Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 868. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1655  —  868. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um þjóðgarðinn á Þingvöllum.

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Andra Stefánsson frá forsætisráðuneyti, Sigurð Oddsson frá Þingvallanefnd, Gunnar Þorgeirsson frá Grímsnes- og Grafningshreppi, Svein Sædal frá Bláskógabyggð, Arinbjörn Vilhjálmsson skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu, hr. Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands, Guðmund Þór Guðmundsson frá kirkjuráði og sr. Halldór Gunnarsson. Umsagnir bárust um málið frá Bláskógabyggð, Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins, Grímsnes- og Grafningshreppi, Veiðimálastofnun, Landmælingum Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Skipulagsstofnun, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Fornleifavernd ríkisins, kirkjuráði, Þjóðminjasafni Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Landvernd. Þá sendi nefndin umhverfisþátt málsins til umsagnar umhverfisnefndar. Umsögn hennar er birt sem fylgiskjal með nefndaráliti þessu.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um þjóðgarðinn á Þingvöllum, en núgildandi lög sem taka til friðunar Þingvalla eru frá árinu 1928. Megintilgangur frumvarpsins er að stækka þjóðgarðinn úr 40 km 2 í 237 km 2. Stækkunin er því nánast sexföld. Þá eru í frumvarpinu settar fyllri efnisreglur um stjórn þjóðgarðsins og skýrt er kveðið á um tengsl Þingvallanefndar við hefðbundna stjórnsýslu ríkisins og úrskurðarvald í stjórnsýslukærum vegna ákvarðana Þingvallanefndar.
    Nefndin vekur athygli á því að 1. febrúar 2003 tilnefndi ríkisstjórn Íslands Þingvallaþjóðgarð á heimsminjaskrá UNESCO. Nefndin telur það metnaðarmál að Þingvellir verði samþykktir á heimsminjaskrána, en ráðgert er að ákvörðun þess efnis verði tekin nú í sumar í Kína. Nefndin telur að það muni fela í sér mikla viðurkenningu á sérstöðu Þingvalla sem og alþjóðlega viðurkenningu sem á að öllum líkindum eftir að hafa í för með sér jákvæð áhrif á náttúru- og minjavernd og ferðaþjónustu.
    Við meðferð málsins í nefndinni var athygli nefndarmanna vakin á því í umsögnum og á fundum með gestum að nokkrir aðilar óskuðu eftir að haft yrði samráð við þá af hálfu Þingvallanefndar um málefni þjóðgarðsins á Þingvöllum. Nefndin telur eðlilegt að mælt verði fyrir um samráð Þingvallanefndar við sveitarstjórnir Grímsnes- og Grafningshrepps og Bláskógabyggðar í reglugerð og beinir því til ráðherra að svo verði gert. Þá telur nefndin sjálfsagt að kveðið verði á um samráð við Fornleifavernd ríkisins um stjórnsýslu fornleifa á svæðinu í reglugerð, en í framkvæmd mála fram til þessa hefur verið virkt samráð við stofnunina sem festa má betur í sessi með reglugerðarákvæði.


Prentað upp á ný.

