Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 480. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1612  —  480. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson og Ólaf Pál Gunnarsson frá fjármálaráðuneyti, Pál Gunnar Pálsson, Þórarin Þorgeirsson og Sigríði Ómarsdóttur frá Fjármálaeftirlitinu, Indriða H. Þorláksson ríkisskattstjóra, Ragnar Þ. Jónasson frá Kauphöll Íslands, Magnús M. Norðdahl frá ASÍ, Andra V. Sigurðsson, KB banka, Hafliða Kristjánsson, KB banka, Guðbjörgu Bjarnadóttur, Landsbanka, og Hermann Jónasson, Landsbanka, frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Sigþrúði Ármann frá Verslunarráði Íslands og Hrafn Magnússon og Þorgeir Eyjólfsson frá Landssambandi lífeyrissjóða.
    Þær breytingar sem felast í frumvarpinu varða annars vegar innleiðingu á tilskipun nr. 98/49/EB, um verndun viðbótarlífeyrisréttinda launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem flytjast á milli aðildarríkja EB, sbr. 3. gr. frumvarpsins, en hins vegar eru lagðar til breytingar á 8. gr. laganna er leggja skyldur á herðar erlendum aðilum sem óska eftir að starfa á íslenskum markaði og 36. gr. laganna er varðar heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga.
    Við meðferð málsins spannst nokkur umræða um rök með og á móti því að hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða séu skráð í kauphöll og um túlkun á 36. gr. laganna varðandi þetta efni. Eftir að hafa hlýtt á mál gesta ákvað nefndin að leggja ekki til efnislegar breytingar á frumvarpinu er tækju sérstaklega á þessu eða breyttu gildandi framkvæmd. Nefndin mælist þó til þess að fjármálaráðherra taki málið til ítarlegrar skoðunar í samstarfi við Fjármálaeftirlitið og Kauphöll Íslands.
    Að lokinni umfjöllun um málið og fundi með gestum ákvað nefndin að leggja til nokkrar breytingar á 4. gr. frumvarpsins sem flestar eru lagðar til vegna athugasemda sem komu fram í umsögnum um málið auk þess að leggja til að við frumvarpið bætist ný grein er kveði sérstaklega á um innleiðingu framangreindrar EB-tilskipunar. Loks er lögð til breyting á gildistökuákvæði frumvarpsins.
    Nefndin leggur til:
     1.      Að gerðar verði eftirtaldar breytingar á 4. gr. frumvarpsins:
                  Lagt er til að b-lið verði breytt og nýjum tölulið, 8. tölul., bætt við 1. mgr. 36. gr. laganna. Ákvæðum þess töluliðar er ætlað að taka til hlutdeildarskírteina eða hluta annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu en þeirra sem falla undir 7. tölul. 1. mgr. 36. gr. gildandi laga. Mismunandi tegundir og rekstrarform erlendra sjóða um sameiginlega fjárfestingu, annarra en UCITS-sjóða, þ.e. sjóða sem uppfylla skilyrði tilskipunar 85/ 611/EB, hafa valdið nokkrum erfiðleikum við að meta undir hvaða töluliði 1. mgr. 36. gr. laganna fjárfestingar í sjóðunum skuli falla, þ.e. hvort 6., 7. eða 8. tölul. 1. mgr. 36. gr. gildandi laga eigi við. Jafnframt hafa lífeyrissjóðir vegna erlendra sjóða átt erfitt með að fullnægja áskilnaði 7. tölul. 1. mgr. 36. gr. um að horft skuli í gegnum sjóð vegna annarra takmarkana 36. gr. Með hliðsjón af framangreindu er talið eðlilegt að það gildi aðrar og þrengri takmarkanir um fjárfestingar í öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu en í UCITS-sjóðum og fjárfestingarsjóðum samkvæmt lögum nr. 30/2003, auk þess sem ekki yrði horft í gegnum þá eins og á aftur á móti við um sjóði skv. 7. tölul. 1. mgr. 36. gr. Er því lagt til að um alla aðra sjóði um sameiginlega fjárfestingu en verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði sem falla undir 7. tölul. 1. mgr. 36. gr. gildi ein sambærileg regla og að þeir lúti sömu takmörkunum og gilda um hlutabréf. Jafnframt mundu fjárfestingar lífeyrissjóða í fjárfestingarsjóðum samkvæmt lögum nr. 30/2003, sem fullnýta fjárfestingarheimildir samkvæmt lögunum, m.a. til lántöku og skortsölu, falla þar undir.
                  Lagt er til að c–e-lið 4. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að þeir liðir mæli aðeins fyrir um breytingar sem gera þarf á millivísunum í 36. gr. laganna vegna þeirra breytinga sem gerðar eru með frumvarpinu og þeirra sem nefndin leggur til.
                  Þá er lagt til að nýir málsliðir bætist við 4. mgr. 36. gr. laganna þar sem kveðið er á um að samanlögð eign skv. 6. og 8. tölul. 1. mgr. 36. gr. eins og hún mun hljóða, verði frumvarpið samþykkt með þeim breytingum sem nefndin leggur til, skuli ekki vera meiri en 50% af hreinni eign sjóðsins. Þá skuli eignir lífeyrissjóðs skv. 8. tölul. í sjóðum sem lúta ekki opinberu eftirliti aldrei vera meiri en 10% af hreinni eign sjóðsins. Þar sem segir „opinberu eftirliti“ í ákvæðinu er átt við sjóði um sameiginlega fjárfestingu sem starfa samkvæmt sérstökum lögum er skilgreina t.d. fjárfestingarheimildir, skipulag og upplýsingaskyldu sjóðs og lúta opinberu eftirliti vegna þessara þátta.
                  Enn eru lagðar til breytingar á 5. mgr. 36. gr. laganna til viðbótar þeim sem lagðar eru til í frumvarpinu. Meginefni þeirrar breytingar sem nefndin leggur til er að samkvæmt tillögunni er lífeyrissjóði eigi heimilt að eiga meira en 15% af hlutdeildarskírteinum eða hlutum annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu, sbr. breytingartillögur um nýjan 8. tölul., og eigi meira en 25% af hlutdeildarskírteinum útgefnum af sama fjárfestingarsjóði eða einstakri deild hans.
                  Loks er lögð til breyting á orðalagi e-liðar frumvarpsins.
     2.      Að bætt verði við ákvæði sem kveði skýrt á um að með lögunum sé innleidd tilskipun nr. 98/49/EB, um verndun viðbótarlífeyrisréttinda launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem flytjast á milli landa.
     3.      Að bætt verði við lögin ákvæði til bráðabirgða er veiti lífeyrissjóðum tíma til að aðlaga fjárfestingar sínar að hluta þeirra krafna sem felast í breytingum á 5. mgr. 36. gr. Verði frumvarpið samþykkt með þeim breytingum sem nefndin leggur til munu tveir nýir málsliðir, 3. og 6. málsl., bætast við 5. mgr. 36. gr. laganna og þar eru gerðar auknar kröfur til lífeyrissjóða um að dreifa eign sinni á fleiri en einn fjárfestingarkost. Eðlilegt er að þeir lífeyrissjóðir fái ráðrúm til að bregðast við þeirri takmörkun sem í ákvæðinu felst og því leggur nefndin til að í bráðabirgðaákvæðinu verði þeim veittur frestur til 1. janúar 2006.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Gunnar Örlygsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 27. apríl 2004.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Birgir Ármannsson.



Dagný Jónsdóttir.


Drífa Hjartardóttir.


Össur Skarphéðinsson.



Einar Már Sigurðarson.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Steingrímur J. Sigfússon.