Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 652. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1542  —  652. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða, nr. 81/1997.

Frá minni hluta umhverfisnefndar.    Tilgangur þess frumvarps sem hér um ræðir er að leggja niður stjórn sem samkvæmt lögum skal skipuð Stofnun Vilhjálms Stefánssonar til fjögurra ára í senn. Hlutverk stjórnarinnar er samkvæmt lögunum að fjalla um stefnu og starfsáætlanir stofnunarinnar í samráði við forstöðumann.
    Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að hér sé um að ræða framhald á því markvissa verki í umhverfisráðuneytinu að „afnema lagaákvæði um stjórnir stofnana umhverfisráðuneytisins“ í framhaldi af samþykkt laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, þar sem tiltekið er að forstöðumaður eða forstjóri beri ábyrgð á störfum og rekstri opinberrar stofnunarinnar.
    Minni hlutinn telur engin rök hafa komið fram sem mæli með að afnema ákvæði laga um stjórn við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Hér er ekki um að ræða opinbera stofnun með eiginlegt stjórnsýsluvald heldur fræða- og rannsóknastofnun með mikilvægt hlutverk við að stilla saman strengi í rannsóknum og stefnumótun á sínu sviði innan lands og á alþjóðavettvangi. Tengsl stofnunarinnar við ráðuneytið, og forstöðumannsins við ráðherrann, eru því með allt öðrum hætti en tíðkast í flestum öðrum stofnunum ráðuneytisins. Að þessu leyti líkist stofnunin meira ýmsum stofnunum sem vistaðar eru hjá menntamálaráðuneytinu og hafa margar sérstaka stjórn. Þetta sjónarmið kemur ágætlega fram í umsögn Níelsar Einarssonar, forstöðumanns Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, um frumvarpið Hann segir „... reynslan af stjórninni hefur verið góð og á meðan hún hafði til þess umboð tók hún virkan þátt í starfsemi stofnunarinnar og styrkti á margan hátt faglegan grundvöll hennar. Að vissu leyti er mikilvægt lítilli stofnun, með vítt starfssvið, að geta leitað til stjórnar með ráðgjöf, hugmyndavinnu og ákveðna aðkomu að verkefnum.“ Svipuð viðhorf koma fram í umsögn Elsu B. Friðfinnsdóttur, starfandi formanns síðast skipaðrar stjórnar Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, sem segir m.a. að forstöðumanni sé „ótvíræður styrkur að faglegum og rannsóknabundnum tengslum stjórnarmanna“ og telur breytingartillögur í frumvarpinu „ekki til bóta fyrir störf og vöxt Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar“.
    Álit minni hlutans er að stofnuninni sé heillavænlegast að búa áfram að ráðgjöf og hjálp frá stjórninni, sem einnig er í lögunum ætlað að tengja saman stofnunina og samvinnunefnd um málefni norðurslóða, en formaður stjórnarinnar er jafnframt formaður nefndarinnar. Sú viðleitni umhverfisráðherra að laga stjórnsýslu ráðuneytisins að áðurnefndum lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er eðlileg og hrósverð en verður að kreddu þegar ekki er tekið tillit til séreðlis og hagsmuna þeirrar stofnunar sem um er að ræða. Rétt er að taka fram að samkvæmt mati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er kostnaður við stjórnarstörfin óverulegur.
    Minni hlutinn telur ámælisvert að ráðherra skuli ekki hafa skipað nýja stjórn samkvæmt lögum þegar umboð hinnar fyrstu rann út árið 2001. Ráðherrum ber sem kunnugt er að fara að lögum. Vegna þessara glapa hefur heldur ekki fengist sú reynsla af starfi stjórnar sem þörf hefði verið á við umfjöllun um frumvarpið, en hitt er einnig alvarlegt að um leið lagðist niður starf samvinnunefndarinnar þar sem formaðurinn var umboðslaus.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði fellt.
    Bryndís Hlöðversdóttir tók þátt í meðferð málsins og styður álit þetta.
    Sigurjón Þórðarson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er sammála áliti þessu.

Alþingi, 29. apríl 2004.Mörður Árnason,


frsm.


Kolbrún Halldórsdóttir.


Rannveig Guðmundsdóttir.