Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 740. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1104  —  740. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      6. tölul. orðast svo: Flutningskerfi: Raflínur og mannvirki þeim tengd sem nauðsynleg eru til að flytja raforku frá virkjunum til stórnotenda og til dreifiveitna á þeim afhendingarstöðum sem taldir eru upp í viðauka með lögum þessum. Það nær frá háspennuhlið stöðvarspenna virkjana sem tengjast því, sbr. 3. mgr. 5. gr., að háspennuhlið aðveituspenna stórnotenda eða dreifiveitna, þó ekki lengra en að mörkum þéttbýlis.
     b.      9. tölul. fellur brott og breytast númer síðari töluliða til samræmis við það.
     c.      Við bætist nýr töluliður, 16. tölul., svohljóðandi: Stórnotandi: Notandi sem notar á einum stað a.m.k. 14 MW afl og nýtir árlega forgangsorku í 8.000 stundir eða meira.

2. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Þó þarf ekki slíkt leyfi vegna raforkuvera með uppsettu afli sem er undir 1 MW nema orka frá raforkuveri sé afhent inn á dreifikerfi dreifiveitna eða flutningskerfið.

3. gr.

    3. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Tengja skal leyfisskylda virkjun flutningskerfinu, sbr. þó 2. mgr. 11. gr. Virkjanir sem eru 7 MW eða stærri skulu tengjast flutningskerfinu beint en minni virkjunum er heimilt að tengjast því um dreifiveitu.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
             Eitt fyrirtæki skal annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum þessa kafla. Fyrirtækið skal vera hlutafélag. Ráðherra veitir flutningsfyrirtækinu rekstrarleyfi þar sem kveðið skal á um réttindi og skyldur þess. Heimilt er að kveða á um að leyfið skuli endurskoðað að tilteknum tíma liðnum, enda hafi forsendur fyrir skilyrðum þess breyst verulega.
     b.      Við bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og orðast svo:
             Viðskiptavinir flutningsfyrirtækisins skulu vera dreifiveitur, stórnotendur og virkjanir.
     c.      Í stað „2. mgr.“ í 3. mgr. og 5. mgr. kemur: 3. mgr.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Ákvarða“ í 3. tölul. 4. mgr. kemur: Samræma.
     b.      5. tölul. 4. mgr. fellur brott.
     c.      Við bætist ný málsgrein, er verður 5. mgr., svohljóðandi:
             Flutningsfyrirtækinu er skylt að veita stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort fyrirtækið fullnægi skyldum sínum við rekstur og kerfisstjórnun flutningskerfisins og tryggi jafnræði við flutning raforku. Rísi ágreiningur um hvort fyrirtækinu sé skylt að veita umbeðnar upplýsingar sker Orkustofnun úr. Úrskurður Orkustofnunar í þessu efni sætir kæru til úrskurðarnefndar raforkumála.
     d.      Í stað „1.–5. tölul.“ í 5. mgr. kemur: 1.–4. tölul.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
             Eigendum flutningsvirkja sem falla undir 6. tölul. 3. gr. er skylt að selja eða leigja þau flutningsfyrirtækinu eða leggja þau fram sem hlutafé í flutningsfyrirtækinu.
             Eigendur flutningsvirkja sem leigð eru flutningsfyrirtækinu geta ávallt óskað eftir því að flutningsfyrirtækið kaupi flutningsvirki sem falla undir 6. tölul. 3. gr. eða að þau verði lögð fram sem hlutafé í flutningsfyrirtækinu.
     b.      1. málsl. 2. mgr., er verður 3. mgr., orðast svo: Eigendum flutningsvirkja sem leigð eru flutningsfyrirtækinu ber að viðhalda virkjum sínum til að tryggja öryggi og áreiðanleika flutninga um þau.

7. gr.

    12. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Tekjumörk og gjaldskrá.

    Orkustofnun skal setja flutningsfyrirtækinu tekjumörk vegna kostnaðar við flutning á raforku til dreifiveitna annars vegar og vegna flutnings til stórnotenda hins vegar. Við setningu tekjumarka skal taka tillit til þess hvort tenging stórnotenda leiði eða hafi leitt til hagkvæmari uppbyggingar og nýtingar flutningskerfisins en ella væri.
    Tekjumörkin skulu ákveðin út frá eftirfarandi viðmiðum:
     1.      Kostnaði sem tengist starfsemi fyrirtækisins, þ.m.t. kostnaði vegna viðhalds, afskrifta á nauðsynlegum eignum til reksturs kerfisins, leigukostnaði vegna flutningsvirkja, kostnaði við orkutöp, almennum rekstrarkostnaði og kostnaði við kerfisstjórnun.
     2.      Arðsemi flutningsfyrirtækisins skal vera sem næst markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa. Arðsemi reiknast sem hlutfall hagnaðar fyrir fjármunatekjur, fjármagnsgjöld og skatta (EBIT) og bókfærðs verðs fastafjármuna.
     3.      Hagræðingarkröfu sem skal taka mið af eðlilegum kostnaði samkvæmt mati Orkustofnunar að teknu tilliti til þeirrar þjónustu sem fyrirtækið veitir.
    Tekjumörk skulu ákveðin til þriggja ára í senn. Þó er heimilt að endurskoða tekjumörk árlega ef forsendur breytast verulega að mati Orkustofnunar.
    Flutningsfyrirtækið skal setja gjaldskrá vegna þjónustu sinnar í samræmi við tekjumörk skv. 2. mgr. Gjaldskráin skal gilda annars vegar fyrir úttekt dreifiveitna frá flutningskerfi og hins vegar fyrir úttekt stórnotenda. Hún skal einnig gilda fyrir úttekt dreifiveitna frá flutningskerfi á afhendingarstöðum, sbr. 6. tölul. 3. gr., miðað við 66kV spennu. Ef orka frá flutningskerfi er afhent á hærri spennu ber að lækka gjaldskrá með tilliti til þess. Með sama hætti skal taka tillit til annars mismunar á afhendingarþjónustu við gjaldtöku fyrir úttekt á einstökum afhendingarstöðum.
    Sama gjald skal vera fyrir innmötun virkjana á flutningskerfið. Þar sem virkjanir tengjast flutningskerfinu um dreifiveitu skal gjaldinu skipt milli flutningsfyrirtækisins og viðkomandi dreifiveitu eftir skiptireglu sem ákveðin skal af Orkustofnun að fenginni tillögu aðila.
    Varaaflsstöðvar sem nýttar eru þegar truflanir koma upp í raforkukerfinu skulu undanþegnar greiðslum til flutningskerfisins.
    Tveimur mánuðum áður en gjaldskráin á að taka gildi skal hún send Orkustofnun. Telji stofnunin framlagða gjaldskrá brjóta í bága við ákvæði laga þessara eða reglugerða skal hún koma athugasemdum á framfæri við flutningsfyrirtækið innan sex vikna frá móttöku. Gjaldskráin tekur ekki gildi fyrr en bætt hefur verið úr að mati Orkustofnunar. Flutningsfyrirtækið skal birta gjaldskrána opinberlega.
    Heimilt er að krefjast greiðslu ef tenging nýrra virkjana eða stórnotenda við flutningskerfið veldur auknum tilkostnaði í kerfinu. Með sama hætti er heimilt að taka tillit til þess ef tenging leiðir til hagkvæmari uppbyggingar eða nýtingar flutningskerfisins.
    Komi í ljós að arðsemi flutningsfyrirtækisins síðastliðin þrjú ár er undir helmingi af markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa eða meira en þriðjungi yfir sömu ávöxtun skal taka tillit til þess við setningu tekjumarka og gerð gjaldskrár næsta árs.
    Í reglugerð skal setja nánari ákvæði um tekjumörk, viðskiptaskilmála og gjaldskrá, m.a. um notkunarferla, afskriftareglur, arðsemismarkmið og kröfur um hagræðingu.

