Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 204. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1358  —  204. mál.




Frumvarp til laga



um vátryggingarsamninga.

(Eftir 2. umr., 5. apríl.)



I. HLUTI


Skaðatryggingar.
I. KAFLI
Inngangur.
1. gr.
Gildissvið I. hluta laganna.

    Þessi hluti laganna gildir um samninga um skaðatryggingar.
    Með skaðatryggingu er átt við vátryggingu gegn tjóni eða eyðileggingu á hlut, réttindum eða öðrum hagsmunum, vátryggingu gegn skaðabótaábyrgð eða kostnaði og aðra vátryggingu sem ekki er persónutrygging.
    Ákvæði I. hluta laganna gilda ekki um endurtryggingar.

2. gr.
Skilgreiningar.

    Í þessum hluta laganna hafa eftirtalin hugtök eftirfarandi merkingu:
     a.      félagið, sá sem með samningi skuldbindur sig til að veita vátryggingu,
     b.      vátryggingartaki, sá sem gerir einstaklingsbundinn samning eða hópvátryggingarsamning við félagið,
     c.      vátryggður, sá sem samkvæmt vátryggingarsamningi á rétt á að krefja um bætur; í ábyrgðartryggingum er hinn vátryggði sá sem nýtur vátryggingarverndar á skaðabótaskyldri háttsemi sinni,
     d.      hópvátrygging, vátrygging þar sem réttindi og skyldur fyrir hópinn sem vátryggingin tekur til eru ákvörðuð með samningi sem vátryggingartaki gerir vegna eða til hagsbóta fyrir þá sem teljast til hópsins,
     e.      varúðarreglur, fyrirmæli í vátryggingarsamningi um:
                  1.      að vátryggður eða aðrir skuli gera tilteknar ráðstafanir sem fallnar eru til þess að fyrirbyggja eða takmarka tjón eða sjá til þess að þær verði gerðar,
                  2.      að vátryggður eða aðrir skuli við notkun, geymslu eða viðhald vátryggðs hlutar uppfylla tiltekin skilyrði um hæfni eða hafa tilgreind réttindi,
                  3.      að vátryggður eða aðrir skuli við notkun, geymslu eða viðhald vátryggðs hlutar, framkvæma það með tilteknum hætti,
     f.      vátryggingaratburður, atvik sem samkvæmt vátryggingarsamningi veldur því að til greiðslu bóta getur komið,
     g.      vátryggingaráhætta,
                  1.      þeir hagsmunir sem njóta vátryggingarverndar samkvæmt vátryggingarsamningi ef vátryggingaratburður verður og
                  2.      þeir þættir eða aðstæður sem leitt geta til þess að vátryggingaratburður verður,
     h.      vátryggingarfjárhæð, sú fjárhæð sem tilgreind er í vátryggingarsamningi og hagsmunir eru að hámarki vátryggðir fyrir,
     i.      vátryggingarverðmæti, verðmæti vátryggðra muna eða annarra hagsmuna þegar vátryggingaratburður verður,
     j.      bundið vátryggingarverð, fjárhæð sú er samið er um sem fullnaðarbætur fyrir vátryggðan mun, óháð raunverulegu verðmæti hans,
     k.      vátryggingarskírteini, staðfesting vátryggingafélags á því að vátryggingarsamningur hafi verið gerður þar sem fram koma m.a. upplýsingar um hvaða vátryggingu sé um að ræða, vátryggingartaka og vátryggðan, svo og þær upplýsingar sem greinir í 10. gr.

3. gr.
Ófrávíkjanlegar reglur.

    Óheimilt er, nema annað sé tekið fram, að víkja frá ákvæðum I. hluta laga þessara með samningi ef það leiðir til lakari stöðu þess sem öðlast kröfu á hendur félaginu samkvæmt vátryggingarsamningi.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er í öðrum tegundum vátrygginga en ábyrgðartryggingum heimilt að víkja frá ákvæðum þessa hluta þegar vátrygging er tekin vegna atvinnurekstrar ef:
     a.      umfang rekstraraðilans við gerð vátryggingarsamnings eða við endurnýjun hans samsvarar fleiri en fimm ársverkum,
     b.      starfsemin fer að mestu leyti fram erlendis,
     c.      vátrygging er tekin vegna skráðs loftfars,
     d.      vátryggðar eru vörur í flutningi milli landa.

II. KAFLI
Upplýsingaskylda félagsins.
4. gr.
Upplýsingar við töku vátryggingar.

    Við töku vátryggingar skal félagið, eða sá sem kemur fram fyrir hönd þess, veita nauðsynlegar upplýsingar til þess að vátryggingartaki geti metið tilboð þess. Sérstaklega skal það gera grein fyrir því hvort verulegar takmarkanir séu á gildissviði vátryggingarinnar eða þeirri vernd er hún veitir.
    Þá skal félagið upplýsa um hvaða aðilar hafi með höndum þjónustu vegna kvörtunar- eða ágreiningsmála er tengjast vátryggingarsamningum, svo og rétt hlutaðeigandi til að skjóta málum til dómstóla.

5. gr.
Tungumál vátryggingarskilmála.

    Vátryggingarskilmálar, sem boðnir eru vegna vátryggingaráhættu sem er hérlendis, skulu vera á íslensku eða öðru tungumáli sem vátryggingartaki samþykkir og gerir honum kleift, áður en gengið er frá vátryggingarsamningi, að tileinka sér þau ákvæði skilmálanna sem skipta máli um efni þeirra, vátryggingarvernd og þau kjör sem í boði eru.

6. gr.
Upplýsingaskylda um efni löggjafar.

    Gildi önnur löggjöf en íslensk um vátryggingarsamninginn skal félagið eða sá sem gerir samninginn fyrir þess hönd upplýsa vátryggingartaka um efni þeirrar löggjafar sem gilda skal um samninginn.
    Val á löggjöf um vátryggingarsamning ásamt staðfestingu á að vátryggingartaki hafi fengið upplýsingar skv. 1. mgr. skal koma fram í samningnum sjálfum eða í fylgigögnum með honum.

7. gr.
Upplýsingaskylda um félagið sjálft.

    Vátryggingartaki skal ávallt upplýstur um heiti og aðsetur þess félags sem vátrygginguna býður og ber vátryggingaráhættuna áður en hann er skuldbundinn samkvæmt vátryggingarsamningi. Upplýsingarnar skulu ávallt koma fram á bréfum og öðrum tilkynningum til vátryggingartaka, svo og heiti og aðsetur aðalstöðva félagsins þegar um útibú er að ræða.
    Öll bindandi tilboð, vátryggingarsamningar og ígildi þeirra skulu hafa að geyma upplýsingar um heiti og aðsetur þess félags sem ber vátryggingaráhættuna og aðalstöðvar þess. Þegar um ábyrgðartryggingu ökutækja er að ræða og veitt er þjónusta án starfsstöðvar skal nafn og heimilisfang þess fulltrúa félagsins sem annast tjónsuppgjör einnig koma fram.

8. gr.
Skilríki.

    Hver sá sem hefur með höndum sölu vátrygginga á vegum vátryggingafélags skal við störf sín framvísa fullnægjandi skilríkjum sem útgefin eru af því félagi eða félögum sem hann starfar fyrir.

9. gr.
Skyldur félags við sölu vátrygginga og við tjón.

    Vátryggingafélög skulu sjá til þess að starfsemi aðila skv. 8. gr. sé þannig háttað að við öflun vátrygginga sé gætt hags vátryggingartaka, vátryggðra og annarra sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta.
    Vátryggingafélög skulu sjá til þess að tjónþolar fái fullnægjandi upplýsingar um bótarétt sinn og sundurliðun á því hvernig bætur til þeirra eru ákveðnar.

10. gr.
Vátryggingarskírteini.

    Þegar er samningur hefur verið gerður og ákveðið er hvaða skilmálar gilda um vátrygginguna skal félagið afhenda vátryggingartaka skírteini til staðfestingar á því að samningur sé kominn á og vísa til skilmála hans. Auk skírteinisins skal félagið afhenda vátryggingartaka skilmálana.
    Í vátryggingarskírteini skal koma fram:
     a.      heiti vátryggingar,
     b.      gildistími vátryggingarsamnings,
     c.      hverjir séu aðilar að vátryggingarsamningnum,
     d.      iðgjald vegna vátryggingarinnar og gjalddagi þess,
     e.      árétting til vátryggingartaka um að hann kynni sér ákvæði skilmála vátryggingarinnar er varða fyrirvara er tengjast greiðslu iðgjalds, takmörkun ábyrgðar, varúðarreglur er um vátrygginguna gilda og fresti til að tilkynna um vátryggingaratburð,
     f.      ákvæði vátryggingarsamningsins sem ekki koma fram í vátryggingarskilmálunum,
     g.      hvaða frestur er til þess að tilkynna um vátryggingaratburð þegar hann hefur orðið, sbr. 1. mgr. 51. gr.

11. gr.
Upplýsingar við endurnýjun vátryggingar.

    Við endurnýjun vátryggingar skal félagið upplýsa um nýja valkosti í vátryggingum þeim sem um ræðir eða viðbótarvernd sem það getur veitt og er tilkomin eftir að vátrygging var tekin eða endurnýjuð síðast.

12. gr.
Eftirlitsskylda Fjármálaeftirlitsins. Reglugerðarheimild.

    Fjármálaeftirlitið skal fylgjast með því að upplýsingaskyldu samkvæmt þessum hluta laganna sé fullnægt.
    Viðskiptaráðherra getur sett reglugerð með nánari reglum um upplýsingaskylduna.

III. KAFLI
Vátryggingarsamningurinn o.fl.
13. gr.
Ábyrgðartíminn.

    Nú er annað ekki ákveðið í lögum eða samningi og hefst þá ábyrgð félagsins þegar það eða vátryggingartakinn hefur samþykkt tilboð hins.
    Hafi félagið sent skriflegt samþykki til vátryggingartaka hefst ábyrgð þess kl. 0.00 þann dag sem samþykkið var sent, að því tilskildu að beiðni um vátryggingu hafi komið til félagsins í síðasta lagi deginum áður.
    Hafi vátryggingartaki sent skriflega beiðni um tiltekna vátryggingu og ljóst er að félagið hefði þegar samþykkt beiðnina ber það ábyrgð við móttöku hennar.
    Ef ábyrgð félagsins á að hefjast á tilteknum degi, án þess að það sé tilgreint nánar, hefst ábyrgðin kl. 0.00 þann dag. Eigi vátrygging að gilda til ákveðins dags en ekki er tiltekið hvenær dags henni lýkur skal litið svo á að henni ljúki kl. 24.00.

14. gr.
Heimild vátryggingartaka til þess að segja upp vátryggingarsamningi.

    Nú vill vátryggingartaki segja upp vátryggingarsamningi þegar komið er að endurnýjun hans og verður hann þá að tilkynna félaginu um það innan mánaðar frá því að það sendi venjulega tilkynningu um gjalddaga hins nýja tímabils. Honum er þó ekki skylt að tilkynna félaginu um uppsögn fyrr en tvær vikur eru til loka tímabilsins.
    Vátryggingartaki getur á vátryggingartíma sagt upp vátryggingarsamningi sem endurnýjast sjálfkrafa ef hann hefur ekki lengur þörf fyrir vátrygginguna eða fyrir hendi eru aðrar sérstakar ástæður sem réttlæta uppsögn.
    Sé um hópvátryggingu að ræða er heimilt að víkja frá ákvæði 2. mgr. í vátryggingarsamningi.

15. gr.
Heimild félagsins til að slíta vátryggingarsamningi á vátryggingartímabilinu.

    Félagið getur sagt upp vátryggingarsamningi samkvæmt reglum 21. gr. og 3. mgr. 47. gr. Í öðrum tilvikum getur félagið því aðeins sagt upp vátryggingarsamningi að fyrir hendi séu sérstök atvik sem skýrlega eru tilgreind í vátryggingarskilmálum, enda megi telja uppsögnina sanngjarna.
    Uppsögnin verður að fara fram án ástæðulauss dráttar eftir að félaginu varð kunnugt um atvik sem veittu því rétt til uppsagnarinnar. Uppsögnin skal vera skrifleg og rökstudd. Sé ekki ákveðinn skemmri frestur í lögum þessum skal uppsagnarfrestur vera tveir mánuðir hið minnsta.
    Félagið skal í tilkynningu um uppsögn skýra frá möguleikum á því að leggja ágreining um hana fyrir úrskurðarnefnd til úrlausnar skv. 141. gr.
    Það sem segir um uppsögn í 2. málsl. 1. mgr. gildir einnig um fyrirvara um að vátryggingin skuli falla úr gildi ef tiltekin atvik koma upp.

16. gr.
Breyting á vátryggingarskilmálum á vátryggingartíma.

    Félagið getur ekki áskilið sér rétt til að breyta vátryggingarskilmálum á vátryggingartímabilinu.

17. gr.
Uppgjör þegar vátryggingarsamningi er slitið á vátryggingartímabili.

    Nú er vátryggingarsamningi slitið á vátryggingartímabilinu og skal vátryggingartaki þá fá endurgreitt iðgjald fyrir þann tíma sem hann hefur greitt og vátryggingin er ekki í gildi. Þetta gildir þótt félagið sé laust úr ábyrgð í heild eða að hluta. Í skilmálum vátryggingarinnar skulu vera reglur um útreikning iðgjalds fyrir slík tilvik eða vísað til slíkra reglna.

18. gr.
Endurnýjun og breyting á vátryggingarskilmálum við endurnýjun vátryggingar.

    Nú á vátrygging að gilda í tiltekinn tíma, eitt ár eða lengur, og félagið hyggst ekki framlengja hana fram yfir þann tíma og skal það þá tilkynna vátryggingartaka það í síðasta lagi tveimur mánuðum áður en vátryggingartímabilið er á enda. Að öðrum kosti framlengist vátryggingartímabilið í eitt ár.
    Félagið getur einungis neitað að endurnýja vátryggingu skv. 1. mgr. þegar fyrir liggja sérstakar ástæður sem leiða til þess að sanngjarnt er að segja henni upp. Þegar synjað er um endurnýjun gilda ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 15. gr. og 3. mgr. sömu greinar. Það sem segir í þessari málsgrein á ekki við ef ótvírætt er af vátryggingarsamningi að vátryggingin skuli falla úr gildi þegar vátryggingartímabilinu lýkur.
    Vilji félagið breyta skilmálum vátryggingarinnar við endurnýjun hennar skal það, um leið og krafið er um iðgjöld fyrir næsta vátryggingartímabil, afhenda vátryggingartaka hina nýju skilmála og gera grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa frá fyrri skilmálum. Séu settar nýjar varúðarreglur skal félagið afhenda vátryggingartaka eintak af nýju reglunum og gera grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa frá fyrri reglum. Heimilt er að vísa til varúðarreglna ef sanngjarnt er að ætlast til að vátryggingartaki þekki til efnis þeirra. Í þeim tilvikum skal upplýst að félagið muni afhenda vátryggingartaka eintak varúðarreglnanna, sem vísað er til, sé þess óskað. Félagið getur ekki borið fyrir sig skilmálabreytingu ef reglum þessarar málsgreinar er ekki fylgt.

IV. KAFLI
Almennar forsendur fyrir ábyrgð félagsins.
19. gr.
Skylda vátryggingartaka til að veita upplýsingar um áhættuna.

    Við gerð eða endurnýjun vátryggingarsamnings getur félagið óskað eftir upplýsingum um atvik sem haft geta þýðingu fyrir mat þess á áhættu. Slíkra upplýsinga skal aflað beint hjá vátryggingartaka, eða eftir atvikum vátryggðum, sem skal veita rétt og tæmandi svör við spurningum félagsins. Sama á við þegar vátryggingartaki veitir upplýsingar fyrir hönd vátryggðs. Sé upplýsinganna aflað hjá öðrum en vátryggingartaka eða vátryggðum skal áður en þeirra er aflað liggja fyrir skriflegt, upplýst samþykki þess sem aflað er upplýsinga um. Vátryggingartaki, og eftir atvikum vátryggður, skal einnig að eigin frumkvæði veita upplýsingar um sérstök atvik sem hann veit, eða má vita, að hafa verulega þýðingu fyrir mat félagsins á áhættu.
    Verði vátryggingartaka ljóst að hann hefur veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um áhættuna skal hann án ástæðulauss dráttar skýra félaginu frá því.

20. gr.
Takmörkun á ábyrgð félagsins vegna vanrækslu á upplýsingaskyldu.

