Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 341. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1576  —  341. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.

Frá 2. minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.    Tryggingastofnun ríkisins gegnir mjög þýðingarmiklu hlutverki í velferðarkerfi Íslendinga. Þjónusta Tryggingastofnunar grundvallast á lögum um almannatryggingar, um félagslega aðstoð, um fæðingar- og foreldraorlof, um heilbrigðisþjónustu og um sjúklingatryggingu. Í staðtölum almannatrygginga 2002 kemur fram að útgjöld til almannatrygginga og velferðarmála það ár námu tæpum 47 milljörðum kr. sem er tæplega fimmtungur af heildarútgjöldum ríkissjóðs ef stuðst er við þjóðhagsreikningakerfi Sameinuðu þjóðanna. Vegna hins þýðingarmikla hlutverks er mikilvægt að skýr ákvæði séu í lögum um starfsemi stofnunarinnar og skipulag.
    Annar minni hluti telur rétt að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fari með yfirstjórn og ábyrgð almannatrygginga en Tryggingastofnun annist framkvæmdina, jafnframt að ráðherra skipi forstjóra sem annist daglegan rekstur og beri ábyrgð gagnvart ráðherra.
    Tryggingaráð sem skipað er af Alþingi hefur gegnt mikilvægu hlutverki í starfi Tryggingastofnunar og þjónustu við sjúklinga. Það hafði um árabil það hlutverk að setja reglur og úrskurða um réttindi sjúklinga. Nú hafa þessi verkefni verið tekin af tryggingaráði, setning reglugerða hefur verið falin ráðherra og úrskurðir sjálfstæðri nefnd og er það fyrirkomulag endanlega staðfest í frumvarpinu. Hlutverk tryggingaráðs hefur því orðið veigaminna en áður en eftir stendur mikilvægt eftirlit með fjárhag, rekstri og starfsemi Tryggingastofnunar og því að stofnunin starfi í samræmi við lög og reglur á hverjum tíma.
    Vegna hins þýðingarmikla hlutverks sem Tryggingastofnun hefur í velferðarkerfinu telur 2. minni hluti mikilvægt að gæta þess að öll pólitísk sjónarmið ásamt faglegri þekkingu komi fram innan eftirlits og ráðgjafaráðs Tryggingastofnunar og því sé rétt að Alþingi kjósi fulltrúa í tryggingaráð líkt og í útvarpsráð og í stjórn Landspítala – háskólasjúkrahúss. Það er á ábyrgð stjórnmálaflokkanna að gæta þess að hinir pólitísku fulltrúar séu fullgildir til setu í tryggingaráði, þ.e. búi yfir þekkingu eða reynslu á sviði stofnunarinnar.
    Annar minni hluti telur að hlutverk tryggingaráðs eigi að vera að hafa eftirlit með fjárhag, rekstri og starfsemi Tryggingastofnunar og að gæta þess að hún starfi í samræmi við lög og reglur á hverjum tíma eins og verið hefur. Samkvæmt skipuriti Tryggingastofnunar heyrir endurskoðunardeild um innri málefni stofnunarinnar undir tryggingaráð og telur 2. minni hluti rétt að halda þeirri skipan svo að ráðið geti sinnt eftirlitshlutverki sínu. Þetta fyrirkomulag skerðir á engan hátt eftirlitshlutverk Ríkisendurskoðunar eða heilbrigðisráðuneytisins en eftirlitshlutverkin skarast að hluta. Vegna umfangs og hlutverks stofnunarinnar er að mati 2. minni hluta mikilvægt að hafa gott innra eftirlit og getur það vegið þyngra en skörun við eftirlitshlutverk annarra stjórnsýslustofnana.
    Á Norðurlöndunum er stjórnsýsla almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar með mismunandi hætti en löndin eiga það sameiginlegt að fulltrúar í stjórnum þessara stofnana eru pólitískt kjörnir en ekki skipaðir af ráðherra.
    Fulltrúar í tryggingaráði hafa búið yfir mikilli þekkingu og langri reynslu sem hefur ásamt mismunandi pólitískum sjónarmiðum nýst stofnuninni vel. Þessa auðlind á að nýta betur, m.a. með því að ráðið verði forstjóra og heilbrigðisráðherra til ráðgjafar um t.d. reglur og síðast en ekki síst sé fulltrúi neytenda og gæti hagsmuna þeirra.
    Með breytingartillögum meiri hlutans er vald og áhrif flutt frá Alþingi til ráðherra. Með þessari breytingu er enn verið að styrkja stöðu framkvæmdarvaldsins undir þeim formerkjum að með því sé stjórnsýslan gerð skilvirkari.
    Annar minni hluti styður þann hluta frumvarpsins sem lýtur að skipan tryggingaráðs og stjórnsýslulegri stöðu Tryggingastofnunar ríkisins.

Alþingi, 28. apríl 2004.Þuríður Backman.