Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 484. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1683  —  484. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um úttekt á stöðu íslenskra farskipa.

Frá samgöngunefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Briem frá Sambandi íslenskra farskipa, Pálmar Óla Magnússon frá Samskipum, Steinþór Ólafsson og Guðmund Kjærnested frá Atlantsskipum og Hauk Ó. Stefánsson og Höskuld H. Ólafsson frá Eimskip.
    Skriflegar umsagnir um málið bárust frá Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Vélstjórafélagi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Eldingu, Olíudreifingu og Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða.
    Þá var nefndinni afhent, á fundi 25. mars sl., yfirlýsing frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi íslenskra skipstjórnarmanna, Nemendafélagi Stýrimannaskólans í Reykjavík, Nemendafélagi Vélskóla Íslands, Sjómannafélagi Reykjavíkur og Vélstjórafélagi Íslands um aðgerðir til að jafna samkeppnisstöðu íslenskra kaupskipaútgerða. Yfirlýsingunni er beint til ríkisstjórnarinnar og samgöngunefndar Alþingis og er hún dagsett 11. febrúar 2004. Í yfirlýsingunni lýsa þeir aðilar sem skrifa undir hana áhyggjum af þeirri einangrun sem Ísland hefur stefnt í á sviði viðskipta, siglinga og þekkingar hvað varðar kaupskipaútgerð. Segir þetta nokkuð um þá hagsmuni sem hér eru í húfi og mikilvægi þess að snúið sé við þeirri þróun sem orðið hefur hérlendis undanfarin ár.
    Í tillögunni er lagt til að fjármálaráðherra verði falið að skipa fimm manna nefnd til að kanna, m.a. með tilliti til hvað aðrar þjóðir hafa gert, hvernig breyta megi skattareglum og öðrum reglum sem lúta að útgerð farskipa þannig að íslenskar útgerðir sjái sér hag í að sigla skipum sínum undir íslenskum fána með íslenskar áhafnir.
    Þeir gestir sem komu á fund nefndarinnar lýstu sig fylgjandi meginefni tillögunnar. Gestirnir töldu sérstaklega mikilvægt að í vinnslu málsins verði skoðaðar reglur annarra þjóða sem taldar eru standa framarlega í þessum málum og að rétt sé að stefna að því að gera rekstrarumhverfi farskipaútgerða svo hagstætt hér á landi að það geti orðið freistandi fyrir innlenda og erlenda aðila að eiga og reka farskip á Íslandi. Hvað varðar greinargerð með tillögunni töldu sumir gestanna að þar væri ekki tekið tillit til þess að skip íslenskra farskipaútgerða eru að hluta mönnuð íslenskum áhöfnum og lýstu fyrir nefndinni hvernig mönnun þeirra skipa er háttað.
    Á undanförnum árum hefur verið lögð vaxandi áhersla á að rekstrarumhverfi fyrirtækja sé sem best og að það verði líkt því sem er í nágrannalöndum og þannig stuðlað að fjölgun starfa. Nærtækt dæmi um hvað lög og reglur geta ráðið miklu um eflingu starfa sem tengjast farskipum er fjölgun farskipa skráðra í Færeyjum eftir að reglum var breytt þar.
    Nefndin vekur athygli á að í tillögunni er lagt til að kannað sé hvort tveggja, flöggun farskipa íslenskra útgerða og mönnun þeirra með íslenskum áhöfnum. Vegna þessa getur málið fallið undir verksvið fleiri en eins ráðuneytis og leggur nefndin til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Þuríður Backman sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk þessu áliti.

Alþingi, 6. maí 2004.Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.Guðjón Hjörleifsson.


Birkir J. Jónsson.


Einar Már Sigurðarson.Ásta R. Jóhannesdóttir.


Jóhann Ársælsson.


Guðjón A. Kristjánsson.