Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 451. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1404  —  451. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um rannsókn flugslysa.

Frá samgöngunefnd.


    
    Nefndin ákvað að taka málið til frekari umfjöllunar eftir að því hafði verið vísað til 3. umræðu.
    Nefndin ræddi á fundi sínum tvö atriði sem hún fékk fyrirspurnir um eftir að hún hafði mælt fyrir nefndaráliti í 2. umræðu. Það fyrra var verkaskipting innan rannsóknarnefndar flugslysa og samstarf nefndarinnar og forstöðumanns og þá sérstaklega hvað varðar störf á slysavettvangi og skýrslugerð. Það var niðurstaða nefndarinnar að ákvæði frumvarpsins eins og þau eru eftir 2. umræðu séu nægilega skýr hvað þetta varðar og veiti rannsóknarnefndinni jafnframt nokkurt svigrúm til að móta störf sín. Þannig útiloki ákvæði frumvarpsins ekki að nefndarmenn fari á vettvang og taki þátt í rannsókn þó svo að forstöðumaður gegni starfi rannsóknarstjóra.
    Síðara atriðið varðar vörslu gagna. Nefndin leggur til breytingu á frumvarpinu þannig að rannsóknarnefnd flugslysa verði ekki heimilt að láta loftfar eða hluta þess af hendi nema að teknu tilliti til rannsóknarhagsmuna sinna og annarra, svo sem lögreglu. Nefndin leggur ekki til ákveðin tímamörk varðandi vörslu þessara gagna heldur vill nefndin með breytingunni leggja áherslu á að gögnum verði ekki eytt eða þau látin af hendi nema að vel athuguðu máli.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:

    1. mgr. 15. gr. orðist svo:
    Rannsóknarnefnd flugslysa ákveður að teknu tilliti til rannsóknarhagsmuna sinna og lögreglu, sbr. 2. mgr. 2. gr., sem og annarra, hvenær hún lætur af hendi loftfar eða hluta þess, svo og önnur gögn sem hún hefur tekið í sína vörslu.

    Jóhann Ársælsson skrifar undir álitið með fyrirvara og áskilur sér rétt til að leggja fram og styðja breytingatillögur við málið.
    Kristinn H. Gunnarsson og Ásta R. Jóhannesdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. apríl 2004.



Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Guðjón Hjörleifsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Birkir J. Jónsson.


Jóhann Ársælsson,


með fyrirvara.


Einar Már Sigurðarson.



Guðjón A. Kristjánsson.