Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 435. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1151  —  435. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um erfðafjárskatt.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund Elvu Ósk Wiium, lögfræðing í fjármálaráðuneyti. Auk þess bárust nefndinni skriflegar umsagnir fjölda aðila sem hún fór yfir og ræddi.
    Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er þar gerð tillaga um miklar breytingar frá núgildandi lögum. Þar er helst að telja verulega lækkun skatthlutfallsins og hækkun skattfrelsismarka sem og mikla einföldun á regluverkinu. Í frumvarpinu er einnig að finna breytingar á flokkun skattaðila og hverjir skuli teljast skattskyldir, ákvæði um ákvörðun skattstofns erfðafjárskatts eru gerð skýrari en ákvæði gildandi laga og málsmeðferð erfðaskattsmála hjá stjórnvöldum breytt og erfingjum veitt kæruheimild til yfirskattanefndar.
    Nefndin fagnar framkomu frumvarpsins og telur flest atriði þess horfa til verulegra bóta en að tillögu fulltrúa meiri hlutans um eitt skatthlutfall og eftir umræður um ýmsa aðra þætti málsins í nefndinni tók formaður nefndarinnar til sérstakrar athugunar að gera breytingar á frumvarpinu sem skyldu miða að enn frekari einföldun og jöfnun á stöðu erfingja. Formaður nefndarinnar samdi tillögur sem hann lagði fyrir nefndina til samþykkis og grundvallast álit þetta á þeim tillögum að verulegu leyti.
    Í frumvarpinu er lagt til að erfðafé verði skattlagt með tilliti til þess í hvaða flokki það lendir eftir skyldleika erfingja við arfleifandann. Þannig er lagt til að börn og aðrir niðjar arfleifanda greiði 5% erfðafjárskatt en foreldrar, systkini og aðrir greiði 10% erfðafjárskatt. Út frá athugasemdum við frumvarpið má álykta að meðalskatthlutfall hefði orðið 5,75% miðað við að 85% erfingja lentu í lægra skattþrepinu. Nefndin leggur til að skatthlutfallið verði jafnað þannig að allir greiði 5% erfðafjárskatt. Þó skuli fyrstu 1.000.000 kr. í búi vera skattfrjálsar sem og arfur til maka eins og frumvarpið gerði ráð fyrir.
    Jöfnun skatthlutfallsins í 5% er mætt með breytingum á eignamati hlutabréfa. Nefndin leggur til þær breytingar að þau verði metin á markaðsverði eða innra virði félags í stað nafnverðs eins og nú er gert og frumvarpið miðast við. Nefndin telur þessa breytingu í samræmi við markmið frumvarpsins um að erfðafjárskattur skuli lagður á markaðsverð eigna og telur hún ekki ástæðu til að undanskilja hlutabréf frá þeirri reglu. Verðmæti hlutafélaga hefur breyst mikið á undanförnum árum og er nafnverð ekki lengur sá mælikvarði á verðmæti þeirra sem það var áður.
    Það að skattleggja alla erfingja utan maka með sama skatthlutfalli leiðir til enn frekari einföldunar en gert er ráð fyrir í frumvarpinu og ætti að gera lögin aðgengilegri fyrir almenning.
    Til að gera alla framkvæmd skýrari leggur nefndin til að mat á verðmæti eigna miðist við dánardag arfleifanda nema þegar um er að ræða fyrirframgreiddan arf eða skipti á óskiptu búi.
    Nefndin leggur til breytingar á 1. gr. þannig að miðað er við að öll búskipti hér á landi falli undir lögin og þar með eignir búanna um allan heim. Enn fremur taki lögin til eigna hér á landi sem falla til búa sem skipt er erlendis og krefjast m.a. atbeina innlendra aðila við eigendaskiptin. Slík skipti falla þó í ákveðnum tilvikum undir tvísköttunarsamninga.
    Í tillögum nefndarinnar kemur ný 2. gr. í stað 2.–7. gr. frumvarpsins. Helgast sú einföldun af því að samkvæmt tillögunum greiða allir sama skatthlutfall af arfi nema þeir séu undanþegnir skattskyldunni.
    Önnur meginbreytingin í tillögum nefndarinnar felst í breyttu mati á verðmæti hlutabréfa og getur það leitt til hækkunar erfðafjárskatts í einstökum tilfellum miðað við gildandi lög og ákvæði frumvarpsins. Þessi breyting er hins vegar sanngjörn og tekur mið af þróun á verðmati hlutafélaga. Á þeim tíma sem nafnverð hlutabréfa var tekið upp í lög um erfðafjárskatt var það góður mælikvarði á verðmæti hlutafélaga. Frá þeim tíma hefur orðið mikil breyting með tilkomu virks markaðar með hlutabréf og breytingum á skattalegri meðhöndlun arðs af hlutafé. Þessar breytingar hafa leitt til þess að nafnverð gefur oft ekki rétta mynd af hinu raunverulega verðmæti hlutabréfa og er breytingum sem nefndin leggur til ætlað að taka á þessu. Allar eignir skulu metnar á markaðsvirði, jafnt hlutabréf sem aðrar eignir.
    Ekki er hægt að bera saman álagningu eignarskatts og erfðafjárskatts hvað varðar skattlagningu eigna í hlutafélögum þar sem félagið greiðir eignarskatt af öllum eignum öðrum en nafnverði hlutafjár en eignaskatt af nafnverðinu greiðir eigandi hlutafjárins. Öll eignin er því skattlögð á þann hátt við álagningu eignarskatts. Þess vegna er ekki fullnægjandi að miða erfðafjárskatt aðeins við nafnverð hlutafjár þar sem félag greiðir ekki erfðafjárskatt af eignum sínum umfram nafnverð hlutafjár.
    Ekki er lögð til efnisleg breyting á 10. gr. frumvarpsins sem snertir skuldir bús en rétt er að árétta að skuldir skuli metnar með áföllnum vöxtum og verðbótum á dánardegi eins og gert er við mat á sambærilegum eignum.
    Nefndin leitaði í vinnu sinni upplýsinga um hvernig farið er með stofnverð til útreiknings á fjármagnstekjuskatti þegar eign erfist. Fram kom hjá ríkisskattstjóra að þar sé miðað við að fjármagnstekjuskattur reiknist út frá stofnverði eignar í hendi arfleifanda til söluverðs hjá erfingja seinna án tillits til verðmats eignarinnar til erfðafjárskatts og verður ekki séð að frumvarpið og breytingartillögur nefndarinnar breyti þessu, enda fer það mat eftir ákvæðum annarra laga.
    Nefndin gerir tillögur um að gildistaka laganna verði 1. apríl í stað 1. júlí 2004 með þá hugsun að leiðarljósi að ekki líði langur tími frá því að frumvarpið verður samþykkt sem lög á Alþingi þar til þau taka gildi vegna eðlis málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali.
    Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Lúðvík Bergvinsson skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið. Fyrirvari þeirra lýtur fyrst og fremst að brottfalli heimildar til handa ráðherra til að undanþiggja kirkjur, opinbera sjóði, líknar- og menningarstofnanir eða félög greiðslu erfðafjárskatts.
    Gunnar Örlygsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 16. mars 2004.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Birgir Ármannsson.Dagný Jónsdóttir.


Gunnar Birgisson.


Össur Skarphéðinsson,


með fyrirvara.Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.