Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 343. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1182  —  343. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elmar H. Hallgrímsson og Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti og Svönu Margréti Davíðsdóttur og Guðrúnu Sigtryggsdóttur frá tollstjóranum í Reykjavík.
    Frumvarpið er lagt fram í tengslum við frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 63/1969, um verslun með áfengi og tóbak, með síðari breytingum, og ræddi nefndin frumvörpin samhliða.
    Meiri hlutinn gerir ekki athugasemdir við efni frumvarpsins en við meðferð þess fyrir nefndinni voru ræddar frekari breytingar á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum, sem meiri hlutinn telur rétt að gerðar verði. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur með bréfi, dags. 25. mars 2003, vakið athygli íslenskra stjórnvalda á mismun á stöðu innlendra framleiðenda áfengis og innflytjenda slíkrar vöru sem getur falist í núgildandi reglum um greiðslufrest á gjöldum á áfengi og viðurlögum vegna vangreiðslu þeirra gjalda. Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til er ætlunin að jafna stöðu innlendra framleiðenda áfengis og innflytjenda hvað þessi atriði varðar.
    Meiri hlutinn leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lagt er til að krafa um tryggingar þegar veittur er gjaldfrestur á áfengisgjaldi, sem er að finna í 1. mgr. 5. gr. laganna, verði felld á brott og þar af leiðandi einnig heimild ráðherra í 5. mgr. 5. gr. laganna til að setja í reglugerð ákvæði um slíkar tryggingar. Í stað kröfu um tryggingar komi stöðvunarheimild í nýrri lagagrein. Þá telur meiri hlutinn að með tillögunni verði ákvæði 5. gr. laganna skýrari hvað varðar gjaldfrest og gjalddaga áfengisgjalds.
     2.      Lagt er til að reglur sem gilda fyrir innflytjendur áfengis og framleiðendur áfengis verði samræmdar hvað varðar álagningu áfengisgjalds. Lagt er til að innflytjendum og framleiðendum verði gert að sæta álagi ef áfengisgjald er ekki innt af hendi á gjalddaga, sbr. 1. og 4. mgr. 5. gr. laganna. Hið sama gildir ef áfengisgjald hefur verið áætlað á framleiðanda áfengis vegna þess að áfengisgjaldsskýrslu hefur ekki verið skilað inn eða henni verið ábótavant, nema hann hafi greitt fyrir gjalddaga upphæð er til áætlunar svarar eða gefið fullnægjandi skýringu á vafaatriðum fyrir lok kærufrests. Ef áfengisgjald er ekki greitt innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Þá er lagt til að lögfest verði sú skylda tollstjóra að synja innflytjanda og/eða framleiðanda áfengis um frekari greiðslufrest á meðan vanskil vara. Loks er lagt til að lögfestur verði stöðvunarréttur til handa tollstjóra ef ítrekuð eða stórfelld vanskil eru á greiðslu áfengisgjalds, álags og dráttarvaxta. Þessi stöðvunarréttur, sem er án fyrirvara, felur í sér heimild til þess að stöðva tollafgreiðslu á vörum til hvort heldur er innflytjanda eða framleiðanda og láta lögreglu stöðva atvinnurekstur þeirra, m.a. með því að setja starfsstöðvar, skrifstofur, útsölur, tæki og vörur undir innsigli þar til full skil eru gerð, enda telji hann hagsmuni ríkissjóðs ekki tryggða með öðrum hætti. Eðlilegt verður að telja að tollstjóri hafi stöðvunarrétt þegar ítrekuð eða stórfelld vanskil verða á áfengisgjaldi, enda er um vörsluskatt að ræða og oft um miklar fjárhæðir að tefla. Þá ber að geta þess að í 3. mgr. 28. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 3. mgr. 29. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, má finna sambærilegan stöðvunarrétt fyrir innheimtuaðila ríkissjóðs. Auk þess verður að telja stöðvunarrétt hjá innflytjendum sem og innlendum framleiðendum vera nægilega tryggingu fyrir greiðslu áfengisgjaldsins og því óhætt að fella brott kröfu laganna um framlagningu tryggingar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali.
    Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Lúðvík Bergvinsson skrifa undir álitið með fyrirvara hvað varðar þær breytingartillögur sem lagðar eru til og varða gjald af áfengi en ekki innheimtu tóbaksgjalds sem er efni frumvarpsins sem vísað var til nefndarinnar í þessu máli.
    Gunnar Örlygsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 16. mars 2004.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Birgir Ármannsson.Dagný Jónsdóttir.


Gunnar Birgisson.


Össur Skarphéðinsson,


með fyrirvara.Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.