða þjónustunni.
    Ákvæði þessarar greinar eiga við um þjónustu eftir því sem við getur átt.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „sérreglur um öryggi vöru“ í 1. mgr. kemur: eða þjónustu.
     b.      Orðin „í samræmi við staðla og venjur sem gilda um öryggi vöru á sameiginlegum markaði ríkja Evrópska efnahagssvæðisins og aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu“ í 1. mgr. falla brott.
     c.      1. tölul. 1. mgr. orðast svo: Kröfur sem vara eða þjónusta verður að uppfylla til að teljast örugg.
     d.      2. málsl. 3. tölul. 1. mgr. orðast svo: Varúðar- og notkunarleiðbeiningar sem tryggja örugga notkun vöru skulu vera í eðlilegri lesstærð og á íslensku ritmáli ef það á við.

11. gr.

    12. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Skyldur framleiðenda og dreifingaraðila.


    Framleiðendum og dreifingaraðilum samkvæmt lögum þessum er skylt að beiðni eftirlitsstjórnvalda að veita þeim aðstoð í tengslum við aðgerðir sem stuðla eiga að öryggi neytenda. Þá er þeim skylt að afhenda skrá með upplýsingum um birgja og þá er bjóða fram vörur þeirra ef eftirlitsstjórnvöld óska eftir því í tengslum við rannsókn máls.

12. gr.

    7. tölul. 14. gr. laganna orðast svo: Að gefa út tilkynningar og vara við hættulegum vörum á markaði sem lög þessi taka til ef nauðsyn ber til og annast samskipti við Eftirlitsstofnun EFTA og önnur eftirlitsstjórnvöld á Evrópska efnahagssvæðinu, svo og vera tengiliður við RAPEX-tilkynningakerfi framkvæmdastjórnar ESB um hættulegar vörur á markaði.

13. gr.

    1. og 2. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:
    Löggildingarstofa skal stofnsetja samvinnunefndir um samstarf við önnur eftirlitsstjórnvöld, skoðunarstofur og tilnefnda aðila eftir því sem við getur átt.
    Samvinnunefnd skal tryggja skilvirkni í markaðseftirliti með því að fjalla um starfsáætlanir og skipulag markaðseftirlits eftirlitsstjórnvalda, svo og athugasemdir sem þeim berast og gerðar eru um einstakar vörur og vöruflokka, og gera tillögur til Löggildingarstofu og eftirlitsstjórnvalda sem taka endanlega stjórnvaldsákvörðun um skilvirkt eftirlit með vöru samkvæmt lögum þessum eða sérlögum ef það á við.

14. gr.

    Við 2. mgr. 18. gr. laganna bætist nýr málsliður, sem orðast svo: Lögregla skal tilkynna Löggildingarstofu um slys sem hún rannsakar ef ætla má að orsök þess sé af völdum vöru eða þjónustu sem lög þessi taka til.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Eftirlitsstjórnvald getur með rökstuðningi afturkallað, tekið af markaði eða bannað sölu eða afhendingu vöru ef hún uppfyllir ekki formleg skilyrði, svo sem um merkingar, leiðbeiningar, vottorð, yfirlýsingar um samræmi eða prófunar- og skoðunarskýrslur.
     b.      Á eftir orðunum „getur eftirlitsstjórnvald“ í 2. mgr. kemur: afturkallað, tekið af markaði eða.

16. gr.

    Á eftir orðunum „Eftirlitsstjórnvöld skulu“ í 21. gr. laganna kemur: afturkalla, taka af markaði eða.

17. gr.

    Á eftir orðunum „í tengslum við“ í 1. og 2. mgr. 22. gr. laganna kemur: afturköllun, þegar vara er tekin af markaði eða.

18. gr.

    Á eftir 22. gr. laganna kemur ný grein, 22. gr. a, svohljóðandi:
    Eftirlitsstjórnvaldi er heimilt að krefjast þess að vara eða þjónusta sem getur haft í för með sér áhættu við tiltekin skilyrði sé merkt með upplýsingum á íslensku um þá áhættu sem kann að vera samfara vörunni eða þjónustunni.

19. gr.

    Á eftir orðunum „Hafi eftirlitsstjórnvald“ í 2. mgr. 23. gr. laganna kemur: afturkallað, tekið af markaði eða.

20. gr.

    Á eftir orðinu „skoðunarstofu“ í 26. gr. laganna kemur: og tilnefndir aðilar.

21. gr.

    Á eftir 28. gr. laganna kemur ný grein, 28. gr. a, svohljóðandi:
    Lög þessi eru sett með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 9/2003 frá 31. janúar 2003, um að fella inn í EES-samninginn og taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/95/EB, um öryggi vöru.

22. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er unnið á vegum viðskiptaráðuneytisins og miðar aðallega að því að koma til framkvæmda hér á landi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/95/EB frá 3. desember 2001, um öryggi vöru. Tilskipunin var birt í Stjórnartíðindum EB 15. janúar 2002. Aðildarríkjum bar skylda til að leiða ákvæði tilskipunarinnar í lög fyrir 15. janúar 2004 og sambærileg skylda hvílir á Íslandi á grundvelli EES-samningsins.
    Tilskipunin hefur í för með sér breytingar á lögum allra Norðurlandanna um vöruöryggi og var í kjölfar samþykktar tilskipunarinnar stofnaður norrænn vinnuhópur til að samræma norræna löggjöf á sviðinu.
    Tilskipunin felur í sér endurskoðun á tilskipun 92/59/EBE frá 29. júní 1992, um öryggi framleiðsluvöru, en gildandi ákvæði laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, eru íslensk innleiðing á ákvæðum þeirrar tilskipunar. Í 17. gr. tilskipunar 92/59/ EBE var kveðið á um að hún skyldi taka gildi 29. júní 1994. Í tilskipuninni var einnig tekið fram að fjórum árum eftir gildistöku hennar, þ.e. 29. júní 1998, skyldi ráðið ákveða, á grundvelli skýrslu framkvæmdastjórnarinnar um fengna reynslu með hliðsjón af viðeigandi tillögum, hvort breyta skyldi tilskipuninni. Á grundvelli þeirrar vinnu sem fram fór í samræmi við framangreind ákvæði tilskipunar 92/59/EBE þótti nauðsynlegt að breyta tilskipuninni og var það gert með áðurnefndri tilskipun 2001/95/EB. Breytingarnar miða helst að því að styrkja og skýra einstök ákvæði tilskipunarinnar í ljósi reynslunnar auk þess sem breyta þurfti ákvæðum hennar í takt við þróun á sviði neytendaverndar. Þá þurfti að gera breytingar á tilskipuninni með tilliti til breytinga sem gerðar hafa verið á Rómarsamningnum, sérstaklega 152. gr. um almannaheilbrigði (lýðheilsu) og 153. gr. um neytendavernd, og í ljósi varúðarreglunnar. Helsta markmiðið með breytingunum er að samhæfa löggjöf aðildarlanda Evrópusambandsins og EES-ríkjanna, en misræmi í löggjöf landanna getur leitt af sér viðskiptahindranir og haft neikvæð og hamlandi áhrif á samkeppni.
    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á gildandi löggjöf um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu í því skyni að aðlaga lögin að umræddri tilskipun um vöruöryggi. Þá er einnig lagt til í frumvarpinu að lög um öryggi vöru taki ekki aðeins til þjónustu sem veitt er í tengslum við vöruviðskipti, eins og gildandi lög gera ráð fyrir, heldur einnig til þjónustu. Sú tilhögun er í samræmi við lagaþróun á Norðurlöndum, sbr. t.d. löggjöf um öryggi vöru í Svíþjóð og Finnlandi.
    Helstu breytingarnar eru eftirfarandi:
     1.      Í fyrsta lagi er lagt til að gildissvið laganna verði fært út þannig að þau nái til þjónustu, en ekki einungis til þjónustu sem veitt er í tengslum við vöruviðskipti eins og nú er. Þá er lagt til að gildissvið laganna verði gert skýrara gagnvart vöru sem um gilda sérstök lög eða reglur um öryggi vöru, svo sem matvæli, eiturefni eða lyf, en ákvæði þessara laga gilda ef ákvæði sérlaga eru ófullnægjandi eða ganga skemmra en ákvæði þessara laga.
     2.      Í öðru lagi er lögð til sú breyting að vara teljist örugg þegar hún er framleidd í samræmi við evrópska öryggisstaðla, en um er að ræða staðla sem unnir eru af evrópsku staðalsamtökunum á grundvelli umboðs frá framkvæmdastjórninni og verða þeir birtir hér á landi og í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins.
     3.      Í þriðja lagi er lögð til breyting sem tryggir að unnt verði að rekja feril vöru, en þar er ítrekuð sú skylda dreifingaraðila að afla samræmisyfirlýsinga og er nú skýrt tekið fram að á þeim hvíli m.a. skylda að geyma skjöl sem tengjast vörunni.
     4.      Í fjórða lagi er lagt til að skýrar verði kveðið á um skyldu framleiðanda og dreifingaraðila til að afturkalla hættulega vöru af markaði að eigin frumkvæði.
     5.      Í fimmta lagi er lagt til í frumvarpinu að lagðar verði skyldur á framleiðendur og dreifingaraðila til að upplýsa eftirlitsstjórnvöld um að vara sem sett hefur verið á markað sé hættuleg eða veruleg áhætta geti fylgt notkun hennar án frekari öryggisráðstafana eða úrbóta af hálfu framleiðanda eða dreifingaraðila, auk þess sem þeim beri í slíkum tilvikum að upplýsa til hvaða ráðstafana þeir hafa gripið.
     6.      Loks er lagt til að eftirlitsstjórnvöldum sé heimilt að krefjast þess að aðvaranir og upplýsingar um hættueiginleika vöru séu á íslensku enda geti notkun haft með sér áhættu fyrir neytendur við tiltekin skilyrði sem nauðsynlegt er að veita þeim upplýsingar um á þeirra eigin móðurmáli.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er í fyrsta lagi lagt til í a-lið að gildissvið laganna um öryggi vöru verði víkkað þannig að þau nái einnig til þjónustu, en gildandi lög taka til vöru og þjónustu sem veitt er í tengslum við vöruviðskipti. Þetta er lagt til þrátt fyrir að tilskipunin um öryggi vöru nái ekki til þjónustu. Mikil og ör þróun er á sviði þjónustuviðskipta og ljóst er að neytendum kann ekki síður að stafa hætta af viðskiptum með þjónustu en viðskiptum með og meðferð á áþreifanlegum vörum. Umræður hafa farið fram um það, bæði á Norðurlöndunum og á vettvangi Evrópusambandsins, með hvaða hætti stjórnvöld sem fara með vöruöryggismál eigi að þróa eftirlit með þjónustuviðskiptum. Í Finnlandi og Svíþjóð hefur verið farin sú leið að láta lög um öryggi vöru einnig taka til þjónustu, sbr. löggjöf þeirra um öryggi vöru. Á vettvangi Evrópusambandsins er nú unnið að greiningu á þörfum og möguleikum á aðgerðum sem tryggja öryggi þjónustu og bótaábyrgð þjónustuveitanda með það í huga að leggja fram viðeigandi tillögur. Af framansögðu er því ljóst að réttarþróunin á Norðurlöndum og innan Evrópusambandsins er sú að gera sambærilegar öryggiskröfur til vöru og þjónustu.
    Í ljósi þessa er talið nauðsynlegt að gildissvið íslenskra laga um almennt vöruöryggi nái einnig til þjónustu og þar með sé tryggt að hér á landi verði unnt að fylgja eftir þróuninni á þessu sviði.
    Í öðru lagi er lagt til að skýrt verði tekið fram í lögunum að þau gildi jafnt um vörur sem boðnar eru gegn gjaldi og endurgjaldslaust. Ákvæðið er í samræmi við ákvæði a-liðar 2. gr. tilskipunar um öryggi vöru og er því m.a. ætlað að ná til vara sem eru framleiddar og notaðar í sýningar- og auglýsingaskyni.
    Í þriðja lagi er í b-lið greinarinnar lögð til breyting á 3. mgr. 1. gr. laganna, en þar er nú kveðið á um að lögin taki til vöru sem boðin er neytendum en nái ekki til vöru eða þjónustu sem nær eingöngu er framleidd eða unnin til frekari framleiðslu eða notkunar í atvinnurekstri. Lagt er til að fellt verði brott úr ákvæðinu að lögin nái ekki til vöru eða þjónustu sem nær eingöngu er framleidd til notkunar í atvinnurekstri. Slík takmörkun gengur lengra en ákvæði tilskipunarinnar um öryggi vöru gera ráð fyrir, en af ákvæðum tilskipunarinnar, t.d. a-lið 2. gr., er ljóst að henni er ætlað að gilda um allar vörur sem eru fullunnar og unnt er að bjóða fram á almennum markaði. Því falla ýmiss konar íhlutir ekki undir eftirlit samkvæmt þessu fyrr en við samsetningu. Sem dæmi má nefna að nú hafa verið settar reglur um CE- merkingar á varmaeinangrandi vörum (t.d. steinull). Þessar vörur er að finna á almennum markaði, t.d. í byggingavöruverslunum þar sem neytendur kaupa þessar vörur. Einnig er velþekkt að slíkar vörur fara beint frá framleiðanda til byggingarverktaka sem notar þær í atvinnurekstri sínum, t.d. við að fullgera íbúðarhúsnæði sem hann síðar selur neytendum. Af framangreindu er ljóst að það er hvorki markmið hinnar nýju tilskipunar né laga um öryggi vöru að undanskilja tilvik af því tagi sem hér hafa verið nefnd enda yrði framkvæmd markaðseftirlits afar erfið varðandi ýmsa vöruflokka. Af þessari ástæðu er nauðsynlegt að breyta ákvæðinu með þeim hætti sem hér er lagt til.
    Loks er lögð til breyting á 4. mgr. 1. gr. laganna til samræmingar við ákvæði 2. mgr. 1. gr. vöruöryggistilskipunarinnar þar sem greint er á milli almennra öryggiskrafna sem gerðar eru til vöru í lögum um öryggi vöru og ákvæðum sérlaga um öryggi tiltekinna vörutegunda sem sérstök lög gilda um. Við mat á öryggi slíkra vörutegunda ber að fara eftir slíkum sérlögum og sérreglum sem um þær vörur gilda sérstaklega. Í gildandi lögum er kveðið á um að séu ákvæði sérlaga ófullnægjandi eða gangi skemur en ákvæði IV. og V. kafla laganna skuli þau gilda enda sanngjarnt að önnur eftirlitsstjórnvöld sem starfa samkvæmt öðrum sérlögum geti beitt sambærilegum úrræðum og kveðið er á um í þessum lagabálki og er ákvæðið því óbreytt frá gildandi rétti. Í ákvæðinu er einnig lagt til að séu skyldur framleiðanda og dreifingaraðila til samstarfs við hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvöld minni en þær almennu reglur sem hér er kveðið á um skuli ákvæði þessara laga gilda og koma því til fyllingar við túlkun og framkvæmd sérlaga að þessu leyti.

