Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 881. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1339  —  881. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61 26. maí 1997, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    4. málsl. 2. mgr. 7. gr. laganna orðast svo: Útboðnar einingar skulu leystar upp innan tíu ára eftir að þær eru boðnar út og rennur andvirði þeirra í Stofnsjóð Nýsköpunarsjóðs.

2. gr.

    Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sjóðnum er einnig heimilt að leggja fé úr Stofnsjóði í framtakssjóði með öðrum fjárfestum. Hlutdeild Nýsköpunarsjóðs í hverjum framtakssjóði má ekki vera meiri en 30% af samanlögðu framlagi til framtakssjóðsins. Stjórn Nýsköpunarsjóðs er heimilt að semja við aðra aðila um vistun framtakssjóða eða tiltekna þjónustu þeim til handa.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins og tók til starfa 1. janúar 1998. Samkomulag varð á milli fulltrúa stjórnvalda og samtaka í iðnaði og sjávarútvegi í árslok 1996 um stofnun Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins með stofnfé að upphæð 4.000 millj. kr.
    Á starfstíma Nýsköpunarsjóðs hafa orðið mjög miklar breytingar á starfsumhverfinu. Í byrjun var lítið framboð á fjármagni til nýsköpunar. Það fór ört vaxandi og í stuttan tíma var nánast um offramboð að ræða. Frá miðju ári 2000 dró mjög úr því þegar í ljós kom að margar nýfjárfestingar töpuðust að fullu á fyrstu árum fyrirtækjanna þegar fór að reyna á gildi viðskiptahugmyndanna sem fyrirtækin byggðust á.
    Nýsköpunarsjóður ákvað hins vegar í ljósi nánast algjörrar þurrðar á framtaksfjármagni að halda áfram að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum. Þessari stefnu var haldið fram á árið 2002. Frá þeim tíma hefur sjóðurinn ekki haft bolmagn til nýfjárfestinga en beint kröftum sínum að því að verja þær fjárfestingar sem hann hafði þegar ráðist í. Frá upphafi hefur Nýsköpunarsjóður fjárfest í rúmlega 100 fyrirtækjum og á nú eignarhlut í rúmlega 70 fyrirtækjum.
    Fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum eru í eðli sínu áhættusamar og því áhættusamari sem þær eru fyrr á æviskeiði fyrirtækjanna eða þar sem Nýsköpunarsjóður hefur einkum starfað. Reynslan hefur sýnt að yfirleitt tekur 8–12 ár fyrir nýsköpunarfyrirtæki að ná verulegum árangri, takist það á annað borð. Afleiðing alls þess sem að framan er rakið er að hluti af fjárfestingum sjóðsins hefur tapast og ávöxtun Stofnsjóðs verið neikvæð undanfarin ár og ekki hefur tekist að viðhalda eigin fé Stofnsjóðs.
    Nýsköpunarsjóður er ungur og meðalaldur fjárfestinga hans ekki nema 3–4 ár. Því er ekki komið að því að unnt sé að selja með hagnaði hlut sjóðsins í þeim fyrirtækjum sem skila munu árangri til lengri tíma litið. Af þessu leiðir að lítið fjármagn losnar hjá sjóðnum til fjárfestinga í nýjum verkefnum. Tiltækt fjármagn hefur að mestu farið til þess að styðja við fyrri fjárfestingar sjóðsins. Á sama tíma hefur reynst nánast útilokað að fá aðra fjárfesta til þess að leggja fram fé til þessara verkefna.
    Með frumvarpi þessu er ætlunin að gera Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins kleift að sinna hlutverki sínu til hagsbóta fyrir frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtæki. Reynsla annarra þjóða sýnir að flest ný störf verða til í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Efling Nýsköpunarsjóðs er brýnt verkefni við þær aðstæður sem nú ríkja hér á landi þegar fyrir liggur að mikill skortur er á fjármagni til framtaksfjárfestinga.
    Frumvarp þetta hefur tvö markmið. Fyrra markmiðið er að bæta eiginfjárstöðu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, með því að eignir ríkisins í svokölluðum framtakssjóðum renni í Stofnsjóð þegar þeir verða leystir upp. Síðara markmiðið er að heimila Nýsköpunarsjóði að leggja fé í framtakssjóði með öðrum fjárfestum, t.d. lífeyrissjóðum eða öðrum framtaksfjárfestum, og þannig skapa aukið fjármagn til nýrra fjárfestinga eins og hlutverk sjóðsins kveður á um.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Svokallaðir framtakssjóðir urðu til við útboð á 1.000 millj. kr. söluandvirði hlutafjár í eigu ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Þessu fé skyldi varið til hlutafjárkaupa í því skyni að stuðla að nýsköpun og atvinnuuppbyggingu með áherslu á landsbyggðina, einkum á sviði upplýsinga- og hátækni.
    Árið 1999 bauð stjórn Nýsköpunarsjóðs út vörslu fjárins og ráðstafaði því síðan til fjögurra aðila. Hver þeirra fékk 250 millj. kr. til fjárfestinga og lagði hver um sig 125 millj. kr. af eigin fé til viðbótar við stofnun hvers framtakssjóðs. Sjóðina átti að leysa upp 7–10 árum eftir stofnun þeirra, þ.e. 2006–2009, og andvirði þess sem Nýsköpunarsjóður bauð út að renna í ríkissjóð við uppgjör þeirra.
    Afkoma framtakssjóðanna hefur ekki farið varhluta af hinni almennu og neikvæðu þróun í áhættufjárfestingum og hefur höfuðstóll þeirra allra rýrnað umtalsvert hingað til. Þá hefur tíminn leitt í ljós að smæð þeirra gerir þá óhagkvæma í rekstri.
    Hér er gert ráð fyrir að ríkissjóður feli Nýsköpunarsjóði áframhaldandi ráðstöfun þess fjármagns sem bundið er í framtakssjóðunum og að það renni í Stofnsjóð hans. Jafnframt verði binding fjárins í 7–10 ár felld niður svo að nú þegar verði unnt að koma á hagkvæmara rekstrarfyrirkomulagi með samkomulagi við vörsluaðilana.