    Hafi vátryggingartaki sviksamlega vanrækt upplýsingaskyldu sína skv. 19. gr. og vátryggingaratburður hefur orðið ber félagið ekki ábyrgð gagnvart honum.
    Hafi vátryggingartaki með öðrum hætti vanrækt upplýsingaskyldu sína í þeim mæli að ekki telst óverulegt má fella ábyrgð félagsins niður í heild eða að hluta.
    Við mat á ábyrgð félagsins skv. 2. mgr. skal litið til þess hvaða þýðingu vanræksla vátryggingartaka hefur haft fyrir mat þess á áhættu, til þess hve sök hans var mikil, með hvaða hætti vátryggingaratburður hefur orðið og til atvika að öðru leyti.

21. gr.

    Réttur félagsins til að segja upp vátryggingunni
þegar rangar upplýsingar hafa verið veittar.

    Nú verður félaginu ljóst að þær upplýsingar sem það hefur fengið um áhættuna eru rangar eða ófullnægjandi svo verulegu nemi og getur það þá sagt vátryggingunni upp með 14 daga fyrirvara. Regla 2. mgr. 15. gr. gildir um uppsögnina. Hafi vátryggingartaki viðhaft sviksamlega háttsemi getur félagið slitið vátryggingunni, svo og öðrum vátryggingarsamningum sem það hefur gert við vátryggingartaka, án fyrirvara.

22. gr.
Takmarkanir á heimildum félagsins til þess
að bera fyrir sig ófullnægjandi upplýsingar.

    Félagið getur ekki borið fyrir sig að það hafi fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar ef það vissi, eða mátti vita, að svo var þegar það fékk þær. Sama gildir ef atvik þau er upplýsingarnar varða skiptu ekki máli fyrir félagið eða gera það ekki lengur. Ef háttsemi vátryggingartaka er sviksamleg á framangreind takmörkun 1. málsl. því aðeins við að félagið hafi vitað að upplýsingarnar sem það fékk voru rangar eða ófullnægjandi.

23. gr.
Takmörkun á ábyrgð vegna atvika sem eru óljós og ekki er hægt að upplýsa.

    Ef félagið á af sérstökum ástæðum ekki kost á því að afla upplýsinga um tiltekin atvik getur það gert fyrirvara um að bera ekki ábyrgð á þeim atvikum eða takmarkað ábyrgð sína á þeim. Sé unnt að afla upplýsinganna að ákveðnum tíma liðnum gildir ábyrgðartakmörkunin aðeins þann tíma.

24. gr.
Takmörkun á ábyrgð vegna breytinga á vátryggðri áhættu.

    Félagið getur gert fyrirvara um að það sé laust úr ábyrgð í heild eða að hluta ef tiltekin atvik, sem hafa verulega þýðingu fyrir hina vátryggðu áhættu, breytast. Slíkan fyrirvara má þó ekki gera ef vátryggður hvorki vissi né mátti vita að atvik breyttust eða ef það að vátryggingaratburður verður er vegna annarra ástæðna en hinna breyttu atvika.

25. gr.
Fyrirvari um lækkun bóta vegna breytinga á vátryggðri áhættu.

    Félagið getur gert fyrirvara um að ábyrgð þess á vátryggingaratburði skuli lækka að tiltölu ef ákvörðun iðgjalds er skýrlega háð því hvernig hinn vátryggði hlutur er notaður og að fylgt sé ákveðnum varúðarreglum.
    Fyrirvara, sem greinir í 1. mgr., verður ekki beitt ef breytingar á vátryggðri áhættu eru ekki orsök vátryggingaratburðar. Honum verður heldur ekki beitt ef þær eru hvorki af völdum vátryggðs né með samþykki hans og hann hefur gert þær ráðstafanir sem sanngjarnar má telja til að upplýsa félagið um þær án ástæðulauss dráttar frá því að hann vissi um þær.

26. gr.
Brot á varúðarreglum.

    Félagið getur gert fyrirvara um að það skuli laust úr ábyrgð í heild eða að hluta ef varúðarreglum er ekki fylgt. Slíkan fyrirvara getur félagið þó ekki borið fyrir sig ef ekki er við vátryggðan að sakast eða sök hans er óveruleg eða það að vátryggingaratburður hefur orðið verður ekki rakið til brota hans. Þótt félagið geti samkvæmt þessari grein borið fyrir sig að varúðarreglum hafi ekki verið fylgt má samt leggja á það ábyrgð að hluta með hliðsjón af því hvers konar varúðarreglu var ekki sinnt, sök vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að og atvikum að öðru leyti.

27. gr.
Vátryggður veldur vátryggingaratburði.

    Ef vátryggður hefur af ásetningi valdið því að vátryggingaratburður varð ber félagið ekki ábyrgð.
    Hafi vátryggður í öðrum vátryggingum en ábyrgðartryggingum, með háttsemi sem telja verður stórkostlegt gáleysi, valdið vátryggingaratburði losnar félagið úr ábyrgð í heild eða að hluta. Við mat á ábyrgð félagsins skal líta til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að, hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna sem hann hafði sjálfviljugur neytt og atvika að öðru leyti.
    Félagið getur ekki borið fyrir sig að vátryggður hafi valdið vátryggingaratburði ef háttsemi hans telst ekki ásetningur eða stórkostlegt gáleysi.
    Félagið getur ekki borið fyrir sig reglurnar í þessari grein ef vátryggður, eða sá sem skv. 29. gr. er samsamaður honum, gat vegna aldurs eða andlegs ástands ekki gert sér grein fyrir afleiðingum háttsemi sinnar.

28. gr.
Skylda vátryggðs til að hindra vátryggingaratburð og tilkynna um hann.

    Sé yfirvofandi hætta á að vátryggingaratburður verði, eða ef hann er orðinn, skal vátryggður gera það sem með sanngirni er unnt að ætlast til af honum til að hindra eða takmarka tjón.
    Megi vátryggðum vera ljóst að félagið gæti öðlast endurkröfu á hendur þriðja manni skal hann gera það sem nauðsyn krefur og með sanngirni má ætlast til af honum til að tryggja kröfuna þar til félagið getur sjálft gætt hagsmuna sinna.
    Hafi vátryggingaratburður orðið skal vátryggður skýra félaginu frá því án ástæðulauss dráttar.
    Hafi orðið tjón vegna þess að vátryggður hefur af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi vanrækt skyldur sínar skv. 1.–3. mgr. má fella ábyrgð félagsins niður í heild eða að hluta. Við mat á því skal líta til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að og atvika að öðru leyti.

29. gr.
Háttsemi ættingja vátryggðs, aðstoðarmanna hans og
annarra sem tengjast honum með svipuðum hætti.

    Í vátryggingum, sem tengjast ekki atvinnustarfsemi, er óheimilt að semja með þeim hætti að vátryggður glati rétti sínum til bóta vegna háttsemi ættingja hans, aðstoðarmanna og annarra sem hafa við hann sambærileg tengsl.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má semja svo um að:
     a.      við vátryggingu ökutækja, skipa, loftfara eða annarra farartækja og húsdýra megi félagið bera fyrir sig háttsemi manns sem með samþykki vátryggðs er ábyrgur fyrir hinu vátryggða,
     b.      við vátryggingu íbúðarhúsnæðis, orlofshúsnæðis og innbús megi félagið bera fyrir sig háttsemi maka hins vátryggða sem býr með honum og manns sem hinn vátryggði býr með í föstu varanlegu sambandi.
    Í vátryggingum sem tengjast atvinnustarfsemi má, með þeim takmörkunum sem leiðir af 1. mgr. 41. gr., semja um að vátryggður geti glatað rétti sínum til bóta í heild eða að hluta vegna háttsemi nánar tilgreindra manna eða hópa.

30. gr.

Ráðstafanir sem gerðar eru til að forðast tjón á mönnum eða munum.

    Félagið getur ekki borið fyrir sig ákvæði 26.–29. gr. ef sú háttsemi sem um ræðir fól í sér viðleitni til þess að koma í veg fyrir tjón á mönnum eða munum og telja má hana hafa verið réttlætanlega miðað við aðstæður.

31. gr.

Tilkynningarskylda félagsins ef það hyggst bera fyrir sig
rétt til takmörkunar á ábyrgð.

    Nú hyggst félagið bera fyrir sig að það sé laust úr ábyrgð í heild eða að hluta samkvæmt reglum þessa kafla, eða það hafi rétt til þess að segja upp vátryggingunni, og skal það þá tilkynna vátryggingartaka eða vátryggðum þá afstöðu sína. Tilkynningin skal send án ástæðulauss dráttar eftir að félaginu varð kunnugt um atvik sem leyst gátu það undan ábyrgð. Í þessu sambandi skal félagið einnig upplýsa um möguleika til þess að bera álitaefni undir úrskurðarnefnd skv. 141. gr.
    Vanræki félagið upplýsingaskyldu sína skv. 1. mgr. glatar það rétti til að bera ábyrgðartakmörkun fyrir sig.

V. KAFLI
Iðgjaldið.
32. gr.
Gjalddagi, fyrsta tilkynning.

    Þegar greiðsla iðgjalds er ekki skilyrði þess að ábyrgð félagsins samkvæmt vátryggingarsamningi hefjist fellur það í gjalddaga þegar greiðslu þess er krafist samkvæmt samningnum. Greiðslufrestur skal vera einn mánuður hið skemmsta frá þeim degi sem félagið sendi tilkynningu um greiðslu til vátryggingartakans. Hafi ábyrgð félagsins hafist helst hún áfram þótt greiðsla sé ekki innt af hendi innan hins tilgreinda frests.
    Hafi vátrygging verið tekin með einhliða yfirlýsingu vátryggingartaka má greiðslufrestur þó vera sjö dagar hið skemmsta frá þeim degi er greiðslu var krafist. Hafi iðgjaldið ekki verið greitt við það tímamark er vátryggingafélaginu heimilt, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., að fella vátrygginguna niður, enda hafi það upplýst vátryggingartaka, er greiðslu var krafist, að það mundi nýta sér rétt sinn til niðurfellingar.

33. gr.
Greiðsludráttur á iðgjaldi, síðari tilkynningar.

    Sé iðgjald ekki greitt þegar greiðslufresti lýkur skv. 1. mgr. 32. gr. og félagið ber ábyrgð getur það losnað undan henni með því að senda nýja tilkynningu þar sem greiðslu er krafist innan 14 daga. Tilkynningin skal skýrlega bera með sér að vátryggingin falli niður ef iðgjaldið er ekki greitt innan hins tilskilda frests.
    Nú er sýnt fram á að vátryggingartaki hafi ekki getað greitt fyrir lok frests skv. 1. mgr. vegna ófyrirséðra hindrana sem honum verður ekki um kennt og helst þá ábyrgð félagsins í þrjá mánuði til viðbótar eftir lok frestsins.
    Ef iðgjaldið er greitt eftir lok greiðslufrestsins í 1. mgr. ber að líta á greiðsluna sem ósk um nýja vátryggingu. Regla 3. mgr. 13. gr. gildir þá með sama hætti, en ábyrgð félagsins hefst þó fyrst daginn eftir að iðgjaldið er greitt.

34. gr.
Hvenær telja ber greiðslu innta af hendi.

    Þótt félagið hafi ekki móttekið greiðslu skal líta svo á að hún hafi verið innt af hendi þegar:
     a.      peningar, tékki eða önnur sambærileg ávísun er send til félagsins í pósti eða með skeyti,
     b.      fjárhæðin er greidd til pósthúss, banka eða sparisjóðs eða
     c.      fyrirmæli um greiðslu eru send til banka eða sparisjóðs eða send með öðrum óafturkallanlegum hætti.

VI. KAFLI
Almennar reglur um ábyrgð félagsins.
35. gr.
Útreikningur bóta. Vátryggingarverðmæti.

    Sé ekki um annað samið í vátryggingarsamningi á vátryggður rétt á fullum bótum fyrir fjártjón sitt.
    Ef ákveða á bætur í samræmi við viðgerðarkostnað eða endurkaupsverð getur vátryggður krafist bóta fyrir slíkan kostnað þótt viðgerð eða endurkaup hafi ekki átt sér stað. Þetta gildir þó ekki ef annað leiðir af vátryggingarskilmálum eða lögum.
    Vátryggður getur krafist greiðslu bóta í peningum þegar annað leiðir ekki af vátryggingarskilmálum eða lögum.

36. gr.
Bundið vátryggingarverð.

    Samningi um að tiltekið tjón skuli bætt með ákveðnu verði má víkja til hliðar samkvæmt kröfu félagsins ef vátryggingartaki hefur gefið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem höfðu þýðingu fyrir verðákvörðunina. Ákvæði 19.–23. gr. og 31. gr. gilda eftir því sem við getur átt.

37. gr.
Tvítrygging.

    Ef sama tjón fellur undir fleiri en eina vátryggingu getur vátryggður valið hvaða vátryggingu hann vill nota þar til hann hefur fengið þær bætur sem hann á kröfu til.
    Ef fleiri en eitt vátryggingafélag bera ábyrgð á tjóni skv. 1. mgr. skulu þau, sé ekki um annað samið, greiða vátryggingu hlutfallslega eftir ábyrgð hvers þeirra um sig á tjóninu.

38. gr.
Ábyrgð félagsins á björgunarkostnaði.

    Félagið ber ábyrgð á tjóni og kostnaði sem vátryggður verður fyrir við þær aðstæður er greinir í 28. gr. þegar markmið með ráðstöfunum var að forðast tjón sem fellur undir vátrygginguna eða takmarka það og ráðstafanirnar teljast sérstakar og réttlætanlegar. Hið sama á við um tjón og kostnað er maður, sem skv. 29. gr. var skylt að gera björgunarráðstafanir, verður fyrir.
     Sé vátryggður skyldur til að bæta tjón sem valdið er þriðja manni vegna ráðstafana er greinir í 1. mgr. gilda ákvæði 44. gr. um það tjón.

VII. KAFLI
Réttur þriðja manns samkvæmt vátryggingarsamningi.
39. gr.
Hverjum vátrygging er til hagsbóta.

    Í vátryggingum sem ekki eru teknar vegna atvinnustarfsemi er vátryggingin til hagsbóta fyrir vátryggingartakann, maka hans og aðra sem teljast til heimilisfólks hans.
    Vátrygging á fasteign er til hagsbóta fyrir vátryggingartakann og fyrir rétthafa að þinglýstum eignarrétti, veðrétti eða öðrum þinglýstum tryggingarréttindum í eigninni.
    Um vátryggingu lausafjár, sem hægt er að skrá sérstaklega í lausafjárbók, skipabók og bifreiðabók, sbr. 2.–4. tölul. 1. mgr. 8. gr. þinglýsingalaga, nr. 39/1978, rekstrartækja, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997, og vörubirgða, sbr. 2. mgr. 33. gr. sömu laga, gilda ákvæði 2. mgr. einnig ef réttindum er þinglýst eða þau skráð í viðkomandi skrá.
    Heimilt er að víkja frá ákvæði 1.–3. mgr. með samningi.

40. gr.
Eigendaskipti.

    Ef eigendaskipti verða að vátryggðum hlut og ekki er um annað samið gildir vátrygging einnig til hagsbóta fyrir hinn nýja eiganda. Um vátryggingar þær sem greinir í 2. og 3. mgr. 39. gr. gildir þetta einnig þótt réttindum hins nýja eiganda sé ekki þinglýst eða þau skráð. Ef samið er um að vátrygging skuli falla brott við eigendaskipti að vátryggðum hlut er félagið samt ábyrgt ef vátryggingaratburður verður innan 14 daga frá eigendaskiptum.
    Regla 1. mgr. gildir ekki ef hinn nýi eigandi hefur sjálfur tekið vátryggingu og heldur ekki við búfjártryggingar.

41. gr.
Vernd meðvátryggðs gegn mótbárum félagsins.

    Sá sem á vátryggða hagsmuni skv. 39. og 40. gr. þarf ekki að sæta því að félagið beri fyrir sig háttsemi vátryggingartaka eða annars vátryggðs sem greinir í reglum IV. kafla eða 47. gr.
    Félagið getur þó borið fyrir sig atvik sem greinir í 2. mgr. 29. gr. gagnvart maka og öðru heimilisfólki vátryggðs, sbr. 1. mgr. 39. gr.
    Gagnvart rétthafa í lausafé, sem nýtur vátryggingarverndar skv. 3. mgr. 39. gr., sbr. 40. gr., er þó heimilt að víkja frá reglum þessarar greinar með samningum.

42. gr.
Staða meðvátryggðs að öðru leyti.

