Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 780. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1454  —  780. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 41/1999, um Háskóla Íslands.

Frá menntamálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Val Árnason og Hellen M. Gunnarsdóttur frá menntamálaráðuneyti, Pál Skúlason og Þórð Kristinsson frá Háskóla Íslands, Ólaf Proppé frá Kennaraháskóla Íslands, Ólaf Búa Gunnlaugsson frá Háskólanum á Akureyri og Stefaníu Katrínu Karlsdóttur frá Tækniháskóla Íslands. Umsagnir bárust um málið frá Háskóla Íslands, hjúkrunarfræði-, heimspeki-, lyfjafræði-, raunvísinda og viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Félagi prófessora og Félagi háskólakennara.
    Í frumvarpinu eru lagðar til þrenns lags breytingar á gildandi háskólalögum. Í fyrsta lagi er lagt til að skipaðar verði sérstakar dómnefndir til þriggja ára í senn til að dæma um hæfi umsækjenda um kennara- og sérfræðingsstörf. Þessi skipan kæmi í stað núverandi tilhögunar þar sem sérstök dómnefnd er skipuð í hvert sinn sem ráðning fer fram innan veggja Háskóla Íslands. Í öðru lagi er lagt til að háskólaráði verði veitt heimild til að undanþiggja auglýsingu störf sem byggjast á sérstökum tímabundnum styrkjum, störf sem tengjast sérstökum tímabundnum verkefnum, störf sem nemendur gegna við háskólann samhliða rannsóknartengdu framhaldsnámi og störf við háskólann sem tengjast tilteknu starfi utan hans á grundvelli samstarfssamnings. Í þriðja lagi er lagt til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða um að við yfirtöku Háskóla Íslands á verkefnum Norrænu eldfjallastöðvarinnar verði starfsmönnum hennar boðin sambærileg störf innan háskólans og þeir höfðu áður. Samningaviðræður standa nú yfir um samruna Norrænu eldfjallastöðvarinnar og jarðvísindahluta Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands.
    Við meðferð málsins í nefndinni kom í ljós að háskólarektor hafði farið þess á leit við menntamálaráðherra að sá hluti frumvarpsins sem tekur til dómnefnda yrði ekki afgreiddur á Alþingi að svo stöddu. Þetta gerði rektor á grundvelli samþykktar háskólaráðs sem taldi að málið hefði ekki hlotið þá umfjöllun innan háskólans sem nauðsynleg væri og að taka þyrfti það fyrir á háskólafundi. Að höfðu samráði við deildarforseta einstakra deilda háskólans sendi háskólarektor nefndinni síðan tillögu að breytingu á frumvarpinu sem var í aðalatriðum þess efnis að í stað þess að kveðið væri skilyrðislaust á um að rektor skipaði dómnefndir til að dæma um hæfi umsækjenda um kennara- og sérfræðingsstörf til þriggja ára í senn fyrir hvert af meginfræðasviðum háskólans væri honum jafnframt heimilt að skipa dómnefndir til þriggja ára í senn fyrir hvert af meginfræðasviðum háskólans eða einstakar deildir eða stofnanir. Í dómnefndirnar sem skipaðar eru á þennan hátt skal tilnefndur einn maður af háskólaráði, sem er jafnframt formaður nefndarinnar, og annar af menntamálaráðherra, sem er varaformaður nefndarinnar. Þriðji nefndarmaðurinn skal vera sérfræðingur, tilnefndur af viðkomandi deild eða stofnun, sem skipaður er sérstaklega til þess að fara með hvert ráðningarmál.


Prentað upp.

    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr. Efnismálsgrein a-liðar orðist svo:
    Rektor skipar þriggja manna dómnefnd til þess að dæma um hæfi umsækjenda um kennara- og sérfræðingsstörf. Háskólaráð tilnefnir einn nefndarmann, menntamálaráðherra annan og deild sú eða stofnun sem starfið er við hinn þriðja og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar. Rektor er heimilt að skipa dómnefndir til þriggja ára í senn, fyrir hvert af meginfræðasviðum háskólans eða einstakar deildir eða stofnanir. Háskólaráð tilnefnir þá einn mann í hverja dómnefnd og menntamálaráðherra annan. Skal sá sem tilnefndur er af háskólaráði vera formaður dómnefndar og sá sem tilnefndur er af menntamálaráðherra varaformaður. Varamenn þeirra skulu skipaðir með sama hætti. Þriðji nefndarmaðurinn er sérfræðingur, tilnefndur af viðkomandi deild eða stofnun, sem skipaður er sérstaklega til þess að fara með hvert ráðningarmál. Í dómnefndir má skipa þá eina sem lokið hafa meistaraprófi úr háskóla eða jafngildu námi.

    Ísólfur Gylfi Pálmason, Mörður Árnason og Sigurður Kári Kristjánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 21. apríl 2004.Gunnar Birgisson,


form., frsm.


Kjartan Ólafsson.


Björgvin G. Sigurðsson.Dagný Jónsdóttir.


Valdimar L. Friðriksson.


Kolbrún Halldórsdóttir.