Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 620. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1564  —  620. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Helga Hjörvars um kostnað við atvinnuleysisbætur.

    Vinnumálastofnun, sem fer með daglegan rekstur atvinnuleysistryggingasjóðs, var falið að undirbúa svör við fyrirspurninni og setja fram dæmi um kostnaðarauka sjóðsins miðað við mismunandi bótahlutafall. Í útreikningum stofnunarinnar er byggt á heildarfjölda greiddra atvinnuleysisdaga árið 2003, en þeir voru samtals 1.159.806. Greiðslur á dag voru 3.574 kr. miðað við fullan bótarétt. Að jafnaði var bótaréttur einstaklinga 86,48%. Að auki er 6% mótframlag í lífeyrissjóð. Heildarfjárhæð bóta samkvæmt þessu var um 3,8 milljarðar kr. á sl. ári (1.159.806 x 3.574 x 86,48% x 1,06). Þessar upplýsingar eru nýttar sem grunnur að útreikningum á áhrifum á heildargreiðslur vegna atvinnuleysisbóta ef bætur væru tengdar fyrri tekjum að einhverju leyti. Þar sem upplýsingar um tekjur einstaklinga liggja ekki fyrir í gögnum Vinnumálastofnunar er við útreikningana stuðst við upplýsingar frá kjararannsóknarnefnd um heildarlaun einstakra starfsstétta:

Heildarlaun einstakra starfsstétta 2003.

Meðaltal árið 2003 75% af tekjum 75% af tekjum á dag
Stjórnendur 425.875 319.406 14.740
Sérfræðingar 389.100 291.825 13.467
Tæknar og sérmenntað starfsfólk 342.725 257.044 11.862
Skrifstofufólk 211.625 158.719 7.324
Þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólk 212.725 159.544 7.362
Iðnaðarmenn 289.600 217.200 10.023
Verkafólk 211.600 158.700 7.323

    Að auki er stuðst við reglur ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald 2003 vegna viðmiðunarlauna bænda og sjómanna. Með hliðsjón af samsetningu hópsins á atvinnuleysisskrá voru áætlaðar á þá eftirfarandi meðaltekjur:

Áætlaðar meðaltekjur bænda og sjómanna.


Meðaltal árið 2003 75% af tekjum 75% af tekj. á dag
Sjómenn 223.500 167.625 7.735
Bændur 146.500 109.875 5.070

    Að öllu jöfnu er við útreikninga af þessu tagi gengið út frá því að líklegt sé að þeir sem verða atvinnulausir hafi að jafnaði haft lægri laun en heildarhópurinn enda atvinnuleysi að jafnaði meira meðal yngra fólks eða fólks með minni starfsreynslu sem jafnframt er tekjulægra en þeir eldri eða þeir sem hafa meiri starfsreynslu. Ekki liggja fyrir upplýsingar um þessi atriði hjá kjararannsóknarnefnd og þar af leiðandi hefur ekki verið tekið tillit til þeirra við þessa útreikninga.
    Atvinnulausir skiptust þannig á starfsstéttir árið 2003:

Hlutfallsleg skipting atvinnulausra á starfsstéttir.

Stjórnendur 4%
Sérfræðingar 4%
Tæknar og sérmenntað starfsfólk 9%
Skrifstofufólk 8%
Þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólk 28%
Sjómenn 4%
Bændur 1%
Iðnaðarmenn 7%
Verkafólk 35%
Samtals 100%


    Gengið er út frá framangreindum forsendum við útreikninga á því hverjar atvinnuleysisbætur hefðu orðið ef þær hefðu verið tengdar tekjum hins atvinnulausa svo sem spurt er um. Á það ber að leggja áherslu að um er að ræða útreikninga sem byggjast á tilteknum forsendum. Þeir fela í sér mat á sennilegri niðurstöðu fremur en hárnákvæma útreikninga.

     1.      Hver hefði kostnaðurinn verið á liðnu ári ef atvinnuleysisbætur hefðu numið 75% af fyrri tekjum hins atvinnulausa en þó aldrei verið lægri en bæturnar voru á sl. ári og aldrei hærri en 375.000 kr.?
    Niðurstaða: Heildargreiðslur vegna atvinnuleysisbóta hefðu hækkað úr um 3,8 milljörðum kr. í um 9,023 milljarða kr., eða um u.þ.b. 137%. Aukningin nemur um 5,223 milljörðum kr.

     2.      Hver hefði kostnaðurinn verið ef slíkar bætur hefðu verið greiddar
                  a.      fyrstu þrjá mánuði atvinnuleysis,
                  b.      fyrsta mánuðinn,
        en eftir það hefðu atvinnuleysisbæturnar verið óbreyttar frá því sem þær voru á árinu?
    Niðurstaða:
    A-liður. Um 35% atvinnuleysisdaga eru innan þriggja mánaða frá fyrsta degi atvinnuleysis. Samkvæmt því hefðu heildargreiðslur vegna atvinnuleysisbóta hækkað úr um 3,8 milljörðum kr. í um 5,637 milljarða, eða um u.þ.b. 48%. Aukningin nemur um 1,838 milljörðum kr.
    B-liður. Um 15% atvinnuleysisdaga eru innan mánaðar frá fyrsta degi atvinnuleysis. Samkvæmt því hefðu heildargreiðslur vegna atvinnuleysisbóta hækkað úr um 3,8 milljörðum kr. í um 4,603 milljarða, eða um u.þ.b. 21%. Aukningin nemur um 803 millj. kr.
    Hér er í báðum tilfellum miðað við að hver einstaklingur komi einu sinni á skrá og njóti því aðeins tekjutengdra bóta í eitt skipti. Spurningin er hvort reikna skuli tekjutengdar bætur aftur ef einstaklingur fær bætur aftur eftir að hafa farið tímabundið af skrá.

     3.      Hvaða áhrif hefðu mismunandi útfærslur, sbr. 2. tölul., haft á prósentuhlutfall tryggingagjalds?
    Niðurstaða: Tekjustofn (atvinnutryggingagjald) Atvinnuleysistryggingasjóðs er 0,80% af tryggingagjaldi, sem er 5,73%. Samkvæmt forsendum fjárlaga 2004 er gert ráð fyrir að tekjur sjóðsins verði 3.634 millj. kr.
    Ef kostnaður vegna atvinnuleysisbóta hækkar um 137%, sbr. 1. tölul., þyrfti að hækka tekjustofn sjóðsins í 1,90% og þar með tryggingagjaldið í 6,83%.
    Samkvæmt forsendum í a-lið 2. tölul. yrði að hækka tekjustofninn í 1,20% og tryggingagjaldið þar með í 6,13%.
    Samkvæmt b-lið 2. tölul. yrði hækkunin að vera í 0,97% og tryggingagjaldið þar með að hækka í 5,90%.