8. gr.

    Við 6. tölul. 3. mgr. 16. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Rísi ágreiningur um hvort fyrirtækinu sé skylt að veita umbeðnar upplýsingar sker Orkustofnun úr. Úrskurður Orkustofnunar í þessu efni sætir kæru til úrskurðarnefndar raforkumála.

9. gr.

    17. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Tekjumörk og gjaldskrá.

    Orkustofnun skal setja dreifiveitum tekjumörk vegna kostnaðar við dreifingu raforku. Ef heimilað er að hafa í gildi sérstaka gjaldskrá á dreifbýlissvæði, sbr. 5. mgr., skulu sérstök tekjumörk sett vegna dreifingar raforku í þéttbýli annars vegar og í dreifbýli hins vegar.
    Tekjumörkin skulu ákveðin út frá eftirfarandi viðmiðum:
     1.      Kostnaði sem tengist starfsemi dreifiveitu, þ.m.t. kostnaði vegna viðhalds, afskrifta á nauðsynlegum eignum til reksturs kerfisins, kostnaði vegna flutnings um flutningskerfið, almennum rekstrarkostnaði og kostnaði við kerfisstjórnun í dreifikerfinu.
     2.      Arðsemi dreifiveitu skal vera sem næst markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa. Arðsemi reiknast sem hlutfall hagnaðar fyrir fjármunatekjur, fjármagnsgjöld og skatta (EBIT) og bókfærðs verðs fastafjármuna.
     3.      Hagræðingarkröfu sem skal taka mið af eðlilegum kostnaði samkvæmt mati Orkustofnunar að teknu tilliti til þeirrar þjónustu sem dreifiveitan veitir.
    Tekjumörk skulu ákveðin til þriggja ára í senn. Þó er heimilt að endurskoða tekjumörk árlega ef forsendur breytast verulega að mati Orkustofnunar.
    Dreifiveita skal setja gjaldskrá vegna þjónustu sinnar í samræmi við tekjumörk, sbr. 2. mgr. Sama gjaldskrá skal gilda á veitusvæði hverrar dreifiveitu fyrir úttekt á lágspennu, þ.e. 230–400V spennu. Ef orka frá dreifiveitu er afhent á annarri spennu er heimilt að taka tillit til þess í gjaldskrá. Með sama hætti er við gjaldtöku heimilt að taka tillit til annars mismunar á þjónustu.
    Dreifiveitum er heimilt að sækja um leyfi til Orkustofnunar til að hafa sérstaka gjaldskrá á dreifbýlissvæðum þar sem kostnaður vegna dreifingar er sannanlega hærri en í þéttbýli. Það er skilyrði fyrir heimild til sérstakrar dreifbýlisgjaldskrár að notkun á viðkomandi dreifbýlissvæði sé a.m.k. 5% af heildarnotkun dreifiveitusvæðisins. Með umsókn um skiptingu gjaldskrár skulu fylgja upplýsingar um landfræðilega afmörkun svæða, landnotkun og fjölda íbúa á viðkomandi svæði, auk gagna sem sýna fram á að kostnaður við dreifingu til notenda á svæðinu sé hærri en til annarra.
    Tveimur mánuðum áður en gjaldskráin á að taka gildi skal hún send Orkustofnun. Telji Orkustofnun framlagða gjaldskrá brjóta í bága við ákvæði laga þessara eða reglugerða skal hún koma athugasemdum á framfæri við viðkomandi dreifiveitu innan sex vikna frá móttöku. Gjaldskrá tekur ekki gildi fyrr en bætt hefur verið úr að mati Orkustofnunar. Dreifiveita skal birta gjaldskrána opinberlega.
    Komi í ljós að arðsemi dreifiveitu síðastliðin þrjú ár er undir helmingi af markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa eða meira en þriðjungi yfir sömu ávöxtun skal taka tillit til þess við setningu tekjumarka og gerð gjaldskrár næsta árs.
    Standi væntanlegar tekjur dreifiveitu af nýjum viðskiptavini ekki undir eðlilegum stofn- eða rekstrarkostnaði er heimilt að krefja hann um greiðslu viðbótarkostnaðar. Sama á við hafi forsendur viðskipta breyst verulega.
    Í reglugerð skal setja frekari ákvæði um tekjumörk, viðskiptaskilmála og gjaldskrá, m.a. um afskriftareglur, arðsemismarkmið og kröfur um hagræðingu, auk nánari skilgreiningar dreifbýlis, sbr. 5. mgr.

10. gr.

