Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 387. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1521  —  387. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um að athuga réttarstöðu íslenskrar tungu.

Frá menntamálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið. Umsagnir bárust frá Samtökum kvenna af erlendum uppruna, Íslenskri málnefnd, Útlendingastofnun, Orðabók Háskólans og Þór Vilhjálmssyni.
    Með tillögunni er lagt til að forsætisráðherra verði falið að setja á fót nefnd sem hafi það verkefni að athuga réttarstöðu íslensku sem þjóðtungu Íslendinga og opinbers máls á Íslandi. Nefndinni verði jafnframt falið að gera grein fyrir réttarstöðu þjóðtungna og annarra mála í grannríkjum Íslands og að skoða sérstaklega stöðu íslensks táknmáls og tungumála nýbúa hér á landi.
    Nefndin telur málið allrar athygli vert og mikilvægt að ráðist verði í þá vinnu sem tillagan gerir ráð fyrir. Örar breytingar í alþjóðasamfélagi kalla á að réttarstaða þjóðtungunnar verði skýrð og skerpt, en margar þjóðir jafnt innan sem utan Evrópu hafa nú verulegar áhyggjur af stöðu þjóðtungna sinna. Þá skipta óskir heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra um viðurkenningu á íslenska táknmálinu sem móðurmáli sínu einnig verulegu máli í þessum efnum þar sem ljóst þarf að vera hver réttarstaða íslenskunnar er svo að komið geti til álita að gera íslenska táknmálið jafnrétthátt íslensku.
    Með vísan til framangreinds leggur nefndin til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Gunnar Birgisson, Árni R. Árnason og Björgvin G. Sigurðsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. apríl 2004.Dagný Jónsdóttir,


frsm.


Ísólfur Gylfi Pálmason.


Katrín Júlíusdóttir.Kolbrún Halldórsdóttir.


Mörður Árnason.


Sigurður Kári Kristjánsson.