Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 613. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1473  —  613. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 58/2000, um yrkisrétt, með síðari breytingum.

Frá landbúnaðarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Norðmann frá landbúnaðarráðuneyti, Þorstein Tómasson og Hólmgeir Björnsson frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Umsagnir bárust frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, Skógrækt ríkisins, Vísinda- og tækniráði, tækninefnd, Bændasamtökum Íslands, Félagi umboðsmanna vörumerkja- og einkaleyfa, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, erfðanefnd landbúnaðarins, Náttúrufræðistofnun Íslands og Landvernd.
    Með frumvarpinu er ætlunin að lögfesta ítarlegri og skýrari ákvæði um hugverkarétt á sviði plöntukynbóta, svokallaðan yrkisrétt, sem felur í sér einkarétt til hagnýtingar á yrki í atvinnuskyni. Ástæður þessara breytinga má rekja til innleiðingar á hluta tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 98/44 frá 6. júlí 1998, um lögvernd uppfinninga í líftækni, sem varða plöntuyrki. Tilskipunin var að mestu innleidd á yfirstandandi þingi með breytingum á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi, nema ákvæði um plöntuyrki. Um efni þeirra er í flestum tilvikum vísað til ákvæða reglugerðar Evrópuráðsins um vernd plöntuafbrigða nr. 2100/94/EB, og tekur frumvarpið mið af því. Þá eru einnig lagðar til breytingar í frumvarpinu sem tengjast umsókn Íslands um aðild að alþjóðasamningi um vernd nýrra yrkja, UPOV-samningnum.
    Helstu breytingar sem frumvarpið felur í sér eru þær að skilgreiningar á grundvallarhugtökum verða samræmdar reglum aðildarríkja Evrópusambandsins og þeirra sem eiga aðild að EES-samningnum og verða því ítarlegri. Þá eru tekin upp ákvæði um undanþágu frá greiðslu nytjaleyfisgjalds fyrir smábændur samkvæmt nánari skilgreiningu í frumvarpinu og ítarlegri reglur um nauðungarleyfi.
    Nefndin leggur til breytingar á frumvarpinu varðandi skilyrði fyrir veitingu nauðungarleyfis, þ.e. varðandi samanburð á hagsmunum milli einkaleyfishafa og yrkishafa, og eru þær gerðar með hliðsjón af áðurnefndum breytingum á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi, og til samræmis við tilskipunina og norræna einkaleyfalöggjöf. Nauðungarleyfið sem um ræðir er víxlleyfi milli einkaleyfishafa og yrkisréttarhafa, sem þýðir að ef yrkishafi fer fram á að fá nauðungarleyfi á einkaleyfi samkvæmt lögum um einkaleyfi vegna hagnýtingar á yrkisrétti sínum fær einkaleyfishafi nauðungarleyfi á yrkisréttinum á móti eða hlut í hagnaði. Nefndin telur því nauðsynlegt að samræma reglur laganna á þann hátt að nauðungarleyfi á yrkisrétti samkvæmt frumvarpi þessu skuli aðeins veitt ef einkaleyfishafi sýnir fram á að uppfinningin sé tæknilega mikilvægt framfaraspor og hafi verulegan ábata í för með sér í samanburði við verndaða yrkið.
    Þá leggur nefndin til breytingar á hugtökum. Lagt er til að í stað orðsins uppskeruefni, sem er þýðing á hugtaki í reglugerð (e. harvested material of the variety, d. udbytte af sorten) komi orðið uppskera og í stað hugtaksins stofnþættir yrkis komi yrkishlutar.
    Loks leggur nefndin til að bætt verði ákvæði við frumvarpið þar sem fram kemur að það sé til innleiðingar á ákvæðum tilskipunar 98/44/EB, um lögvernd uppfinninga í líftækni, þ.e. ákvæðum um plöntuyrki. Ákvæði frumvarpsins sem byggjast á tilskipuninni eru skilgreiningar í 2. gr., 9. gr. sem kveður á um undanþágu smábænda frá greiðslu nytjaleyfisgjalds, en þeir eru nánar skilgreindir í reglugerð EB um vernd plöntuafbrigða, og loks ákvæðin í 10. gr. um nauðungarleyfi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Einar Oddur Kristjánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    

Alþingi, 20. apríl 2004.Drífa Hjartardóttir,


form., frsm.


Magnús Stefánsson.


Þórunn Sveinbjarnardóttir,


með fyrirvara.Jón Bjarnason.


Guðmundur Hallvarðsson.


Dagný Jónsdóttir.Anna Kristín Gunnarsdóttir,


með fyrirvara.


Önundur Björnsson,


með fyrirvara.