Um 2. gr.


    Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði laganna skuli ekki ná aðeins til þjónustu sem veitt er í tengslum við vöruviðskipti eins og nú er gert í gildandi lögum um öryggi vöru heldur einnig að þau taki framvegis til þjónustu. Nauðsynlegt er að í lögunum sé skilgreining á hugtakinu þjónusta og er því lagt til í 2. gr. frumvarpsins að slíkri skilgreiningu verði bætt við lögin. Eins og fram kemur í skilgreiningunni afmarkast hugtakið samkvæmt þessu frumvarpi við þjónustu sem eingöngu eða að verulegu leyti er boðin neytendum. Þjónustuviðskipti milli tveggja aðila sem stunda atvinnurekstur falla því utan þessa hugtaks og þar með gildissviðs þessa frumvarps.
    Viðskipti við neytendur með þjónustu af ýmsu tagi hafa farið vaxandi á undanförnum árum. Sem dæmi um slík viðskipti má nefna svonefndar ævintýraferðir fyrir ferðamenn þar sem brýnt getur verið að nota öryggistæki, svo sem persónuhlífar. Nýlega voru konu dæmdar skaðabætur í Héraðsdómi Reykjavíkur er hún missti fót í slíkri ævintýraferð. Almenn þróun, bæði hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum, hefur sýnt að eftirlitsstjórnvöld á sviði vöruöryggis geta við framkvæmd eftirlits með vöru haft áhrif undir ýmsum kringumstæðum á öryggi þjónustu. Það er því talið rétt að gildissvið laganna taki framvegis til þjónustu enda er það til þess fallið að stuðla að almennu öryggi neytenda og betri neytendavernd.

Um 3. gr.


    Í greininni er lagt til að bætt verði nýrri málsgrein við 4. gr. laganna þar sem fram kemur að ákvæði 4. gr. eigi einnig við um seljendur þjónustu eftir því sem við getur átt. Er það í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu að ákvæði laganna skuli nú ná til þjónustu, en ekki aðeins til þjónustu sem veitt er í tengslum við vöruviðskipti eins og gildandi lög mæla fyrir um.

Um 4. gr.


    Í greininni eru lagðar til orðalagsbreytingar á 5. gr. laganna er taka tillit til þess að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ákvæði laganna um öryggi vöru skuli einnig taka til þjónustu.

Um 5. gr.


