Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 856. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1614  —  856. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum.

Frá félagsmálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Bragason frá félagsmálaráðuneyti, Róbert Ragnarsson, verkefnisstjóra verkefnis um eflingu sveitarstjórnarstigsins, og Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Meginefni frumvarpsins má skipta í tvo þætti. Annars vegar er miðað að því að bæta gildandi ákvæði laganna hvað varðar skipan manna í nefndir og ráð og rýmka heimildir sveitarstjórna til að ábyrgjast lán til stofnana og fyrirtækja í eigu þeirra. Hins vegar eru í frumvarpinu ákvæði sem taka til atkvæðagreiðslna um sameiningu sveitarfélaga sem fram munu fara vorið 2005 á grundvelli tillagna sameiningarnefndar sem félagsmálaráðherra hefur skipað.
    Frumvarpið er unnið í félagsmálaráðuneytinu sem hefur við undirbúning þess haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og fleiri fulltrúa sveitarstjórna auk samráðs við verkefnisstjórn um eflingu sveitarstjórnarstigsins.
    Nefndin leggur áherslu á hve mikilvægt það er að vel takist til við sameiningu sveitarfélaga og að flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga skaði ekki stöðu sveitarfélaga.
    Sveitarfélög greiða allan kostnað við sameiningu sveitarfélaga. Í kostnaðaráætlun með frumvarpinu kemur fram að áætlaður kostnaður við sameiningarkosningar árið 2005 sé á bilinu 20–50 millj. kr. Í frumvarpinu er bent á að sveitarfélög geta sótt um aðstoð frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að standa straum af kostnaði við undirbúning og framkvæmd sameiningar og í umræðum um málið í nefndinni kom fram hjá fulltrúum félagsmálaráðuneytis að fyrir liggi vilyrði sjóðsins fyrir allt að 28,5 millj. kr. styrk við verkefni um eflingu sveitarstjórnarstigsins á árunum 2003–2005.
    Nefndin leggur áherslu á að við undirbúning sameiningarkosninga sem fram eiga að fara í maí 2005 verði reynt að halda öll tímamörk sem m.a. koma fram í athugasemdum við frumvarpið þannig að íbúum gefist góður tími til að kynna sér sameiningartillögur. Jafnframt leggur nefndin áherslu á að áður en ráðist er í sameiningarkosningar þurfi línur að vera skýrar varðandi flutning verkefna og tekjustofna frá ríki til sveitarfélaga.
Prentað upp.

    Nefndin gerir ekki athugasemdir við aðalatriði frumvarpsins og leggur til að það verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali, en þær eru:
     1.      Að 3. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að ný málsgrein komi í stað 2. og 3. mgr. Tillaga nefndarinnar miðar fyrst og fremst að því að tryggja minni hluta sveitarstjórna rétt til að skipta um fulltrúa í nefndum og ráðum til jafnvægis við rétt meiri hluta. Tillagan byggist að verulegu leyti á umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem send var nefndinni um málið og athugasemdum sem þar komu fram.
     2.      Að hlutfalli sem kveðið er á um í 6. gr. og c-lið 7. gr. verði breytt í 2/ 3 til samræmis við ákvæði gildandi laga.
     3.      Að breytt verði orðalagi 1. mgr. a-liðar 7. gr. Þar er ekki um efnisbreytingu að ræða heldur horft til þess að félagsmálaráðherra hefur þegar skipað sameiningarnefnd vegna átaksverkefnis um eflingu sveitarstjórnarstigsins sem unnið er í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Katrín Júlíusdóttir, Helgi Hjörvar, Jóhanna Sigurðardóttir og Gunnar Örlygsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara og áskilja sér rétt til að styðja breytingartillögur við málið.
    Ögmundur Jónasson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu en áskilur sér þó rétt til að leggja fram og styðja breytingartilllögur við málið.

Alþingi, 6. maí 2004.Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðlaugur Þór Þórðarson.


Guðjón Hjörleifsson.Birkir J. Jónsson.


Pétur H. Blöndal.


Katrín Júlíusdóttir,


með fyrirvara.


Helgi Hjörvar,


með fyrirvara.

Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.

Gunnar Örlygsson,


með fyrirvara.