    2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða IV í lögunum orðast svo:
    Gjaldskrár dreifiveitna sem í gildi eru við gildistöku laga þessara skulu þrátt fyrir 17. gr. halda gildi sínu til 1. janúar 2005. Dreifiveitur geta þó að fenginni staðfestingu Orkustofnunar ákveðið gjaldskrárlækkun. Þá geta dreifiveitur að fenginni staðfestingu Orkustofnunar hækkað gjaldskrá sína í samræmi við breytingar á byggingarvísitölu eða sannanlegar og óviðráðanlegar hækkanir á kostnaði sem er í beinum og efnislegum tengslum við starfsemina. Á þessu tímabili skulu gjaldskrársvæði dreifiveitna vera hin sömu og starfssvæði þeirra.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða VIII í lögunum:
     a.      1. og 2. mgr. orðast svo:
             Gildistöku ákvæða III. kafla er frestað. Skulu þau taka gildi 1. janúar 2005 nema annað sé tekið fram í ákvæði þessu. Sama á við um 6. tölul. 3. gr. og 3. mgr. 5. gr. laga þessara. Fram að þeim tíma skal ákvæði þetta gilda um flutning raforku.
             Flutningskerfið á gildistíma þessa ákvæðis er raflínur og mannvirki þeim tengd sem flytja raforku á 66, 132 og 220 kV spennu og tilheyra Landsvirkjun við gildistöku laga þessara, enn fremur viðbætur Landsvirkjunar eftir þann tíma á 132 kV spennu og hærri spennu til að auka flutninga um þetta kerfi en ekki geislalínur út frá kerfinu. Hið sama gildir um línur annarra á þessari spennu sem þeir semja við Landsvirkjun um að tilheyri flutningskerfinu. Til að leggja nýjar flutningslínur þarf Landsvirkjun leyfi iðnaðarráðherra.
     b.      3. málsl. 7. mgr. orðast svo: Þó getur stórnotandi samið við flutningsfyrirtækið um endurgjald vegna flutnings.

12. gr.

    Við lögin bætast fimm ný ákvæði til bráðabirgða er orðast svo ásamt fyrirsögnum:

    a. (IX.)

Arðsemi flutningsfyrirtækis og dreifiveitna.

    Við setningu tekjuramma flutningsfyrirtækisins vegna flutnings raforku til dreifiveitna skal Orkustofnun í upphafi miða við að arðsemi sé helmingur af markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa. Sama á við um tekjumörk dreifiveitna. Hækka skal arðsemisviðmiðunina á fimm árum í þá ávöxtun sem kveðið er á um í 2. tölul. 2. mgr. 12. gr. og 2. tölul. 2. mgr. 17. gr. Jafnframt skal að því stefnt að aukin hækkun arðsemisviðmiða geti haldist í hendur við hagræðingu svo að ekki þurfi að koma til gjaldskrárhækkana af þeim sökum.

    b. (X.)

Stofnun flutningsfyrirtækis.

    Við gildistöku laga þessara skal stofna hlutafélag í eigu ríkisins til að annast flutning raforku og kerfisstjórnun, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga þessara. Ráðherra skipar félaginu þriggja manna stjórn sem koma skal fram fyrir hönd þess við verðmat flutningsvirkja samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XI. Stjórn þessi skal sitja þar til endanleg niðurstaða um verðmæti flutningsvirkja liggur fyrir og gengið hefur verið frá samkomulagi eigenda hlutafjár í félaginu.

    c. (XI.)

Mat á verðmæti flutningsvirkja.

    Eigendur þeirra flutningsvirkja sem mynda flutningskerfið skv. 6. tölul. 3. gr. laga þessara skulu koma sér saman um mat á verðmæti þeirra. Stefnt skal að því að matsverðið sé sem næst endurstofnverði flutningsvirkjanna að teknu tilliti til framreiknaðra afskrifta sem bókfærðar hafa verið vegna viðkomandi eignar, auk annarra atriða sem máli kunna að skipta. Í þessu skyni skal ráðherra skipa samninganefnd sem í eiga sæti þrír fulltrúar skipaðir án tilnefningar, þar af skal einn vera formaður, tveir fulltrúar skulu tilnefndir af Reykjavíkurborg, einn af Akureyrarbæ og einn af eigendum Hitaveitu Suðurnesja hf. Orkustofnun skal vera nefndinni til ráðgjafar og aðstoðar. Samninganefndin skal hafa lokið störfum eigi síðar en 1. ágúst 2004. Útlagður kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði en eigendur skulu bera kostnað af störfum fulltrúa sinna.
    Ef ekki næst samkomulag í samninganefnd skv. 1. mgr. um verðmat einstakra flutningsvirkja skal ráðherra skipa sérstaka matsnefnd sem meta skal verðmæti þeirra að kröfu eiganda viðkomandi flutningsvirkis.
    Í matsnefndina skal skipa einn lögfræðing, sem verður formaður nefndarinnar, einn endurskoðanda og einn verkfræðing. Um hæfi matsmanna til meðferðar einstakra mála skal fara eftir ákvæðum laga um meðferð einkamála eftir því sem við á.
    Við mat á verðmæti flutningsvirkja skal matsnefndin miða við endurstofnverð að teknu tilliti til afskrifta. Lög nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, skulu gilda um störf matsnefndarinnar eftir því sem við á, að frátöldum 2. mgr. 2. gr., 7. gr., 11. gr. og 15. gr.
    Matsnefndin getur leitað umsagnar Orkustofnunar um það sem þurfa þykir.
    Kostnaður af störfum matsnefndarinnar skal greiðast af flutningsfyrirtækinu.
    Úrskurður matsnefndar skal liggja fyrir eigi síðar en 15. október 2004.
    Ágreiningur um verðmæti flutningsvirkja sem seld verða flutningsfyrirtækinu eða lögð inn í það sem hlutafé verður ekki borinn undir dómstóla fyrr en að gengnum úrskurði matsnefndar.
    Verði niðurstaða matsnefndar borin undir dómstóla skal flutningsfyrirtækið greiða eiganda flutningsvirkja leigu fyrir þau á grundvelli leigufjárhæðar sem Orkustofnun ákveður til bráðabirgða með hliðsjón af niðurstöðu matsnefndar.
    Þegar endanleg niðurstaða um verðmæti flutningsvirkja liggur fyrir skal eigandi þeirra tilkynna flutningsfyrirtækinu og Orkustofnun hvort hann velur að leggja virkin inn í flutningsfyrirtækið sem hlutafé, selja þau fyrirtækinu eða leigja þau til þess. Velji eigandi flutningsvirkja að leigja þau flutningsfyrirtækinu ákveður Orkustofnun leigugjaldið með hliðsjón af endanlegri niðurstöðu um verðmæti þeirra.

    d. (XII.)

Takmörkun á heimild til framsals hlutafjár í flutningsfyrirtækinu.