    Í greininni er lagt til að tveimur nýjum greinum, 7. gr. a og 7. gr. b, verði bætt við lögin þar sem fram koma skilgreiningar á hugtökunum tilnefndur aðili og tilkynntur aðili.
    Á vettvangi ESB hefur á undanförnum árum verið lögð sífellt meiri áhersla á svokallaða „nýja aðferð“ en hún byggist á því að framleiðendur ábyrgjast að vörur sem þeir framleiða séu í samræmi við staðla þegar lög og reglugerðir gera kröfu til þess að varan uppfylli slíka staðla og skuli vera CE-merkt. Samkvæmt þessu kerfi er algengt að í tilskipunum séu gerðar kröfur um að stjórnvöld tilnefni óháða aðila sem þau treysta til þess að yfirfara og meta hvort hlutaðeigandi vara uppfylli settar kröfur og því megi merkja hana með CE-merkinu. Samkvæmt íslenskum lögum er faggildingarsviði Löggildingarstofu falið að meta hvaða aðilar geti verið tilnefndir til slíkra verkefna. Að loknu mati á því hvort umsækjandi fullnægi kröfum til að vera tilnefndur aðili fyrir það vörusvið sem hann hefur sótt um þá tilkynnir stofnunin hlutaðeigandi ráðuneyti um þá aðila sem teljast uppfylla hæfisskilyrði að þessu leyti. Samkvæmt ákvæðum tilskipana ESB ber síðan hlutaðeigandi ráðuneyti að tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og framkvæmdastjórnar ESB um einn eða fleiri aðila sem ráðuneytið vill að verði færðir á lista framkvæmdastjórnar ESB yfir hæfa aðila á hlutaðeigandi sviði. Sem dæmi um það ferli sem hér er lýst má nefna ákvæði í reglugerð félagsmálaráðuneytisins nr. 341/2003, um fólkslyftur og vörulyftur, sbr. einkum II. og III. kafli reglugerðarinnar og 4. tölul. VI. viðauka reglugerðarinnar.
    Í 7. gr. laga um öryggi vöru er kveðið á um að unnt sé að fela faggiltum skoðunarstofum markaðseftirlit. Í því felst að einkaaðilum er falin framkvæmd markaðseftirlitsins samkvæmt almennu útboði Löggildingarstofu á þeim úrtaksskoðunum sem hún telur nauðsynlegt að gera hverju sinni, svo og til að verða við beiðnum sem henni berast í gegnum svonefnt RAPEX- tilkynningarkerfi Evrópusambandsins um hættulegar vörur á EES-markaðnum.
    Þetta eftirlit sem kennt hefur verið við „nýja aðferð“ er sem fyrr segir í stöðugri þróun og í nýjum tilskipunum ESB er svokölluðum tilnefndum aðilum (e. designated bodies) falið að meta hvort vörur séu hæfar til markaðssetningar, sbr. til að mynda áðurnefnd ákvæði um lokaskoðun á lyftum o.s.frv. Fyrirsjáanlegt er að í æ fleiri tilskipunum ESB, svo og íslenskum lögum og reglugerðum sem sett verða til að innleiða slík ákvæði, verði sífellt meira vísað til þessa kerfis sem hér hefur verið lýst. Af þessum ástæðum þykir nú rétt að hugtakið sé skilgreint í almennum lögum um öryggi vöru, sbr. einnig notkun þessa hugtaks í 9. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að ný grein, 9. gr. a, bætist við ákvæði laganna um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu. Er því lagt til að nýju ákvæði, 7. gr. a, verði bætt við lögin og að þar verði tilnefndur aðili skilgreindur sem aðili sem stjórnvöld telja hæfan til að meta samræmi vöru við þau ákvæði laga og reglna sem um þær vörur gilda.
    Í framtíðinni kann einnig að vera nauðsynlegt að nota síðar heimildarákvæði laganna um setningu reglugerða, sbr. ákvæði 27. gr. í gildandi lögum, og nú þegar nota ýmis ráðuneyti þetta hugtak í reglum sem þau eru að setja til að innleiða tilskipanir ESB. Þessi sjónarmið eiga einnig við varðandi nauðsyn þess að setja í lög um öryggi vöru skilgreiningu á hugtakinu tilkynntur aðili.
    Í b-lið greinarinnar er lagt til að í 7. gr. b verði tilkynntir aðilar (e. notified bodies) skilgreindir, en það eru þeir tilnefndu aðilar sem hlutaðeigandi stórnvöld á hverjum tíma ákveða að skuli tilkynntir til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og framkvæmdastjórnar ESB. Á stjórnvöldum hvílir ekki skylda til þess að tilkynna til ESA um alla aðila sem tilnefndir hafa verið á hlutaðeigandi vörusviði. Þegar um er að ræða vörur sem unnt er að flytja og markaðssetja á öllum innri markaðnum mundu yfirleitt flestir tilnefndir aðilar verða tilkynntir með framangreindum hætti. Nauðsynlegt þykir að hafa þetta hugtak einnig í lögunum.
    Nú þegar reynir nokkuð á notkun þessa hugtaks samkvæmt ýmsum reglugerðum sem settar hafa verið á undanförnum árum, sbr. t.d. áðurnefnda reglugerð félagsmálaráðuneytisins nr. 341/2003. Í framtíðinni munu sífellt fleiri reglugerðir verða settar sem byggjast á þessum hugtökum þar sem fyrirsjáanlegt er að sífellt fleiri vöruflokkar muni falla undir „nýju aðferðar“ lagasetningu Evrópusambandsins sem á að tryggja frjálst flæði vöru og einföldun í eftirliti á markaðnum. Fleiri og fleiri vörutegundir munu því í framtíðinni lúta þessu kerfi við markaðssetningu á vörum og vera lykilatriði varðandi frjálst flæði vöru á innri markaðnum.
    Loks má geta þess að þegar stjórnvöld hafa tilkynnt aðila til ESA og framkvæmdastjórnar ESB er á heimasíðum ESB birtur listi yfir alla tilkynnta aðila frá öllum EES-ríkjunum. Framangreind tilkynning íslenskra stjórnvalda hefur þau áhrif að önnur aðildarríki á EES-svæðinu verða að samþykkja öll vottorð, skýrslur og ákvarðanir sem tilkynntur aðili gefur út eða tekur við framkvæmd starfa sinna. Jafnframt veitir framangreind tilkynning tilkynntum aðila fullan rétt til að veita þjónustu í öllum ríkjum EES-svæðisins fyrir þær vörur sem tilnefning hans tekur til.

Um 6. gr.


    Í 1. mgr. 8. gr. gildandi laga er að finna skilgreiningu á því hvað telst örugg vara og koma þar fram þau viðmið sem hafa ber til hliðsjónar við mat á því hvort vara telst vera örugg. Er ákvæðið í samræmi við eldri tilskipunina um öryggi framleiðsluvöru, nr. 92/59/EBE. Í b-lið 2. gr. nýju tilskipunarinnar nr. 2001/95/EB um öryggi vöru er að finna ítarlegri ákvæði um þetta efni. Síðan lög um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu voru samþykkt hafa einnig orðið aðrar breytingar er snerta skilgreininguna á því hvað telst örugg vara. Þannig er t.d. í tilskipun 99/44/EB sem innleidd var á Íslandi með lögum nr. 48/2003, um neytendakaup, m.a. að finna nýja skilgreiningu á hugtakinu galli í neytendakaupum. Þannig getur vara t.d. reynst gölluð ef um er að ræða hlut sem neytandi á að setja saman ef leiðbeiningar um samsetningu hlutarins eru ófullnægjandi af hálfu seljanda, sbr. nánari umfjöllun um þessi atriði í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 48/2003. Tekur nýja tilskipunin um öryggi vöru mið af þeirri þróun sem orðið hefur á því við hvaða þætti eigi að miða þegar það skal metið hvort varan teljist vera örugg eða ekki. Hér er því að finna innleiðingu á ákvæðum hinnar nýju tilskipunar um þetta efni.

