Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 307. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1608  —  307. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gunnar Björnsson, Þórhall Vilhjálmsson og Guðrúnu Ósk Sigurjónsdóttur frá fjármálaráðuneyti, Ernu Guðmundsdóttur, Sjöfn Ingólfsdóttur og Jens Andrésson frá BSRB, Halldóru Friðjónsdóttur og Gísla Tryggvason frá BHM, Eirík Jónsson frá Kennarasambandi Íslands, Gunnar Ármannsson frá Læknafélagi Íslands, Óskar Bjartmarz og Grétar Jónasson frá Landssambandi lögreglumanna, Jón Steindór Valdimarsson frá Samtökum iðnaðarins, Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins og Magnús M. Norðdahl frá ASÍ. Þá barst nefndinni fjöldi umsagna.
    Í frumvarpinu er lagt til að felld verði brott sú skylda forstöðumanns að áminna starfsmann formlega fyrir brot á starfsskyldum eða þegar hann hefur ekki staðið undir þeim kröfum sem í starfi felast. Þá verður slík áminning ekki lengur skilyrði þess að hægt sé að segja starfsmanni upp störfum. Á sama hátt er lagt til að fellt verði brott það skilyrði lausnar embættismanns um stundarsakir, vegna háttsemi sem svarar til 21. gr. gildandi laga, að honum hafi áður verið veitt formleg áminning.
    Við meðferð málsins kom í ljós að gera þyrfti frekari breytingar á lögunum þar sem láðst hafði að taka tillit til þess að vísað er í 21. gr. laganna í 3. málsl. 2. mgr. 38. gr. og 1. málsl. 2. mgr. 51. gr. laganna en í 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að 21. gr. laganna falli brott. 1. minni hluti gerir því tillögur til breytinga til samræmis við framangreint.
    Þá leggur 1. minni hluti til að gerð verði breyting á 3. gr. frumvarpsins.
    Fyrsti minni hluti leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lagt er til að ný grein bætist við frumvarpið er verði 3. gr. Þar er lagt til að í stað orðanna „áminningu skv. 21. gr.“ í 3. málsl. 2. mgr. 38. gr. laganna komi: skriflega áminningu.
     2.      Lagt er til að gerð verði breyting á 3. gr. frumvarpsins er verði 4. gr. þannig að felld verði brott sú tillaga að ákvarðanir skv. IX. kafla laganna teljist ekki ákvarðanir í skilningi stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þess í stað er lagt til að í 44. gr. laganna verði kveðið á um að gefa skuli starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar ef þær eiga rætur að rekja til þess að hann hafi brotið starfsskyldur sínar samkvæmt ákvæðum laganna eða þeim fyrirmælum sem um starf hans gilda. Slík fyrirmæli geta t.d. verið í ýmsum sérlögum sem gilda um tilteknar starfsstéttir og í almennum og einstökum fyrirmælum stjórnvalda um framkvæmd starfsins, svo sem í stjórnvaldsfyrirmælum, erindisbréfum og einstökum starfslýsingum. Með breytingunni og öðrum ákvæðum frumvarpsins stendur óbreytt sú fyrri tillaga að ekki verður skylt að veita starfsmanni áminningu áður en forstöðumaður ákveður að segja starfsmanni upp störfum skv. 43. gr. laganna. Forstöðumanni væri slíkt engu að síður heimilt ef um minni háttar vanrækslu væri að ræða.
             Ljóst er að rekstur ríkisins hefur tekið umtalsverðum breytingum á liðnum árum og mörk milli viðfangsefna hins opinbera og einkaaðila eru ekki eins ljós og áður. Þá hefur verið stefnt að því að samræma réttindi og skyldur starfsmanna á vinnumarkaði. Ljóst er að skil milli reksturs hins opinbera og einkaaðila þurfa í þessu samhengi heildarskoðunar við.
             Samkvæmt breytingartillögunni mun málsmeðferð við uppsögn starfsmanns ráðast af því hvort starfsmaður hefur brotið starfsskyldur sínar eða honum er sagt upp störfum af öðrum ástæðum. Til annarra ástæðna teljast málefnalegar ástæður sem starfsmanni verður almennt ekki kennt um, svo sem að verið sé að fækka starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunar eða þörf sé fyrir starfsmenn með aðra kunnáttu eða reynslu. Sé um að ræða aðrar ástæður uppsagnar en brot á starfsskyldum er ekki skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um þær áður en uppsögn tekur gildi. Jafnframt er lagt til að ekki verði skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar hafi hann brotið starfsskyldur sínar sé það augljóslega óþarft. Dæmi um slíkt væri að öll málsatvik teldust tryggilega upplýst eða afstaða starfsmanns lægi fyrir í málinu. Ákvæðið útilokar ekki að forstöðumaður geti þegar málsatvik teljast tryggilega upplýst gefið starfsmanni færi á að segja upp starfi sínu, enda sé honum um leið gerð grein fyrir rétti sínum til þess að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en ákvörðun um hana er tekin.
             Þótt almennt sé litið svo á að forstöðumaður geti leyst starfsmann undan vinnuskyldu sinni, án þess að slíkt hafi áhrif á kjör hans samkvæmt ráðningar- eða kjarasamningi, þykir rétt að taka fram að forstöðumaður geti í þeim tilvikum þegar starfsmaður hefur brotið starfsskyldur leyst hann undan vinnuskyldu sinni á meðan mál hans er leitt til lykta. Dæmi um slíkt væri að starfsmaður hefði brotið starfsskyldur sínar með þeim hætti að honum væri ekki vært að sinna starfi sínu vegna alvarlegs trúnaðarbrests. Á meðan starfsmaður væri laus undan vinnuskyldu sinni gæfist forstöðumanni færi á að kanna málið frekar og gefa honum kost á að skýra mál sitt áður en ákvörðun um uppsögn yrði tekin.
     3.      Loks er lagt til að ný grein bætist við frumvarpið er verði 5. gr. Þar er lagt til að 1. málsl. 2. mgr. 51. gr. laganna verði breytt þannig að í stað tilvísunar í 21. gr. verði vísað í 44. gr., sbr. breytingartillögu við 3. gr. frumvarpsins.
    Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 7. maí 2004.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Birgir Ármannsson.


Gunnar Birgisson.



Dagný Jónsdóttir.