Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 780. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1184  —  780. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 41/1999, um Háskóla Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      3. mgr. orðast svo:
                  Rektor skipar dómnefndir til þess að dæma um hæfi umsækjenda um kennara- og sérfræðingsstörf. Dómnefndir eru skipaðar til þriggja ára í senn þannig að ein dómnefnd starfi fyrir hvert af meginfræðasviðum háskólans. Háskólaráð tilnefnir einn mann í hverja dómnefnd og menntamálaráðherra annan. Skal sá sem tilnefndur er af háskólaráði vera formaður dómnefndar og sá sem tilnefndur er af menntamálaráðherra varaformaður. Varamenn þeirra skulu skipaðir með sama hætti. Þriðji nefndarmaðurinn er sérfræðingur, tilnefndur af deild, sem skipaður er sérstaklega til þess að fara með hvert ráðningarmál. Í dómnefnd má skipa þá eina sem lokið hafa meistaraprófi úr háskóla eða jafngildu námi.
     b.      Við 7. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Háskólaráð getur mælt svo fyrir í reglunum að undanþiggja megi auglýsingu störf sem byggjast á sérstökum tímabundnum styrkjum, störf sem tengjast sérstökum tímabundnum verkefnum, störf sem nemendur gegna við háskólann samhliða rannsóknartengdu framhaldsnámi og störf við háskólann sem tengjast tilteknu starfi utan hans á grundvelli samstarfssamnings.

2. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist ný málsgrein svohljóðandi:
    Við yfirtöku Háskóla Íslands á verkefnum Norrænu eldfjallastöðvarinnar skal rektor Háskóla Íslands bjóða starfsmönnum Norrænu eldfjallastöðvarinnar störf við sambærileg verkefni innan háskólans og þeir höfðu hjá Norrænu eldfjallastöðinni. Sameiginlegar reglur háskólans gilda um störf sem boðin eru samkvæmt þessu ákvæði. Heimilt er þó að bjóða starf án þess að fyrir liggi hæfnismat dómnefndar skv. 12. gr., enda megi telja augljóst að viðkomandi uppfylli hæfniskröfur sem að lágmarki eru gerðar til háskólakennara og sérfræðinga. Ákvæði 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á gildandi lögum um Háskóla Íslands, nr. 41/1999. Lögð er til breyting á skipun dómnefnda til að meta hæfi umsækjenda um kennara- og sérfræðingsstörf, lögfesting heimildar til að ráða í tiltekin störf við háskólann án auglýsingar og lögfesting ákvæðis til bráðabirgða í tengslum við flutning starfsmanna vegna yfirtöku Háskóla Íslands á verkefnum Norrænu eldfjallastöðvarinnar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í a-lið eru lagðar til breytingar á ákvæðum 3. mgr. 12. gr. um skipun dómnefnda til þess að fjalla um hæfi þeirra sem sækjast eftir starfi við kennslu eða fræðastörf við háskólann. Í stað þess að dómnefnd sé skipuð frá grunni í hvert sinn er meta þarf umsækjendur um kennara- og sérfræðingsstörf er gert ráð fyrir föstum dómnefndarmönnum sem skipaðir séu til þriggja ára í senn. Ein dómnefnd starfi fyrir hvert af meginfræðasviðum háskólans sem eru hugvísindasvið, heilbrigðisvísindasvið, samfélagsvísindasvið og verkfræði- og raunvísindasvið. Meiri hluti dómnefndar sé skipaður samkvæmt þessu, en einn dómnefndarmaður síðan skipaður til þess að fjalla um hvert einstakt mál. Þetta mun fyrirsjáanlega leiða til þess að einfalda megi og stytta ráðningarferli háskólamanna sem er mikilvægt þar sem skipan og störf dómnefnda hafa haft tilhneigingu til þess að dragast á langinn. Slík breyting er í þágu hagsmuna bæði umsækjenda um störf og stofnunarinnar sjálfrar án þess þó að í nokkru sé dregið úr kröfum til umsækjenda.