    Sé vátryggingarsamningi breytt, honum sagt upp eða slitið, hefur það ekki réttaráhrif gagnvart meðvátryggðum skv. 2. og 3. mgr. 39. gr. ef félagið hefur ekki tilkynnt það sérstaklega til hans með mánaðar fyrirvara.
    Sé rétti veðhafa raskað getur félagið ekki með bindandi hætti fyrir meðvátryggðan skv. 2. og 3. mgr. 39. gr. samið við vátryggingartaka um uppgjör vátryggingarbóta né greitt bætur til vátryggingartaka. Meðvátryggðir geta ekki andmælt því að öll vátryggingarfjárhæðin sé greidd til vátryggingartaka þegar endurbætur hafa farið fram eða sett er fullnægjandi trygging fyrir því að vátryggingarbætur verði notaðar til endurbóta. Meðvátryggðir geta heldur ekki andmælt því að bætur séu lagðar inn á reikning í banka sem vátryggingartaki og meðvátryggður geta einungis farið með sameiginlega.
    Ákvæði 2. mgr. gildir gagnvart meðvátryggðum skv. 1. mgr. 39. gr. og 40. gr. ef hann hefur tilkynnt félaginu um rétt sinn.

43. gr.
Samið um stöðu meðvátryggðs.

    Ef vátrygging er einnig til hagsbóta fyrir annan en vátryggingartakann gilda ákvæði 1. mgr. 41. gr. og 42. gr. eftir því sem við á, sé ekki um annað samið.

44. gr.
Staða tjónþola við ábyrgðartryggingu.

    Ef vátrygging tekur til tjóns vátryggðs vegna skaðabótaábyrgðar sem hann ber getur tjónþoli krafist bóta beint frá félaginu. Félaginu og vátryggðum er skylt að upplýsa tjónþola um ábyrgðartryggingu sé hún fyrir hendi.
    Ef fram kemur krafa um bætur á hendur félaginu skal tilkynna það vátryggðum án ástæðulauss dráttar og veita honum upplýsingar um meðferð kröfunnar. Viðurkenning félagsins á atriðum sem lúta að ábyrgð er ekki bindandi fyrir vátryggðan.
    Nú tilkynnir tjónþoli félaginu að hann hyggist höfða mál á hendur því og getur það þá krafist þess að hann beini málshöfðuninni einnig gegn vátryggðum. Skal félagið tilkynna tjónþola um þá kröfu sína án ástæðulausrar tafar og á sannanlegan hátt. Máli sem tjónþoli höfðar á hendur félaginu eftir viðtöku slíkrar tilkynningar skal vísað frá dómi ef félagið krefst þess. Sé höfðað mál á hendur félaginu án undanfarandi tilkynningar um það getur félagið gert kröfu þessa efnis, enda komi hún fram ekki síðar en í greinargerð. Höfði tjónþoli af þessu tilefni ekki sakaraukningu innan mánaðar frá því að krafa félagsins kom fram skal málinu vísað frá dómi að kröfu þess.
    Félagið getur haft uppi sömu mótbárur gegn kröfu tjónþola og hinn vátryggði. Félagið getur einnig haft uppi aðrar mótbárur gegn tjónþola, svo fremi þær eigi ekki rót sína að rekja til háttsemi vátryggðs eftir að vátryggingaratburður varð.
    Mál á hendur félaginu skal höfða á Íslandi ef annað leiðir ekki af þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands.
    Ákvæði þessarar greinar standa því ekki í vegi að sá sem stundar atvinnustarfsemi falli frá rétti sínum til þess að krefjast skaðabóta beint frá félaginu. Slíkur samningur hefur þó ekki réttaráhrif við gjaldþrot vátryggðs.

45. gr.
Staða tjónþola við lögboðna ábyrgðartryggingu.

    Ef vátryggingartaki hefur tekið ábyrgðartryggingu til þess að fullnægja lagaskyldu gilda ákvæði 44. gr. að því leyti sem um stöðu tjónþola gilda ekki sérstakar reglur.
    Félagið getur þó ekki haft uppi mótbárur, sem það gat haft uppi gagnvart tjónþola eða vátryggðum, ef það vissi eða mátti vita að um væri að ræða lögboðna ábyrgðartryggingu.
    Sé lögboðinni ábyrgðartryggingu sagt upp, eða ef hún fellur niður af öðrum ástæðum, hefur það áhrif gagnvart tjónþola að liðnum mánuði frá því að viðkomandi stjórnvald fékk tilkynningu félagsins um brottfall hennar, enda gildi ekki um það sérstakar reglur.

46. gr.
Staða tjónþola við ábyrgðartryggingar teknar
í tengslum við viðamikla atvinnustarfsemi.

    Ef vátrygging, sem fellur undir 2. mgr. 3. gr. laga þessara, tekur til skaðabótaábyrgðar vátryggðs er félagið ábyrgt gagnvart tjónþola með sama hætti og greinir í 44. gr. Krafa vátryggðs á hendur félaginu getur ekki orðið grundvöllur fullnustu á öðrum kröfum en skaðabótakröfunni.
    Nú hefur bú vátryggðs verið tekið til gjaldþrotaskipta og gilda þá ákvæði 44. og 45. gr., sbr. og 2. og 3. mgr. 49. gr.
    Óheimilt er að víkja frá ákvæðum þessarar greinar ef það leiðir til lakari stöðu tjónþola.

VIII. KAFLI
Uppgjör vátryggingarbóta, fyrning o.fl.
47. gr.
Upplýsingaskylda vátryggðs við uppgjör bóta.

    Við uppgjör bóta skal vátryggður veita félaginu þær upplýsingar og þau gögn sem hann hefur undir höndum og félagið þarf til þess að meta ábyrgð sína og greiða bætur.
    Ef vátryggður veitir af ásetningi rangar eða ófullnægjandi upplýsingar sem hann veit eða má vita að leiða til þess að hann fær greiddar bætur sem hann á ekki rétt til fellur niður allur réttur hans samkvæmt þessum og öðrum vátryggingarsamningum vegna hins tiltekna vátryggingaratburðar. Sé háttsemi vátryggðs ekki alvarleg, hún varði aðeins lítinn hluta kröfunnar eða sérstakar ástæður mæla með getur hann þó fengið bætur að hluta. Ákvæði 31. gr. gildir eftir því sem við getur átt.
    Í þeim tilvikum sem greinir í 2. mgr. getur félagið sagt upp öllum vátryggingarsamningum sínum við vátryggðan með einnar viku fyrirvara. Ákvæði 1. og 2. málsl. 2. mgr. 15. gr. gilda eftir því sem við getur átt.

48. gr.
Greiðsla bóta.

    Krefja má um greiðslu bóta 14 dögum eftir að félagið átti þess kost að afla þeirra upplýsinga sem þörf var á til þess að meta vátryggingaratburðinn og ákveða fjárhæð bótanna. Ef augljóst verður áður en endanlegt uppgjör bóta getur farið fram að félagið skuli að minnsta kosti greiða hluta þeirra skal það inna af hendi hlutagreiðslu sem því nemur.

49. gr.
Heimild félagsins til að skuldajafna.

    Þegar vátryggingartaki öðlast rétt til bóta hefur félagið aðeins rétt til að skuldajafna vangoldnu iðgjaldi vegna þeirrar vátryggingar sem um ræðir eða annarra sem hann hefur hjá félaginu gegn bótum sem því ber að greiða.
    Þegar bætur eiga að greiðast meðvátryggðum þriðja manni eða tjónþola við ábyrgðartryggingu getur félagið aðeins skuldajafnað iðgjaldi vegna sama vátryggingarsamnings. Skuldajöfnuður getur aðeins átt sér stað vegna þeirra fjárhæða sem ekki er unnt að fá greiddar skv. 1. mgr. Sé um fleiri meðvátryggða eða tjónþola að ræða sem eiga rétt á bótum skal skipta skuldajöfnuðinum hlutfallslega á þær fjárhæðir sem þeir fá greiddar.
    Við lögboðna ábyrgðartryggingu gildir regla 2. mgr. 45. gr. með sama hætti um skuldajafnaðarrétt félagsins gagnvart tjónþola.

50. gr.
Vextir.

    Vátryggður á rétt á almennum vöxtum af kröfu sinni þegar liðnir eru tveir mánuðir frá því að tilkynning um vátryggingaratburð var send félaginu.
    Eigi félagið að bæta útlagðan kostnað vátryggðs stofnast skylda til greiðslu almennra vaxta fyrst tveimur mánuðum eftir að hann hefur innt greiðslu af hendi. Sem útgjöld skv. 1. málsl. teljast einnig bætur vegna endurbyggingar við brunatryggingar. Fyrir þann hluta bótanna sem greiða á óháð endurbyggingu gildir regla 1. mgr.
    Eigi félagið að bæta tjón vegna rekstrarstöðvunar eða afnotamissis stofnast skylda til greiðslu vaxta mánuði eftir lok þess tímabils sem félaginu ber að bæta.
    Vanræki vátryggður að veita félaginu upplýsingar eða afhenda gögn sem tilgreind eru í 1. mgr. 47. gr. getur hann ekki krafist vaxta fyrir þann tíma sem líður af þessum ástæðum. Hið sama á við ef vátryggður hafnar uppgjöri í heild eða að hluta með óréttmætum hætti. Skyldan til að greiða vextina fellur einnig niður þegar félagið leggur bæturnar á bankareikning í samræmi við lokaákvæði 2. mgr. 42. gr.
    Nú er krafa um bætur miðuð við verðlag síðar en vátryggingaratburður átti sér stað og skal þá krafan bera vexti samkvæmt framansögðu sem miðast við það tímamark.
    Almennir vextir samkvæmt þessari grein skulu vera hinir sömu og greiða ber á skaðabætur samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Um dráttarvexti gilda reglur III. kafla þeirra laga.
    Vexti skal greiða þótt greiðsla félagsins í heild verði með því hærri en vátryggingarfjárhæðin. Í vátryggingarskilmálum skal vakin athygli á rétti til vaxta samkvæmt þessari grein.

51. gr.
Frestur til að tilkynna um vátryggingaratburð og til lögfræðilegra aðgerða.

    Vátryggður glatar rétti til bóta ef hann tilkynnir félaginu ekki um kröfu sína innan árs frá því að hann vissi um atvik sem hún er reist á.
    Ef félagið hafnar kröfu vátryggðs í heild eða að hluta glatar hann rétti til bótanna ef hann hefur ekki höfðað mál eða krafist meðferðar málsins fyrir úrskurðarnefnd skv. 141. gr. innan árs frá því að hann fékk skriflega tilkynningu um að kröfu hans væri hafnað. Í slíkri tilkynningu er skylt að geta framangreinds frests, með hvaða hætti unnt er að rjúfa hann og afleiðinga þess að ekki er aðhafst fyrir lok hans.

52. gr.
Fyrning.

    Krafa um bætur fyrnist á fjórum árum. Fresturinn hefst við lok þess almanaksárs er vátryggður fékk nauðsynlegar upplýsingar um þau atvik sem eru grundvöllur kröfu hans. Krafan fyrnist þó í síðasta lagi á tíu árum frá lokum þess almanaksárs er vátryggingaratburður varð. Hafi félagið sent vátryggðum tilkynningu sem greinir í 2. mgr. 51. gr. fyrnist krafan fyrst þegar sá frestur líður sem þar er tilgreindur.
    Í ábyrgðartryggingum fyrnist ábyrgð félagsins samkvæmt sömu reglum og gilda um fyrningu skaðabótaábyrgðar.
    Að öðru leyti gilda ákvæði laga nr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Fresturinn skv. 3. málsl. 1. mgr. framlengist þó ekki í samræmi við 15. gr. síðastgreindra laga.

IX. KAFLI
Sérstakar reglur um hópvátryggingar.
53. gr.
Tengsl við önnur ákvæði laganna.

    Ef ekki leiðir annað af ákvæðum þessa kafla gilda aðrar reglur þessa hluta laganna einnig um hópvátryggingar að því leyti sem við getur átt.

54. gr.
Efni hópvátryggingarsamnings.

    Samningur um hópvátryggingu skal hafa að geyma skilmála vátryggingarinnar eða reglur um hvernig ákvarða skuli þá.
    Auk þess skal í samningi um hópvátryggingu kveðið á um:
     a.      hverjir séu og geti orðið hluti af hópi þeim sem vátryggingin tekur til,
     b.      hvort heimilt sé að gera fyrirvara um þátttöku,
     c.      hvernig þátttakendur verði áfram hluti af hópnum, geri fyrirvara við að verða hluti af honum og hætti í honum,
     d.      hvort haldin skuli skrá yfir þátttakendurna og, ef svo er, hvort skráin skuli haldin af vátryggingartaka eða félaginu,
     e.      hvort iðgjaldið skuli greiðast félaginu af vátryggingartakanum eða af hverjum einstökum þátttakanda í hópnum,
     f.      skyldur vátryggingartaka við tilkynningar til eða frá þátttakendum í hópnum og
     g.      hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi til þess að ábyrgð félagsins hefjist eða hægt sé að halda henni við.

55. gr.
Upplýsingar um vátrygginguna.

    Félagið og vátryggingartaki skulu tryggja með fullnægjandi hætti að þeir sem eru, eða geta orðið, þátttakendur í hópnum fái upplýsingar um atriði sem nefnd eru í 54. gr. og um viðbótarvátryggingar sem gæti verið heppilegt fyrir þá að afla sér. Upplýsingar þessar skal gefa þegar hópvátryggingu hefur verið komið á og síðar er efni standa til. Ef skilmálarnir koma ekki fram í vátryggingarsamningnum skal einnig upplýsa viðkomandi um þá. Takmarkanir á notkun, varúðarreglur og fresti til að tilkynna um vátryggingaratburð, sbr. 10. gr., skal tilgreina sérstaklega.

56. gr.
Vátryggingarskírteini.

    Sé haldin skrá yfir þátttakendur í hópi sem hópvátrygging tekur til skal sá sem heldur skrána án ástæðulauss dráttar sjá til þess að hver sá sem telst þátttakandi fái vátryggingarskírteini eða staðfest afrit þess og þá skilmála sem um vátrygginguna gilda.
    Nú hefur maður fengið vátryggingarskírteini eða afrit þess skv. 1. mgr. og er þá hvorki unnt að bera fyrir sig að hann fullnægi ekki skilyrðum til þess að vera þátttakandi í hópnum sem vátryggingin tekur til né að hann eigi ekki rétt á þeim greiðslum sem fram koma í vátryggingarskírteininu. Þetta gildir þó ekki ef það leiðir skýrlega af skírteininu að hann uppfylli ekki skilyrðin eða eigi ekki þær kröfur um greiðslu sem hann gerir. Þetta á heldur ekki við ef félagið losnar úr ábyrgð í heild eða að hluta samkvæmt reglum 20. gr., eða hefur sent aðvörun um slit eða breytingu á skilmálum vátryggingarinnar skv. 58. eða 59. gr.

57. gr.
Upphaf ábyrgðar félagsins.

    Sé ekki um annað samið eða það leiði af atvikum hefst ábyrgð félagsins þegar samningurinn er gerður.
    Fyrir þátttakanda í hópnum sem síðar kemur til telst upphaf ábyrgðar félagsins þegar send er tilkynning um aðild hans samkvæmt samningnum eða greitt iðgjald fyrir hann eða, sé tilkynningar ekki krafist, þegar hann hefur uppfyllt skilyrði til þess að vera þátttakandi.
    Ákvæði 4. mgr. 13. gr. gildir um upphaf ábyrgðar samkvæmt þessari grein.

58. gr.
Lok vátryggingarinnar.

    Þegar þátttakandi í hópi sem nýtur hópvátryggingar, og skrá er haldin um, hættir í hópnum fellur vátrygging niður að því er hann varðar í fyrsta lagi 14 dögum eftir að félagið eða vátryggingartaki sendir honum skriflega tilkynningu. Í hópvátryggingu þar sem ekki er haldin skrá yfir þátttakendur í hópnum eða þegar skrifleg tilkynning er ekki send fellur vátrygging fyrst niður tveimur mánuðum eftir að þátttakandinn hætti í hópnum. Ákvæði 1. og 2. málsl. gilda ekki ef þátttakandinn hefur tekið aðra vátryggingu eða gengið inn í aðra sambærilega hópvátryggingu.
    Ef vátryggingartaki eða félagið segir upp eða endurnýjar ekki vátryggingu, eða ef ábyrgð félagsins fellur niður vegna vangreiðslu vátryggingartaka á iðgjaldi, skal senda skriflega tilkynningu til þeirra þátttakenda sem eru á skrá, sé hún færð, en ella með öðrum fullnægjandi hætti. Fyrir hvern einstakan þátttakanda fellur vátryggingin fyrst niður mánuði eftir að tilkynning er send samkvæmt framansögðu eða hann fékk með öðrum hætti vitneskju um atvik. Ákvæði 3. málsl. 1. mgr. gildir samkvæmt þessari málsgrein eftir því sem við getur átt.
    Ákvæði þessarar greinar gilda ekki um vátryggingu sem samkvæmt efni sínu er einungis tímabundin.

59. gr.
Breyting á skilmálum.

