Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 427. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1262  —  427. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um ársreikninga, nr. 144/1994, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elvu Ósk Wiium frá fjármálaráðuneyti og Guðmund Guðbjarnason frá RSK sem kom f.h. fjármálaráðuneytis og Sigurð Þórðarson ríkisendurskoðanda, Einar Guðbjartsson dósent, Albert Ólafsson og Vigni Gíslason frá reikningsskilaráði.
    Eins og kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu eru tillögurnar sem lagðar eru fram í því byggðar á félagatilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/65/EB frá 27. september 2001 um breytingu á tilskipunum 78/660/EBE, 83/349/EBE og 86/635/EBE að því er varðar matsreglur vegna ársreikninga og samstæðureikninga félaga með takmarkaða ábyrgð eigenda, sem og banka og annarra fjármálastofnana. Tilskipunin var felld inn í EES-samninginn samkvæmt samþykkt sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2002.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lagt er til að í stað orðsins „gangverð“ í frumvarpinu komi orðið „gangvirði“. Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið hafa ensku orðin „fair value“ verið þýdd á margvíslegan hátt. Í frumvarpinu er notað orðið „gangverð“. Hér er lagt til að notuð verði þýðingin „gangvirði“. Enn fremur er lagt til að notað verði orðið „gangvirðisreikningur“ í stað orðsins „gangvirðissjóður“.
     2.      Lagt er til að nýr málsliður bætist við 1. gr. frumvarpsins til að taka af öll tvímæli um það að saman fari mat á fjármálagerningum og skuldbindingum sem tengjast afleiðusamningum á gangvirði og er það í samræmi við þær reglur sem tilskipunin byggist á.
     3.      Með breytingu á 3. tölul. 2. mgr. a-liðar 2. gr. er verið að samræma orðalag við 1. tölul. a-liðar 3. gr.
     4.      Með nýrri málsgrein í b-lið 2. gr. er verið að taka af öll tvímæli um að ekki sé heimilt að færa fjármálagerninga og skuldbindingar milli flokka eftir eigin vali á milli ára.
     5.      Þá gerir nefndin breytingartillögu við gildistökuákvæði frumvarpsins þess efnis að lögin öðlist þegar gildi og komi til framkvæmda við samningu ársreikninga fyrir árið 2004 eða síðar og er það í samræmi við tilskipunina sem frumvarpið byggist á. Auk þess er lagt til að ákvæði um innleiðingu tilskipunarinnar verði fært í sér grein.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali.
    Gunnar Örlygsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.
    Össur Skarphéðinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 24. mars 2004.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Birgir Ármannsson.



Dagný Jónsdóttir.


Gunnar Birgisson.


Ágúst Ólafur Ágústsson.



Jóhanna Sigurðardóttir.


Ögmundur Jónasson.