Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 750. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1121  —  750. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Á eftir orðunum „Nú er dótturfélag í eigu samvinnufélags“ í 5. mgr. 55. gr. laganna kemur: eða sparisjóðs.

2. gr.

    Við 5. mgr. 103. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sömuleiðis er lögreglu skylt að færa mann til skýrslugjafar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins ef ítrekaðri kvaðningu þess efnis hefur ekki verið sinnt.

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Fjárhæðir í ákvæðum A- og B-liðar 68. gr., 77. gr., 82. gr. og 83. gr. laganna, sem breytt var með lögum nr. 143/2003, um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2004 vegna tekna og eigna á árinu 2003 og við ákvörðun bóta á árinu 2004. Enn fremur kemur ákvæði c-liðar 5. gr. laga nr. 143/2003, um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2004 vegna tekna og eigna á árinu 2003.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í lögum þessum eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Í fyrsta lagi er lagt til að sparisjóðum verði heimilt að sækja um samsköttun með dótturfélögum sínum. Í öðru lagi er tillaga um að kveðið verði skýrar á um heimildir skattrannsóknarstjóra ríkisins til að láta færa mann til skýrslugjafar ef ítrekaðri kvaðningu þess efnis hefur ekki verið sinnt. Í þriðja lagi er lagt til að til áréttingar verði tiltekið að fjárhæðir barnabóta og vaxtabóta, sem breytt var með lögum nr. 143/2003, um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, komi til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2004 og við ákvörðun bóta á því ári vegna tekna og eigna á árinu 2003.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að unnt verði að sækja um samsköttun sparisjóða með dótturfélögum sínum. Í 13. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, segir að fjármálafyrirtæki skuli starfa sem hlutafélag. Um rekstrarform sparisjóða gilda þó sérákvæði, sbr. ákvæði VIII. kafla laganna. Með lögum nr. 65/1982, um skattskyldu innlánsstofnana, var sparisjóðum, ásamt viðskiptabönkum, gert að greiða tekjuskatt og eignarskatt. Í fyrstu grein þeirra laga segir að skattskyldan sé grundvölluð á 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Þar sem óvissa hefur ríkt um hvort sparisjóðum sé heimil samsköttun með dótturfélögum sínum er lagt til að kveðið verði afdráttarlaust á um að sparisjóðum sé heimil samsköttun með dótturfélögum, að nánari skilyrðum greinarinnar uppfylltum.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að girt verði fyrir þann möguleika að skattaðili geti komið sér hjá að mæta til skýrslugjafar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Ákvæðið er í eðli sínu sambærilegt því úrræði sem er til staðar þegar kveðja þarf mann til skýrslugjafar hjá lögreglu eða þegar tryggja þarf að maður mæti við aðfarargerð. Borið hefur við að skattaðilar hafi komið sér hjá að mæta til skýrslugjafar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins og þannig tafið mál og gert erfiðara um vik að upplýsa málsatvik. Er með ákvæði þessu sett heimild til að koma í veg fyrir að þannig ástand skapist.

Um 3. gr.

    Lagt er til að við lög nr. 90/2003 komi nýtt ákvæði til bráðabirgða, sem árétti að breytingar sem gerðar voru á fjárhæðum í ákvæðum A- og B-liðar 68. gr., 77. gr., 82. gr. og 83. gr. laganna með lögum nr. 143/2003 komi til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2004 vegna tekna og eigna á árinu 2003 og við ákvörðun bóta á árinu 2004. Með þeim hætti verður unnt að framfylgja áætlunum um hækkun á viðmiðunarfjárhæðum þessara ákvæða í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2004, eða um 2,5%.
    Enn fremur er lagt til að ákvæði c-liðar 5. gr. laga nr. 143/2003, um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, komi til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2004 vegna tekna og eigna á árinu 2003. Það ákvæði kveður á um að ákvarða megi barnabætur með börnum sem ekki eru heimilisföst hér á landi en eru á framfæri ríkisborgara hins Evrópska efnahagssvæðis, enda séu framfærandi og barnið tryggð á grundvelli 9. gr. b eða 9. gr. c laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003,
um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru gerðar tillögur um nokkrar breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Þar er einna veigamesta atriðið að heimilt verður að samskatta sparisjóði með dótturfélögum sínum en tilgangurinn með því er að skattalegt umhverfi sparisjóða verði eins og á við um önnur fjármálafyrirtæki. Í bráðabirgðaákvæði er einnig áréttað að tiltekin fjárhæðarmörk í lögum um tekjuskatt og eignarskatt, sem breytt var með lögum nr. 143/2003, taki gildi við álagningu á árinu 2004, eins og þegar hefur verið gert ráð fyrir í forsendum gildandi fjárlaga. Ekki er ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.