Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 910. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1607  —  910. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um tónlistarsjóð.

Frá menntamálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Val Árnason frá menntamálaráðuneyti, Bjarna Daníelsson frá Íslensku óperunni, Daniel Pollock frá Félagi um Tónlistarþróunarmiðstöð og Björn Th. Árnason og Kjartan Ólafsson frá Samtóni. Umsagnir bárust um málið frá Jónatan Garðarssyni, Félagi um Tónlistarþróunarmiðstöð, Tónminjasetri Íslands, Íslensku óperunni, Samtóni, Berjadögum, Listvinafélagi Vestmannaeyja, Tónhátíð í Þjórsárveri, Steinunni Birnu Ragnarsdóttur, Eddu útgáfu, Félagsheimilinu Þjórsárveri og Listvinafélagi Vestmannaeyja.
    Með frumvarpinu er ráðgert að settur verði á fót tónlistarsjóður sem hafi það hlutverk að efla íslenska tónlist og stuðla að kynningu á íslenskum tónlistarmönnum og verkum þeirra. Sjóðurinn skiptist í tvær deildir, tónlistardeild og markaðs- og kynningardeild. Tónlistardeild hafi það hlutverk að veita styrki til almennrar tónlistarstarfsemi og markaðs- og kynningardeild veiti styrki til kynningar og markaðssetningar á tónlist og tónlistarmönnum hér á landi og erlendis. Þá verði sett á fót tónlistarráð sem skipað verði til þriggja ára í senn og geri tillögu til menntamálaráðherra um úthlutun fjár úr tónlistarsjóði. Ráðgert er að Alþingi veiti árlega fé í fjárlögum í tónlistarsjóð.
    Nefndin vekur athygli á að styrkir til tónlistarstarfsemi hafa hingað til að verulegu leyti verið veittir af ýmsum safnliðum fjárlaga sem heyra undir menntamálaráðuneyti. Með lögfestingu ákvæða frumvarpsins mun það fé hér eftir renna í tónlistarsjóð.
    Nefndin bendir á að ákvæði frumvarpsins taka jafnt til þeirrar tónlistar sem er flutt, framleidd eða samin af Íslendingum. Þannig yrði það talið nægjanlegt að einn framangreindra þátta væri uppfylltur til að um íslenska tónlist væri að ræða í samræmi við ákvæði frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Björgvin G. Sigurðsson, Katrín Júlíusdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir og Mörður Árnason skrifa undir álit þetta með fyrirvara sem lýtur að skipan tónlistarráðs og áskilja sér rétt til að flytja breytingartillögur við málið.

Alþingi, 10. maí 2004.Gunnar Birgisson,


form., frsm.


Björgvin G. Sigurðsson,


með fyrirvara.


Dagný Jónsdóttir.Kjartan Ólafsson.


Katrín Júlíusdóttir,


með fyrirvara.


Kolbrún Halldórsdóttir,


með fyrirvara.Guðrún Inga Ingólfsdóttir.


Magnús Stefánsson.


Mörður Árnason,


með fyrirvara.