Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 877. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1530  —  877. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Halldórsdóttur frá umhverfisráðuneyti og Elínu Guðmundsdóttur frá Umhverfisstofnun.
    Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði laganna verði aðlöguð tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/8/EB um markaðssetningu sæfiefna. Hluti sæfiefna fellur ekki undir gildissvið gildandi laga og er lagt til að gildissvið þeirra verði rýmkað að þessu leyti. Einnig er lagt til að leyfi Umhverfisstofnunar þurfi fyrir markaðssetningu sæfiefna hér á landi.
    Frumvarpið felur það í sér að skráningu á ákveðinni tegund efna er breytt þannig að efni sem ekki hafa verið skráningarskyld verða það með samþykkt frumvarpsins. Með tilskipuninni er áhættumat og skráning efna sem falla undir hana samræmd á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Einnig mun gilda gagnkvæm viðurkenning innan svæðisins sem felur það í sér að þegar efni hefur verið viðurkennt í einu aðildarríki verður að viðurkenna það í öðrum aðildarríkjum.
    Fram kom við umfjöllun nefndarinnar að heildarendurskoðun laganna stendur yfir og leggur nefndin áherslu á að henni ljúki sem fyrst.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Sigurjón Þórðarson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 27. apríl 2004.Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Rannveig Guðmundsdóttir.


Dagný Jónsdóttir.Kolbrún Halldórsdóttir.


Guðlaugur Þór Þórðarson.


Mörður Árnason.Guðmundur Hallvarðsson.


Brynja Magnúsdóttir.


Guðjón Hjörleifsson.