    Ef skilmálum hópvátryggingar er breytt þannig að það rýri stöðu þátttakendanna gilda ákvæði 2. mgr. 58. gr., eftir því sem við getur átt.

60. gr.

Tilkynningar til eða frá einstökum þátttakendum í hópi sem nýtur hópvátryggingar.

    Nú er tilkynning vegna vátryggingar send vátryggingartaka og er þá ekki hægt að bera það fyrir sig að hún hafi ekki komið til félagsins. Þetta á þó ekki við ef þátttakandinn hafði ástæðu til að ætla að tilkynningin hefði ekki komið til félagsins og hann átti þess kost að tilkynna því um það.
    Hafi vátryggingartaka verið skylt samkvæmt lögum þessum eða samningi að senda tilkynningu til þátttakenda í hópi sem nýtur hópvátryggingar, en gerir það ekki, hefur athafnaleysi hans sömu réttaráhrif gagnvart þeim og ef félagið hefði sýnt það af sér. Þetta gildir þó ekki ef þátttakandinn þekkti af öðrum ástæðum til efnis tilkynningarinnar og sanngjarnt má telja að hann hafi átt þess kost að fara eftir því.

II. HLUTI
Persónutryggingar.
X. KAFLI
Inngangur.
61. gr.
Gildissvið II. hluta laganna.

    Þessi hluti laganna gildir um samninga um persónutryggingar.
    Með persónutryggingu er í lögum þessum átt við líftryggingu, slysatryggingu og sjúkratryggingu. Vátryggingu má taka vegna lífs eða heilsu vátryggingartakans eða annarra.
    Þegar rætt er um líftryggingu í þessum hluta laganna er einnig átt við heilsutryggingu án uppsagnarréttar nema annað sé tekið fram.
    Ákvæði þessa hluta laganna gilda ekki um endurtryggingar og ekki heldur um tryggingar lífeyrissjóða, samkvæmt lögum sem um þá gilda, né tryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar.

62. gr.
Skilgreiningar.

    Í þessum hluta laganna hafa eftirtalin hugtök eftirfarandi merkingu:
     a.      félagið, sá sem með samningi skuldbindur sig til þess að veita vátryggingu,
     b.      vátryggingartaki, sá sem gerir einstaklingsbundinn samning eða hópvátryggingarsamning við félagið; sá telst einnig vátryggingartaki sem öðlast eignarrétt að vátryggingunni,
     c.      vátryggður, sá maður hvers lífs eða heilsu vátryggingin tekur til,
     d.      höfuðstólstrygging, vátrygging þar sem félagið skal greiða tiltekna fjárhæð sem þó getur verið skipt niður á fleiri en einn gjalddaga,
     e.      lífeyristrygging, vátrygging þar sem félagið á að greiða fjárhæð fyrir tiltekið tímabil svo lengi sem tilgreindur maður lifir eða þar til hann nær ákveðnum aldri,
     f.      hópvátrygging, vátrygging sem tekur til manna í nánar tilteknum hópi og eftir atvikum einnig maka þeirra, barna o.fl.,
     g.      vátryggingaratburður, atvik sem samkvæmt vátryggingarsamningi veldur því að til greiðslu bóta getur komið,
     h.      vátryggingarskírteini, staðfesting félagsins á því að vátryggingarsamningur hafi verið gerður þar sem fram koma m.a. upplýsingar um hvaða vátryggingu sé um að ræða, vátryggingartaka og vátryggðan, svo og þær upplýsingar sem greinir í 70. gr.,
     i.      rétthafi, sá sem vátryggingartaki tilgreinir í vátryggingarsamningi og á rétt til þess að fá vátryggingarfjárhæðina greidda eftir að vátryggingaratburður hefur orðið.

63. gr.
Ófrávíkjanlegar reglur.

    Óheimilt er, nema annað sé tekið fram, að víkja frá ákvæðum þessa hluta laganna með samningi ef það leiðir til lakari stöðu þess sem öðlast kröfu á hendur félaginu samkvæmt vátryggingarsamningi.

XI. KAFLI
Upplýsingaskylda félagsins.
64. gr.
Upplýsingar við töku vátryggingar.

    Við töku vátryggingar, sem fellur undir þennan hluta laganna, skal félagið, eða sá sem kemur fram fyrir þess hönd, sjá til þess að vátryggingartaki fái nauðsynlega ráðgjöf um hvernig þörfum hans um vátryggingarvernd er mætt með vátryggingunni.
    Félagið skal veita vátryggingartaka upplýsingar um mikilvæg atriði þeirra tegunda vátrygginga sem fullnægt geta þörf hans fyrir vátryggingarvernd. Félagið skal meðal annars veita upplýsingar um gildistíma vátryggingarsamnings, skilmála, iðgjöld, ágóðahlutdeild þegar við á og takmarkanir á gildissviði vátryggingarinnar miðað við það sem vátryggingartaki má með réttu ætla að hún taki til.
    Ef aðilarnir geta ekki valið lög hvers lands eigi að gilda um vátryggingarsamninginn skal félagið upplýsa þá um lögin.
    Þá skal félagið upplýsa um hvaða aðilar hafi með höndum þjónustu vegna kvörtunar- eða ágreiningsmála er tengjast vátryggingarsamningum, svo og um rétt hlutaðeigandi til að skjóta málum til dómstóla.

65. gr.
Sérstök upplýsingaskylda.

    Áður en vátryggingarsamningur er gerður í greinaflokkum líftrygginga og öðrum sem leyfi er veitt fyrir skv. 23. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, og á samningstímanum skal, þegar skuldbinding kemst á hér á landi, sbr. 8. gr. síðastgreindra laga, vátryggingartaki upplýstur á íslensku um eftirfarandi atriði:
     a.      allar tegundir bóta sem í samningnum felast og um rétt til breytinga á þeim á samningstímanum,
     b.      gildistíma líftryggingarinnar,
     c.      hvernig samningnum verði sagt upp,
     d.      hvernig iðgjöld skuli greidd, hve lengi og hvernig þeim verði breytt á samningstímanum,
     e.      hvernig ágóðahluti er reiknaður og hvernig og hvenær hann verði greiddur,
     f.      reglur um endurkaup og frítryggingu og að hvaða marki ábyrgst er að réttur til þess sé fyrir hendi,
     g.      sundurliðun iðgjalda á hverja grein líftrygginga (bótategunda) og vegna aukagreina þegar þær eru innifaldar,
     h.      um líftryggingar tengdar fjárfestingum, skilgreiningu á þeim hlutaeiningum sem tengdar eru bótum,
     i.      um líftryggingar tengdar fjárfestingum, hvers eðlis eignir að baki hlutaeiningum eru,
     j.      hvernig háttað er rétti vátryggingartaka til að hætta við að taka líftrygginguna,
     k.      um skatta sem ber að greiða vegna líftryggingarinnar.
    Auk líftryggingarskilmála, bæði almennra skilmála og sérskilmála, sem látnir skulu í té, skal vátryggingartaki á samningstíma líftryggingar upplýstur um eftirfarandi:
     a.      sérhverjar breytingar varðandi atriði er snerta heiti félagsins, félagsform, heimilisfang aðalstöðva þess og þegar við á þess útibús sem samningur er gerður við,
     b.      sérhverjar breytingar varðandi vátryggingarskilmála eða breytingar á lögum er snerta a–h-liði 1. mgr.,
     c.      árlega um stöðu inneignar vegna ágóðahluta.
    Heimilt er að veita upplýsingar skv. 1. og 2. mgr. á öðru tungumáli en segir í 1. mgr. að fenginni beiðni vátryggingartaka eða þegar vátryggingartaki getur valið um þá löggjöf sem gildir um samninginn.
    Hafi samningur um líftryggingu til a.m.k. sex mánaða komist á og sé um einstaklingslíftryggingu að ræða skal félagið tilkynna vátryggingartaka um gildistöku samningsins. Vátryggingartaki skal hafa 30 daga frest til að segja vátryggingunni upp frá þeim tíma er honum barst tilkynningin. Skrifleg uppsögn leysir aðila undan öllum skyldum sem síðar hefði leitt af samningnum.
    Réttaráhrif og skilyrði uppsagnar fara að öðru leyti eftir þeim lögum sem um samninginn gilda.
    Almenningi skal heimill aðgangur að upplýsingum um þann grundvöll sem útreikningur líftryggingarskuldar og ágóðahlutar er reistur á.

66. gr.
Tungumál vátryggingarskilmála.

    Vátryggingarskilmálar, sem boðnir eru hér á landi og falla undir þennan hluta laganna, skulu vera á íslensku eða öðru tungumáli sem vátryggingartaki samþykkir og gerir honum kleift, áður en gengið er frá vátryggingarsamningi, að tileinka sér þau ákvæði skilmálanna sem skipta máli um efni þeirra, vátryggingarvernd og þau kjör sem í boði eru.

67. gr.
Upplýsingaskylda um félagið.

    Vátryggingartaki skal ávallt upplýstur um heiti, félagsform og aðsetur þess félags sem vátrygginguna býður og vátryggingaráhættuna ber áður en hann er skuldbundinn samkvæmt vátryggingarsamningi. Þegar við á skal vátryggingartaki upplýstur um aðsetur þess útibús sem vátryggingarsamningur er gerður við. Upplýsingarnar skulu ávallt koma fram á bréfum og öðrum tilkynningum til vátryggingartaka, svo og heiti og aðsetur aðalstöðva félagsins þegar um útibú er að ræða.
    Öll bindandi tilboð, vátryggingarsamningar og ígildi þeirra skulu hafa að geyma upplýsingar um heiti og aðsetur þess félags sem ber vátryggingaráhættuna og aðalstöðvar þess.

68. gr.
Skilríki.

    Hver sá sem hefur með höndum sölu vátrygginga á vegum vátryggingafélags skal framvísa fullnægjandi skilríkjum við störf sín, útgefnum af því félagi eða félögum sem hann starfar fyrir.

69. gr.
Skyldur félags við sölu vátrygginga og við tjón.

    Vátryggingafélög skulu sjá til þess að starfsemi aðila skv. 68. gr. sé þannig háttað að við öflun vátrygginga sé gætt hags vátryggingartaka, vátryggðra og annarra sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta.
    Vátryggingafélög skulu sjá til þess að tjónþolar fái fullnægjandi upplýsingar um bótarétt sinn og sundurliðun á því hvernig bætur til þeirra eru ákveðnar.

70. gr.
Vátryggingarskírteini.

    Þegar er samningur um persónutryggingu hefur verið gerður og ákveðið er hvaða skilmálar gildi um vátrygginguna skal félagið afhenda vátryggingartaka skírteini til staðfestingar á því að samningur sé á kominn og vísa til skilmála hans. Auk skírteinisins skal félagið afhenda vátryggingartaka skilmálana.
    Í vátryggingarskírteini skal koma fram:
     a.      heiti vátryggingar,
     b.      gildistími vátryggingarsamnings,
     c.      hverjir séu aðilar að vátryggingarsamningnum,
     d.      iðgjald vegna vátryggingarinnar og gjalddagi þess,
     e.      árétting til vátryggingartaka um að hann kynni sér ákvæði skilmála vátryggingarinnar er varða fyrirvara er tengjast greiðslu iðgjalds, takmörkun ábyrgðar, varúðarreglur er um vátrygginguna gilda og fresti til að tilkynna um vátryggingaratburð,
     f.      ákvæði vátryggingarsamningsins, sem ekki koma fram í vátryggingarskilmálunum,
     g.      hvaða frestur er til þess að tilkynna um vátryggingaratburð þegar hann hefur orðið, sbr. 1. mgr. 124. gr.
    Ef rétthafi er tilnefndur við töku vátryggingarinnar skal hann tilgreindur í vátryggingarskírteini.

71. gr.
Upplýsingar á vátryggingartímanum.

    Á vátryggingartímanum skal félagið með fullnægjandi hætti sjá til þess að vátryggingartaki hafi upplýsingar um þá þætti vátryggingarsamnings sem mikilvægt er fyrir hann að þekkja, þ.m.t. greiðslu iðgjalds, vátryggingarfjárhæð, ágóðahlutdeild þegar við á og útborgun hennar og endurkaupsverð ásamt ráðstöfunum á vátryggingunni. Séu ákveðnar sérstakar takmarkanir á vátryggingunni, sbr. 87. gr., eða varúðarreglur, sbr. 90. gr., skal félagið einnig minna á þær. Félagið skal einnig gefa upplýsingar um aðra kosti við vátryggingar sem til greina koma eða nýja viðbótarvátryggingarvernd sem það hefur boðið fram eftir að vátryggingin var tekin eða endurnýjuð síðast.
    Ef vátrygging á að gilda í eitt ár eða skemur skulu upplýsingar skv. 1. mgr. veittar við endurnýjun hennar.

72. gr.
Eftirlitsskylda Fjármálaeftirlitsins. Reglugerðarheimild.

    Fjármálaeftirlitið skal fylgjast með því að upplýsingaskyldu samkvæmt þessum hluta laganna sé fullnægt.
    Viðskiptaráðherra getur sett reglugerð með nánari reglum um upplýsingaskylduna.

XII. KAFLI
Vátryggingarsamningurinn o.fl.
73. gr.
Grundvöllur mats félagsins.

    Þegar félagið tekur ákvörðun um hvort það veitir vátryggingu og metur áhættu sína skal það leggja til grundvallar heilsu hins vátryggða á því tímamarki er vátryggingartaki afhenti fullbúna umsókn um tiltekna vátryggingu. Félagið getur einnig tekið tillit til þess að heilsu vátryggðs hefur hrakað eftir að umsókn var afhent ef það tengist aðstæðum sem voru fyrir hendi við afhendingu hennar og skýrt er frá við athuganir þess.

74. gr.
Ábyrgðartíminn.

    Nú er annað ekki ákveðið í lögum eða samningi og hefst þá ábyrgð félagsins þegar það eða vátryggingartakinn hefur samþykkt tilboð hins.
    Hafi félagið sent skriflegt samþykki til vátryggingartaka hefst ábyrgð þess kl. 0.00 þann dag sem samþykkið var sent, að því tilskildu að beiðni um vátryggingu hafi komið til félagsins í síðasta lagi deginum áður.
    Hafi vátryggingartaki sent skriflega beiðni um tiltekna vátryggingu og ljóst er að félagið hefði þegar samþykkt beiðnina ber það ábyrgð við móttöku hennar. Þetta gildir þó ekki ef víst þykir að félagið hefði hafnað vátryggingunni. Félagið ber heldur ekki ábyrgð á afleiðingum atvika sem þegar höfðu átt sér stað á því tímamarki sem umsókn var send ef þessi atvik hefðu komið í ljós við athugun félagsins og leitt til þess að umsókn hefði verið hafnað.
    Ef ábyrgð félagsins á að hefjast á tilteknum degi, án þess að það sé tilgreint nánar, hefst ábyrgðin kl. 0.00 þann dag. Eigi vátrygging að gilda til ákveðins dags en ekki tiltekið hvenær dags henni lýkur skal litið svo á að henni ljúki kl. 24.00.

75. gr.
Heimild vátryggingartaka til þess að segja upp vátryggingarsamningi.

    Vátryggingartaki getur, sé um líftryggingu að ræða, slitið samningnum hvenær sem er.
    Nú vill vátryggingartaki segja upp samningi um slysa- eða sjúkratryggingu þegar vátryggingartímabili lýkur og verður hann þá að tilkynna félaginu um það innan mánaðar frá því það sendi venjulega tilkynningu um gjalddaga hins nýja tímabils. Honum er þó ekki skylt að tilkynna félaginu um uppsögn fyrr en tvær vikur eru til loka tímabilsins.
    Vátryggingartaki getur á vátryggingartíma sagt upp gildandi samningi um slysa- eða sjúkratryggingu ef hann hefur ekki lengur þörf fyrir vátrygginguna eða fyrir hendi eru aðrar sérstakar ástæður.
    Sé um hópvátryggingu að ræða er heimilt að víkja frá ákvæðum 1. og 3. mgr. í vátryggingarsamningi.

76. gr.
Heimild félagsins til þess að slíta vátryggingarsamningi á vátryggingartímabili.