         Þá kom það einnig í ljós við meðferð málsins í nefndinni að kirkjuráð telur kirkjuna telja til réttinda á því svæði sem frumvarpið tekur til. Af þessu tilefni tekur nefndin fram að í 1.
gr. frumvarpsins er á sama hátt og í 4. gr. gildandi laga gert ráð fyrir að allt land innan hins friðlýsta svæðis verði í eigu þjóðarinnar. Nefndin telur að frumvarpið feli ekki í sér neina efnislega breytingu hvað þetta varðar, en bendir á að telji einhver annar til réttinda innan hins friðlýsta svæðis er í 5. gr. frumvarpsins að finna ákvæði um hvernig úr því skuli leysa.
    Nefndin leggur áherslu á að með heimild 6. gr. frumvarpsins um að í reglugerð megi ákveða að taka gestagjöld innan þjóðgarðsins fyrir veitta þjónustu og dvöl þar til að mæta kostnaði við þjónustuna og eftirlit með dvalargestum sé eingöngu átt við þjónustugjöld, svo sem fyrir tjaldstæði, leiðsögn og aðgang að ákveðnum stöðum. Þessi gjöld má því ekki ákveða hærri en svo að þau standi undir kostnaði við hina veittu þjónustu og þá aðstöðu sem komið er upp til að veita hana. Nefndin telur þó að heimild þessa ætti ekki að nýta til að krefjast almenns aðgangseyris að garðinum.
    Samhliða framlagningu þessa frumvarps af hálfu forsætisráðherra hefur umhverfisráðherra lagt fram frumvarp til laga um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Nefndin sendi frumvarpið til umsagnar umhverfisnefndar eins og áður greindi. Í umsögn hennar kemur m.a. fram að umhverfisnefnd leggur til að tillaga sem forsætisráðuneyti hefur beint til allsherjarnefndar, um að við frumvarpið um þjóðgarðinn á Þingvöllum verði bætt ákvæði um vatnsvernd innan hans, verði tekin til greina.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Helstu breytingar eru þessar:
     1.      Nefndin leggur til að orðalagi lokamálsgreinar 1. gr. frumvarpsins verði breytt í það horf sem 4. gr. gildandi laga er í, en greinarnar eru efnislega samhljóða. Nefndin telur hins vegar að í gildandi lögum frá 1928 sé að finna hljómfagran og ljóðrænan texta sem ástæða sé til að halda áfram í lögum sem snúa að þeirri þjóðargersemi sem Þingvellir eru. Með hliðsjón af breytingunni er jafnframt lagt til að orðin „undir vernd Alþingis“ verði felld brott úr 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins til að forðast tvítekningu.
     2.      Nefndin leggur til að gerðar verði breytingar á því ákvæði frumvarpsins sem snýr að skipan Þingvallanefndar, en samkvæmt gildandi lögum um friðun Þingvalla, nr. 59/1928, skal Þingvallanefnd skipuð þremur alþingismönnum. Nefndin leggur til að nefndarmönnum verði fjölgað úr þremur í sjö þannig að allir þingflokkar geti átt fulltrúa í nefndinni í samræmi við vægi þingflokkanna hverju sinni. Nefndarmenn skulu kosnir hlutfallskosningu á Alþingi, sbr. 1. mgr. 68. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, nema um annað semjist. Þá leggur nefndin til að kosnir verði jafnmargir varamenn í samræmi við 32. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Nefndin leggur til að kjörið verði í nefndina í upphafi hvers þings um leið og kosið er í fastanefndir þingsins og telur fara vel á því að Þingvallanefnd sé skipaður sams konar sess og þeim. Í ljósi tengsla nefndarinnar við forsætisráðuneyti leggur nefndin loks til að forsætisráðherra skipi formann og varaformann nefndarinnar úr hópi aðalmanna. Þrátt fyrir þær breytingar sem nefndin leggur til að verði gerðar er áfram gert ráð fyrir að sú Þingvallanefnd sem nú situr haldi umboði sínu út það tímabil sem hún var kjörin til, eða fram yfir næstu alþingiskosningar.
     3.      Eins og áður kom fram hefur umhverfisráðherra lagt fram frumvarp til laga um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess samhliða framlagningu þessa frumvarps af hálfu forsætisráðherra. Með hliðsjón af því og fyrrgreindri umsögn umhverfisnefndar leggur nefndin til að aukið verði við frumvarpið sérstöku ákvæði um vatnið og lífríki þess, en sá hluti vatnsins sem verður innan þjóðgarðsins mun heyra undir valdsvið Þingvallanefndar svo að nefndin hafi tilskildar valdheimildir hvað varðar vatnsvernd innan þjóðgarðsins.
    Sigurjón Þórðarson skrifar undir álit þetta með fyrirvara sem lýtur að skipun Þingvallanefndar.
    Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu með fyrirvara um skipun Þingvallanefndar og fyrirvara sem sjá má við umsögn umhverfisnefndar til allsherjarnefndar og birtist sem fylgiskjal með nefndaráliti þessu.