Um 7. gr.


    Í greininni er lagt til að bætt verði nýrri grein við lögin, 8. gr. a, þar sem fram koma skilgreiningar á hugtökunum „afturköllun“ og „vara tekin af markaði“. Skilgreiningarnar eru í samræmi við g- og h-lið 2. gr. tilskipunar um öryggi vöru.
    Með afturköllun er átt við ráðstafanir sem miða að því að hættulegri vöru sem þegar hefur verið afhent eða boðin neytendum verði skilað. Það að vara sé tekin af markaði merkir þær aðgerðir sem miða að því að koma í veg fyrir að hættuleg vara fari í dreifingu, verði til sýnis eða verði boðin neytendum. Það að vara sé tekin af markaði á að tryggja að neytendur geti framvegis ekki keypt viðkomandi vöru. Þetta getur t.d. falist í því að vörur eru fjarlægðar af útsölustöðum. Það að vara sé tekin af markaði hefur þannig ekki áhrif á vörur sem þegar eru komnar til neytenda. Það telst hins vegar til afturköllunar þegar ráðstafanir eru gerðar til að fjarlægja vörur sem þegar eru komnar til neytenda.
    Í tilskipuninni koma ekki fram reglur um uppgjör milli neytanda og seljanda þegar vara er afturkölluð og gilda því ákvæði laga um neytendakaup þar um.

Um 8. gr.


    Í greininni eru lagðar til nokkrar breytingar á 9. gr. laga um öryggi vöru. Lagt er til að þrjár nýjar málsgreinar komi í stað 2. mgr. greinarinnar þar sem nú koma fram þau atriði sem höfð skal hliðsjón af þegar öryggi vöru er metið í þeim tilvikum þar sem lög kveða ekki sérstaklega á um öryggi vöru.
    Í fyrstu málsgreininni, sem verður 2. mgr. 9. gr., er kveðið á um að vara teljist örugg ef hún uppfyllir skilyrði sem koma fram í innlendum stöðlum sem innleiða Evrópustaðla. Ákvæðið er í samræmi við 2. tölul. 2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar um öryggi vöru, en í tilskipuninni er mælt fyrir um að komið skuli á fót Evrópustöðlum sem taka til tiltekinna vara og áhættu, þannig að vara sem uppfyllir innlendan staðal sem innleiðir Evrópustaðal skal talin örugg vara. Er þetta gert í því skyni að einfalda skilvirka og samræmda beitingu almennra öryggiskrafna tilskipunarinnar. Þannig gera samræmdir Evrópustaðlar það að verkum að auðveldara verður fyrir framleiðendur vöru að sjá hvaða kröfur eru gerðar til öryggis vöru auk þess sem þeir tryggja samræmda framkvæmd tilskipunarinnar um öryggi vöru á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Ákvæði 2. mgr. 9. gr. er ekki ætlað að koma í veg fyrir að gerðar séu strangari kröfur til öryggis vöru í þeim tilvikum þar sem sérstök lög eða reglur gilda um öryggi vöru. Þá er ákvæðinu ekki ætlað að koma í veg fyrir að gerðar séu strangari kröfur af hálfu eftirlitsstjórnvalds ef stjórnvaldið getur sýnt fram á að varan sé hættuleg þrátt fyrir að hún uppfylli umrædda staðla.
    Í 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar koma fram þau atriði sem höfð skal hliðsjón af við mat á því hvort vara er örugg í þeim tilvikum þar sem ákvæði um öryggi vöru er ekki að finna í reglum eða stöðlum sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. 9. gr. laganna. Ákvæðið er í samræmi við 3. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Þegar aðstæður þær sem um getur í 1. og 2. mgr. 9. gr. eru ekki fyrir hendi skal einkum höfð hliðsjón af eftirfarandi þáttum, séu þeir fyrir hendi, þegar öryggi vöru er metið. Í fyrsta lagi skal höfð hliðsjón af íslenskum stöðlum. Í öðru lagi skulu tilmæli framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þar sem fram koma viðmiðunarreglur um mat á öryggi vöru höfð til viðmiðunar. Í þriðja lagi skal líta til gildandi laga og reglna um góðar starfsvenjur varðandi öryggi vöru innan viðkomandi atvinnugreinar. Í fjórða lagi skal höfð hliðsjón af öðrum alþjóðlegum stöðlum, t.d. ISO-stöðlum. Loks skal höfð hliðsjón af öðrum viðeigandi atriðum, svo sem eðli vöru, öðrum vörum sem hún er notuð með, tæknistigi og tækni og því öryggi sem neytendur geta vænst með réttu. Rétt er að taka fram að upptalningin í ákvæðinu er ekki tæmandi og að röð atriða í upptalningunni hefur ekki þýðingu varðandi mikilvægi.
    Í 3. mgr. frumvarpsgreinarinnar er lagt til að kveðið verði á um að séu ekki til sérákvæði um öryggi tiltekinnar vöru í tilskipunum Evrópusambandsins teljist varan örugg ef hún er í samræmi við sérreglur í landslögum þess EES-ríkis þar sem hún er markaðssett enda séu slíkar reglur í samræmi við grundvallarreglur Evrópusambandsins og EES-samningsins um leyfilegar takmarkanir að því er varðar öryggi vöru.

Um 9. gr.


