Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 786. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1502  —  786. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

Frá minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Með frumvarpinu er lagt til að gjald útgerða til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins verði lagt af. Frumvarp þetta ásamt frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald, sbr. 787. mál yfirstandandi löggjafarþings, þar sem lagt er til að veiðieftirlitsgjald falli niður frá 1. september nk. er hluti af þeirri ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna að taka upp veiðigjald. Ákvörðun stjórnarflokkanna um upptöku veiðigjalds var kynnt sem niðurstaða af sáttaleit þeirra í deilunum um stjórn fiskveiða.
    Þessar deilur hafa skekið þjóðina og þennan mikilvæga atvinnuveg árum saman. Umræður um sjávarútvegsmál í aðdraganda síðustu kosninga sýndu svo að ekki varð um villst að þessi tilraun stjórnarflokkanna til að ná betri friði um málið hefur gersamlega mistekist. Foringjum stjórnarflokkanna er nú orðið vel ljóst að veiðigjaldsleiðin er ekki leið til sátta við þjóðina um málið. Meðhöndlun þeirra á þeim tveim frumvörpum sem nú eru til meðferðar á Alþingi er til marks um þetta. Sjávarútvegsráðherra gerði við fyrstu umræðu málanna í þinginu því engin skil hvaða fjárhæðir gætu komið í ríkissjóð í formi veiðigjalds í stað þeirra gjalda sem nú á að leggja af. Ekki tókst þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir minni hlutans við meðferð málsins í sjávarútvegsnefnd að fá fram upplýsingar um það atriði.
    Nefndarmenn fengu því engar upplýsingar um hvaða áhrif glataðar tekjur vegna Þróunarsjóðs sjávarútvegsins og af veiðieftirlitsgjaldi hafa á heildargreiðslur sjávarútvegsins vegna þjónustu hins opinbera og þar með afkomu ríkissjóðs.
    Verði frumvarpið um Þróunarsjóð sjávarútvegsins að lögum má gera ráð fyrir að innheimta á þróunarsjóðsgjaldi á aflamark lækki um 510 millj. kr. frá áætlun fjárlaga sem gerði ráð fyrir 650 millj. kr. innheimtu fyrir árið 2004. Einnig er gert ráð fyrir að tekjur sjóðsins vegna þróunarsjóðsgjalds á skip lækki um 2 millj. kr. frá áætlun fjárlaga sem gerði ráð fyrir 92 millj. kr. innheimtu. Verði frumvarpið um afnám veiðieftirlitsgjaldsins að lögum lækka tekjur ríkissjóðs af veiðieftirlitsgjaldi um 270 millj. kr. frá áætlun fjárlaga sem gerði ráð fyrir 335 millj. kr. fyrir árið 2004.
    Heildarniðurstaða niðurfelldra gjalda sjávarútvegsins til ríkissjóðs vegna þessara tveggja frumvarpa er þess vegna 782 millj. kr. á árinu 2004 en engar upplýsingar liggja fyrir um tekjur af veiðigjaldi fyrir þetta ár. Ljóst er þó að veiðigjaldið verður lagt á samkvæmt lögum þar um, sbr. lög nr. 85/2002, um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Þessi vinnubrögð eru forkastanleg og sérlega bagaleg í ljósi þess að stjórnarflokkarnir völdu leið sem gerir veiðigjaldið háð afkomu útgerða þannig að minni hlutinn hafði ekki forsendur til að meta hver fjárhæð þess gæti orðið.
    Minni hlutinn telur þess vegna að forsendur skorti til að Alþingi geti tekið afstöðu til frumvarpsins og leggur til að málinu verði vísað aftur til nefndarinnar milli 2. og 3. umræðu og að 3. umræða fari ekki fram fyrr en upplýsingar um heildarfjárhæð veiðigjalds á þessu ári liggja fyrir.

Alþingi, 20. apríl 2004.



Jóhann Ársælsson,


frsm.


Jón Gunnarsson.


Lára Stefánsdóttir.