    Eigendum hlutafjár í flutningsfyrirtækinu er til loka ársins 2011 einungis heimilt að framselja hlutafé sitt til annarra hlutafjáreigenda í fyrirtækinu en ekki til aðila utan þess.

    e. (XIII.)

Endurskoðun.

    Ráðherra skal skipa nefnd sem falin skal endurskoðun laga þessara. Endurskoðuninni skal lokið fyrir 31. desember 2010.

13. gr.

    Við lögin bætist svofelldur viðauki:

Viðauki.

    Afhendingarstaðir til dreifiveitna úr flutningskerfi skv. 6. tölul. 3. gr.:
     1.      Svartsengi,
     2.      Fitjar,
     3.      Hamranes,
     4.      Hnoðraholt,
     5.      Rauðavatn,
     6.      Korpa,
     7.      Brennimelur,
     8.      Akranes,
     9.      Vatnshamrar,
     10.      Vegamót,
     11.      Ólafsvík,
     12.      Grundarfjörður,
     13.      Vogaskeið,
     14.      Glerárskógar,
     15.      Geiradalur,
     16.      Tálknafjörður,
     17.      Mjólká,
     18.      Breiðidalur,
     19.      Bolungarvík,
     20.      Ísafjörður,
     21.      Hrútatunga,
     22.      Laxárvatn,
     23.      Blanda,
     24.      Sauðárkrókur,
     25.      Varmahlíð,
     26.      Dalvík,
     27.      Rangárvellir við Akureyri,
     28.      Húsavík,
     29.      Laxá,
     30.      Krafla,
     31.      Lindarbrekka,
     32.      Silfurstjarna,
     33.      Kópasker,
     34.      Vopnafjörður,
     35.      Lagarfoss,
     36.      Eyvindará,
     37.      Seyðisfjörður,
     38.      Neskaupstaður,
     39.      Eskifjörður,
     40.      Hryggstekkur,
     41.      Stuðlar,
     42.      Fáskrúðsfjörður,
     43.      Teigarhorn,

     44.      Hólar,
     45.      Prestbakki,
     46.      Búrfell,
     47.      Hvolsvöllur,
     48.      Rimakot,
     49.      Vestmannaeyjar,
     50.      Flúðir,
     51.      Hella,
     52.      Selfoss,
     53.      Írafoss,
     54.      Hveragerði,
     55.      Þorlákshöfn.

14. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 15. mars 2003 voru samþykkt á Alþingi ný heildarlög um raforkumál. Taka lögin til framleiðslu, sölu, dreifingar og flutnings á raforku. Þau voru m.a. sett til þess að uppfylla skyldur íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum en samkvæmt ákvæðum hans ber íslenska ríkinu að innleiða í landsrétt reglur tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 96/92/EB um sameiginlegar reglur um innri markað á sviði raforku.
    Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða VIII við raforkulög er gildistöku III. kafla laganna sem fjallar um flutning raforku frestað til 1. júlí 2004. Fram að þeim tíma gildir um flutning raforku bráðabirgðatilhögun sem nánar er lýst í ákvæðinu.
    Í samræmi við ákvæði til bráðabirgða VII við lögin skipaði iðnaðarráðherra nefnd sem ætlað var að gera tillögu um fyrirkomulag flutnings raforku, m.a. um stærð flutningskerfisins og hvernig rekstri þess og kerfisstjórnunar skuli háttað þannig að öryggi, skilvirkni og hagkvæmni kerfisins verði sem best tryggð. Þá var nefndinni og falið að móta tillögur um með hvaða hætti jafna eigi kostnað vegna flutnings og dreifingar raforku.
    Í nefndina voru eftirtaldir skipaðir: Bjarni Bjarnason, Einar Oddur Kristjánsson, Guðmundur Þóroddsson, Hannes G. Sigurðsson, Ingunn S. Þorsteinsdóttir, Jens Andrésson, Jón Bjarnason, Júlíus J. Jónsson, Kristján Haraldsson, Kristján Jónsson, Kristján Skarphéðinsson, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Magnús Reynir Guðmundsson, Nökkvi Bragason, Ólafur Örn Haraldsson, Óli Jón Gunnarsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Svanfríður Jónasdóttir, Valdimar K. Jónsson og Þorkell Helgason.
    Auk hinna skipuðu fulltrúa sátu Franz Árnason (Norðurorku) og Þórður Guðmundsson (flutningssviði Landsvirkjunar) fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúar.
    Starfsmenn nefndarinnar voru Elín Smáradóttir, Helgi Bjarnason og Pétur Örn Sverrisson.
    Nefndin var skipuð í júní 2003 og var fyrsti fundur haldinn 26. júní. Alls voru haldnir níu fundir og gafst nefndarmönnum þar færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Auk nefndarmanna komu á fundi nefndarinnar ýmsir sem hafa sérþekkingu á tilteknum sviðum er snerta viðfangsefni nefndarinnar. Auk nefndarmanna hafa Friðrik Már Baldursson, Jón Þór Sturluson og Jón Vilhjálmsson flutt erindi á fundum nefndarinnar.
    Frumvarp þetta er afrakstur vinnu nefndarinnar. Er hér m.a. að finna tillögur um breytingar á ákvæðum III. kafla laganna. Nefndin hefur einnig fjallað um uppbyggingu gjaldskrár dreifiveitna og hvernig standa skuli að jöfnun kostnaðar vegna flutnings og dreifingar raforku. Frumvarpið byggist á meirihlutaáliti nefndarinnar. Meginatriði þess fara hér á eftir.

Flutningskerfið.
    Flutningskerfið nái til þeirra háspennulína og tengivirkja sem nú eru á 66 kV spennu eða meiri. Auk þess miðist flutningskerfið við tiltekna afhendingarstaði þannig að allar dreifiveitur sem nú starfa í landinu verði tengdar flutningskerfinu. Þó er ekki gert ráð fyrir að flutningskerfið nái inn fyrir mörk þéttbýlis. Þannig er lagt til að flutningslínur sem liggja að veitukerfi Vestmannaeyja (sem er í eigu Hitaveitu Suðurnesja hf.), Rafveitu Reyðarfjarðar og Orkuveitu Húsavíkur tilheyri flutningskerfinu. Samkvæmt þessari tillögu verður raforka frá flutningskerfinu afhent til dreifiveitna á 55 stöðum.