Um 2. gr.

    Nýsköpunarsjóður hefur haft heimild til að taka skammtímalán til að jafna sveiflur í greiðslustreymi sínu. Viðvarandi skortur á fjármagni til fjárfestingarverkefna á sviði nýsköpunar gerir nauðsynlegt að rýmka þessar heimildir. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sjóðnum verði veitt heimild til að fjárfesta hluta af Stofnsjóði í framtakssjóðum með öðrum fjárfestum. Gera má ráð fyrir að lífeyrissjóðir og aðrir langtímafjárfestar sjái sér hag af náinni samvinnu við Nýsköpunarsjóð um fjárfestingar í nýsköpun atvinnulífsins. Til þess að takmarka áhættu Nýsköpunarsjóðs er gert ráð fyrir að hlutdeild hans í framtakssjóðum verði ekki meiri en 30% af höfuðstól framtakssjóðanna á hverjum tíma.
    Gert er ráð fyrir að framtakssjóðir geti orðið fleiri en einn. Hagkvæmni stærðarinnar ræður mestu um fjölda þeirra en þær aðstæður kunna að skapast í framtíðinni að þörf verði fyrir fleiri en einn framtakssjóð af þessu tagi og þá er óheppilegt að hafa heimildir sjóðsins of þröngar. Gert er ráð fyrir að stjórn sjóðsins verði veitt heimild til þess að fela öðrum vistun og rekstur framtakssjóða sem Nýsköpunarsjóður tekur þátt í. Rétt þykir að sjóðurinn hafi þetta svigrúm til þess að greiða fyrir stofnun framtakssjóða og þar með öflun fjármagns til nýsköpunar.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61 26. maí 1997, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er annars vegar lagt til að eiginfjárstaða Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins verði bætt með því að eignir ríkisins í svokölluðum framtakssjóðum renni í Stofnsjóð Nýsköpunarsjóðs þegar þær verða leystar upp í stað þess að renna í ríkissjóð eins og kveðið er á um í gildandi lögum. Hins vegar er lagt til að Nýsköpunarsjóði verði heimilt að taka langtímalán til fjárfestinga í fyrirtækjum og að leggja í framtakssjóði með öðrum fjárfestum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs, en lánsfjárafgangur ríkisins verður u.þ.b. 580 m.kr. lægri á tilteknu árabili, en verið hefði miðað við gildandi lög. Jafnframt er vakin athygli á því að auknar heimildir til langtímalántöku yrðu með ríkisábyrgð ef heimild til þess fengist í 5. gr. fjárlaga.