Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 341. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1574  —  341. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.

Frá 1. minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Fyrsti minni hluti telur nauðsynlegt að taka ákvörðun um framtíðarhlutverk tryggingaráðs. Ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt hefur tryggingaráð varla nokkurt hlutverk lengur án þess þó að ráðið hafi formlega verið lagt niður.
    Tryggingaráð hafði veigamikið hlutverk á meðan það setti reglur um ýmsar bætur almannatrygginga en hafði jafnframt úrskurðarvald um afgreiðslu Tryggingastofnunar á erindum. Hugmyndir um nauðsyn á aðskilnaði milli þeirra sem reglurnar settu og þeirra sem úrskurðuðu um réttmæti afgreiðslu samkvæmt sömu reglum leiddu til þess að sérstök úrskurðarnefnd almannatrygginga fékk úrskurðarhlutverkið.
    Nú er lagt til að heimildir tryggingaráðs til að setja reglur um ýmsar bætur falli endanlega niður og í staðinn setji ráðherra reglugerðir. Hér er um eðlilega breytingu að ræða en þó verður jafnframt að telja eðlilegt að tryggingaráð eða stjórn stofnunarinnar, sem sett verður á laggirnar ef breytingartillögur meiri hlutans ná fram að ganga, muni m.a. hafa það hlutverk að leggja til við ráðherra nauðsynlegar reglugerðarsetningar eða breytingar þótt endanlegt vald verði að sjálfsögðu í höndum ráðherra.
    Tryggingastofnun er ákaflega stór ríkisstofnun hvort sem horft er til starfsmannafjölda eða veltu. Sömuleiðis gegnir Tryggingastofnun lykilhlutverki í velferðarkerfi þjóðarinnar. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að tryggingaráð starfi áfram, en hlutverk ráðsins er engan veginn skýrt og það orðalag 6. gr. almannatryggingalaga að ráðið skuli hafa eftirlit með fjárhag, rekstri og starfsemi stofnunarinnar er óljóst.
    Fyrsti minni hluti telur nauðsynlegt að stofnun sem hefur það umfang sem Tryggingastofnun hefur heyri undir stjórn með skýrar starfsreglur, eins og meiri hlutinn leggur til, þannig að enginn velkist í vafa um vald- og verksvið hennar.
    Fyrsti minni hluti tekur að mestu undir hugmyndir meiri hlutans um skipan stjórnar en telur þó nauðsynlegt að opnað verði á hugmyndir, sem áður hafa komið fram hjá þingmönnum Samfylkingarinnar, um að þeir sem þjónustu Tryggingastofnunar njóta og starfsmenn hennar hafi áheyrnarfulltrúa í stjórninni. Lagt er til að Öryrkjabandalag Íslands og Landssamband eldri borgara tilnefni einn fulltrúa hvort til tveggja ára með málfrelsi og tillögurétt. Starfsmenn stofnunarinnar tilnefni einnig einn áheyrnarfulltrúa. Með því yrðu boðleiðir styttar milli stjórnar annars vegar og notenda þjónustu og starfsmanna hins vegar.
    Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 28. apríl 2004.



Jón Gunnarsson,


frsm.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Brynja Magnúsdóttir.