    Sé um líftryggingu að ræða getur félagið ekki slitið vátryggingarsamningi í öðrum tilvikum en greinir í 84. gr.
    Sé um að ræða slysa- eða sjúkratryggingu getur félagið slitið vátryggingarsamningi sem í gildi er samkvæmt reglum 84. gr. og 3. mgr. 120. gr. Í öðrum tilvikum getur félagið því aðeins sagt upp vátryggingarsamningi að fyrir hendi séu sérstök atvik sem skýrlega eru tilgreind í vátryggingarskilmálum, enda megi telja uppsögnina sanngjarna. Félagið getur þó ekki áskilið sér rétt til uppsagnar vegna þess að heilsu hins vátryggða hafi hrakað eftir að vátryggingin var tekin.
    Uppsögnin verður að fara fram án ástæðulauss dráttar eftir að félaginu varð kunnugt um atvik sem veittu því rétt til hennar. Uppsögnin skal vera skrifleg og rökstudd. Sé ekki ákveðinn styttri frestur í lögunum skal uppsagnarfrestur eigi vera skemmri en tveir mánuðir.
    Félagið skal í tilkynningu um uppsögn skýra frá möguleikum á því að leggja ágreining um hana fyrir úrskurðarnefnd skv. 141. gr.
    Það sem segir um uppsögn í 2. málsl., sbr. 3. málsl., 2. mgr. gildir einnig um fyrirvara þess efnis að vátrygging falli úr gildi ef tiltekin atvik eiga sér stað.

77. gr.
Uppgjör þegar vátryggingarsamningi er slitið á vátryggingartíma.

    Nú er vátryggingarsamningi slitið á vátryggingartímabilinu og skal þá reikna vátryggingartaka til tekna verðmæti vátryggingarinnar, þ.m.t. iðgjald, fyrir þann tíma sem hann hefur greitt og vátrygging er ekki í gildi. Þetta á við þótt félagið sé laust úr ábyrgð í heild eða að hluta.
    Í skilmálum skulu vera reglur um útreikning á verðmæti vátryggingarinnar og iðgjalds fyrir þessi tilvik eða vísað til slíkra reglna.

78. gr.
Aðvörun um lok líftryggingar.

    Nú er um það samið að líftrygging skuli gilda í þrjú ár eða lengur, og skal þá félagið skemmst þremur mánuðum áður en vátryggingartímabilinu lýkur vara vátryggingartaka við að vátryggingunni muni ljúka og upplýsa hann um hugsanlegan rétt hans til að framlengja hana. Hafi vátryggingin verið framlengd er þriggja ára fresturinn reiknaður frá þeim tíma er hún var fyrst tekin.

79. gr.
Endurnýjun slysa- eða sjúkratryggingar og breyting á skilmálum.

    Nú á slysa- eða sjúkratrygging að gilda í tiltekinn tíma, eitt ár eða lengur, og félagið hyggst ekki framlengja vátrygginguna fram yfir þann tíma og skal það þá tilkynna vátryggingartaka það í síðasta lagi tveimur mánuðum áður en vátryggingartímabilið er á enda. Að öðrum kosti framlengist vátryggingartímabilið um eitt ár.
    Félagið getur einungis neitað að endurnýja vátryggingu, sem nefnd er í 1. mgr., þegar fyrir liggja sérstakar ástæður. Þegar synjað er um endurnýjun gilda ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 76. gr. og 4. mgr. sömu greinar. Það sem segir í þessari málsgrein á ekki við ef ótvírætt er af vátryggingarsamningi að vátrygging skuli falla úr gildi þegar vátryggingartímabilinu lýkur.
    Nú óskar félagið eftir nýjum upplýsingum um áhættuna í tengslum við endurnýjun, og verður það þá að senda skriflega fyrirspurn til vátryggingartaka. Ella endurnýjast vátryggingin á þeim grundvelli sem fyrir lá þegar vátryggingartakinn síðast gaf upplýsingar um áhættuna.
    Vilji félagið breyta skilmálum vátryggingarinnar við endurnýjun hennar skal það, um leið og krafið er um iðgjöld fyrir næsta vátryggingartímabil, afhenda vátryggingartaka hina nýju skilmála og gera grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa frá fyrri skilmálum. Breytingar sem ekki er gerð grein fyrir með þessum hætti getur félagið ekki borið fyrir sig.
    Félagið getur ekki áskilið sér rétt til að breyta skilmálum í slysa- eða sjúkratryggingum á vátryggingartímabilinu.

80. gr.
Heimild til að halda áfram líftryggingu þegar endurkaupsverðið hefur verið greitt.

    Sé endurkaupsverð einstaklingsbundinnar líftryggingar greitt vátryggingartaka eða kröfuhafa, sbr. 107. og 111. gr., getur vátryggingartaki án þess að veita nýjar heilsufarsupplýsingar krafist þess að vátryggingin gildi áfram það sem eftir er af upphaflega umsömdum vátryggingartíma sem hrein áhættutrygging að frádregnu endurkaupsverði.
    Félagið skal í síðasta lagi við greiðslu endurkaupsverðsins upplýsa vátryggingartaka um réttinn til að halda vátryggingunni áfram. Krafa um slíka vátryggingu skal sett fram minnst fjórum mánuðum eftir að tilkynning var send.

81. gr.
Bráðabirgðavernd í líftryggingum.

    Hafi félagið gert fyrirvara í líftryggingu um að ábyrgð þess hefjist ekki fyrr en fyrsta iðgjald er greitt skal það bjóða vátryggingartaka bráðabirgðavernd vegna andláts sem ekki tengist heilsufarsástandi vátryggðs á því tímamarki er bráðabirgðaverndin öðlast gildi.
    Leiði ekki annað af ákvæðum 4. mgr. eða samningi aðila hefst bráðabirgðaverndin strax og iðgjald fyrir hana er greitt. Verndin fellur niður ef fullnægjandi umsókn um ákveðnar vátryggingar er ekki send félaginu í síðasta lagi mánuði eftir að bráðabirgðaverndin öðlaðist gildi. Sé slík umsókn send fellur bráðabirgðaverndin niður þegar sú vátrygging sem sótt var um er samþykkt eða henni hafnað, þó í síðasta lagi einum mánuði eftir að vátryggingartaki hefur fengið tilkynningu um greiðslu iðgjalds fyrir þá vátryggingu sem sótt er um. Hafi félagið sent tilboð um vátryggingu með öðrum skilmálum fellur verndin niður þegar fresturinn til að samþykkja tilboðið er liðinn.
    Bráðabirgðaverndin skal vera hin sama og vernd þeirrar vátryggingar sem sótt er um ef ekki er gerður áskilnaður um lægri fjárhæð í skilmálum hennar.
    Hafi félagið ekki í síðasta lagi þegar umsókn um ákveðna vátryggingu er móttekin gert vátryggingartaka grein fyrir möguleikanum á því að fá bráðabirgðavernd ber félagið sömu ábyrgð og sú vernd hefði verið umsamin.

XIII. KAFLI
Almennar forsendur fyrir ábyrgð félagsins.
82. gr.
Skylda vátryggingartaka og vátryggðs til þess að veita upplýsingar um áhættu. Takmarkanir á upplýsingagjöf.

    Á meðan félagið hefur ekki samþykkt að veita vátryggingu getur það óskað eftir upplýsingum sem hafa þýðingu fyrir mat þess á áhættunni. Slíkra upplýsinga skal aflað beint hjá vátryggingartaka, eða eftir atvikum vátryggðum, sem skal veita rétt og tæmandi svör við spurningum félagsins. Sama á við þegar vátryggingartaki veitir upplýsingar fyrir hönd vátryggðs. Sé upplýsinganna aflað hjá öðrum en vátryggingartaka eða vátryggðum skal áður en þeirra er aflað liggja fyrir skriflegt, upplýst samþykki þess sem aflað er upplýsinga um. Vátryggingartaki, og eftir atvikum vátryggður, skal einnig að eigin frumkvæði veita upplýsingar um sérstök atvik sem hann veit, eða má vita, að hafa verulega þýðingu fyrir mat félagsins á áhættu.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er félaginu óheimilt, fyrir eða eftir gerð samnings um persónutryggingu, að óska eftir, afla með einhverjum öðrum hætti, taka við eða hagnýta sér upplýsingar um erfðaeiginleika manns og áhættu á því að hann þrói með sér eða fái sjúkdóma. Félaginu er einnig óheimilt að óska eftir rannsóknum sem teljast nauðsynlegar til þess að kostur sé á að fá slíkar upplýsingar. Framangreint bann gildir þó ekki um athugun á núverandi eða fyrra heilsufari mannsins eða annarra einstaklinga.
    Synji félagið að veita persónutryggingu skal það rökstyðja synjunina sé eftir því leitað.

83. gr.
Ábyrgð félagsins þegar upplýsingaskylda er vanrækt.

    Hafi vátryggingartaki eða vátryggður sviksamlega vanrækt upplýsingaskyldu sína skv. 1. mgr. 82. gr. og vátryggingaratburður hefur orðið ber félagið ekki ábyrgð.
    Hafi vátryggingartaki eða vátryggður ella vanrækt upplýsingaskyldu sína í þeim mæli að ekki telst óverulegt má fella ábyrgð félagsins niður í heild eða að hluta.
    Við mat á ábyrgð félagsins skv. 2. mgr. skal litið til þess hvaða þýðingu vanrækslan hefur haft fyrir mat þess á áhættu, til þess hve sökin var mikil, með hvaða hætti vátryggingaratburður hefur orðið og til atvika að öðru leyti.

84. gr.
Réttur félagsins til þess að segja upp vátryggingunni og til breytinga á vátryggingarsamningi þegar upplýsingaskylda er vanrækt.

    Nú verður félaginu ljóst á vátryggingartímanum að upplýsingaskylda hefur verið vanrækt og sú vanræksla vátryggingartaka eða vátryggðs telst ekki óveruleg og getur það þá sagt upp vátryggingunni með 14 daga fyrirvara. Ákvæði 3. mgr. 76. gr. gilda með sama hætti. Hafi vátryggingartaki viðhaft sviksamlega háttsemi getur félagið þó slitið vátryggingunni, svo og öðrum vátryggingarsamningum sem það hefur við vátryggingartaka, án fyrirvara.
    Ef ætla má að félagið hefði, þótt það hefði haft réttar upplýsingar, veitt vátrygginguna gegn hærra iðgjaldi eða með öðrum kjörum getur vátryggingartaki innan uppsagnarfrests krafist þess að viðhalda vátryggingunni á slíkum skilmálum. Svo fremi sem ekki er samið um nýja skilmála gildir upphafleg vátrygging með þeim takmörkunum sem leiðir af 2. og 3. mgr. 83. gr., en þó ekki lengur en þrjá mánuði frá uppsögn. Rétturinn til þess að viðhalda vátryggingunni samkvæmt þessari málsgrein gildir ekki ef svikum hefur verið beitt.
    Félagið skal í uppsögn gera vátryggingartaka grein fyrir því að hann geti átt kost á áframhaldandi vátryggingu og með hvaða skilmálum. Krefjist vátryggingartaki áframhaldandi vátryggingar getur félagið óskað eftir nýjum upplýsingum sem því er þörf á við mat sitt.

85. gr.
Takmarkanir á heimildum félagsins til þess að bera fyrir sig upplýsingaskort.

    Félagið getur ekki borið fyrir sig að það hafi fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar ef það vissi eða mátti vita að svo var þegar það fékk þær. Sama gildir ef atvik þau er upplýsingarnar varða skiptu ekki máli fyrir félagið eða gera það ekki lengur. Ef háttsemi vátryggingartaka eða vátryggðs er sviksamleg á framangreind takmörkun í 1. málsl. því aðeins við að félagið hafi vitað að upplýsingarnar sem það fékk voru rangar eða ófullnægjandi.
    Í líftryggingum getur félagið aðeins borið fyrir sig að upplýsingaskyldu hafi ekki verið fullnægt ef vátryggingaratburður hefur orðið eða félagið hefur veitt viðvörun skv. 94. gr. innan tveggja ára frá því að ábyrgð þess hófst. Þessi takmörkun gildir þó ekki ef svikum hefur verið beitt.

86. gr.
Ábyrgðartakmörkun vegna heilsufars vátryggðs.

    Taki vátrygging til afleiðinga sjúkdóms eða meins getur félagið ekki gert fyrirvara um að það sé laust úr ábyrgð vegna þeirra tilvika að sjúkdómurinn eða meinið hafi verið fyrir hendi þegar ábyrgð þess hófst. Slíkur fyrirvari er þó gildur ef:
     a.      hann byggist á upplýsingum sem félagið hefur fengið með lögmætum hætti um hinn vátryggða,
     b.      félaginu er af sérstökum ástæðum, öðrum er greinir í 2. mgr. 82. gr., útilokað að afla upplýsinga frá vátryggðum; í slíkum tilvikum er félagið samt ábyrgt vegna sjúkdóms eða meins sem hinn vátryggði vissi ekki um þegar ábyrgð þess hófst, eða
     c.      samið er um að félagið afli ekki upplýsinga um heilsufar vátryggðs við töku vátryggingar; í slíkum tilvikum getur félagið gert fyrirvara um að það sé laust úr ábyrgð vegna sjúkdóms eða meins sem hinn vátryggði vissi eða mátti vita um.
    Í sjúkratryggingum getur félagið í skilmálum gert fyrirvara um að það beri einungis ábyrgð á sjúkdómi hafi einkenni hans komið fram eftir ákveðið tímamark. Hið sama á við um vátryggingu á örorku í tengslum við líftryggingu.
    Hafi tímabundin vátrygging verið endurnýjuð getur fyrirvarinn einungis átt við um sjúkdóm eða mein sem hinn vátryggði var með er vátryggingin var tekin í upphafi.

87. gr.
Ábyrgðartakmörkun vegna hættulegrar starfsemi.

    Nú hefur félagið gert þann fyrirvara um ábyrgð sína að vátryggður taki ekki þátt í tiltekinni starfsemi eða athöfnum eða setji sig ekki í tilgreinda hættu og er það samt ábyrgt fyrir vátryggingartilvikum ef vátryggingaratburður verður ekki vegna þessara ástæðna.

88. gr.
Fyrirvari um að samræma iðgjald aðstæðum vátryggðs.

    Hafi félagið áskilið að iðgjaldið skuli vera háð aðstæðum vátryggðs, svo sem starfi hans og þess háttar, getur það gert vátryggingartaka að tilkynna um breytingar á þeim aðstæðum. Verði slík tilkynning ekki gefin í síðasta lagi við greiðslu fyrsta iðgjalds eftir að breytingin varð, og leiði vanrækslan til þess að iðgjaldið verði ekki hækkað, getur félagið gert kröfu um að ábyrgð þess fyrir sérhvert vátryggingartilvik verði hlutfallslega lækkuð. Við mat á ábyrgðinni skal miðað við það iðgjald, sem félagið hefði krafið um ef það hefði vitað af breytingum á aðstæðum vátryggðs. Félagið skal í innheimtutilkynningum vegna iðgjalds minna vátryggingartakann á ákvöð þessa.

89. gr.
Vátryggingaratburði valdið af ásetningi.

    Nú veldur vátryggður því af ásetningi að vátryggingaratburður verður og ber félagið þá ekki ábyrgð. Félagið ber þó ábyrgð ef vátryggður vegna aldurs eða andlegs ástands gerði sér ekki grein fyrir afleiðingum gerða sinna. Félagið getur við slysatryggingar gert fyrirvara um að það beri ekki ábyrgð á sjálfsvígi eða sjálfsvígstilraun sem rakin verður til geðveiki.
    Hafi vátryggður framið sjálfsvíg, eða gert tilraun til þess, ber félagið ábyrgð sé um líftryggingu að ræða ef meira en ár hefur liðið frá því að ábyrgð þess hófst eða ef telja má sannað að vátryggingin hafi verið tekin án þess að sjálfsvíg hafi verið haft í huga. Hafi líftrygging, sem ætlað er að gilda í skamman tíma og tekur aðeins til dánaráhættu, verið endurnýjuð reiknast ársfresturinn frá því að vátryggingin var fyrst tekin.

90. gr.
Vátryggingaratburði valdið af gáleysi.

    Hafi vátryggður í öðrum vátryggingum en líftryggingum valdið því af stórkostlegu gáleysi að vátryggingaratburður varð eða afleiðingar hans urðu meiri en ella hefðu orðið má lækka eða fella niður ábyrgð félagsins. Hið sama á við ef vátryggður hefur af stórkostlegu gáleysi valdið því að vátryggingaratburður varð með því að hlíta ekki varúðarreglum. Við úrlausn á þessum atriðum skal litið til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að, hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna sem hann hafði sjálfviljugur neytt og atvika að öðru leyti.
    Í öðrum tilvikum en þeim er greinir í 1. mgr. getur félagið ekki borið fyrir sig að hinn vátryggði hafi af gáleysi valdið vátryggingaratburði.
    Félagið getur ekki borið fyrir sig reglur 1. mgr. ef hinn vátryggði gat ekki vegna aldurs eða andlegs ástands síns gert sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna.

91. gr.
Ráðstafanir til að varna tjóni á mönnum eða munum.

    Félagið getur ekki borið fyrir sig ákvæði 87., 89. eða 90. gr. ef sú háttsemi sem um ræðir fól í sér viðleitni til að koma í veg fyrir tjón á mönnum eða munum og telja má hana hafa verið réttlætanlega miðað við aðstæður.