    Í ákvæðinu er lagt til að nýrri grein, 9. gr. a, verði bætt við lögin til samræmis við fyrirmæli 5. gr. og I. viðauka tilskipunarinnar um öryggi vöru um skyldur framleiðenda og dreifingaraðila.
    Í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að framleiðanda vöru beri að upplýsa neytendur um áhættu sem fylgt getur vörunni á eðlilegum og fyrirsjáanlegum notkunartíma hennar sé hún ekki augljós og gera varúðarráðstafanir gegn slíkri áhættu. Í 2. málsl. málsgreinarinnar kemur skýrt fram að þó að varað sé við áhættu undanþiggur það viðkomandi aðila ekki þeirri skyldu að hlíta öðrum fyrirmælum laga um öryggi vöru. Ákvæðið byggist á 1. og 2. lið 1. mgr. 5. gr. vöruöryggistilskipunarinnar.
    2. mgr. er í samræmi við 3. og 4. lið 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar. Þar er lagt til að mælt verði fyrir um að framleiðendum og dreifingaraðilum beri að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að hættuleg vara komist á markað. Dæmi um slíkar ráðstafanir eru að fela tilnefndum eða tilkynntum aðila yfirferð samræmisyfirlýsingar þegar lög eða reglur sem gilda um viðkomandi vöru gera kröfu um það, að gera úrtaksprófanir á markaðssettum vörum, taka kvartanir til meðferðar og veita upplýsingar um hættueiginleika vörunnar, framleiðanda hennar og tilvísunarnúmer vörunnar, eða þar sem við á, framleiðslulotunnar sem hún tilheyrir. Þessar aðgerðir skulu framkvæmdar að eigin frumkvæði eða að beiðni lögbærra yfirvalda.
    Í 3. mgr. er lagt til að bætt verði við lögin ákvæði sem er í samræmi við 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið snýr einungis að dreifingaraðilum vöru og kveður á um skyldu þeirra til að gæta þess vandlega að farið sé að gildandi öryggiskröfum og afhenda ekki vörur sem þeir vita eða ættu að vita, með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum og sem fagmenn, að uppfylla ekki gildandi öryggiskröfur.
    Ákvæði 4. mgr. er í samræmi við 3. mgr. 5. gr. og I. viðauka tilskipunarinnar um öryggi vöru. Í málsgreininni er lagt til að kveðið verði á um að ef framleiðendur eða dreifingaraðilar fá eða ættu hafa vitneskju um að vara sem þeir hafa sett á markað stofni neytendum í hættu eða veruleg áhætta geti fylgt áframhaldandi notkun hennar án frekari öryggisráðstafana eða úrbóta beri þeim að tilkynna eftirlitsstjórnvöldum um það tafarlaust. Auk þess beri þeim að tilkynna eftirlitsstjórnvöldum til hvaða aðgerða þeir hafa gripið til að koma í veg fyrir að neytendum sé stofnað í hættu. Með því að leggja slíka tilkynningarskyldu á framleiðendur og dreifingaraðila einnig í tilvikum þar sem þeir „ættu að hafa vitneskju um“ að vara stofni neytendum í hættu er undirstrikuð skylda þessara aðila skv. 2. mgr. ákvæðisins til að halda uppi eigin eftirliti. Þannig geta framleiðendur og dreifingaraðilar ekki undanþegið sig tilkynningarskyldunni samkvæmt málsgreininni með vísan til þess að þeir hafi ekki brugðist við upplýsingum neytenda sem bent gátu til þess að tiltekin vara væri hættuleg. Þá er í samræmi við I. viðauka tilskipunarinnar kveðið á um það í ákvæðinu að framleiðendum og dreifingaraðilum sé skylt að senda eftirlitsstjórnvöldum í þeim aðildarríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem viðkomandi vörur hafa verið markaðssettar eða afhentar neytendum á annan hátt upplýsingar skv. 4. mgr. ákvæðisins. Ef um er að ræða alvarlega áhættu skulu þær upplýsingar sem koma frá framleiðendum og dreifingaraðilum að lágmarki innihalda í fyrsta lagi upplýsingar sem gera kleift að bera nákvæm kennsl á viðkomandi vöru eða framleiðslulotu, í öðru lagi nákvæma lýsingu á hættunni sem viðkomandi vörur hafa í för með sér, í þriðja lagi allar tiltækar upplýsingar sem kunna að vera nauðsynlegar til að rekja uppruna vörunnar og í fjórða lagi lýsingu á aðgerðum sem gripið hefur verið til í því skyni að koma í veg fyrir að neytendum sé hætta búin.
    Í 5. mgr. er lagt til að bætt verði við lögin ákvæði sem tryggja á að unnt sé að rekja uppruna vöru. Ákvæðið er í samræmi við síðari hluta 2. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar. Í fyrri málslið ákvæðisins er sú skylda lögð á dreifingaraðila að halda utan um skjöl sem nauðsynleg eru til að rekja uppruna vöru. Upplýsingar sem teljast nauðsynlegar til að rekja uppruna vöru eru nafn og heimilisfang fyrri söluliðar, innflytjanda eða framleiðanda auk upplýsinga um vörunúmer eða önnur þau skjöl sem gera það mögulegt að bera kennsl á viðkomandi vöru. Í síðari málslið málsgreinarinnar er kveðið á um að geyma skuli upplýsingarnar í þann tíma sem telst eðlilegur miðað við endingartíma vörunnar. Þó er aldrei gerð krafa um að upplýsingar séu geymdar lengur en skylt er að geyma skjöl samkvæmt ákvæðum bókhaldslaga. Í ákvæðinu eru ekki fyrirmæli um hvernig geyma ber umrædd skjöl. Eðlilegt þykir að geymslutíminn sé sá sami og í bókhaldslögum, en reynslan sýnir að afskipti af vöru eiga sér í flestum tilvikum stað innan þess tíma sem þar er kveðið á um.
    6. mgr. byggist á 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar og kveður á um þá skyldu framleiðenda og dreifingaraðila að afturkalla vöru eða taka hana af markaði samkvæmt ákvörðun eftirlitsstjórnvalds ef aðgerðir skv. 1. og 2. mgr. eru ekki nægilegar til að koma í veg fyrir hættu sem stafar af vörunni. Við mat á því hvort afturkalla á vöru eða hvort aðrar aðgerðir duga skal taka mið af eðli áhættunnar og því hversu líklegt er að tjón verði. Þegar vara er afturkölluð er mikilvægt að framleiðendur og dreifingaraðilar reyni að koma tilkynningu um afturköllun vörunnar til þeirra neytenda sem keypt hafa hina hættulegu vöru. Ef til er skrá yfir neytendur sem keypt hafa vöruna gefur það tilefni til að hafa beint samband við þá neytendur og veita þeim upplýsingar um galla vörunnar og hættuna sem getur leitt af henni auk þess að skora á þá að skila vörunni. Ef ekki er til skrá yfir kaupendur er eðlilegt að framleiðendur og dreifingaraðilar gefi út fréttatilkynningar, auglýsi í fjölmiðlum og á útsölustöðum og veiti upp- lýsingar á heimasíðum sínum þar sem neytendur eru hvattir til að skila hinni hættulegu vöru.
    Í 7. mgr. er lagt til að bætt verði við lögin ákvæði sem leggur þá skyldu á framleiðendur og dreifingaraðila að þeir skuli ekki flytja út frá Íslandi vöru eða þjónustu til landa utan Evrópska efnahagssvæðisins ef vara hefur verið tekin af markaði vegna hættu sem neytendum stafar af vörunni eða þjónustunni.
    Loks er í 8. mgr. kveðið á um að ákvæði 9. gr. a eigi einnig við um þjónustu eftir því sem við getur átt.

