Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 737. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1097  —  737. mál.




Frumvarp til laga



um stofnun Landsnets hf.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Iðnaðarráðherra skal beita sér fyrir stofnun hlutafélags er skal annast raforkuflutning og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga, nr. 65/2003.
    Iðnaðarráðherra annast undirbúning að stofnun Landsnets hf. og fer með framkvæmd laga þessara.

2. gr.

    Hlutverk Landsnets hf. er að annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga, nr. 65/2003, og er því óheimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem því er nauðsynleg til að geta rækt skyldur sínar samkvæmt raforkulögum. Hlutafélaginu er þó heimilt að reka raforkumarkað. Stjórn Landsnets hf. skal vera sjálfstæð gagnvart öðrum fyrirtækjum sem stunda vinnslu, dreifingu eða sölu raforku eftir því sem nánar er ákveðið í samþykktum þess.

3. gr.

    Ríkissjóður Íslands er eigandi alls hlutafjár í Landsneti hf. við stofnun þess. Iðnaðarráðherra fer með eignarhlut ríkisins í Landsneti hf. Stjórn Landsnets hf. skal skipuð þremur mönnum sem iðnaðarráðherra fær til starfans án tilnefningar.

4. gr.

    Landsnet hf. skal frá 1. janúar 2005 annast rekstur þeirra flutningsvirkja er falla undir skilgreiningu 6. tölul. 3. gr. raforkulaga, nr. 65/2003. Fram að þeim tíma skal það undirbúa reksturinn m.a. með því að koma fram gagnvart eigendum flutningsvirkja við mat á verðmæti slíkra eigna, sbr. ákvæði til bráðabirgða XI í sömu lögum.
    Heimilt skal að selja allt hlutafé ríkissjóðs í Landsneti hf. þegar flutningsvirki skv. 6. tölul. 3. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, hafa verið metin endanlegu mati og fyrir liggur hvort eigendur þeirra kjósa að leggja flutningsvirkin inn í Landsnet hf. sem hlutafé. Kaupendur hlutafjár geta einungis verið eigendur þeirra flutningsvirkja er falla undir 6. tölul. 3. gr. raforkulaga, nr. 65/2003.

5. gr.

    Í stofnyfirlýsingu Landsnets hf. skal mælt fyrir um þau atriði sem áskilið er að fram komi í stofnsamningi samkvæmt hlutafélagalögum að öðru leyti en getið er um í lögum þessum.

6. gr.

    Um skattskyldu Landsnets hf. skal fara eins og um skattskyldu annarra orkufyrirtækja.

7. gr.

    Stofna skal Landsnet hf. á stofnfundi sem haldinn skal eigi síðar en 1. júní 2004. Á fundinum skal kjósa stjórn Landsnets hf. og skal hún starfa þar til ný stjórn hefur verið kosin á fyrsta aðalfundi eftir að lokaniðurstaða verðmats flutningsvirkja samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XI í raforkulögum, nr. 65/2003, liggur fyrir. Fram að því tímamarki skal Landsnet hf. hafa það verkefni að undirbúa starfsemi sína.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 15. mars 2003 voru samþykkt á Alþingi ný raforkulög, nr. 65/2003, þar sem kveðið var á um nýskipan raforkumála. Meginhluti laganna kom til framkvæmda 1. júlí 2003. Í ákvæði til bráðabirgða VIII í raforkulögum, nr. 65/2003, var þó kveðið á um að meginhluti III. kafla laganna tæki ekki gildi fyrr en 1. júlí 2004. Í ákvæði til bráðabirgða VII í lögunum var kveðið á um að iðnaðarráðherra skyldi skipa nefnd er hefði m.a. það hlutverk að gera tillögu um stærð flutningskerfisins og hvernig rekstri flutningskerfisins og kerfisstjórnunar skuli háttað þannig að öryggi, skilvirkni og hagkvæmni kerfisins verði sem best tryggð.
    Í nefndina voru eftirtaldir skipaðir: Bjarni Bjarnason, Einar Oddur Kristjánsson, Guðmundur Þóroddsson, Hannes G. Sigurðsson, Ingunn S. Þorsteinsdóttir, Jens Andrésson, Jón Bjarnason, Júlíus J. Jónsson, Kristján Haraldsson, Kristján Jónsson, Kristján Skarphéðinsson, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Magnús Reynir Guðmundsson, Nökkvi Bragason, Ólafur Örn Haraldsson, Óli Jón Gunnarsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Svanfríður Jónasdóttir, Valdimar K. Jónsson og Þorkell Helgason.
    Auk hinna skipuðu fulltrúa sátu Franz Árnason og Þórður Guðmundsson fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúar.
    Starfsmenn nefndarinnar voru Elín Smáradóttir, Helgi Bjarnason og Pétur Örn Sverrisson.
    Nefndin hefur lokið störfum og hefur verið samið frumvarp til breytinga á raforkulögum á grundvelli meirihlutaálits nefndarinnar. Meðal þeirra breytingartillagna sem þar eru gerðar við raforkulög, nr. 65/2003, er að ríkið hafi forgöngu um stofnun hlutafélags þess er skuli annast raforkuflutning og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga, nr. 65/2003. Gert er ráð fyrir að eftir stofnun hlutafélagsins Landsnets hf. skipi iðnaðarráðherra stjórn til bráðabirgða. Hlutverk hennar verði að koma fram fyrir hönd félagsins við mat á verðmæti flutningsvirkja, auk annarra lögbundinna stjórnarstarfa samkvæmt lögum um hlutafélög. Þá er gert ráð fyrir að stjórnin sitji þar til endanleg niðurstaða fæst um verðmæti flutningsvirkja og þar með um eignarhlutföll hluthafa í félaginu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um að iðnaðarráðherra skuli standa fyrir stofnun hlutafélags er taki að sér raforkuflutning og kerfisstjórnun í samræmi við III. kafla raforkulaga, nr. 65/2003. Hlutafélaginu Landsneti er ætlað að sinna þessu hlutverki. Ákvæði þessa frumvarps breyta í engu skyldum eða réttindum flutningsfyrirtækisins en áfram er kveðið á um þær í III. kafla raforkulaga, einkum 8., 9. og 12. gr.

