Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 924. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1424  —  924. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 14/2004, um erfðafjárskatt.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Skúla Magnússon mag. jur., Steinunni Guðbjartsdóttur hdl. og Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti.
    Líkt og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu er það lagt fram í þeim tilgangi að taka af allan vafa varðandi lagaskil milli yngri og eldri laga um erfðafjárskatt, þ.e. laga nr. 14/2004 og laga nr. 83/1984.
    Í 21. gr. laga 14/2004 eru lagaskil miðuð við dánardag arfleifanda. Þannig segir skýrlega að nýju lögin taki til skipta á dánarbúum þeirra sem andast þann dag eða síðar auk þeirrar undantekningar að þau eru látin taka til búa þar sem heimild er til setu í óskiptu búi fari skipti á þeim búum fram eftir 1. apríl 2004. Þannig taldi nefndin við yfirferð á frumvarpi til laga um erfðafjárskatt sem samþykkt var sem lög nr. 14/2004 að gagnálykta mætti að hin eldri lög tækju til skipta á búum þeirra sem látist hefðu fyrir 1. apríl með þeirri undantekningu einni að um óskipt bú væri að ræða. Þannig ætti að fara með kröfu um erfðafjárskatt af búum þeirra sem létust fyrir 1. apríl eftir lögum nr. 83/1984, með síðari breytingum, þar sem arfláti hefði látist í tíð eldri laga.
    Eftir að lög nr. 14/2004 tóku gildi komu fram spurningar um hvort nægilega skýrt væri kveðið á um þennan skilning í lögunum sjálfum þar sem í 21. gr. laga nr. 14/2004 segir að lög nr. 83/1984, um erfðafjárskatt, með síðari breytingum, falli úr gildi frá sama tíma og nýju lögin taki gildi. Nefndin telur að meginástæða þessarar spurningar sé að í eldri lögunum miðast krafa um erfðafjárskatt ekki við dánardag arfleifanda heldur við lok skipta viðkomandi dánarbús og þá undirritun sýslumanns á erfðafjárskýrslu. Spurningar sem vöknuðu eftir gildistöku laga nr. 14/2004 sneru að greiðslu erfðafjárskatts af búum þeirra sem létust fyrir 1. apríl 2004 þar sem skiptum var ólokið og maki hafði ekki heimild til setu í óskiptu búi. Erfðafjárskattur á slík bú er innheimtur og miðaður við verðmæti bús við undirritun erfðafjárskýrslu og er mikilvægt að skýrt sé í lögum að þá skuli fara eftir ákvæðum eldri laga þó svo að undirritunin fari fram eftir 1. apríl 2004. Var þeirri spurningu varpað fram, m.a. í fjölmiðlum, hvort túlka mætti 21. gr. laga nr. 14/2004 þannig að engan erfðafjárskatt þyrfti að greiða í undantekningartilvikum. Þessi túlkun er ekki í samræmi við þann vilja sem stóð á bak við ákvæði 21. gr. laga nr. 14/2004, sbr. það sem segir hér framar.
    Frumvarpi þessu er því fyrst og fremst ætlað að koma til fyllingar gildistökuákvæði laga 14/2004 og telur nefndin ljóst að hér er ekki um efnisbreytingu að ræða.
    Í umræðu um málið í nefndinni kom fram athugasemd varðandi orðalag 3. málsl. 21. gr. laga nr. 14/2004 þar sem segir: „Lögin taka einnig til búskipta þeirra er hafa heimild til setu í óskiptu búi fari þau fram eftir gildistöku laganna.“ töldu nefndarmenn að þar hefði verið betra að segja í upphafi „lög þessi“ svo að skýrara væri að þar væri átt við lög nr. 14/2004 en ekki eldri lögin. Nefndin telur þó ekki ástæðu til að gera neinar breytingar vegna þessa enda megi vera ljóst af lestri málsliðarins og samhengi hans við greinina í heild sinni að þar sé átt við lög 14/2004 en ekki eldri lögin.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Gunnar Örlygsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.
    Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Valdimar L. Friðriksson skrifa undir álit þetta með fyrirvara og áskilja sér rétti til að koma fram með og styðja breytingatillögur við frumvarpið.

Alþingi, 16. apríl 2004.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Sigurður Kári Kristjánsson.Gunnar Birgisson.


Dagný Jónsdóttir.


Össur Skarphéðinsson,


með fyrirvara.Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Valdimar L. Friðriksson,


með fyrirvara.


Steingrímur J. Sigfússon.