Flutningsfyrirtæki.
    Við gildistöku laganna verði stofnað hlutafélag, Landsnet hf. sem yrði í fyrstu í eigu ríkisins. Um stofnun Landsnets hf. er fjallað í sérstöku frumvarpi sem lagt er fram samhliða þessu. Þetta er gert annars vegar til að tryggja að til sé aðili þegar eignir sem leggjast til flutningskerfisins eru metnar og hins vegar til að annast rekstur flutningsvirkja þar til endanlegt mat liggur fyrir. Þegar matið liggur fyrir munu þeir sem leggja eignir til félagsins taka við rekstri þess.
    Lagt er til að sett verði á fót samninganefnd skipuð fulltrúum eigenda fyrirtækjanna sem leggja eignir til flutningsfyrirtækisins. Ef samkomulag næst í samninganefndinni er gert ráð fyrir að eigendur flutningsvirkjanna yfirtaki rekstur hlutafélagsins og eignist hluti í samræmi við eignarhluti sína á grundvelli matsins. Ef ekki næst samkomulag um verðmat flutningsvirkja geta eigendur þeirra vísað matinu til lögskipaðrar matsnefndar. Matsnefndin starfi með svipuðu sniði og matsnefnd eignarnámsbóta. Kostnaður við matið verði greiddur af flutningsfyrirtækinu. Fram til 1. janúar 2011 verði einungis heimilt að framselja hlutafé til annarra hlutafjáreigenda í fyrirtækinu.
    Í frumvarpinu eru ákvæði sem eiga að tryggja að flutningsfyrirtækið veiti stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort fyrirtækið fullnægi skyldum sínum við rekstur og kerfisstjórnun flutningskerfisins og tryggi jafnræði varðandi flutning raforku.

Flutningsgjaldskrá.
    Gerð er tillaga um að sama gjald verði greitt til flutningsfyrirtækisins fyrir úttekt á raforku frá öllum afhendingarpunktum. Allar virkjanir sem selja raforku á markaði greiði til flutningskerfisins í samræmi við selda orku – án tillits til stærðar. Framleiðsla virkjana til eigin þarfa, búrekstrar og heimilisnota verði þó undanskilin. Sérstök gjaldskrá verður fyrir stórnotendur en það eru þeir sem nota meira en 14MW og hafa a.m.k. 8000 stunda nýtingu á ári. Sama gjaldskrá verði fyrir alla innmötun virkjana á raforku og úttekt stórnotenda. Þá er gert ráð fyrir að umframkostnaður nýrra virkjana eða stórnotenda verði gerður upp sérstaklega. Sama eigi við ef tenging nýs notanda er hagkvæm fyrir flutningskerfið í heild.

Gjaldskrársvæði dreifiveitna.
    Í stað þess að ráðherra ákvarði gjaldskrársvæði dreifiveitna verði lögbundin sú meginregla að hver dreifiveita hafi eina gjaldskrá. Þó verði heimilt að sækja sérstaklega um gjaldskrá fyrir dreifbýli enda geti viðkomandi dreifiveita sýnt fram á hærri kostnað við dreifingu raforku í dreifbýli. Orkustofnun verði falið að leggja mat á þörf fyrir sérstaka gjaldskrá fyrir dreifbýli og setja mörk gjaldskrársvæða í því sambandi.

Arðsemi flutningsfyrirtækis og dreifiveitna.
    Í upphafi verði miðað við að tekjumörk flutningsfyrirtækisins og dreifiveitna verði miðuð við helming af arðsemi markaðsávöxtunar óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa. Arðsemisviðmiðunin hækki á fimm ára tímabili í þá ávöxtun sem kveðið er á um í gildandi lögum. Með þessu er stefnt að því að leyfa fyrirtækjunum að njóta hluta þeirrar hagræðingar sem þau eiga að ná innan þess tekjuramma sem þeim er settur án þess að það leiði til hækkunar á gjaldi til flutnings og dreifingar raforku.

Gildistaka.
    Samkvæmt gildandi lögum á sá kafli þeirra sem fjallar um flutning raforku að koma til framkvæmda 1. júlí 2004. Í frumvarpinu er lagt til að hið nýja fyrirkomulag sem nefndin leggur til öðlist gildi 1. janúar 2005. Því bráðabirgðafyrirkomulagi sem gilt hefur verði því framhaldið til loka þessa árs. Tíminn verði nýttur til að meta flutningsvirki og vinna að stofnun flutningsfyrirtækisins.

Endurskoðun laganna.
    Samkvæmt 39. gr. gildandi raforkulaga er gert ráð fyrir að ráðherra leggi fram skýrslu um raforkumálefni á fjögurra ára fresti. Gert er ráð fyrir því að fyrsta raforkuskýrslan verði lögð fram árið 2005 en sú næsta árið 2009 en þá verða öll ákvæði laganna komin til framkvæmda og nokkur reynsla fengin af nýskipan raforkumála. Í framhaldi af því þykir eðlilegt að ráðherra taki lögin til endurskoðunar og að þeirri vinnu ljúki fyrir árslok 2010.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Við skilgreiningu afhendingarstaða er að meginreglu miðað við að afhending orku frá flutningskerfi sé á 66 kV spennu. Þó er lagt til að heimilt verði að afhenda raforku úr flutningskerfinu á hærri eða lægri spennu. Þannig eru þær línur sem leyfisskyldar eru skv. 2. mgr. 9. gr. almennt innan flutningskerfisins. Þó er miðað við að flutningskerfi nái ekki inn fyrir mörk þéttbýlis og því er gert ráð fyrir að línur sem flytja raforku innan þéttbýlis séu í eigu dreifiveitna en ekki flutningskerfisins þótt á þeim sé spenna yfir 66 kV. Dæmi um slíkt er að í Reykjavík flytja 132 kV strengir raforku innanbæjar. Eðlilegt þykir að flutningsfyrirtækið standi ekki í rekstri flutningsvirkja inni í miðju dreifikerfi í þéttbýli. Misjafnt er hvernig háttar til þar sem raforkan er spennt niður frá flutningskerfinu og því geta verið undantekningar frá þeirri meginreglu að flutningskerfið nái að aðveituspennum dreifiveitna, sbr. einnig athugasemdir við 7. gr.
    Í skilgreiningu á „stórnotanda“ er miðað við ákveðið afl og nýtingartíma og lagt til að tekin verði af tvímæli um að ekki sé heimilt að leggja saman notkun margra smárra notenda eða notanda sem notar mikið magn orku en tekur við henni á mörgum stöðum.

Um 2. og 3. gr.

