Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 767. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1423  —  767. mál.
Svarsjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Lúðvíks Bergvinssonar um AVS-rannsóknasjóð í sjávarútvegi.

     1.      Hvaða almennu skilyrði eru sett fyrir úthlutun styrkja úr AVS-rannsóknasjóði í sjávarútvegi?
    AVS-rannsóknasjóður gerir tillögur til sjávarútvegsráðherra um styrki til rannsóknarverkefna sem auka verðmæti sjávarfangs. Styrkir eru veittir til verkefna sem taka á öllum þáttum sjávarútvegs og fiskeldis. Styrkir AVS-rannsóknasjóðs eru til hagnýtra rannsókna og ætlaðir einstaklingum, fyrirtækjum, rannsókna-, þróunar- og háskólastofnunum.
    Stjórn sjóðsins forgangsraðar tillögum um styrki til rannsókna í þágu verkefna, sem auka verðmæti sjávarfangs og bæta samkeppnishæfni sjávarútvegsins, eftir umfjöllun faghópa.

     2.      Hversu margir styrkir hafa verið veittir úr sjóðnum frá stofnun hans og hvernig skiptast þeir eftir kjördæmum?
    Á árinu 2003 fól sjávarútvegsráðherra stjórn AVS-rannsóknasjóðs að gera tillögur um ráðstöfun nokkurra fjárlagaliða til verkefna sem ætluð voru til að auka verðmæti sjávarfangs en sjóðurinn hafði ekki sjálfstæðar fjárveitingar það ár.
    Á fjárlögum ársins 2004 er í fyrsta sinn að finna sérstaka fjárveitingu til sjóðsins. AVS- rannsóknasjóður hefur auglýst eftir umsóknum um styrki til verkefna á verkefnasviði sjóðsins. Umsóknir eru nú til umfjöllunar faghópa sem starfa á vegum sjóðsins.

     3.      Hvaða fjárhæðum eða öðrum verðmætum hefur verið úthlutað úr sjóðnum, sundurliðað eftir einstaklingum annars vegar og fyrirtækjum hins vegar?

    Sjávarútvegsráðherra fól stjórn AVS-rannsóknasjóðs að gera tillögur um ráðstöfun á aflaheimildum sem nema 500 lestum af óslægðum þorski sem ráðstafa skal til tilrauna með áframeldi á þorski í samráði við Hafrannsóknastofnunina, sbr. ákvæði til bráðabirgða XXXI í lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. AVS-rannsóknasjóður auglýsti eftir umsóknum og bárust 18 umsóknir. Eftirtaldir fengu úthlutun:

Úthlutun kvóta til áframeldis 2004.


Umsækjandi Heiti verkefnis tonn
Guðmundur Runólfsson hf. Þorskeldi 65
Veiðibjallan ehf. Þorskkvóti til áframeldis 5
Eskja hf. Almennar skráningar vegna föngunar og vinnslu á áframeldisþorski í sjókvíum 30
Síldarvinnslan hf. Áframeldi á þorski í Norðfirði, veiðitækni og vinnsla 30
Glaður ehf. Hringormasýking þorsks í áframeldi 10
Brim fiskeldi ehf. Áhrif stöðugrar lýsingar á vöxt og kynþroska áframeldisþorsks í sjókvíum 100
Álfsfell ehf. Lífslíkur og vöxtur þorsks eftir línu- og handfæraveiðar 10
Vopnfiskur ehf. Þróun og tilraunir á notkun eldisgildru 10
Hraðfrystihúsið Gunnvör hf. Áframeldi í Álftafirði árið 2004 100
Kví ehf. Tilraunir með sjókvíaeldi á þorski í Klettsvík og veiðar til áframeldis við Vestmannaeyjar 75
Oddi hf. Áhrif stærðarflokkunar á vöxt í áframeldi 10
Þórsberg hf. Áhrif stærðarflokkunar á vöxt þorsks í áframeldi 55
Samtals 500