92. gr.
Tilkynning um vátryggingaratburð.

    Nú hefur vátryggingaratburður orðið og skal þá hver sá sem telur sig eiga kröfu á félagið skýra frá því án ástæðulauss dráttar.
    Geti félagið ekki rannsakað tildrög vátryggingaratburðar sem þýðingu hafa fyrir ábyrgð þess eða geti það ekki gert ráðstafanir er mundu hafa takmarkað umfang tjónsins vegna þess að einhver þeirra sem greinir í 1. mgr. hefur af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi vanrækt tilkynningarskyldu sína má lækka eða fella niður ábyrgðina gagnvart honum.

93. gr.
Ráðstafanir til að takmarka tjón.

    Félagið getur gefið hinum vátryggða fyrirmæli um að gera ráðstafanir sem bersýnilega eru til þess fallnar að takmarka umfang ábyrgðar þess, og skal það ábyrgjast kostnað við slíkar ráðstafanir. Vátryggður er ekki skyldur að hlíta slíkum fyrirmælum ef þau fela í sér ósanngjarna takmörkun á athafnafrelsi hans.
    Nú sinnir vátryggður af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi ekki fyrirmælum sem honum er skylt að hlíta skv. 1. mgr. og má þá lækka eða fella niður ábyrgð félagsins.

94. gr.
Tilkynningarskylda félagsins ef það hyggst
bera fyrir sig rétt til takmörkunar á ábyrgð.

    Nú hyggst félagið bera fyrir sig að það sé samkvæmt ákvæðum þessa kafla laust úr ábyrgð að öllu leyti eða að hluta, eða geti sagt upp vátryggingunni, og skal það þá tilkynna vátryggingartaka eða þeim sem rétt á til vátryggingarbóta skriflega um afstöðu sína. Tilkynningin skal send án ástæðulauss dráttar eftir að félagið vissi um þau atvik sem veita því heimild til að beita rétti sínum samkvæmt ákvæðunum. Í því sambandi skal félagið einnig upplýsa um rétt til að leggja mál fyrir úrskurðarnefnd skv. 141. gr.
    Vanræki félagið að senda slíka tilkynningu glatar það rétti til þess að bera fyrir sig atvikin.
    Í líftryggingum skal félagið samtímis því sem það sendir tilkynningu skv. 1. málsl. 1. mgr. skrá í líftryggingarskrá að það hafi borið fyrir sig atvikin.

XIV. KAFLI
Iðgjaldið.
95. gr.
Gjalddagi, fyrsta tilkynning.

    Þegar greiðsla iðgjalds er ekki skilyrði þess að ábyrgð félagsins samkvæmt vátryggingarsamningi hefjist fellur það í gjalddaga þegar greiðslu þess er krafist samkvæmt samningnum. Greiðslufrestur skal vera einn mánuður hið skemmsta frá þeim degi sem félagið sendir tilkynningu um greiðslu til vátryggingartakans. Hafi ábyrgð félagsins hafist helst hún áfram þótt greiðsla sé ekki innt af hendi innan hins tilgreinda frests.

96. gr.
Greiðsludráttur á iðgjaldi, síðari tilkynningar.

    Sé iðgjald ekki greitt þegar greiðslufresti lýkur skv. 95. gr. og félagið ber ábyrgð getur það losnað undan henni með því að senda nýja tilkynningu þar sem greiðslu er krafist innan 14 daga. Tilkynningin skal bera skýrlega með sér að vátryggingin falli niður ef iðgjaldið er ekki greitt innan hins tilskilda frests.
    Nú er sýnt fram á að vátryggingartaki hafi ekki getað greitt fyrir lok frests skv. 1. mgr. vegna ófyrirséðra hindrana sem honum verður ekki um kennt og helst þá ábyrgð félagsins í þrjá mánuði til viðbótar eftir lok frestsins.
    Ef iðgjaldið í slysa- eða sjúkratryggingum greiðist eftir lok greiðslufrestsins í 1. mgr. ber að líta á greiðsluna sem ósk um nýja vátryggingu. Ákvæði 3. mgr. 74. gr. gildir þá með sama hætti, en ábyrgð félagsins hefst þó fyrst daginn eftir að iðgjaldið er greitt.

97. gr.
Réttur til að endurvekja líftryggingu án nýrra heilsufarsupplýsinga.

    Nú hefur ábyrgð félagsins samkvæmt líftryggingarsamningi fallið niður eftir að iðgjald hefur verið greitt fyrir eitt ár hið skemmsta, og má þá endurvekja vátrygginguna sem hreina áhættulíftryggingu án þess að nýjar heilsufarsupplýsingar komi til ef vangoldið iðgjald er greitt innan þriggja mánaða frá því að frestur skv. 1. mgr. 96. gr. rennur út. Hafi endurkaupsverð vátryggingarinnar verið greitt út er einnig heimilt að endurgreiða það til félagsins innan sama frests, sbr. þó 1. mgr. 80. gr. Félagið getur krafist dráttarvaxta af þeim fjárhæðum sem um ræðir. Ef vátryggingin er endurvakin hefst ábyrgð félagsins daginn eftir að fjárhæðin er greidd.

98. gr.
Sérstök tilkynningarskylda um iðgjald í líftryggingum.

    Í líftryggingum skal félagið einnig senda tilkynningu skv. 1. mgr. 96. gr. til þess sem samkvæmt líftryggingarskrá er veðhafi í vátryggingunni. Maki vátryggingartaka, vátryggður og sá sem að lokum teldist rétthafi samkvæmt líftryggingu geta einnig krafist þess að fá slíka tilkynningu. Vanræki félagið að senda tilkynningar þær sem hér um ræðir getur það ekki borið fyrir sig vanefnd á greiðslu iðgjaldsins gagnvart þeim sem ekki fengu tilkynningu.

99. gr.
Hvenær telja ber greiðslu innta af hendi.

    Þótt félagið hafi ekki móttekið greiðslu skal líta svo á að hún hafi verið innt af hendi þegar:
     a.      peningar, tékki eða önnur sambærileg ávísun er send til þess í pósti eða með skeyti,
     b.      fjárhæðin er greidd til pósthúss, banka eða sparisjóðs eða
     c.      fyrirmæli um greiðslu eru send til banka, sparisjóðs eða með öðrum óafturkallanlegum hætti.

XV. KAFLI
Ráðstafanir tengdar vátryggingu. Rétturinn til greiðslu frá félaginu.
100. gr.
Réttur til greiðslu frá félaginu þegar vátryggingartaki
hefur ekki ráðstafað vátryggingunni.

    Nú hefur vátryggingartaki ekki gert ráðstafanir í samræmi við ákvæði þessa kafla og gilda þá reglur 2.–6. mgr.
    Vátryggingarfjárhæð, sem fellur til við andlát vátryggingartaka, rennur til maka hans. Þetta gildir þó ekki hafi fyrir andlát hans verið veitt leyfi til skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar, eða kveðinn upp dómur um það eða hjúskapurinn ógiltur, þótt slík úrlausn sé ekki endanleg eða hafi öðlast réttaráhrif. Vátryggingarfjárhæð, eða hluti hennar, sem fellur til maka, telst ekki til þeirra eigna sem skipta á að jöfnu eftir 93. gr., sbr. 103. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993, ef eftirlifandi maki yfirtekur ekki búið óskipt í samræmi við II. kafla erfðalaga, nr. 8/1962.
    Vátryggingarfjárhæð, eða hluti hennar, sem fellur ekki til maka samkvæmt ákvæði 2. mgr., fellur til erfingja samkvæmt lögum eða erfðaskrá. Nú sat vátryggingartaki í óskiptu búi skv. II. kafla erfðalaga, og telst vátryggingarfjárhæðin þá til þeirra eigna sem skipta skal jafnt milli erfingja hins skammlífari og hins langlífari, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. erfðalaga.
    Sé greiðsla vátryggingarfjárhæðar í heild eða að hluta háð því að tilteknir menn séu á lífi fellur greiðslan til þeirra.
    Hafi fleiri en einn tekið vátryggingu sameiginlega og vátryggingarfjárhæðin kemur til greiðslu þegar sá fyrsti þeirra deyr fellur vátryggingarfjárhæðin til þess eða þeirra vátryggingartaka sem eru á lífi. Séu fleiri en einn á lífi skiptist fjárhæðin jafnt á milli þeirra sé ekki um annað samið.
    Vátryggingarfjárhæð, sem kemur til greiðslu af öðru tilefni en við andlát vátryggingartakans, fellur til hans.

101. gr.
Tilnefning rétthafa.

    Vátryggingartaki getur tilnefnt einn eða fleiri rétthafa að vátryggingarfjárhæð ásamt ágóðahlutdeild, sem kann að verða, eða hluta af vátryggingarfjárhæðinni, þegar hún kemur til greiðslu. Sé vátryggingartaki í hjúskap ber að tilkynna maka hans um tilnefningu rétthafa, sbr. 105. gr.
    Tilnefningu rétthafa má afturkalla nema vátryggingartaki hafi lýst því yfir við hann að hún sé óafturkallanleg.

102. gr.
Aðferð við tilnefningu rétthafa.

    Tilnefningu rétthafa og afturköllun hennar verður að tilkynna félaginu skriflega. Við töku vátryggingar er þó hægt að upplýsa félagið um tilnefninguna með öðrum hætti.
    Nú er í erfðaskrá gerð ráðstöfun tengd vátryggingu og ber þá að líta á hana sem tilnefningu á rétthafa eða afturköllun tilnefningar.
    Tilnefning eða afturköllun á henni, sem ekki er gerð eins og mælt er fyrir um í 1. og 2. mgr., er ógild.

103. gr.
Túlkunarreglur.

    Sé ekki annað ákveðið eða það leiði af atvikum gildir eftirfarandi:
     a.      Tilnefning á rétthafa tekur aðeins til þeirrar vátryggingarfjárhæðar sem fellur til við andlát.
     b.      Hafi vátryggingartaki tilnefnt fleiri en einn rétthafa gildir 53. gr. erfðalaga um það.
     c.      Ef rétthafi deyr á undan vátryggðum skal vátryggingarfjárhæðin renna til lögerfingja rétthafans.
     d.      Sé maki vátryggðs tilnefndur sem rétthafi gilda ákvæði 2. mgr. 100. gr. laga þessara.
     e.      Séu erfingjar vátryggðs tilnefndir tekur það einnig til bréferfingja.
     f.      Sé vátryggingin veðsett við andlát vátryggingartaka víkur rétthafi fyrir veðhafanum.

104. gr.
Réttur samkvæmt vátryggingarsamningi þegar rétthafi er tilnefndur.

    Tilnefning rétthafa felur ekki í sér takmörkun á ráðstöfunarrétti vátryggingartaka yfir vátryggingunni eða rétti samkvæmt vátryggingarsamningi. Sé vátrygging veðsett stendur rétthafinn að baki veðhafanum sé ekki um annað samið.
    Sé tilnefning rétthafa óafturkallanleg hefur vátryggingartaki ekki heimild til þess að ráðstafa rétti samkvæmt vátryggingarsamningi þannig að það horfi til tjóns fyrir rétthafann.
    Nú hefur vátryggingaratburður ekki orðið og getur rétthafinn þá ekki ráðstafað rétti sínum samkvæmt vátryggingarsamningi. Sé vátryggingartakinn látinn og vátryggingarfjárhæðin á að greiðast síðar yfirfærast öll réttindi samkvæmt vátryggingarsamningi til rétthafans nema annað leiði af atvikum.

105. gr.
Tilnefningu rétthafa hnekkt eftir kröfu þeirra
sem hafa verið á framfæri vátryggingartaka.

    Sé það bersýnilega ósanngjarnt gagnvart maka eða öðrum skylduerfingjum, sem voru á framfæri vátryggingartaka eða hann var skuldbundinn til að framfæra og hefðu ella átt kröfu til vátryggingarfjárhæðarinnar skv. 100. gr., að vátryggingarfjárhæðin renni til rétthafa getur sá er framfærslu naut eða átti að njóta krafist þess að vátryggingarfjárhæðin verði greidd sér í heild eða að hluta. Við úrlausn þessa skal einkum líta til ástæðna tilnefningarinnar, þarfa þess er framfærslu naut eða átti að njóta, þarfa rétthafans og hvort sá fyrrnefndi hafi fengið tilkynningu um tilnefninguna innan sanngjarns frests fyrir andlátið.
    Reglur 1. mgr. eiga einnig við um aðra skylduerfingja þegar makinn á kröfu til vátryggingarfjárhæðarinnar skv. 2. mgr. 100. gr.
    Kröfur skv. 1. og 2. mgr. verður að hafa uppi með málshöfðun gegn rétthafanum eða makanum innan árs frá andlátinu.
    Ef rétthafinn eða makinn hefur fengið vátryggingarfjárhæðina greidda er hann ekki skuldbundinn til að endurgreiða meira af henni en þá upphæð sem eftir var þegar viðkomandi fékk upplýsingar um kröfuna.

106. gr.
Framsal vátryggingarinnar.

    Ef vátrygging er framseld yfirfærast réttindin samkvæmt vátryggingarsamningi til framsalshafa, sé ekki um annað samið. Við framsalið falla fyrri tilnefningar á rétthöfum niður nema um annað sé samið eða það leiði af aðstæðum.

107. gr.
Veðsetning vátryggingarinnar.

    Höfuðstólstryggingu má veðsetja. Veðrétturinn felur í sér heimild til að fá vátryggingarfjárhæðina greidda þegar hún fellur til og réttinn til að fá endurkaupsverð vátryggingarinnar. Ágóðahlutdeild sem við kann að bætast telst ekki til hins veðsetta nema um það sé samið.
    Án samþykkis veðhafa getur félagið ekki greitt gjaldfallnar greiðslur samkvæmt vátryggingunni, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um samningsveð.
    Nú er veðkrafa fallin í gjalddaga og getur veðhafinn þá krafist þess að endurkaupsverð vátryggingarinnar verði greitt sér að því leyti sem þarf til fullnustu veðkröfunnar. Veðhafinn skal þó gefa veðþola tveggja mánaða frest til að greiða veðkröfuna eða greiða fjárhæð sem svarar til endurkaupsverðsins. Veðhafinn á ekki rétt á því að fá fullnustu veðkröfunnar með öðrum hætti.
    Sé vátrygging veðsett við andlát vátryggðs og ef dánarbúið greiðir veðkröfuna getur það krafist endurgreiðslu af vátryggingarfjárhæðinni nema annað leiði af aðstæðum.

108. gr.
Brottfall réttar til að krefjast vátryggingarbóta.

    Ákvæði 23. gr. erfðalaga gilda um þann sem á rétt til vátryggingarbóta samkvæmt þessum kafla. Hið sama á við um vátryggingarbætur sem greiddar eru vegna örorku sem er afleiðing háttsemi sem tilvitnað ákvæði erfðalaga tekur til. Við vátryggingu á lífi óvenslaðs manns falla greiðslur sem ekki renna til vátryggingartakans til vátryggðs eða til erfingja hans ef hinn vátryggði er látinn samkvæmt ákvæðum 2. og 3. mgr. 100. gr.

109. gr.
Lífeyristrygging.

    Reglur þessa kafla gilda um lífeyristryggingu sé annað ekki ákveðið í lögum eða vátryggingarskilmálum.

XVI. KAFLI
Réttarsambandið við skuldheimtumenn.
110. gr.
Almennar reglur um rétt skuldheimtumanna.

    Hafi vátrygging ekki verið framseld öðrum en maka vátryggingartaka eða hinum vátryggða getur réttur samkvæmt vátryggingarsamningi ekki orðið andlag fullnustu skuldheimtumanna fyrr en eftir að vátryggingaratburður hefur orðið. Ef skuldheimtumenn framsalshafa leita fullnustu í réttindum samkvæmt vátryggingunni gilda ákvæði 3. mgr. 107. gr.
    Vátryggingarfjárhæð sem greiðast skal við andlát verður ekki andlag fullnustu af hálfu skuldheimtumanna hins látna nema annað hafi verið ákveðið við tilnefningu rétthafa. Ákvæði 4. mgr. 107. gr. gilda um slík tilvik.
    Ef vátryggingarfjárhæð kemur til greiðslu af öðrum ástæðum en vegna andláts vátryggðs geta skuldheimtumenn hans ekki leitað fullnustu í kröfu hans gegn félaginu í eitt ár frá því að hún kom til greiðslu. Hið sama á við um skuldheimtumenn maka er maki vátryggðs öðlast rétt til fjárhæðarinnar þegar hún kemur til greiðslu.
    Við lífeyristryggingu geta skuldheimtumenn þess er lífeyris nýtur leitað fullnustu í lífeyrisgreiðslum til hans með þeim takmörkunum sem leiðir af ákvæðum 47. gr. laga um aðför, nr. 90/1989.