    Lagðar eru til breytingar vegna tengiskyldu virkjana. Í núgildandi lögum er heimild til undanþágu frá meginreglu um tengiskyldu vegna virkjana sem eru undir 3,5 MW. Bent hefur verið á að óeðlilegt sé að virkjanir allt að 3,5 MW geti komist hjá því að tengjast og taka þátt í kostnaði við flutningskerfið. Þá hefur og verið á það bent að hugsanlegt sé að virkjun sem ekki nær leyfisskyldumörkum núgildandi laga, 1 MW uppsett afl, geti selt raforku og á þann hátt nýtt sér flutningskerfi raforku án þess að taka þátt í kostnaði við það. Gerð er tillaga um að allar virkjanir sem afhenda orku inn á dreifikerfi dreifiveitna eða flutningskerfi verði leyfisskyldar óháð stærð (uppsettu afli í MW). Um virkjanir sem ekki selja raforku og setja því ekki raforku inn á raforkukerfi gildir áfram sú regla að virkjanir sem eru undir 1 MW í uppsettu afli eru ekki leyfisskyldar. Gerð er tillaga um að allar leyfisskyldar virkjanir verði tengiskyldar, ýmist beint eða um dreifikerfi. Eðlilegt þykir að þeir sem ætla að taka þátt í samkeppni og selja raforku á markaði tengist flutningskerfinu beint eða óbeint, enda er tenging nauðsynleg til að koma raforkunni til kaupanda.

Um 4. gr.

    Í greininni er lagt til að stofnað verði hlutafélag um rekstur flutningskerfisins og kerfisstjórnun. Kveðið er á um að ráðherra veiti félagi rekstrarleyfi þar sem nánar verði kveðið á um skyldur þess.
    Þá er sérstaklega tilgreint hverjir geta verið viðskiptavinir flutningsfyrirtækisins, en það eru dreifiveitur, virkjanir og stórnotendur, en skilgreiningu á stórnotanda verður að finna í 16. tölul. 3. gr. laganna.

Um 5. gr.

    Í greininni er lagt til að hlutverk kerfisstjóra varðandi notkunarferla verði aðeins samræming en ekki ákvörðun. Dreifiveitur ákvarði notkunarferla en samræming þeirra verði í höndum kerfisstjóra.
    Þá er lagt til að upplýsingaskylda flutningsfyrirtækisins sé skýrð. Kveðið verði á um að flutningsfyrirtækinu sé skylt að veita stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort fyrirtækið fullnægi skyldum sínum við rekstur og kerfisstjórnun flutningskerfisins og tryggi jafnræði við flutning raforku. Ákvæðinu er ætlað að tryggja gagnsæi og jafnan aðgang að flutningskerfinu, sem er forsenda þess að eðlileg samkeppni á raforkumarkaði komist á.
    Við skýringu þessa ákvæðis er rétt að hafa í huga að flutningsfyrirtækinu ber að gæta trúnaðar gagnvart viðskiptavinum sínum. Í því felst að gætt sé trúnaðar um upplýsingar er varða viðskiptahagsmuni og annað sem eðlilegt er að leynt fari. Þær upplýsingar sem hægt er að krefja flutningsfyrirtækið um eru upplýsingar er varða fyrirtækið sjálft og starfrækslu þess.

Um 6. gr.

    Lagt er til að eigendur flutningsvirkja geti ákveðið hvort þeir vilja leggja eignir sínar inn í félagið sem hlutafé, selja þær eða leigja. Heimildinni er haldið opinni svo að þeir sem kunna að vilja leigja flutningsfyrirtækinu eignir sínar í upphafi geti síðar lagt þær inn sem hlutafé eða selt þær fyrirtækinu ef forsendur breytast. Í nýju ákvæði til bráðabirgða XI er gert ráð fyrir að skipuð verði samninganefnd eigenda flutningsvirkja er hafi það verkefni að meta til fjár þau flutnings- og tengivirki sem seld eru flutningsfyrirtækinu, hvort sem greitt er fyrir þau með fé eða hlutabréfum í flutningsfyrirtækinu. Nánar verður vikið að efni ákvæðisins síðar. Endurgjald fyrir leigu er metið út frá verðmæti flutningsvirkja, sbr. ákvæðið.

Um 7. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 12. gr. gildandi laga varðandi gjaldskrá, tekjumörk og arðsemisviðmiðanir. Vegna þess munar sem er á gjaldtöku og forsendum fyrir stórnotendur og almenna notendur flutningsfyrirtækisins er lagt til að Orkustofnun setji flutningsfyrirtækinu tvenn tekjumörk, annars vegar vegna stórnotenda en hins vegar vegna almennra notenda.
    Jafnframt er lagt til að uppsetningu greinarinnar verði breytt. Lagt er til að í fyrri hluta ákvæðisins verði kveðið á um tekjumörk þau er Orkustofnun setur flutningsfyrirtækinu og við hvað beri að miða við setningu tekjumarka. Síðari hluti ákvæðisins fjallar um setningu gjaldskrár. Þessi uppsetning þykir skýrari í ljósi þess að tekjumörk sem Orkustofnun setur eru undirstaða gjaldskrárinnar sem flutningsfyrirtækið setur sér.
    Í 12. gr. núgildandi raforkulaga er kveðið á um að arðsemi flutningfyrirtækisins skuli að jafnaði vera 2% eða hærri en þó ekki meira en tveimur prósentustigum yfir markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa. Ekki er í lögunum sett viðmið um að hvaða arðsemi skuli stefnt þegar Orkustofnun setur fyrirtækinu tekjumörk. Því er lagt til að arðsemi flutningsfyrirtækisins skuli vera sem næst fyrrgreindri ávöxtun. Þá er lagt til að hámarks- og lágmarksarðsemi verði miðuð við hlutfall af sömu ávöxtun og að taka skuli tillit til þess í gjaldskrá næsta árs ef í ljós kemur að arðsemi flutningsfyrirtækisins síðastliðin þrjú ár er minna en helmingur af sömu ávöxtun eða meira en þriðjungi hærri.
    Eðlilegt þykir að tekjumörk flutningsfyrirtækisins séu sett til lengri tíma en eins árs í senn. Bent hefur verið á að til að tryggja stöðugleika í rekstri flutningsfyrirtækisins sé eðlilegt að tekjumörkin séu ekki tekin upp á hverju ári heldur gildi til lengri tíma en að heimilt sé að endurskoða þau árlega ef forsendur breytast. Lagt er til að tekjumörk skuli ákveðin til þriggja ára í senn. Það þarf þó ekki að merkja að fjárhæð tekjumarka haldist óbreytt þrjú ár í senn. Þannig getur reynst eðlilegt að tekjumörk taki sjálfvirkum breytingum innan tímabilsins, svo sem vegna breyttra forsendna eins og fjölda notenda. Með ákvörðun tekjumarka til þriggja ára er því átt við að aðferð við ákvörðun tekjumarka haldist óbreytt.
    Varðandi uppbyggingu gjaldskrár er lagt til að sama gjaldskrá skuli gilda fyrir úttekt dreifiveitna frá flutningskerfi á 66kV spennu á þeim afhendingarstöðum sem taldir eru upp í viðauka. Ef orka frá flutningskerfi er afhent á hærri spennu ber að lækka gjaldskrá með tilliti til þess. Mismunurinn skýrist af því að kostnaður fylgir því að spenna orkuna niður og lendir sá kostnaður á þeim sem tekur við orkunni á hærri spennu og þarf sjálfur að spenna hana niður. Fleira getur einnig skipt máli um afhendingarþjónustu, t.d. fjöldi aðveiturofa með tilliti til orkumagns sem fer um hverja aðveitustöð. Því er skylt að í gjaldskrá sé einnig tekið tillit til annars munar á afhendingarþjónustu en spennunnar einnar.
    Ef virkjun tengist flutningskerfinu eingöngu í gegnum dreifiveitu ber að taka tillit til þess í gjaldskrá flutningsfyrirtækisins á þann veg að innheimtum tekjum af tengigjöldum slíkra virkjana skal skipt milli flutningsfyrirtækis og viðkomandi dreifiveitu. Flutningsfyrirtæki leggur til skiptihlutfall í gjaldskrá sinni en Orkustofnun getur lagt fyrir flutningsfyrirtækið að breyta því ef hún telur það vera ósanngjarnt með tilliti til kostnaðar hvors aðila um sig.