Um 10. gr.


    Í greininni eru lagðar til fjórar breytingar á 10. gr. laganna. Í fyrsta lagi eru í a- og c-lið lagðar til orðalagsbreytingar sem taka tillit til þess að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ákvæði laganna um öryggi vöru skuli einnig taka til þjónustu, sbr. 1. og 2. gr. frumvarpsins.
    Í öðru lagi er í b-lið lögð til breyting til samræmis við breytingu á 9. gr. laganna varðandi staðla, sbr. 8. gr. frumvarpsins.
    Loks er í d-lið lögð til breyting er varðar varúðar- og notkunarleiðbeiningar, en lagt er til að slíkar leiðbeiningar sem tryggja eiga örugga notkun vöru skuli vera í eðlilegri lesstærð og á íslenski ritmáli ef það á við. Breytingin er lögð til þar sem reynslan sýnir að slíkt ákvæði er nauðsynlegt. Algengt er að leiðbeiningar um örugga meðhöndlun á vöru séu myndrænar. Í framkvæmd hefur reynslan sýnt að slíkar varúðarleiðbeiningar eru oft mjög smáar og illmögulegt að lesa út úr þeim þau skilaboð sem framleiðandi vill koma á framfæri til neytenda. Auk þess er mikilvægt, ef um er að ræða ritaðar leiðbeiningar, að þær séu á íslensku. Í nýlegu tilviki má t.d. nefna að bruni í íbúð hérlendis orsakaðist af því að kveikt hafði verið á tveimur kertum sem voru seld í bastkörfu og í plastumbúðum. Neytandinn tók plastumbúðir af en á botni körfunnar voru smáar og óskýrar myndrænar leiðbeiningar auk viðvörunartexta á ensku og þýsku um að aldrei mætti kveikja í kertunum í körfunum sem þau voru þó seld í. Að kvöld var slökkt á kertunum og þau sett inn í tréskáp í körfunni, en af því hlaust eldsvoði sem olli miklu tjóni á íbúðarhúsnæðinu. Í þessu dæmi er því augljóst að skýrari viðvaranir kynnu að hafa vakið athygli kaupandans á framangreindri hættu sem stafaði af notkun vörunnar. Hér verður einnig að hafa í huga að það er í reynd í þágu framleiðenda að hafa slíkar leiðbeiningar skýrar enda geta þeir sætt skaðabótaábyrgð í samræmi við ákvæði laga um skaðsemisábyrgð auk laga um öryggi vöru.

Um 11. gr.


    Í greininni eru lagðar til nokkrar breytingar á 12. gr. laganna um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu vegna fyrirmæla tilskipunarinnar um öryggi vöru um auknar skyldur framleiðenda og dreifingaraðila. Lagt er til að í upphafi ákvæðisins verði bætt við nýjum málslið þar sem kveðið verði á um að framleiðendum og dreifingaraðilum sé skylt að beiðni eftirlitsstjórnvalda að veita þeim aðstoð í tengslum við aðgerðir sem stuðla eiga að öryggi neytenda. Þá er lagt til að gildandi 12. gr. verði óbreytt síðari málsliður 12. gr., en þar er kveðið á um skyldu framleiðenda og dreifingaraðila til afhendingar skráa með upplýsingum um birgja og þá er bjóða fram vörur þeirra ef eftirlitsstjórnvöld óska eftir því í tengslum við rannsókn máls.

Um 12. gr.


    Í greininni er lögð til breyting á 7. tölul. 14. gr. laganna. Miðar breytingin að því að leiðrétta tilvísun í gildandi lögum til tilskipunar 83/189/EBE sem ekki á við í þessu sambandi. Jafnframt er skýrt í greininni að Löggildingarstofa skuli vera tengiliður á Íslandi við tilkynningarkerfi ESB um hættulegar vörur, svonefnt RAPEX-kerfi, skv. 12. gr. tilskipunar 2001/95/ EB.
    Í tilskipun um öryggi vöru er eftirlitsstjórnvöldum er annast framkvæmd tilskipunarinnar (Löggildingarstofu) gert skylt að taka einnig þátt í Evrópuneti lögbærra (sjá 10. gr. 2001/95/ EB) yfirvalda um framkvæmd tilskipunarinnar og sækja fundi í þeirri nefnd sem starfar skv. 15. gr. tilskipunarinnar.
    Virk þátttaka og samstarf eftirlitsstjórnvalda á sviði vöruöryggis er því að mati framkvæmdastjórnar ESB ein af meginforsendum frjáls vöruflæðis og viðskipta án hindrana á innri markaði Evrópusambandsins og EES-ríkjanna. Um leið og kostnaðarsömum viðskiptahindrunum er rutt úr vegi fyrir viðskiptalífið er samhliða aukið vægi markaðseftirlits og opinberrar markaðsgæslu.
    Helsta ástæða þessarar þróunar er sú að með því telur framkvæmdastjórn ESB að tryggt verði að aukið frelsi í viðskiptum leiði ekki til þess að neytendum stafi aukin hætta af hættulegum vörum á markaðnum. Stjórnsýslukostnaður Löggildingarstofu mun því aukast sem nemur kostnaði við þátttöku vegna þessarar tilskipunar.