    Í b-lið er lagt til að tekin verði upp í 7. mgr. 12. gr. heimild til undanþágu frá meginreglu 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem mælir fyrir um það að auglýsa beri laus störf hjá ríkinu. Slík heimild kæmi til viðbótar undantekningum frá auglýsingaskyldunni sem fyrir eru í lögunum, sbr. 5. og 8. mgr. 12. gr. þeirra. Í framkvæmd hefur komið í ljós að þessum undantekningum eru settar full þröngar skorður. Þau rök sem búa að baki þessum lögfestu undantekningum eiga einnig við um fleiri tilvik og því hefur það verið afstaða háskólans að heimilt eigi að vera að víkja frá meginreglunni um að auglýsa beri laus störf við skólann og stofnanir hans í nokkrum nánar ákveðnum tilvikum, sem öll byggjast á sérstöðu starfa við háskólann. Þessi breytingartillaga hefur að geyma heimild sem í framkvæmd yrði beitt þröngt og einungis á grundvelli nánari reglna sem háskólaráð mun setja. Dæmi um störf sem hér gætu átt við eru:
     1.      Starf háskólakennara eða sérfræðings sem byggist á rannsóknarstyrkjum. Hluti rannsóknastarfsins við Háskóla Íslands og stofnanir hans er kostaður af styrkjum sem einstakir verkefnastjórar, kennarar eða fastráðnir sérfræðingar, eða rannsóknarhópar sækja um til innlendra eða erlendra rannsóknasjóða og nota til að ráða starfsmenn að rannsóknunum. Slíkir styrkir eru ævinlega bundnir við tiltekið verkefni og tímabundnir. Eðlilegt er að viðkomandi verkefnastjóri hafi fullt vald til að ráðstafa styrknum, þ.m.t. að ráða starfsmann án auglýsingar ef það þykir henta.
     2.      Störf nemenda við háskólann sem eru í rannsóknartengdu framhaldsnámi. Eitt af megináhersluatriðum Háskóla Íslands er að byggja upp rannsóknartengt framhaldsnám. Nemendur í slíku námi hafa að jafnaði annaðhvort framfærslu af námsstyrkjum eða þeir eru á launum sem umsjónarkennari fjármagnar með rannsóknarstyrkjum eða rannsóknarsamningum. Þegar svo háttar til er val nemanda alfarið á valdi umsjónarkennara og ekki sjálfgefið að slíkt starf sé auglýst þó að við vissar aðstæður geti verið talið tilefni til að efna til samkeppni um slíka námsstöðu.
     3.      Starf vísindamanns sem byggist á sérstökum tímabundnum styrk til rannsókna styrkþegans sjálfs. Mörg dæmi eru um það að erlendir sem innlendir vísindamenn sæki um og fái styrki til afmarkaðra rannsóknarverkefna sem þeir hyggjast vinna sjálfir. Styrkveitingin er að jafnaði bundin vísindamanninum en hann semur síðan við rannsókna- eða háskólastofnun um þá aðstöðu sem honum er þörf til þess að vinna verkefnið. Í ýmsum tilvikum getur verið hentugt og jafnvel nauðsynlegt að vísindamaðurinn leggi styrkinn inn í heild til viðkomandi stofnunar sem aftur ræður þá vísindamanninn tímabundið til starfa við verkefnið. Við þessar aðstæður er augljóst að forsenda starfsins er sá styrkur sem viðkomandi vísindamaður leggur fram og því getur ekki verið um að ræða að starfið sé auglýst.