Um 8. gr.

    Lagt er til samhljóða ákvæði og fyrir flutningsfyrirtækið þegar ákvarða skal hvort dreifiveitu er skylt að gefa upplýsingar til þess að meta megi hvort dreifiveita gætir þess að rækja hlutverk sitt samkvæmt 6. tölul. 16. gr. Um skýringar er vísað til athugasemda við 4. gr. að breyttu breytanda.

Um 9. gr.

    Lagt er til sambærilegt ákvæði um arðsemisviðmið dreifiveitna við það sem lagt er til um flutningsfyrirtækið í 7. gr. frumvarpsins. Þá er lagt til að í stað þess að ráðherra skilgreini gjaldskrársvæði dreifiveitna verði meginreglan sú að sama gjaldskrá gildi á öllu veitusvæði hverrar dreifiveitu. Þó er lagt til að þar sem kostnaður við dreifingu í dreifbýli er verulegur umfram kostnað af dreifingu í þéttbýli, geti dreifiveitur sótt um heimild til Orkustofnunar til að hafa í gildi á dreifiveitusvæði sínu sérstaka gjaldskrá fyrir dreifingu í dreifbýli. Gert er ráð fyrir að með umsókn um það þurfi að fylgja upplýsingar um landfræðilega afmörkun viðkomandi svæðis, íbúafjölda þess og landnotkun samkvæmt gildandi skipulagsáætlun. Þá þurfa að fylgja upplýsingar um dreifingarkostnað á viðkomandi svæði miðað við kostnað annars staðar á veitusvæði dreifiveitunnar. Þegar metið er hvort heimila skuli sérstaka dreifbýlisgjaldskrá skal m.a. litið til þess hve mikill kostnaðarauki er við dreifingu á viðkomandi svæði umfram önnur, hversu strjálbýlt það er og hve mikill hluti af heildarraforkunotkun viðkomandi dreifiveitu fellur til á svæðinu. Að lágmarki verða fimm af hundraði heildarrafmagnsnotkunar viðkomandi dreifiveitu að falla undir svæðið til þess að heimiluð verði sérstök dreifbýlisgjaldskrá.

Um 10. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 11. gr.

    Ekki er talin þörf á því að skýra greinina að öðru leyti en því að þau tímamörk er sett voru í ákvæðinu virðast of knöpp og er því lagt til að gildistöku III. kafla raforkulaga verði frestað um sex mánuði, eða til 1. janúar 2005.

Um 12. gr.

     Um a-lið (IX).
    Lagt er til að við ákvörðun tekjumarka skv. 2. tölul. 2. mgr. 12. gr. og 2. tölul. 2. mgr. 17. gr. skuli Orkustofnun í upphafi miða við lága arðsemi eða helming af markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára. Samkvæmt ákvæðinu má ávöxtunin fara stighækkandi á fimm árum í þá ávöxtun sem gert er ráð fyrir samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir hækkun á raforkuverði. Þess er vænst að aukin arðsemi náist með hagræðingu þar sem tekjumörk þurfi ekki að hækka vegna arðsemisviðmiðana sem kunna að vera yfir núverandi arðsemi fyrirtækjanna. Fyrirtækin halda þá ávinningi af hagræðingu til að auka arðsemina. Með því að fara hægt í sakirnar með hækkun á arðsemisviðmiðunum í tekjumörkum flutningsfyrirtækisins og dreifiveitna á að koma í veg fyrir skyndilega hækkun raforkuverðs í upphafi. Lögð er áhersla á að hækkun arðsemisviðmiðana felur ekki í sér kröfu til fyrirtækjanna um aukna arðsemi og hækkun gjaldskrár í því skyni. Haldist arðsemin yfir lágmarksviðmiðunarmörkum er Orkustofnun ekki ætlað að gera athugasemdir við hana.
     Um b-lið (X).
    Gert er ráð fyrir að ríkið stofni hlutafélag og skipi stjórn til bráðabirgða. Hlutverk hennar verði að koma fram fyrir hönd félagsins við mat á verðmæti flutningsvirkja, auk annarra lögbundinna stjórnarstarfa samkvæmt lögum um hlutafélög. Þá er gert ráð fyrir að stjórnin sitji þar til endanleg niðurstaða fæst um verðmæti flutningsvirkja og þar með um eignarhlutföll hluthafa í félaginu. Nánar er kveðið á um stofnun, hlutverk, réttindi og skyldur hlutafélags um flutningsfyrirtækið í sérstöku frumvarpi.
     Um c-lið (XI).
    Lagt er til að stofnuð verði samninganefnd eigenda flutningsvirkja sem ætlað verði að ná samkomulagi um mat á verðmæti flutningsvirkjanna sem lögð verða til flutningsfyrirtækisins. Mikilvægt þykir að sátt náist meðal eigenda um verðmæti eigna flutningsfyrirtækisins. Tekið er fram að stefnt skuli að því að verðmætið sé sem næst endurstofnverði flutningsvirkja að teknu tilliti til framreiknaðra afskrifta sem bókfærðar hafa verið vegna viðkomandi eignar, auk annarra atriða sem máli kunna að skipta. Lögð er áhersla á að framangreint er einungis viðmiðunarregla en ekki bindandi um niðurstöður nefndarinnar, enda verður hún samninganefnd þar sem eigendur geta komið sér saman um aðferðir við verðmat og um verðmæti einstakra eigna. Hvað varðar afskriftir þykir rétt að taka fram að við verðmat eigna ber eingöngu að miða við þær afskriftir sem bókfærðar hafa verið en ekki er gert ráð fyrir að þá sé tekin afstaða til framtíðarafskrifta. Þær verða ákveðnar við setningu tekjumarka flutningsfyrirtækisins.
    Við skipan í samninganefnd er gert ráð fyrir að hver beri kostnað af fulltrúum sínum en útlagður kostnaður greiðist úr ríkissjóði
    Ef eigendum flutningsvirkja tekst ekki að ná samstöðu um verðmat er lagt til að skipuð verði sérstök matsnefnd sem ætlað er að meta verðmæti flutningsvirkja, sem ekki hefur náðst samstaða um. Ætlunin er að nefnd þessi verði með svipuðu sniði og matsnefnd eignarnámsbóta og að lög nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms gildi að verulegu leyti um störf nefndarinnar. Tekið er fram að matsnefndin skuli miða við endurstofnverð að teknu tilliti til afskrifta. Ekki er lagt til að nefndin taki tillit til afskrifta við verðmat líkt og samninganefndin á að gera og ekki gert ráð fyrir að matsnefndin sé bundin af afskriftarreglum samninganefndar. Þá þykir rétt að leggja áherslu á þann mun á samninganefnd og matsnefnd sem felst í því að eigendum er annars vegar ætlað að komast að frjálsu samkomulagi um verðmat eigna sinna í samninganefnd en náist slíkir samningar ekki kemur til kasta matsnefndar. Gilda þá sömu sjónarmið og við eignarnám enda verður eigendum flutningsvirkja er falla undir 6. tölul. 3. gr. ekki kleift að undanskilja flutningsvirki sín frá virkjunum er flutningsfyrirtækið mun hafa umráð yfir.
    Gert er ráð fyrir því að matsnefndin geti leitað umsagnar og annarar aðstoðar Orkustofnunar um það sem nefndin telur þurfa.
    Gert er ráð fyrir að matsnefndin ljúki störfum eftir að eignir hafa verið metnar.
     Um d- og e-lið (XII og XIII).
    Liðirnir þarfnast ekki skýringa.

Um 13. gr.

    Í viðauka eru taldir upp afhendingarstaðir til dreifiveitna úr flutningskerfi skv. 6. tölul. 3. gr. Hafnar eru framkvæmdir við nýjan afhendingarstað til Orkuveitu Reykjavíkur við Rauðavatn, og gert er ráð fyrir hann verði tekinn í notkun árið 2004. Þangað til telst Elliðaárstöð afhendingarstaður í skilningi laganna.

Um 14. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneytið,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003.


    Í frumvarpinu eru gerðar tillögur um breytingar á ýmsum ákvæðum gildandi raforkulaga. Frumvarpið byggist á meirihlutaáliti nefndar sem ætlað var að gera tillögur um fyrirkomulag flutnings raforku samkvæmt bráðabirgðaákvæði VII við raforkulög. Tillögurnar beinast einkum að afmörkun flutningskerfisins, stofnun og rekstri flutningsfyrirtækis, gjaldskrám fyrir flutning og dreifingu raforku, viðmiðunum um arðsemi og tekjuramma orkufyrirtækja o.fl. eins og nánar er greint frá í athugasemdum með frumvarpinu. Ekki er ástæða til að ætla að þessir þættir hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs nema hugsanlega með óbeinum hætti að því marki sem orkuverð til ríkisaðila kann að taka einhverjum breytingum í kjölfar breytts skipulags í raforkustarfseminni. Þar munu vegast á margir þættir, s.s. krafa um aukna arðsemi fyrirtækjanna, áhrif af einu jafnaðarverði í öllu flutningskerfinu og aukin hagræðingarviðleitni vegna samkeppni í vinnslu og dreifingu raforkunnar.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að flutningskerfið verði útvíkkað frá gildandi lögum þannig að það taki til þeirra háspennulína og tengivirkja sem nú eru á 66 kV spennu eða hærri og miðist auk þess við tiltekna afhendingarstaði sem tilgreindir eru í viðauka. Eitt jafnaðarverð verði fyrir afhendingu orku hvarvetna í flutningskerfinu. Í frumvarpinu eru ekki bein ákvæði um hvort eða með hvaða hætti raforkuverði verði jafnað milli svæða á landinu umfram þetta. Þó er gert ráð fyrir að dreifiveitum verði heimilt að hafa sérstaka dreifbýlisgjaldskrá á svæðum þar sem kostnaður við orkudreifingu er sannanlega hærri en í þéttbýli. Í áliti meiri hluta nefndarinnar er jafnframt sett fram hugmynd um að verð til notenda á svæðum sem hafa sérstaka dreifbýlisgjaldskrá verði greitt niður þannig að það verði það sama og hæsta verð í þéttbýli. Kemur til kasta löggjafans að ákvarða hvort slíkt fyrirkomulag verði tekið upp og með hvaða hætti kostnaður við það verður fjármagnaður, t.d. með verðjöfnunargjaldi í orkukerfinu.
    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að eigendur orkufyrirtækja sem leggja eignir til flutningsfyrirtækisins eigi fulltrúa í samninganefnd þar sem leitast verði við að ná samkomulagi um mat á verðmæti flutningsvirkjanna. Eigendur fyrirtækjanna bera kostnað af störfum sinna fulltrúa en annar útlagður kostnaður greiðist úr ríkissjóði. Gert er ráð fyrir að slíkur útlagður kostnaður verði minni háttar og greiðist af óskiptri fjárheimild iðnaðarráðuneytisins til ýmissa orkumála.