Um 13. gr.


    Í greininni er lögð til breyting á 1. og 2. mgr. 16. gr. laganna sem fjalla um samvinnunefndir. Í 1. mgr. 16. gr. í gildandi lögum er að finna heimildarákvæði fyrir Löggildingarstofu til að setja á fót samvinnunefnd um samstarf við önnur eftirlitsstjórnvöld og skoðunarstofur. Lagt er til að stofnuninni verði skylt að setja á fót slíkar samvinnunefndir, en Löggildingarstofa gegnir mikilvægu samræmingarhlutverki varðandi þau eftirlitsstörf sem ýmsum stjórnvöldum kunna að vera falin. Mikil hagkvæmnisrök eru fyrir því að eftirlit sé skipulagt með þeim hætti að sem minnstur kostnaður hljótist af fyrir atvinnulífið í landinu og stjórnvöld. Því markmiði verður ekki náð nema hið almenna eftirlitsstjórnvald, þ.e. Löggildingarstofa, sinni því hlutverki á virkan hátt og tryggi að samlegðaráhrif í eftirliti á markaði verði hámörkuð. Af fenginni reynslu og einnig sem liður í framtíðarstefnumótun varðandi eftirlit á markaði þykir rétt að kveða á um að stofnuninni skuli vera skylt, en ekki bara heimilt, að stofna til samvinnunefnda og skipuleggja slíkt samstarf milli eftirlitsstjórnvalda í landinu, þannig að markmiðum um sem mesta hagkvæmni í eftirliti á markaði verði náð. Þá er lögð til orðalagsbreyting á 2. mgr. 16. gr. laganna þar sem fjallað er um hlutverk samvinnunefnda, en breytingunni er ætlað að gera ákvæðið skýrara.

Um 14. gr.


    Hér er lögð til breyting á 2. mgr. 18. gr. laganna, en þar er kveðið á um að lögregla skuli vera eftirlitsstjórnvöldum til aðstoðar ef nauðsyn krefur vegna rannsóknar mála og við framkvæmd þeirra réttarúrræða sem kveðið er á um í lögunum. Lagt er til að nýr málsliður bætist við málsgreinina þar sem kveðið verði á um að lögreglan skuli tilkynna Löggildingarstofu um slys sem hún rannsakar ef ætla má að það sé af völdum vöru eða þjónustu sem lög um öryggi vöru taka til.
    Löggildingarstofu berast ávallt tilkynningar frá lögreglu ef slys eða bruni er talið vera af völdum rafmagns eða rafmagnstækja. Mikilvægt er að eftirlitssaðilum berist upplýsingar um öll slík tilvik. Hið sama gildir um markaðseftirlit með almennu öryggi vöru og þjónustu. Slíkar tilkynningar geta leitt til þess að unnt verði að afturkalla vörur af markaðnum ef einsýnt þykir að þær séu orsakavaldur slyss og koma þannig í veg fyrir að fleiri verði fyrir skaða af vörunni. Augljóst er að slíkar tilkynningar og upplýsingar munu ekki leiða til afturköllunar vöru nema í undantekningartilvikum. Hins vegar eru slíkar upplýsingar mikilvægar fyrir eftirlitsstjórnvaldið og geta aðstoðað það við ýmiss konar mat á hættueiginleikum vöru eða þjónustu og þannig stuðlað að því að gripið verði til viðeigandi aðgerða sem eru í samræmi við þá hættu sem telja má að stafi af hlutaðeigandi vöru eða þjónustu.

Um 15. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 20. gr. laganna, en þær leiðir af breytingum sem lagðar eru til í 8. gr. frumvarpsins varðandi það þegar vara er tekin af markaði eða afturkölluð, sbr. g- og h-lið 2. gr. tilskipunar um öryggi vöru.

Um 16. gr.


    Í ákvæðinu er lögð til breyting á 21. gr. laganna. Leiðir breytinguna af breytingum sem lagðar eru til í 8. gr. frumvarpsins.

Um 17. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 22. gr. laganna. Leiðir breytingarnar af breytingum sem lagðar eru til í 8. gr. frumvarpsins.

Um 18. gr.


    Hér er lagt til að nýrri grein, 22. gr. a, verði bætt við lögin þar sem kveðið verði á um heimild eftirlitsstjórnvalds til að krefjast þess að vara eða þjónusta sem geti haft í för með sér áhættu við tiltekin skilyrði sé merkt með upplýsingum á íslensku. Í upplýsingunum skal skýrlega greina frá þeirri áhættu sem kann að vera samfara vörunni eða þjónustunni. Heimild til þess að krefjast þess að upplýsingar séu á íslensku er í samræmi við b-lið 1. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar um öryggi vöru, en þar er kveðið á um að lögbærum yfirvöldum sé heimilt að krefjast þess að allar vörur, sem gætu haft í för með sér áhættu við tiltekin skilyrði, séu merktar með viðeigandi skýrum og auðskiljanlegum varnaðarorðum um áhættu sem vera kann samfara vörunni á opinberu tungumáli ríkisins þar sem hún er markaðssett.

Um 19. gr.


    Í greininni er lögð til breyting á 2. mgr. 23. gr. laganna. Leiðir breytinguna af breytingum sem lagðar eru til í 6. gr. frumvarpsins.

Um 20. gr.


    Í athugasemdum við 5. gr. frumvarpsins er því lýst með hvaða hætti svonefndir tilnefndir aðilar munu framvegis koma að því að tryggja öryggi vöru á markaði. Af þessari ástæðu þykir því rétt að bæta þeim inn í þá upptalningu sem nú er að finna í lögunum um öryggi vöru. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringar.

Um 21. og 22. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 134/1995,
um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, með síðari breytingum.

    Frumvarpið miðar annars vegar að því að koma í framkvæmd tilskipun Evrópusambandsins 2001/95/EB, um öryggi vöru, og hins vegar að færa út gildissvið laganna þannig að þau nái til þjónustu, en ekki einungis til þjónustu sem veitt er í tengslum við vöruskipti eins og er samkvæmt gildandi lögum. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að kostnaður við aukið eftirlit verði u.þ.b. 4–5 m.kr. á ári og verður auknum útgjöldum mætt innan fjárlagaramma stofnunarinnar.