Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 755. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1130  —  755. mál.
Frumvarp til lagaum hækkun útlánaramma Norræna fjárfestingarbankans vegna norrænna fjárfestingarlána til verkefna utan Norðurlanda (PIL).

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)1. gr.

    Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að samþykkja hækkun útlánaramma Norræna fjárfestingarbankans vegna norrænna fjárfestingarlána til verkefna utan Norðurlanda (PIL) úr 3,3 milljörðum evra í 4,0 milljarða evra frá 1. júlí 2004.

2. gr.

    Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að staðfesta nauðsynlegar breytingar á samþykktum bankans vegna hækkunarinnar.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Ráðherranefnd Norðurlanda sem fer með málefni Norræna fjárfestingarbankans samþykkti á fundi sínum 27. október 2003 að heimila bankanum að hækka útlánaramma vegna norrænna fjárfestingarlána til verkefna utan Norðurlandanna úr 3,3 milljörðum í 4,0 milljarða evra án þess þó að auka eigendaábyrgð vegna þessa útlánaflokks sem nú er 1,8 milljarðar evra.
    Útlánarammi vegna þessa lánaflokks er nálægt því að vera fullnýttur og með því að auka hann getur bankinn haldið áfram að aðstoða við verkefnaútflutning norrænna fyrirtækja til hagsbóta bæði fyrir Norðurlönd og bankann. Reynslan af þessum lánum er mjög góð og engin útlánatöp hafa orðið. Bankinn mun sjálfur auka framlag sitt í afskriftasjóð vegna þessarar aukningar á útlánarammanum eins og gert var 1999 þegar hann var síðast aukinn.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs fái heimild til að samþykkja hækkun útlánaramma Norræna fjárfestingarbankans vegna norrænna fjárfestingarlána til verkefna utan Norðurlanda úr 3,3 milljörðum evra í 4,0 milljarða evra frá 1. júlí 2004. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á ábyrgðum landanna við þessa hækkun heldur mun bankinn sjálfur auka framlag sitt í afskriftasjóð vegna aukningarinnar. Heildarábyrgð landanna verður því áfram 1,8 milljarðar evra og hlutur Íslands hinn sami og áður.

Um 2. gr.


    Hér er lagt til að fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs geti staðfest breytingar á samþykktum bankans í samræmi við 1. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um hækkun útlánaramma
Norræna fjárfestingarbankans vegna norrænna fjárfestingarlána
til verkefna utan Norðurlanda (PIL).

    Með frumvarpi þessu er lagt til að fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, verði heimilt að samþykkja hækkun útlánaramma Norræna fjárfestingarbankans vegna norrænna fjárfestingarlána til verkefna utan Norðurlanda (PIL) úr 3,3 milljörðum evra í 4,0 milljarða evra frá 1. júlí 2004 og staðfesta nauðsynlegar breytingar á samþykktum bankans vegna hækkunarinnar.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins leiði til aukins kostnaðar eða aukinna skuldbindinga fyrir ríkissjóð því ekki er gert ráð fyrir auknum eigendaábyrgðum vegna þessa útlánaflokks heldur mun bankinn sjálfur auka framlag sitt í afskriftasjóð vegna hækkunarinnar.