111. gr.
Riftun iðgjaldagreiðslu við gjaldþrotaskipti o.fl.

    Þrotabú vátryggingartaka, skuldari ef nauðasamningur kemst á og skuldafrágöngubú geta krafist endurgjalds af félaginu fyrir greiðslu iðgjalds sem innt er af hendi á síðustu þremur árum fyrir frestdag skv. 2. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, að því leyti sem iðgjaldsgreiðslan, þegar hún fór fram, var bersýnilega ósanngjörn miðað við fjárhagsstöðu vátryggingartakans og atvik að öðru leyti. Endurgjaldið á að nema aukningu á verðmæti vátryggingarinnar sem á rætur að rekja til hinnar bersýnilega ósanngjörnu iðgjaldagreiðslu. Greiðsla iðgjalds í lífeyristryggingum, að því marki sem iðgjaldið var eða gat verið frádráttarbært við ákvörðun tekjuskattsstofns vátryggingartaka, skal ekki teljast ósanngjörn samkvæmt reglum þessarar málsgreinar.
    Nú vill þrotabú, skuldari eftir að nauðasamningur hefur komist á eða skuldafrágöngubú hafa uppi endurgreiðslukröfu gegn félaginu og skal það þá einnig tilkynna vátryggingartaka og þeim sem á kröfu á vátryggingarfjárhæðinni, þegar hún fellur til, um kröfuna.
    Ef vátryggingarfjárhæðin hefur verið greidd getur búið krafist fjárhæðarinnar sem nefnd er í 1. mgr. frá þeim sem fengið hefur vátryggingarfjárhæðina greidda. Ákvæði 4. mgr. 105. gr. gildir eftir því sem við getur átt um slíkar greiðslur.
    Sé vátrygging veðsett og ef veðsetningin er skráð í síðasta lagi daginn fyrir frestdag skv. 2. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er ekki unnt að hafa uppi endurgreiðslukröfu samkvæmt þessari grein í bága við hagsmuni veðhafa. Hafi vátryggingartaki framselt vátrygginguna eða tilnefnt með óafturkallanlegum hætti rétthafa gildir það sama að því leyti sem framsalshafi eða rétthafinn hafa greitt endurgjald fyrir réttinn.
    Hafi rétthafi eða annar sem nýtur verndar skv. 1. mgr. 110. gr. greitt iðgjald gilda ákvæði 1.–4. mgr. á sama hátt um samband þeirra við skuldheimtumenn.

XVII. KAFLI
Skráning líftrygginga.
112. gr.
Líftryggingarskrá.

    Líftryggingafélag skal halda skrá um þá líftryggingarsamninga sem það gerir. Í skránni skulu koma fram eftirfarandi atriði um hvern einstakan samning:
     a.      vátryggingarskilmálar sem gilda um samninginn,
     b.      réttindi sem ákveðin eru um greiðslur í framtíðinni,
     c.      iðgjaldagreiðslur og
     d.      hver sé vátryggingartaki og hver sé vátryggður.
    Hafi einhver öðlast rétt til vátryggingarinnar skal félagið samkvæmt kröfu skrá það. Ef rétturinn til vátryggingarinnar byggist á frjálsri ráðstöfun er það skilyrði skráningar að ráðstöfunin sé gerð af þeim sem samkvæmt skránni er vátryggingartaki. Félagið skal tilkynna um skráninguna til vátryggingartaka, vátryggða og til eiganda réttinda.
    Hafi áður verið skráður annar rétthafi má krefjast þess að sú skráning sé afmáð ef lagðar eru fram sannanir um að rétturinn hafi fallið brott eða að eigandi réttindanna samþykki það.
    Afturkallanlega tilnefningu rétthafa má skrá eða afmá, enda sé það gert að beiðni þess sem samkvæmt líftryggingarskrá er tilgreindur sem vátryggingartaki. Tilkynning vátryggingartaka skv. 1. mgr. 102. gr. telst beiðni um skráningu eða um að afmá hana.
    Sé bú vátryggingartaka tekið til opinberra skipta skal það skráð að kröfu skiptastjóra, sbr. 54. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991. Ef heimild til að leita nauðasamnings hefur verið veitt, eða ef bú vátryggingartaka hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta, skal skrá búið að kröfu tilsjónarmanns eða skiptastjóra, sbr. 43. og 87. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Hið sama á við ef vátryggingartaki er sviptur lögræði, sbr. 58. og 67. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997.
    Krafa um skráninguna skal færð í dagbók sama dag og hún kemur til félagsins og í skrána eins fljótt og kostur er.

113. gr.
Endurrit.

    Vátryggingartaki, maki hans, vátryggður, rétthafi samkvæmt óafturkallanlegri tilnefningu, veðhafi í vátryggingu eða í framveðrétti í vátryggingu, skiptastjóri eða tilsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum getur krafist endurrits af því sem skráð er í líftryggingarskrá.
    Endurrit skv. 1. mgr. skal aðeins hafa að geyma upplýsingar sem þýðingu hafa fyrir þann sem krefst þess. Að öðru leyti hefur félagið þagnarskyldu um efni líftryggingarskrár.
    Viðskiptaráðherra skal setja nánari reglur um efni endurrits samkvæmt þessari grein.

114. gr.
Ósamþýðanleg réttindi.

    Skráð réttindi yfir vátryggingu ganga framar réttindum sem ekki eru skráð í dagbók í síðasta lagi sama dag ef þau eru ósamþýðanleg. Séu fleiri réttindi skráð í dagbók sama dag eru þau jafnrétthá.
    Þrátt fyrir það sem segir í 1. mgr. ganga eldri réttindi framar yngri ef til hinna yngri er stofnað með frjálsri ráðstöfun og framsalshafi vissi eða mátti vita um hinn eldri rétt þegar réttur hans var skráður í dagbók.

115. gr.
Staða grandlauss eiganda réttinda gagnvart félaginu.

    Nú hefur maður í góðri trú fengið skráð réttindi sem reist eru á samningi. Getur þá félagið ekki haft uppi aðrar mótbárur gagnvart honum en þær sem reistar eru á upplýsingum þeim er koma fram í tilkynningu til rétthafa skv. 2. mgr. 112. gr. Félagið getur þó haft uppi mótbárur sem reistar eru á:
     a.      atvikum sem greinir í XIII. kafla og félagið vissi fyrst um eftir að tilkynning skv. 2. mgr. 112. gr. var send,
     b.      að iðgjaldagreiðsla sé vanefnd eftir að tilkynning skv. 2. mgr. 112. gr. var send, sbr. þó 98. gr., eða
     c.      að félagið hafi greitt gjaldfallna lífeyrisgreiðslu eða aðra greiðslu sem samkvæmt samningi átti að greiðast í tiltekinn fjölda ára þótt greiðslan hafi verið innt af hendi áður en tilkynning skv. 2. mgr. 112. gr. var send.

116. gr.
Greiðsla vátryggingarfjárhæðar til þess sem telst rétthafi.

    Hafi félagið í góðri trú greitt vátryggingarfjárhæðina eða endurkaupsverðið til þess sem skráður er rétthafi í líftryggingarskrá eða á rétt til vátryggingarfjárhæðarinnar skv. 100. gr. verður því ekki borið við gagnvart félaginu að annar hafi átt betri rétt en sá er greiðsluna fékk.

117. gr.
Mótbárumissir þess sem kann að eiga rétt.

    Nú hefur maður í góðri trú skráð réttindi er stofnað hefur verið til með samningi við þann sem samkvæmt líftryggingarskrá er vátryggingartaki og er þá ekki unnt að bera því við að réttindi hans byggist á ógildu framsali. Þetta á þó ekki við ef ógildingarástæðan er fölsun, ólögræði, geðveiki eða meiri háttar nauðung sem tilgreind er í 28. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936.

118. gr.
Ráðstafanir vátryggingartaka.

    Það sem segir í þessum kafla um ráðstafanir vátryggingartaka gildir einnig um ráðstafanir sem gerðar eru af þeim er eiga takmörkuð réttindi í vátryggingunni.

119. gr.
Reglugerðarheimild.

    Viðskiptaráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um líftryggingarskrá.

XVIII. KAFLI
Bótauppgjör, fyrning o.fl.
120. gr.
Upplýsingaskylda við uppgjör bóta.

    Sá sem hyggst hafa uppi kröfu gegn félaginu skal veita því upplýsingar og afhenda gögn sem hann á aðgang að og félagið þarf til þess að geta metið ábyrgð sína og greitt út vátryggingarfjárhæðina.
    Sá sem við tjónsuppgjör veitir rangar eða ófullnægjandi upplýsingar sem hann veit eða má vita að geta leitt til þess að greiddar verði út bætur sem hann á ekki rétt til glatar öllum rétti til krafna á hendur félaginu samkvæmt þessum og öðrum vátryggingarsamningum vegna sömu atvika. Sé háttsemin ekki alvarleg, hún varði einungis lítinn hluta kröfunnar eða ef sérstakar ástæður mæla með því getur hann þó fengið bætur að hluta. Ákvæði 93. gr. gildir eftir því sem við getur átt.
    Í þeim tilvikum sem greinir í 2. mgr. getur félagið sagt upp öllum vátryggingarsamningum við viðkomandi með viku fyrirvara. Ákvæði 3. mgr. 76. gr. gilda eftir því sem við getur átt.

121. gr.
Greiðsla bóta eða vátryggingarfjárhæðar.

    Krafa um bætur eða vátryggingarfjárhæð fellur í gjalddaga 14 dögum eftir að félagið átti þess kost að afla þeirra gagna sem þörf var á til þess að kanna ábyrgð sína og reikna út endanlega fjárhæð bóta. Eigi félagið að bæta örorku er heimilt í vátryggingarskilmálum að kveða nánar á um mat á örorkunni.
    Ef augljóst er áður en endanlegt uppgjör fer fram að félaginu ber að greiða að minnsta kosti hluta af bótum þeim sem gerð er krafa um skal það inna af hendi hlutagreiðslu sem því nemur.

122. gr.
Heimild félagsins til að skuldajafna.

    Félagið hefur einungis rétt til þess að skuldajafna við bótagreiðslur eða vátryggingarfjárhæðina vangoldnu iðgjaldi vegna þeirrar vátryggingar sem um ræðir eða annarra sem vátryggingartaki hefur hjá félaginu.
    Þegar greiða á bætur eða vátryggingarfjárhæð til annars en vátryggingartaka er félaginu aðeins heimilt að skuldajafna iðgjaldi vegna sama vátryggingarsamnings. Ef greiða á fleirum en einum ber að beita skuldajöfnuði hlutfallslega gagnvart þeim öllum.

123. gr.
Vextir.

    Félagið skal greiða almenna vexti af bótum eða vátryggingarfjárhæð þegar liðnir eru tveir mánuðir frá því að tilkynning um vátryggingaratburð var send því.
    Eigi félagið að bæta útlagðan kostnað stofnast skylda til greiðslu almennra vaxta fyrst tveimur mánuðum eftir að kostnaður hefur verið greiddur. Ef félagið á að greiða dagpeninga eða þess háttar skal greiða vexti að liðnum mánuði eftir að það tímabil er liðið sem félagið á að greiða dagpeninga fyrir. Ef félagið á að greiða tiltekna fjárhæð og gjalddagi er ákveðinn fyrir fram skal reikna vexti frá gjalddaga.
    Ef rétthafi bóta eða vátryggingarfjárhæðar vanrækir að veita upplýsingar eða afhenda gögn sem nefnd eru í 1. mgr. 120. gr. getur hann ekki krafist vaxta fyrir þann tíma sem líður vegna þess. Hið sama á við ef eigandi réttar gagnvart félaginu hafnar með óréttmætum hætti uppgjöri í heild eða að hluta.
    Nú er krafa um bætur miðuð við verðlag eftir að vátryggingaratburður varð og skal þá krafan bera vexti samkvæmt framansögðu sem miðast við það tímamark.
    Almennir vextir samkvæmt þessari grein skulu vera hinir sömu og greiða ber á skaðabætur samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Um dráttarvexti gilda reglur III. kafla þeirra laga.
    Vexti skal greiða þótt greiðsla félagsins í heild verði með því hærri en vátryggingarfjárhæð. Í vátryggingarskilmálum skal vekja athygli á rétti til vaxta samkvæmt þessari grein.

124. gr.
Frestur til að tilkynna um vátryggingaratburð í slysa-, sjúkra- eða
heilsutryggingum og til lögfræðilegra aðgerða.

    Sá sem rétt á til bóta samkvæmt slysatryggingu, sjúkratryggingu eða heilsutryggingu með eða án uppsagnarréttar glatar þeim rétti ef krafa er ekki gerð um bætur til félagsins innan árs frá því að hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á.
    Hafni félagið kröfu um bætur í heild eða að hluta glatar sá sem rétt á til bóta þeim rétti ef hann hefur ekki höfðað mál eða krafist meðferðar málsins fyrir úrskurðarnefnd skv. 141. gr. innan árs frá því að hann fékk skriflega tilkynningu um höfnunina. Í tilkynningu félagsins verður að koma fram hver lengd frestsins sé og hvernig honum verði slitið og lögfylgjur þess að það verði ekki gert. Lög um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, nr. 14/1905, gilda eftir því sem við getur átt um slit á frestum.

125. gr.
Fyrning.

    Krafa um vátryggingarfjárhæð samkvæmt höfuðstólstryggingum fyrnist á tíu árum og aðrar kröfur um bætur á fjórum árum. Fresturinn hefst við lok þess almanaksárs þegar sá er kröfuna á fékk nauðsynlegar upplýsingar um þau atvik sem krafa hans er reist á. Krafan fyrnist þó í síðasta lagi á 20 árum, en aðrar kröfur á 10 árum, eftir lok þess almanaksárs sem vátryggingaratburður varð. Hafi félagið vegna vátrygginga sem tilgreindar eru í 1. mgr. 124. gr. sent tilkynningu skv. 2. mgr. sömu greinar fyrnist krafan fyrst þegar sá frestur líður sem þar er tilgreindur.
    Krafa samkvæmt lífeyristryggingu fyrnist þegar liðin eru tíu ár frá þeim degi sem síðasta lífeyrisgreiðsla var innt af hendi. Hafi ekki verið inntar af hendi neinar greiðslur hefst fresturinn á þeim degi er rétthafinn gat krafist fyrstu greiðslu. Krafa um gjaldfallnar greiðslur fyrnist auk þess að liðnum fjórum árum frá gjalddaga.
    Að öðru leyti gilda reglur laga um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, nr. 14/1905. Frestur sá sem tilgreindur er í 3. málsl. 1. mgr. framlengist þó ekki skv. 15. gr. þeirra laga.

XIX. KAFLI
Sérstakar reglur um hópvátryggingar.
126. gr.
Tengsl við önnur ákvæði laganna.

    Ef ekki leiðir annað af reglum þessa kafla gilda aðrar reglur þessa hluta laganna einnig um hópvátryggingar að því leyti sem við getur átt.

127. gr.
Efni hópvátryggingarsamnings.

    Í samningi um hópvátryggingu skal eftirfarandi koma fram:
     a.      greiðslur félagsins samkvæmt samningnum,
     b.      hvort heimilt sé að áskilja sér rétt til að vera ekki þátttakandi í hópnum,
     c.      hverjir séu eða geti orðið þátttakendur í hópnum,
     d.      hvernig bera eigi sig að til þess að verða þátttakandi í hópnum, áskilja sér rétt til þess að verða það ekki eða hætta þátttöku í hópnum,
     e.      hvort haldin skuli skrá yfir þátttakendur, og ef svo er, hvort skráin skuli haldin af vátryggingartaka eða félaginu,
     f.      hvort iðgjaldið skuli greiðast félaginu af vátryggingartaka eða hverjum einstökum þátttakanda,
     g.      skyldur vátryggingartaka í tengslum við tilkynningar til eða frá þátttakendum,
     h.      hver eigi kröfu á vátryggingarfjárhæðinni ef vikið er frá reglum 100. gr.,
     i.      hvaða skilyrði verða að vera fyrir hendi til þess að ábyrgð félagsins hefjist og henni verði haldið við og
     j.      heimildir þátttakenda til þess að ráðstafa rétti sínum samkvæmt vátryggingarsamningi, sbr. 137. og 138. gr.
    Samningur um hóplífeyristryggingu skal kveða á um hvort hagnaður af henni renni til vátryggingartaka eða þátttakendanna.

128. gr.
Upplýsingar um vátrygginguna.