     4.      Samvinnuverkefni háskólamanns og annars aðila um sérstakar tímabundnar rannsóknir. Sum þeirra starfa sem verða til í háskólanum og stofnunum hans tengjast verkefnum sem í eðli sínu eru tímabundin og felast í að framkvæma tiltekna rannsóknaráætlun í samvinnu starfandi háskólamanna og utanaðkomandi aðila sem kunna að eignast réttindi yfir verkefninu og koma að því á öllum stigum. Aðkoma slíkra aðila kann að vera best tryggð með ráðningarsamningi, en jafnljóst er að ekki eru forsendur til þess að auglýsa starfið laust til umsóknar.
     5.      Sérstök tímabundin kennarastörf sem kostuð eru af utanaðkomandi aðilum. Það er markmið háskólans að fjölga þeim kennarastörfum sem kostuð eru af stofnunum eða fyrirtækjum með sérstökum samningum. Slík störf eru að jafnaði veitt til tiltekins tíma, t.d. þriggja eða fimm ára. Í sumum tilvikum eru slík störf bundin tilteknum rannsóknasviðum og jafnvel sett á fót til þess að tilteknir sérfræðingar fái aðstöðu til þess að kenna tiltekin fræði og stunda rannsóknir á því sviði við háskólann. Ekki er því sjálfgefið að forsendur séu til að auglýsa starfið.
     6.      Háskólakennarar í hlutastarfi sem tengist tilteknu starfi utan háskólans á grundvelli samstarfssamnings milli stofnana. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga um Háskóla Íslands er heimilt að tengja starf kennara (háskólamanns) tilteknu starfi utan háskólans. Fram kom í greinargerð með þessu ákvæði á frumvarpsstigi að slíkum tengslum skyldi einkum komið á með samkomulagi milli stofnana þar sem tryggður sé aðgangur að aðstöðu og sérþekkingu tiltekinna sérfræðinga. Hefur háskólinn á grundvelli þessarar heimildar gert samstarfssamninga við fjölda stofnana þar sem byggt er á því að tilteknir starfsmenn séu í starfi bæði hjá háskólanum og viðkomandi stofnun. Geri samningurinn ráð fyrir nýjum störfum hefur verið talið að auglýsa beri slík störf enda þótt forsenda samningsins sé tiltekin sérfræðiþekking sem til staðar er innan stofnunar. Ljóst er á hinn bóginn að í mörgum tilvikum stýra hinar samningsbundnu forsendur því hvernig starfinu er ráðstafað. Æskilegt er því að til staðar sé svigrúm að þessu leyti til þess að meta megi hvort auglýsing starfsins þjóni einhverjum tilgangi.

Um 2. gr.

    Um þessar mundir standa yfir samningaviðræður milli Norrænu ráðherranefndarinnar og Háskóla Íslands um samruna Norrænu eldfjallastöðvarinnar og jarðvísindahluta Raunvísindastofnunar Háskólans innan nýrrar Jarðvísindastofnunar. Unnið er að málinu á grundvelli viljayfirlýsingar sem háskólaráð og skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar hafa undirritað með fulltingi menntamálaráðuneytis. Meðal þess sem gengið er út frá er að hin nýja jarðvísindastofnun verði skipulagslega hluti af Raunvísindastofnun en þó mjög sjálfstæð.
    Lögformlega gerist samruninn með yfirtöku Háskóla Íslands á verkefnum Norrænu eldfjallastöðvarinnar, sem samhliða verður lögð niður sem sjálfstæð norræn stofnun. Í samningaviðræðum hefur verið miðað við að störf hjá Norrænu eldfjallastöðinni verði lögð niður og starfsmönnum boðin störf við sambærileg verkefni hjá nýrri jarðvísindastofnun. Vegna ákvæða 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, um auglýsingaskyldu er nauðsynlegt að breyta ákvæðum laga um Háskóla Íslands til þess að bjóða megi störf með þessum hætti en sú leið hefur áður verið farin við færslu verkefna milli stofnana.