Um 2. gr.


    Í greininni er áréttuð regla sem fram kemur í gildandi 4. mgr. 8. gr. raforkulaga, nr. 65/2003. Þar segir að Landsneti hf. sem hafa mun stöðu flutningsfyrirtækis skv. III. kafla raforkulaga sé óheimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem því er nauðsynleg til þess að geta rækt skyldur sínar samkvæmt raforkulögum. Í athugasemdum með 4. mgr. 8. gr. raforkulaga segir að krafa sé gerð um að flutningsfyrirtækið gæti fyllsta hlutleysis og jafnræðis við starfsemi sína. Af þeim sökum sé viðkomandi aðila óheimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem nauðsynleg er til að hann geti sinnt hlutverki sínu. Hins vegar getur verið mikilvægt að komið sé á markaði með raforku, t.d. til að jafna framboð og eftirspurn til skamms tíma, og er eðlilegt í ljósi hlutverks flutningsfyrirtækisins sem kerfisstjóra að það geti rekið slíkan markað.

Um 3. gr.


    Í greininni er kveðið á um að ríkissjóður Íslands skuli vera eigandi alls hlutafjár í Landsneti hf. við stofnun þess. Kveðið er á um að iðnaðarráðherra fari með eignarhlut ríkisins í Landsneti hf. og skuli skipa þriggja manna stjórn án tilnefningar. Eins og þegar hefur komið fram í almennum athugasemdum við frumvarpið er ætlunin að stjórn skipuð af ráðherra sitji aðeins þar til að niðurstaða liggur fyrir um verðmæti flutningsfyrirtækja er falla undir 6. tölul. 3. gr. raforkulaga, nr. 65/2003. Þegar sú niðurstaða er fengin verður ljóst hverjir eigenda flutningsvirkja kjósa að leggja þau inn í Landsnet hf. sem hlutafé og hve stóran eignarhlut hver þeirra hlýtur. Þegar sú niðurstaða liggur fyrir kemur til kasta 2. mgr. 4. gr. en þar er ríkissjóði heimilað að selja allt hlutafé sitt í Landsneti hf. þegar mat flutningsvirkja liggur fyrir. Samkomulag verður einnig að hafa náðst um eignarhlutföll milli einstakra hluthafa á grundvelli verðmætis flutningsvirkjanna.

Um 4. gr.


