Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 341. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1536  —  341. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.

Frá meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðríði Þorsteinsdóttur og Vilborgu Hauksdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Einnig komu á fund með nefndinni Karl Steinar Guðnason, Sigurður Thorlacius, Kristján Guðjónsson og Ágúst Þór Sigurðsson frá Tryggingastofnun ríkisins og Kristinn H. Gunnarsson og Margrét Einarsdóttir frá tryggingaráði. Málið var sent til umsagnar og bárust svör frá Heilsugæslustöðinni Hveragerði, landlæknisembættinu, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Læknafélagi Íslands, Stéttarfélagi íslenskra félagsráðgjafa, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Iðjuþjálfafélagi Íslands, Landspítala – háskólasjúkrahúsi, Landssambandi eldri borgara, Tryggingastofnun ríkisins og siglinganefnd Tryggingastofnunar ríkisins.
    Með frumvarpinu er m.a. brugðist við athugasemdum sem fram komu í nefndaráliti heilbrigðis- og trygginganefndar á þingskjali 1389 í 359. máli á 127. löggjafarþingi. Við meðferð þess máls lagði nefndin til breytingar á hlutverki tryggingaráðs þannig að reglusetningarvald væri fært frá tryggingaráði til ráðherra í tilteknum málaflokki og hvatti jafnframt til þess að hlutverk og staða tryggingaráðs yrði endurskoðað í heild. Nú er lagt til í frumvarpinu að ákvæði þar sem tryggingaráði var falið að setja reglur verði felld brott en ráðherra þess í stað falið að setja reglugerðir. Einnig er lagt til að ákvarðanataka í ýmsum málum verði færð frá tryggingaráði til Tryggingastofnunar. Þá er lagt til að svokölluð siglinganefnd Tryggingastofnunar verði lögð niður. Auk þess eru lagðar til ýmsar lagfæringar á lögunum sem að mati meiri hluta nefndarinnar eru til bóta.
    Í tillögum frumvarpsins sem varða tryggingaráð felst að hlutverk þess verði framvegis fyrst og fremst bundið við eftirlit með starfsemi Tryggingastofnunar en skv. 6. gr. almannatryggingalaga skal ráðið hafa eftirlit með fjárhag, rekstri og starfsemi stofnunarinnar og gæta þess að hún starfi í samræmi við lög og reglugerðir á hverjum tíma. Meiri hlutinn telur rétt að reglusetningarvaldið sé fært frá tryggingaráði til ráðherra eins og frumvarpið gerir ráð fyrir enda telur meiri hlutinn að þær valdheimildir eigi að vera í höndum ráðherra. Með hliðsjón af hinni umfangsmiklu og fjölbreyttu starfsemi Tryggingastofnunar telur meiri hlutinn æskilegt að hún starfi undir sérstakri stjórn og leggur meiri hlutinn til að komið verði á beinu stjórnsýslusambandi milli ráðherra og stofnunarinnar. Leggur meiri hlutinn til að í 2. gr. laganna verði kveðið á um að ráðherra fari með yfirstjórn almannatrygginga, sbr. 1. gr. laganna, og Tryggingastofnunar ríkisins en að stofnunin og stjórn hennar beri ábyrgð á sínum störfum gagnvart ráðherra. Áfram er byggt á því að stofnunin annist framkvæmd almannatrygginga samkvæmt lögunum. Þá gildi áfram ákvæði 7. gr. laganna um að ef ágreiningur rísi um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta samkvæmt lögunum leggi sjálfstæð og óháð nefnd, úrskurðarnefnd almannatrygginga, úrskurð á málið.

Prentað upp á ný.

    Meiri hlutinn leggur til breytingu á 3. gr. laganna sem felur það í sér að ráðherra skipi fimm manna stjórn að afloknum hverjum alþingiskosningum, einn þeirra skuli skipaður formaður stjórnar og annar varaformaður, og jafnmarga skal skipa til vara. Þannig verði horfið frá þeirri skipan mála að Alþingi kjósi í ráð eða stjórn við stofnunina. Meiri hlutinn leggur til að í 5. gr. laganna verði kveðið á um að forstjóri verði áfram skipaður af ráðherra til fimm ára í senn að fenginni tillögu stjórnar. Er þetta ákvæði óbreytt frá frumvarpinu að öðru leyti en því að í stað tryggingaráðs kemur stjórn Tryggingastofnunar. Lítur meiri hlutinn svo á að stjórnin eigi að hafa tillögurétt en ráðherra er ekki bundinn af tillögu stjórnar.
    Meiri hlutinn leggur til að í 4. gr. laganna verði fjallað um hlutverk stjórnar Tryggingastofnunar. Í tillögum meiri hlutans felst að verkefni hennar verði hefðbundin verkefni stjórnar, það er að vera æðsta vald innan stofnunarinnar um rekstur hennar og skipulag. Er lagt til að hún staðfesti skipulag stofnunarinnar og geri árlega starfsáætlun og fjárhagsáætlun. Þá leggur meiri hlutinn til að stjórninni verði falið að marka stofnuninni langtímastefnu. Eðlilegt er að mati meiri hlutans að samráð verði við forstjóra og eftir atvikum aðra starfsmenn um þennan þátt og telur meiri hlutinn að til greina komi að forstjóri leggi tillögu að langtímastefnumörkun fyrir stjórnina. Einnig er lagt til að stjórnin hafi eftirlit með starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins og að rekstur stofnunarinnar sé innan ramma fjárlaga á hverjum tíma. Lagt er til að stjórnin tilnefni fulltrúa Tryggingastofnunar í samninganefnd samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, sbr. 39. gr. almannatryggingalaga, og fulltrúa í nefnd skv. 35. gr. laganna. Loks leggur meiri hlutinn til að formaður stjórnar skuli reglulega gera ráðherra grein fyrir starfsemi stofnunarinnar og gera honum viðvart ef hann telur að starfsemi og þjónusta sé ekki í samræmi við ákvæði laga og ef rekstur stofnunarinnar er ekki í samræmi við fjárlög.
    Lagt er til að í 6. gr. laganna verði fjallað um hlutverk, starfssvið og ábyrgð forstjóra Tryggingastofnunar. Byggjast tillögur meiri hlutans á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Í 1. mgr. er áfram gert ráð fyrir að forstjóri ráði aðra starfsmenn stofnunarinnar eins og frumvarpið gerir ráð fyrir en jafnframt leggur meiri hlutinn til að tekið verði fram að hann annist daglegan rekstur. Í 2. mgr. er lagt til að ráðherra setji forstjóra erindisbréf þar sem tilgreind eru helstu markmið í rekstri stofnunarinnar og verkefni hennar. Tillögur meiri hlutans miða að því að koma á beinu stjórnsýslusambandi milli ráðherra og stofnunarinnar og með þessu móti hefur ráðherra ríkari áhrif á stefnumótun hjá stofnuninni. Í 3. mgr. er lagt til að fjallað sé um ábyrgð forstjóra.
    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi en meiri hlutinn telur rétt að gefa örlítið svigrúm til að aðlaga starfsemi stofnunarinnar að framangreindum breytingum. Er lagt til að stjórn Tryggingastofnunar verði skipuð í fyrsta sinn 1. júlí 2004 en að fram að þeim tíma haldi tryggingaráð umboði sínu. Jafnframt er lagt til að núverandi forstjóra verði sett erindisbréf ekki síðar en 1. júlí. Breytingarnar hafa ekki áhrif á skipunartíma núverandi forstjóra stofnunarinnar.
    Í frumvarpinu er lagt til að siglinganefnd verði lögð niður. Ýmis rök komu fram við umfjöllun málsins sem mæla með því að hún starfi áfram. Ráðherra skipar fimm menn í nefndina og sitja nú í henni fimm læknar. Telur meiri hlutinn að góð reynsla sé af starfi siglinganefndar og hefur fyrirkomulagið sem hún hefur unnið eftir reynst vel. Það er mat meiri hlutans að mál fái faglega umfjöllun með gildandi fyrirkomulagi. Leggur hann því til að nefndin starfi áfram en með þeirri breytingu að hún sæki umboð sitt til forstjóra í stað ráðherra áður. Þá vill meiri hlutinn geta þess að við umfjöllunina vakti athygli hennar ójöfn kynjahlutföll í nefndinni en allir nefndarmenn, bæði aðalmenn og varamenn, eru karlar. Meiri hlutinn telur ástæðu til að vekja athygli Tryggingastofnunar á ákvæðum jafnréttislaga og hvetur til þess að ákvæða þeirra sé gætt við skipun í siglinganefnd svo sem ber að gera við skipun í nefndir og ráð á vegum ríkisins. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem er fylgiskjal með frumvarpinu kemur fram að útgjöld Tryggingastofnunar vegna starfs nefndarinnar hafi numið um 1,3 millj. kr. á síðasta ári. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt er gert ráð fyrir að sama fjárhæð verði notuð til kaupa á ráðgjöf sérfræðilækna sem kallaðir yrðu til ráðgjafar í stað siglinganefndar þegar þess gerðist þörf. Má því gera ráð fyrir að útgjöld Tryggingastofnunar vegna þessa þáttar starfseminnar verði óbreytt óháð því hvor leiðin verði farin. Er lagt til að siglinganefnd verði heimilt að ákveða hvort sjúklingur fari til meðferðar erlendis eða sérgreinalæknar sem starfa erlendis veiti honum meðferð á sjúkrahúsi hér á landi.
    Þá kom fram ábending um að í 14. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga vantar orðin „og tekjutryggingarauka“ á eftir orðinu „tekjutrygging“. Vísað er til 11. gr. laganna og á hún fyrst og fremst við um búsetuákvæðin þannig að tekjutrygging er reiknuð út í samræmi við árafjölda sem búseta hér á landi hefur varað. Fullar bætur greiðast við 40 ára búsetu hér á landi en bætur skerðast ef búsetan er styttri en 40 ár á aldursbilinu 16–67 ára. Búsetureglan á við um elli- og örorkulífeyri og tekjutryggingu og ætlunin var að hún tæki einnig til tekjutryggingaraukans en láðst hefur að kveða á um það í greininni. Kom fram við umfjöllun málsins að framkvæmd Tryggingastofnunar hefur verið með þeim hætti en úrskurðarnefnd almannatrygginga breytti þeirri framkvæmd enda ekki mælt fyrir um það í 14. mgr. 17. gr. Leggur meiri hlutinn til breytingu á greininni til samræmis við framangreint.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Pétur H. Blöndal skrifar undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 28. apríl 2004.Jónína Bjartmarz,


form., frsm.


Drífa Hjartardóttir.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Dagný Jónsdóttir.