    Jafnframt er mikilvægt að boð um starf við Háskóla Íslands sé byggt á skýrum forsendum um starfsgrundvöll og starfskjör. Samkvæmt almennum reglum Háskóla Íslands um hæfnismat akademískra starfsmanna (háskólakennara og sérfræðinga) er ráðning þeirra háð því að sérstaklega skipuð dómnefnd fjalli um hæfi þeirra, en sú leið er alltímafrek. Því er lagt til að heimilt verði að víkja frá þessu skilyrði en láta starfsheiti og launaröðun ráðast af kjarasamningum og sameiginlegum reglum háskólans, enda sé ljóst að viðkomandi starfsmenn uppfylli lágmarkshæfniskröfur.
    Starfsmenn Norrænu eldfjallastöðvarinnar eru nú átján talsins. Af þessum hópi eru sjö starfsmenn með ráðningarsamninga sem renna út fyrir 1. júlí 2004, en það er það tímamark sem miðað hefur verið við varðandi yfirfærslu verkefna og starfsmanna. Þeir starfsmenn sem eru með ráðningarsamninga í gildi fram yfir 1. júlí 2004 hafa annars vegar með höndum stjórn vísindalegra verkefna og hins vegar tækni-, rannsókna- og skrifstofustörf. Þessum ellefu starfsmönnum verður boðið starf við Háskóla Íslands frá og með 1. júlí 2004.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
nr. 41/1999, um Háskóla Íslands.

    Með frumvarpinu eru lagðar til afmarkaðar breytingar á reglum um ráðningar í störf hjá háskólanum.
    Í fyrsta lagi er lögð til breyting varðandi skipun dómnefnda sem fjalla um hæfi umsækjenda um kennslu- og fræðastörf í skólanum.
    Í öðru lagi er lagt til að skólanum verði ekki skylt að auglýsa ýmis tímabundin störf sem kostuð eru með styrkjum.
    Í þriðja og síðasta lagi er lagt til að bætt verði við ákvæði til bráðabirgða um að háskólinn bjóði starfsmönnum Norrænu eldfjallastöðvarinnar störf við sambærileg verkefni og þeir höfðu hjá stöðinni án þess að störfin verði auglýst eða hæfnismat dómnefndar liggi fyrir. Í skýringum kemur fram að ellefu starfsmönnum verður boðið starf frá og með 1. júlí nk.
    Að mati fjármálaráðuneytisins stuðla breytingar á skipun dómnefnda og afnám skyldu til að auglýsa tímabundin störf að einföldun á stjórnsýslu háskólans og lækkunar á kostnaði þótt ekki séu forsendur til að áætla fjárhæðir.
    Hvað bráðabirgðaákvæðið áhrærir er ljóst að útgjöld Háskóla Íslands koma til með að aukast vegna verkefna sem flytjast frá Norrænu eldfjallastöðinni. Samkvæmt ársskýrslu stöðvarinnar fyrir árið 2002 voru starfsmenn 18 að tölu og námu heildarútgjöld 122,2 m.kr. Þar af lagði norræna ráðherranefndin til 83,2 m.kr. og ríkissjóður 17,5 m.kr. en 18,5 m.kr. voru greiddar með styrkjum. Rekstrarhalli nam 3 m.kr. Í fjárlögum 2004 er eldfjallastöðinni ætlað 18,4 m.kr. framlag. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að beita sér fyrir 15 m.kr. hækkun á framlaginu frá og með yfirstandandi ári. Að öðru leyti er miðað við að fjármagna verkefnin með styrk samkvæmt samningi við norrænu ráðherranefndina, sem unnið er að, og með því að sækja um styrki hjá rannsóknasjóðum eða annars staðar. Takist ekki að fjármagna verkefnin að fullu með þessum hætti er gert ráð fyrir að skólinn leggi til fé af fjárveitingum sínum eða dragi úr útgjöldum. Gangi þessi áform eftir hefur frumvarpið í för með sér 15 m.kr. hækkun í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar.