Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 570. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1303  —  570. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Svanhvíti Jakobsdóttur og Vilborgu Hauksdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Benedikt Davíðsson og Ólaf Örn Arnaldsson frá Landssambandi eldri borgara, Stefaníu Björnsdóttir og Margréti Margeirsdóttur frá Félagi eldri borgara, Jóhann Árnason, Svein H. Skúlason og Júlíus Rafnsson frá Félagi fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, Þórð Skúlason og Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Málið var sent til umsagnar og bárust svör frá Akureyrarbæ, Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Landssambandi eldri borgara, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Félagi eldri borgara og Félagi íslenskra öldrunarlækna.
    Í frumvarpinu er m.a. lagt til það nýmæli að heimilt verði að greiða úr Framkvæmdasjóði aldraðra húsaleigu vegna leigu á hjúkrunarheimili sem aðrir en ríkið hafa byggt fyrir aldraða. Skal húsaleiga sem greidd er með þessum hætti teljast ígildi stofnkostnaðar. Einnig er lagt til að heimilt verði að greiða úr sjóðnum framlög til viðhalds húsnæðis dagvistar-, dvalar- og hjúkrunarheimila. Frumvarpið byggist að hluta til á tillögum samráðshóps um málefni eldri borgara frá nóvember 2002 og tillögum vinnuhóps heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra frá maí 2003.
    Í 1. efnismgr. 2. gr. frumvarpsins er lagt til að heimilt verði að verja fé úr Framkvæmdasjóðnum til reksturs stofnanaþjónustu fyrir aldraða í sérstökum tilvikum. Þetta er sama regla og kveðið er á um í gildandi lögum. Talsmenn eldri borgara hafa lagt á það áherslu að hætt verði að verja fé úr sjóðnum til reksturs. Í greinargerð kemur fram að gert er ráð fyrir að hætt verði að verja fjármagni úr sjóðnum til reksturs í áföngum á tímabilinu 2004–2008. Bendir meiri hlutinn á að þegar hafa verið stigin fyrstu skref í þá átt með því að lækka rekstrarlið Framkvæmdasjóðsins um 45 millj. kr. í fjárlögum þessa árs.
    Meiri hlutinn leggur til breytingar á 3. efnismgr. 2. gr. frumvarpsins sem fela í sér að heimilt verði að veita undanþágu frá því að útboð hafi farið fram til að Framkvæmdasjóðnum sé heimilt að greiða leigu fyrir hjúkrunarheimili sem samþykkt hefur verið að byggja eftir 1. janúar 2005 á kostnað annarra aðila en ríkisins. Með því er átt við stofnanir sem hafa notið ríkisframlags en vilja gera breytingar á húsnæðinu sem eru til þess fallnar að gera rekstur þeirra hagkvæmari. Leggur meiri hlutinn áherslu á að aðeins megi þó veita undanþágu þegar telja verði að sérstakar aðstæður mæli með því, t.d. þegar rekstraraðili hyggst stækka hjúkrunarheimili sem þegar er starfrækt eða þegar um er að ræða minni háttar breytingar. Jafnframt verður að liggja fyrir það mat að útboð leiði ekki til lægri húsaleigukostnaðar fyrir ríki og sveitarfélög.
    Í frumvarpinu er lagt til að taki sveitarfélög þátt í kostnaði við uppbyggingu hjúkrunarheimilis þá skuli hann aldrei vera minni en 15%. Þetta er sama hlutfall og kveðið er á um í lögum um heilbrigðisþjónustu þegar ríki og sveitarfélög byggja saman hjúkrunarheimili. Þegar miðað hefur verið við kostnaðarskiptingu samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu hefur framkvæmdin verið þannig að 40% hafa verið fengin úr Framkvæmdasjóði aldraðra og verið talin ríkisframlag. Viðbótarframlag ríkisins er greitt af fjárlögum. Meiri hlutinn leggur áherslu á að frumvarpið breytir ekki þeirri framkvæmd sem lög um heilbrigðisþjónustu kveða á um. Þá tekur meiri hlutinn fram að í þeim tilvikum þegar aðrir aðilar en ríki og sveitarfélög, t.d. sjálfseignarstofnanir, hyggjast byggja hjúkrunarheimili tekur sveitarfélag eðli málsins samkvæmt ekki þátt í kostnaði