    Í 1. mgr. greinarinnar er kveðið á um að frá 1. janúar 2005 skuli Landsnet hf. annast rekstur þeirra flutningsvirkja sem falla undir skilgreiningu 6. tölul. 3. gr. raforkulaga, nr. 65/2003. Sé uppi ágreiningur um verðmæti flutningsvirkja skal Landsnet hf. leigja til sín viðkomandi flutningsvirki í því skyni að geta rækt skyldur sínar. Leigugjald skal ákveðið af Orkustofnun á grundvelli niðurstöðu matsnefndar sem gert er ráð fyrir að starfi á grundvelli 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XI í raforkulögum, nr. 65/2003, sem lagt er til að lögfest verði með frumvarpi sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi.
    Í 2. mgr. er kveðið á um heimild ríkissjóðs til þess að selja allt hlutafé sitt í Landsneti hf. Sala hlutafjárins getur fyrst farið fram þegar fyrir liggur ákvörðun allra eigenda flutningsvirkja er falla undir 6. tölul. 3. gr. raforkulaga um það hvort þeir ætli að leggja virkin inn sem hlutafé, selja Landsneti hf. þau eða leigja þau til Landsnets hf. Ríkissjóði verður heimilt að selja hlutafé sitt í Landsneti hf. til þeirra aðila er kjósa að leggja flutningsvirki sín inn í félagið. Í frumvarpi sem lagt er fram samhliða þessu er í ákvæði til bráðabirgða XII gert ráð fyrir að eigendum hlutafjár í fyrirtæki því sem hefur réttindi og skyldur skv. III. kafla raforkulaga verði óheimilt að framselja hluti sína í flutningsfyrirtækinu allt til loka árs 2011. Þegar verðmæti flutningsvirkja liggur fyrir samkvæmt framansögðu og eigendur þeirra flutningsvirkja er falla undir skilgreiningu á flutningskerfinu skv. 3. gr. raforkulaga hafa ákveðið hvort þeir kjósa að gerast hluthafar í Landsneti hf. mun ríkið framselja alla hluti sína í félaginu til þeirra sem hafa ákveðið að gerast hluthafar í Landsneti hf. með því leggja fram flutningsvirki sín. Kaupverð hlutafjárins verður hið sama og fé það sem ríkið hefur lagt inn í félagið sem hlutafé í því skyni að standa undir kostnaði við stofnun Landsnets hf. og undirbúningi starfseminnar allt fram til þess dags að skilyrði hafa skapast til þess að nýir eigendur yfirtaki starfsemi Landsnets hf.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 6. gr.


    Í greininni er kveðið á um að skattskyldu Landsnets hf. skuli fara eins og um skattskyldu annarra orkufyrirtækja. Endurskoðun á skattamálum orkufyrirtækja hefur staðið yfir á vegum fjármálaráðuneytisins frá árinu 2000 og er að vænta niðurstöðu þess starfs á næstunni. Eðlilegt þykir að ekki verði sérstaklega tekið af skarið um framtíðarfyrirkomulag skattskyldu Landsnets hf. með þessum lögum. Hentara þykir að beðið verði niðurstöðu endurskoðunar tilhögunar skattskyldu orkufyrirtækjanna og þar verði skattskyldu flutningsfyrirtækisins, Landsnets hf., skipað.

Um 7. gr.


    Í greininni er kveðið á um fyrir hvaða tímamark skuli halda stofnfund Landsnets hf. Í ákvæðinu er og hnykkt á því að sú stjórn sem fyrst hefur störf í Landsneti hf. skuli einungis sitja þar til að niðurstaða liggur fyrir um verðmæti flutningsfyrirtækja er falla undir 6. tölul. 3. gr. raforkulaga, nr. 65/2003. Fram að þeim tíma skuli Landsnet hf. hafa það verkefni að undirbúa framtíðarstarfsemi sína.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneytið,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um stofnun Landsnets hf.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að komið verði á fót hlutafélagi til að annast raforkuflutning og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga, nr. 65/2003. Frumvarpið er lagt fram samhliða öðru frumvarpi um fyrirkomulag raforkuflutningskerfisins og er eins og það frumvarp byggt á meirihlutaáliti nefndar sem skipuð var samkvæmt bráðabirgðaákvæði VII í gildandi raforkulögum til að fjalla um þessa þætti laganna.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að við stofnun hlutafélagsins verði það að fullu í eigu ríkisins. Þannig verði fyrir hendi lögaðili til að taka við eignum sem leggjast til flutningskerfisins og til að annast rekstur flutningsvirkja þar til endanlegt mat liggur fyrir. Þegar matið liggur fyrir munu þeir sem leggja eignir til félagsins taka við rekstri þess og verður þá heimilt að endurgreiða hlut ríkisins. Reiknað er með því að nægilegt verði að ríkið leggi fram lágmarkshlutafé til að stofna flutningsfyrirtækið, eða 4 m.kr. Stofnframlög og hlutafé færast til eignar í efnahagsreikningi ríkissjóðs og koma ekki fram sem útgjöld í rekstrarreikningi.