Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 734. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1610  —  734. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 134 22. desember 1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Árnadóttur, Atla Frey Guðmundsson og Þóru Margréti Hjaltested frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Jóhannes Gunnarsson frá Neytendasamtökunum, Fjólu Guðjónsdóttur og Tryggva Axelsson frá Löggildingarstofu, Halldór Árnason og Ágúst Þór Jónsson frá ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur, Guðrúnu Rögnvaldsdóttur frá Staðlaráði Íslands, Gústaf A. Skúlason frá Samtökum atvinnulífsins, Helga Sigurðsson frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Sigríði Á. Andersen frá Verslunarráði Íslands og Sigurð Jónsson frá Samtökum verslunar og þjónustu.
    Grundvöllur frumvarpsins er ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 9/2003 frá 31. janúar 2003 um að fella inn í EES-samninginn og taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/95/EB, um öryggi vöru.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að útvíkka gildissvið laganna til þjónustuviðskipta þó svo að það sé ekki hluti af framangreindri tilskipun. Þetta telur meiri hlutinn ekki vera tímabært. Svo vel megi takast við setningu grunnreglna um öryggi þjónustuviðskipta þarf að kynna slíkar hugmyndir vel fyrir þjónustuveitendum og gæta þess vel að ekki verði lagðar of þungar byrðar á atvinnulífið. Meiri hlutinn leggur því til að gildissvið laganna verði ekki útvíkkað á þann hátt sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, þ.e. að fella þjónustuviðskipti undir lögin, heldur verði sá möguleiki skoðaður frekar, m.a. í samráði við þjónustuaðila hér á landi.
    Meiri hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali, en þær eru:
     1.      Að gildissvið laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu verði ekki útvíkkað á þann hátt sem gert er í frumvarpinu hvað varðar þjónustuviðskipti. Lagt er til að orðið „þjónusta“ verði fellt út á viðeigandi stöðum í frumvarpinu, en þó ekki alls staðar því að gildandi lög taka til þjónustu sem veitt er í tengslum við vöruviðskipti og sömuleiðis verði felld brott ákvæði sem hafa þann tilgang að útvíkka gildissvið laganna á framangreindan hátt.
     2.      Að breytt verði skilyrðum 9. gr. hvað varðar þann tíma sem framleiðandi þarf að geyma gögn varðandi framleiðslu sína þannig að sá tími miðist við skilyrði bókhaldslaga í stað líftíma vörunnar.




Prentað upp.

     3.      Aðrar breytingar sem meiri hlutinn leggur til eru fyrst og fremst orðalagsbreytingar.
    Ögmundur Jónasson undirritar álit þetta með fyrirvara og áskilur sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið.
    Gunnar Örlygsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu en áskilur sér rétt til að styðja breytingartillögur við málið.

Alþingi, 7. maí 2004.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Gunnar Birgisson.



Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.