við byggingu þess nema það hafi áður veitt samþykki fyrir þátttöku í kostnaði. Við umfjöllun málsins greindu fulltrúar ráðuneytisins frá því að ráðherra veitir ekki framkvæmda- eða rekstrarleyfi ef sveitarfélag hefur ekki samþykkt að greiða þann hluta sem kveðið er á um í umsókn um byggingu hjúkrunarheimilis. Bendir meiri hlutinn þessu til stuðnings á fylgiskjöl með frumvarpinu þar sem þetta kemur ótvírætt fram. Í fylgiskjölunum kemur fram að beiðni um framkvæmda- og rekstrarleyfi skuli fylgja umsögn og þarfagreining þjónustuhóps aldraðra á því starfssvæði þar sem ætlunin er að reisa hjúkrunarheimili. Þar segir einnig að veiting leyfisins komi einungis til álita þegar raunveruleg þörf er fyrir þjónustuna að áliti þjónustuhóps aldraðra á umræddu svæði. Í þessu samhengi minnir meiri hlutinn jafnframt á að sveitarstjórnir skipa alla fulltrúa í þjónustuhóp aldraðra og velja honum formann úr hópi nefndarmanna. Þá bendir meiri hlutinn á að hingað til hafa sveitarfélög ósjaldan greitt hærra hlutfall en 15% í kostnaði við byggingu hjúkrunarheimila. Einnig telur meiri hlutinn rétt að minna á að þörf er á atbeina sveitarfélags við ákvarðanatöku um byggingu hjúkrunarheimilis í viðkomandi sveitarfélagi því það úthlutar lóð til fyrirhugaðrar byggingar. Það er því á forræði sveitarfélagsins að stórum hluta hvort ráðist verður í byggingu hjúkrunarheimilis. Til samræmis við framangreint leggur meiri hlutinn til breytingu á 3. efnismgr. 2. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er skýrar á um að samþykki sveitarfélags fyrir þátttöku í kostnaði þurfi að liggja fyrir áður en farið er í uppbyggingu hjúkrunarheimila sem aðrir en ríki og sveitarfélög standa að.
    Eins og áður er getið er lagt til í frumvarpinu að fjármagni úr Framkvæmdasjóði aldraðra verði m.a. varið til viðhalds húsnæðis dagvistar-, dvalar- og hjúkrunarheimila. Við umfjöllun um þessa tillögu kom fram að ekki hafa verið til nægilega skýrar reglur um hvort viðhald skuli greitt af Framkvæmdasjóði aldraðra eða hvort það falli undir eðlilegan kostnað við rekstur hjúkrunarheimilis og því er mismunandi hvernig staðið hefur verið að verki og hvernig greiðslu kostnaðar hefur verið háttað. Vegna þessa leggur meiri hlutinn áherslu á að kveðið verði skýrar á um hvað falli undir viðhald sem greitt er úr Framkvæmdasjóðnum.
    Meiri hlutinn leggur til breytingar á 1. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um skipan samstarfsnefndar um málefni aldraðra. Þar kemur fram að ráðherra skipi tvo án tilnefningar og að annar starfsmaðurinn sé starfsmaður tiltekins málaflokks í ráðuneytinu. Það er mat meiri hlutans að ekki sé rétt að binda hendur ráðherra með þessum hætti og leggur til að ráðherra verði heimilt að skipa í nefndina án þess að skipulag ráðuneytisins á hverjum tíma hafi áhrif þar á. Að síðustu er lagt til að felld verði niður tilvísun 13. og 14. gr. laganna í 17. gr. laganna en í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að 17. gr. verði felld brott.
    Með frumvarpinu eru lögð fram sem fylgiskjöl drög að reglugerð um Framkvæmdasjóð aldraðra og drög að eyðublöðum fyrir umsóknir um framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra ásamt skilmálablöðum og flæðiritum. Telur meiri hlutinn það góð vinnubrögð að slík gögn séu lögð fram til skýringar. Meiri hlutinn mælir með samþykkt frumvarpsins með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Margrét Frímannsdóttir og Brynja Magnúsdóttir skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Sigríður A. Þórðardóttir og Guðrún Ögmundsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 31. mars 2004.Jónína Bjartmarz,


form., frsm.


Drífa Hjartardóttir.


Margrét Frímannsdóttir,


með fyrirvara.Pétur H. Blöndal.


Dagný Jónsdóttir.


Brynja Magnúsdóttir,


með fyrirvara