    Félagið og vátryggingartaki skulu tryggja með fullnægjandi hætti að þeir sem eru eða geta orðið þátttakendur í hópnum fái upplýsingar um atvik sem nefnd eru í 127. gr. og um viðbótarvátryggingar sem gæti verið heppilegt fyrir þá að afla sér. Upplýsingar þessar skal gefa þegar hópvátryggingu hefur verið komið á og síðar er efni standa til. Ef skilmálarnir koma ekki fram í vátryggingarsamningnum skal einnig upplýsa viðkomandi um þá.

129. gr.
Vátryggingarskírteini.

    Sé haldin skrá skv. e-lið 1. mgr. 127. gr. um þátttakendur í hópnum skal sá sem heldur skrána án ástæðulauss dráttar sjá til þess að hver sá sem verður þátttakandi fái vátryggingarskírteini eða staðfest afrit þess og þá skilmála sem um vátrygginguna gilda.
    Nú hefur maður fengið vátryggingarskírteini eða staðfest afrit þess og er þá hvorki unnt að bera því við gegn honum að hann uppfylli ekki skilyrði til þess að vera þátttakandi í hópnum sem vátrygging tekur til, né að hann eigi ekki rétt á þeim greiðslum sem fram koma í skírteininu. Þetta gildir þó ekki ef það leiðir skýrlega af vátryggingarskírteini að hann uppfylli ekki skilyrðin eða eigi ekki rétt á greiðslunum. Þetta á heldur ekki við ef félagið getur losnað úr ábyrgð í heild eða að hluta samkvæmt reglum 83. gr. eða ef það hefur sent aðvörun um slit vátryggingarinnar eða breytingu á skilmálum skv. 131. eða 133. gr.

130. gr.
Upphaf ábyrgðar félagsins.

    Sé ekki um annað samið eða leiði af atvikum hefst ábyrgð félagsins þegar samningurinn er gerður.
    Fyrir þann sem síðar verður þátttakandi í hópnum telst upphaf ábyrgðar félagsins vera þegar send er tilkynning um aðild hans samkvæmt samningnum eða greitt iðgjald fyrir hann eða, sé tilkynningar ekki krafist, þegar hann uppfyllir skilyrði þess að vera þátttakandi.
    Ákvæði 4. mgr. 74. gr. gildir eftir því sem við getur átt.

131. gr.
Lok vátryggingarinnar.

    Þegar þátttakandi í hópi sem nýtur hópvátryggingar, og skrá er haldin yfir, hættir í hópnum fellur vátrygging niður að því er hann varðar í fyrsta lagi 14 dögum eftir að félagið eða vátryggingartaki sendir honum skriflega tilkynningu. Í hópvátryggingu þar sem ekki er haldin skrá yfir þátttakendur í hópnum, eða þegar skrifleg tilkynning er ekki send, fellur vátryggingin fyrst niður tveimur mánuðum eftir að þátttakandinn hætti í hópnum. Verði vátryggingaratburður sem félagið ber ábyrgð á skv. 1. eða 2. málsl. getur það dregið frá bótum að því leyti sem hann nýtur sambærilegrar vátryggingar og fær bætur samkvæmt henni.
    Ef vátryggingartaki eða félagið segir upp eða endurnýjar ekki vátrygginguna eða ef ábyrgð félagsins fellur niður vegna vangreiðslu vátryggingartaka á iðgjaldi skal þátttakendum í hópnum tilkynnt það skriflega eða með öðrum fullnægjandi hætti. Fyrir hvern einstakan þátttakanda fellur vátryggingin niður í slíkum tilvikum í fyrsta lagi einum mánuði eftir að tilkynning er send eða hann fékk með öðrum hætti vitneskju um atvik. Ákvæði 3. málsl. 1. mgr. gildir eftir því sem við getur átt.
    Ákvæði þessarar greinar gilda ekki um vátryggingu sem samkvæmt efni sínu er einungis tímabundin.

132. gr.
Réttur þátttakanda til að viðhalda líftryggingu.

    Þegar hóplíftryggingu lýkur hafa þátttakendur í hópnum, hver um sig, rétt til þess að halda áfram vátryggingunni með einstaklingsbundnum iðgjaldaútreikningi án þess að veita nýjar heilsufarsupplýsingar. Sama rétt hefur þátttakandi sem af öðrum ástæðum en vegna aldurs hættir í hópi þeim sem vátrygging tekur til. Viðkomandi skal með skriflegum eða með öðrum fullnægjandi hætti tilkynnt um möguleika hans til þess að halda vátryggingunni áfram. Vilji þátttakandinn hagnýta sér réttinn skal hann gera það innan þriggja mánaða eftir að ábyrgð félagsins hefur fallið niður.

133. gr.
Breyting á skilmálum.

    Félagið getur gert fyrirvara um að það megi breyta skilmálum og iðgjaldi á vátryggingartímanum.
    Ef skilmálum vátryggingarinnar verður breytt með þeim hætti að það rýri stöðu þátttakendanna gilda reglur 2. mgr. 131. gr.

134. gr.
Tilkynningar til þátttakenda og frá þeim.

    Nú er tilkynning vegna vátryggingar send vátryggingartaka og er þá ekki unnt að bera fyrir sig að hún hafi ekki komið til félagsins. Þetta á þó ekki við ef þátttakandinn hafði ástæðu til að ætla að tilkynningin hefði ekki komið til félagsins og hann átti þess kost að tilkynna því um það.
    Hafi vátryggingartaka verið skylt samkvæmt þessum lögum eða samningi að tilkynna þátttakendum í hópnum eitthvað en gerir það ekki hefur athafnaleysi hans sömu réttaráhrif gagnvart þeim og ef félagið hefði sýnt það af sér. Þetta gildir þó ekki ef þátttakandinn þekkti af öðrum ástæðum til efnis tilkynningarinnar og sanngjarnt má telja að hann hafi átt þess kost að fara eftir því.

135. gr.
Líftrygging án upplýsinga um áhættuna.

    Í hóplíftryggingum er unnt, þrátt fyrir ákvæði 86. gr., að semja um að félagið beri ekki ábyrgð á óvinnufærni sem kemur til innan tveggja ára frá því að ábyrgð félagsins hófst og rakin verður til sjúkdóms eða meins sem þátttakandinn hafði á því tímamarki og ætla má að hann hafi vitað um. Hið sama á við um ábyrgð sem tengist meðvátryggðum er ekki hefur afhent heilsufarsyfirlýsingu. Ákvæði 1. málsl. skal einnig beita um sérstakar greiðslur sem falla til eftirlifandi vegna andláts þátttakandans, en þó með þeim hætti að ekki má semja um að félagið sé laust undan ábyrgð lengur en eitt ár frá upphafi ábyrgðarinnar.

136. gr.
Réttur til vátryggingarfjárhæðar sem fellur til við andlát þátttakanda.

    Í hópvátryggingu, sem ekki hefur framfærslu að markmiði, má semja um að vátryggingartaki öðlist rétt til vátryggingarfjárhæðarinnar.
    Sé tekin hópvátrygging til þess að tryggja líf starfsmanna mega vinnuveitandi og starfsmaður eða stéttarfélag hans semja um hvaða ákvæði um rétt til vátryggingarfjárhæðar við andlát þátttakandans skuli taka inn í vátryggingarsamninginn. Hið sama á við þegar félag eða samtök hafa tekið hóplíftryggingu fyrir félagsmenn sína.
    Sé ekki samið um það sem greinir í 1. og 2. mgr. og þátttakandi í hópi hefur ekki tilnefnt rétthafa, sbr. 137. gr., gilda reglur 2.–4. mgr. 100. gr. með sama hætti um erfingja hans.

137. gr.
Tilnefning rétthafa.

    Í hópvátryggingu þar sem þátttakendurnir tilkynna sig sjálfir til félagsins með ósk um vátryggingu getur hver þeirra um sig tilnefnt rétthafa.
    Hið sama á við í öðrum hópvátryggingum ef ekki er annað ákveðið í vátryggingarsamningi.
    Við beitingu reglna 101.–105. gr. skulu ákvæði sem beinast að vátryggingartaka gilda með sama hætti um þátttakendur í hópvátryggingu.

138. gr.
Framsal og veðsetning.

    Nú er krafa þátttakanda á hendur félaginu ekki fallin í gjalddaga og getur hann þá ekki framselt rétt sinn. Rétt samkvæmt hóplíftryggingu (höfuðstólstryggingu) má veðsetja, enda sé ekki annað ákveðið í samningnum.

139. gr.
Riftun iðgjaldagreiðslu .

    Við beitingu reglna 1. mgr. 111. gr. skal greiðsla iðgjalds fyrir lífeyristryggingu ekki teljast ósanngjörn að því marki sem hún kom eða gat komið til lækkunar við útreikning á tekjuskattsstofni vátryggingartaka.

140. gr.
Skráning vátryggingar.

    Við hópvátryggingu er félaginu ekki skylt að skrá þá sem eru þátttakendur í hópnum í líftryggingarskrá nema um það sé samið.
    Nú sýnir maður fram á þátttöku í hópi sem nýtur hópvátryggingar þar sem þátttakendur eru ekki skráðir og getur hann þá krafist endurrits úr skránni.
    Viðskiptaráðherra getur með reglugerð ákveðið að ákvæðum 113.–115. gr. skuli beitt um skrá yfir þátttakendur hópvátryggingar sem haldin er af vátryggingartakanum.

III. HLUTI
Almenn ákvæði.
XX. KAFLI
Ágreiningur o.fl.
141. gr.
Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum.

    Nú er í lögum þessum tekið fram að skjóta megi ágreiningi til úrskurðarnefndar og er með því átt við úrskurðarnefnd í vátryggingamálum sem starfar samkvæmt samningi milli viðskiptaráðherra, Neytendasamtakanna og Sambands íslenskra tryggingafélaga, svo og samþykktum fyrir hana. Formaður nefndarinnar skal fullnægja skilyrðum til þess að vera dómari skv. 2. mgr. 12. gr. laga um dómstóla, nr. 15/1998.
    Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum skal kveða upp rökstudda úrskurði og verður þeim ekki skotið til stjórnvalda, en heimilt er aðilum máls að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti.
    Viðskiptaráðherra skal annast birtingu samþykkta fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum í B-deild Stjórnartíðinda.
    Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum skal vistuð hjá Fjármálaeftirlitinu.

142. gr.
Útreikningur frests.

    Við útreikning á fresti, sem talinn er í dögum, skal ekki telja með þann dag er fresturinn byrjar að líða. Þó skal telja með þann dag sem ráðstöfun er fresturinn varðar fyrst verður gerð eða má síðast vera gerð.
    Frestur, sem reiknaður er í vikum, mánuðum eða árum, rennur út á þeim degi í síðustu viku, mánuði eða ári sem eftir nafni sínu eða tölu svarar til þess dags sem hann byrjaði að líða. Ef sá dagur er ekki í þeim mánuði sem um ræðir skal fresturinn renna út á síðasta degi mánaðarins.
    Ef frestur til aðgerða rennur út á laugardegi, helgidegi eða degi þegar samkvæmt lögum er frídagur framlengist hann til næsta virka dags þar á eftir.

XXI. KAFLI
Val á löggjöf.
143. gr.
Almenn ákvæði um val á löggjöf um vátryggingarsamninga.

    Þegar lög þessi eða lög um vátryggingastarfsemi kveða á um að löggjöf ríkis skuli beitt er átt við að réttarreglur þess ríkis gildi, að frátöldum reglum um val á löggjöf um vátryggingarsamninga.
    Ef ríki er meira en ein svæðisbundin eining, sem hver um sig hefur eigin réttarreglur um skuldbindingar samkvæmt samningum, skal litið á hverja svæðisbundna einingu sem eitt ríki þegar ákveðið er hvaða löggjöf skuli beitt.
    Ófrávíkjanlegum réttarreglum, sem gilda hér á landi, skal beitt enda þótt löggjöf annars ríkis sé að öðru leyti lögð til grundvallar vátryggingarsamningnum.
    Þegar vátrygging er lögboðin gilda um vátryggingarsamninginn ófrávíkjanlegar réttarreglur þess ríkis sem leggur á vátryggingarskylduna.
    Ólögfestum alþjóðlegum reglum um val á löggjöf, er eiga við um skuldbindingar samkvæmt samningum, skal því aðeins beitt að þær stríði ekki gegn ákvæðum þessara laga.

144. gr.
Val á löggjöf í líftryggingum.

    Lög þess ríkis þar sem skuldbindingin komst á gilda um vátryggingarsamning um líftryggingu. Vátryggingafélag eða sá sem gerir samninginn fyrir þess hönd og vátryggingartaki geta þó samið um að löggjöf heimaríkis vátryggingafélagsins gildi um skuldbindinguna, enda heimili löggjöf þess ríkis slíka samninga, sbr. þó 3. og 4. mgr. 143. gr.
    Þegar vátryggingartaki líftryggingar er einstaklingur og ekki ríkisborgari þess ríkis þar sem hann hefur að jafnaði aðsetur geta aðilar valið lög þess ríkis þar sem ríkisborgararétturinn er.
    Þegar vátryggingartaki líftryggingar er lögaðili og skuldbindingin komst á hér á landi en hinn líftryggði hefur að jafnaði aðsetur í öðru ríki eða er ríkisborgari þess ríkis geta aðilar einnig valið löggjöf þess ríkis.
    Þegar skuldbindingin komst á annars staðar en á Íslandi og lög þess ríkis leyfa víðtækari samningsrétt en 1. og 2. mgr. geta aðilar valið löggjöf að svo miklu leyti sem löggjöf þess ríkis leyfir.

145. gr.
Val á löggjöf í öðrum vátryggingum.

    Í öðrum frumtryggingum en líftryggingum gildir um vátryggingarsamninginn löggjöf þess ríkis þar sem vátryggingaráhættan er þegar það er einnig ríkið þar sem vátryggingartakinn hefur að jafnaði aðsetur. Vátryggingafélag eða sá sem gerir samninginn fyrir þess hönd og vátryggingartaki geta þó samið um að löggjöf heimaríkis vátryggingafélagsins gildi um skuldbindinguna, enda heimili löggjöf þess ríkis slíka samninga, sbr. þó 3. og 4. mgr. 143. gr.
    Þegar vátryggingaráhættan er annars staðar en þar sem vátryggingartaki hefur að jafnaði aðsetur geta aðilar valið hvort heldur er um vátryggingarsamninginn, löggjöf þess ríkis þar sem vátryggingaráhættan er eða löggjöf þess ríkis þar sem vátryggingartakinn hefur aðsetur að jafnaði.
    Þegar vátryggingartaki hefur með höndum atvinnustarfsemi og vátryggingaráhættan vegna hennar er í fleiri en einu ríki og vátryggingarsamningurinn nær til fleiri en einnar tegundar áhættu geta aðilar valið um löggjöf þessara ríkja eða löggjöf þess ríkis þar sem vátryggingartakinn hefur aðsetur að jafnaði.
    Þegar vátryggingaráhættan er annars staðar en á Íslandi og lög þess ríkis leyfa víðtækari samningsrétt en skv. 2. og 3. mgr. geta aðilar valið löggjöf að svo miklu leyti sem löggjöf þess ríkis leyfir.
    Þegar áhættan, sem samningurinn tekur til, takmarkast við tjónsatburði sem verða í öðru ríki en því þar sem vátryggingaráhættan er geta aðilar ávallt valið löggjöf þess ríkis þar sem tjónsatburðirnir verða.
    Þegar áhætta í vátryggingum er stóráhætta, sbr. 8. gr. laga um vátryggingastarfsemi, geta aðilar ávallt valið þá löggjöf sem beita skal um vátryggingarsamninginn, sbr. þó 3. og 4. mgr. 143. gr.
    Hafi aðilar samnings um aðra vátryggingu en líftryggingu ekki samið um val á löggjöf svo að gilt sé og val á löggjöf leiðir ekki af ákvæðum þessara laga gilda réttarreglur þess ríkis sem best telst eiga við um samninginn samkvæmt þessari grein. Þegar ekkert annað er tekið fram skal lagt til grundvallar að ríkið þar sem vátryggingaráhættan er eigi best eigi við um samninginn.
    Þegar valið hefur verið skv. 7. mgr. en annað ríki meðal þeirra sem til greina geta komið telst eiga betur við um hluta samningsins má velja löggjöf þess ríkis um þann hluta samningsins þegar sérstakar ástæður mæla með því.

IV. HLUTI
XXII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
146. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2006. Þau skulu gilda um alla nýja vátryggingarsamninga sem gerðir eru frá og með þeim degi, alla vátryggingarsamninga, sem eru endurnýjaðir eða framlengdir frá og með þeim degi, svo og um alla aðra vátryggingarsamninga sem eru í gildi á þeim degi.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954.

147. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

    Eftirtaldar greinar og málsgreinar í lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, falla úr gildi er lög þessi öðlast gildi: 56. gr., 1. og 2. mgr. 57. gr., 2. og 3. mgr. 58. gr. og 59.–63. gr.