Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 790. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1605  —  790. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á sóttvarnalögum, nr. 19/1997, með síðari breytingum.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sólveigu Guðmundsdóttur og Guðrúnu W. Jensdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Harald Briem sóttvarnalækni og Sigrúnu Jóhannesdóttur frá Persónuvernd. Málið var sent til umsagnar og bárust svör frá Tryggingastofnun ríkisins, Læknafélagi Íslands og Landspítala – háskólasjúkrahúsi.
    Með frumvarpinu er lagt til að sóttvarnalækni verði heimilt að halda sérstaka skrá um sýklalyfjanotkun hér á landi. Markmiðið með henni er að koma á vöktun á nýgengi og algengi ónæmra sýkla og nýta hana til að kanna hvort tengsl eru milli notkunar á sýklalyfjum og myndunar ónæmis. Lagt er til að tilhögun skráningar verði útfærð nánar í reglugerð.
    Við umfjöllun málsins kom fram að gert er ráð fyrir að upplýsingar í skrá sóttvarnalæknis um sýklalyfjanotkun eigi að byggjast á upplýsingum úr lyfjagagnagrunni landlæknis. Skýrt er kveðið á um í 27. gr. lyfjalaga hverjir geta fengið upplýsingar úr lyfjagagnagrunni og er sóttvarnalæknir ekki meðal þeirra. Nefndin lítur svo á að kveða verði á um slíka heimild í lögum og leggur til breytingu á frumvarpinu þar sem sóttvarnalækni verði veitt sérstök heimild til að fá afhentar upplýsingar úr lyfjagagnagrunninum þótt skrá hans um sýklalyfjanotkun muni ekki byggjast á persónugreinanlegum upplýsingum. Upplýsingarnar sem sóttvarnalæknir fær afhentar mega ekki vera persónugreinanlegar.
    Þá er gert ráð fyrir að sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir sendi sóttvarnalækni upplýsingar um magn sýklalyfja sem notað er í rekstri þeirra. Fram kom í máli sóttvarnalæknis að þær upplýsingar sem hann þyrfti væri magn sem afgreitt væri úr apóteki skipt eftir deildum. Leggur nefndin til að kveðið verði á um þessa skyldu heilbrigðisstofnana í lögunum og leggur til breytingu á 3. og 9. gr. laganna þar að lútandi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 10. maí 2004.Jónína Bjartmarz,


form., frsm.


Drífa Hjartardóttir.


Pétur H. Blöndal.Ágúst Ólafur Ágústsson.


Þuríður Backman.


Sigríður A. Þórðardóttir.Dagný Jónsdóttir.


Jón Gunnarsson.


Brynja Magnúsdóttir.