Alþingi, 12. maí 2004.Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.Þórarinn E. Sveinsson.


Guðrún Inga Ingólfsdóttir.


Bryndís Hlöðversdóttir.Sigurjón Þórðarson,


með fyrirvara.

Sigurður Kári Kristjánsson.


Ágúst Ólafur Ágústsson.
Fylgiskjal.


Umsögn umhverfisnefndar.


    Umhverfisnefnd hefur borist bréf allsherjarnefndar, dags. 13. apríl sl., þar sem óskað er eftir umsögn nefndarinnar um 868. mál, frumvarp til laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Andra Stefánsson frá forsætisráðuneyti og Sigurð Oddsson þjóðgarðsvörð á Þingvöllum.
    Í frumvarpinu er lagt til að hið friðhelga land á Þingvöllum verði stækkað verulega. Frumvarpinu er ætlað að koma í stað gildandi laga nr. 59/1928, um friðun Þingvalla. Nefndin bendir á að áður hefur verið lagt fram frumvarp til laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum, 560. mál á 123. löggjafarþingi (1998–99) en það var ekki afgreitt. Frá þeim tíma hafa viðhorf til náttúruverndar breyst verulega.
    Nefndin telur að með frumvarpinu sé stigið mikilvægt skref til að tryggja vernd hinnar sérstöku náttúru innan þjóðgarðsins. Þingvellir hafa þá sérstöðu að vera helgur staður í huga þjóðarinnar. Lítur nefndin svo á að með samþykkt frumvarpsins yrði lagður grunnur að mikilfenglegu útivistarsvæði fyrir landsmenn í næsta nágrenni við stærstu þéttbýlissvæði landsins. Nefndin lýsir ánægju sinni með að í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að eitt af markmiðunum með friðuninni sé að viðhalda eins og kostur er hinu upprunalega náttúrufari.
    Í gildandi lögum kemur hvergi fram að hið friðhelga land á Þingvöllum sé þjóðgarður eins og lagt er til í frumvarpinu. Nefndin telur rétt að heitið þjóðgarður verði notað um hið friðaða svæði enda höfðu Þingvellir löngu áður en hugtakið þjóðgarður kom í náttúruverndarlög öðlast þann sess meðal þjóðarinnar og það heiti hefur lengi verið notað um svæðið.
    Í nefndinni er nú til umfjöllunar frumvarp til laga um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess (þskj. 1420, 934. mál). Í því frumvarpi er gert ráð fyrir að um vatnsverndun innan þjóðgarðsins á Þingvöllum gildi ákvæði laga um þjóðgarðinn. Í bréfi forsætisráðuneytisins til allsherjarnefndar er lagt til með hliðsjón af framangreindu að við frumvarpið um þjóðgarðinn á Þingvöllum verði bætt ákvæði um vatnsvernd innan hans. Leggur nefndin til að sú tillaga verði tekin til greina.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins.
    Kolbrún Halldórsdóttir skrifar undir umsögn þessa með fyrirvara þar sem að hún telur að heildarstefnumótun í málefnum þjóðgarða og friðaðra svæða þurfi að vera samræmd í landinu. Þar af leiðandi þurfi verndarsvæði sem friðað er á forsendum náttúruverndar að heyra a.m.k. að hluta til undir þá stjórnsýslustofnun sem með slík svæði fer.
    Sigurjón Þórðarson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur umsögn þessari.

Alþingi, 27. apríl 2004.

Sigríður A. Þórðardóttir, form.
Rannveig Guðmundsdóttir.
Dagný Jónsdóttir.
Kolbrún Halldórsdóttir, með fyrirvara.
Guðlaugur Þór Þórðarson.
Mörður Árnason.
Guðjón Hjörleifsson.
Brynja Magnúsdóttir.
Guðmundur Hallvarðsson.