Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 463. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1712  —  463. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um lögmenn, nr. 77 15. júní 1998, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Þorstein Geirsson frá dómsmálaráðuneyti, Gunnar Jónsson, Jóhannes Karl Sveinsson og Jóhannes Rúnar Jóhannsson frá Lögmannafélagi Íslands, Daða Bjarnason og Helgu Jónsdóttur frá Félagi lögfræðinga fjármálafyrirtækja, Eirík Tómasson frá lagadeild Háskóla Íslands, Teit Björn Einarsson og Berglindi Báru Sigurjónsdóttur frá Orator, félagi laganema, Mikael M. Karlsson frá Háskólanum á Akureyri, Ingibjörgu Þorsteinsdóttur frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst, Bjarka R. Kristjánsson, Braga Rúnar Axelsson og Maj-Britt Hjördísi Briem frá Nemendafélagi Viðskiptaháskólans á Bifröst, Gísla Tryggvason frá Bandalagi háskólamanna, Þórð S. Gunnarsson og Davíð Þór Björgvinsson frá Háskólanum í Reykjavík, Jón Kristin Sverrisson frá Lögréttu, félagi laganema við Háskólann í Reykjavík, Val Árnason og Hellen M. Gunnarsdóttur frá menntamálaráðuneyti og Benedikt Bogason frá réttarfarsnefnd.
    Umsagnir bárust um málið frá Lögmannafélagi Íslands, Félagi lögfræðinga fjármálafyrirtækja, réttarfarsnefnd, Háskólanum á Akureyri, Lögréttu, félagi laganema, Skólafélagi Viðskiptaháskólans á Bifröst, Háskólanum í Reykjavík, Viðskiptaháskólanum á Bifröst, Lagadeild Háskóla Íslands, Orator, félagi laganema, Bandalagi háskólamanna og Stéttarfélagi lögfræðinga.
    Í frumvarpinu eru lagðar til töluverðar breytingar á gildandi lögum um lögmenn, nr. 77/1998. Breytingarnar eru þessar helstar:
     1.      Lagt er til að lögin taki einnig til erlendra lögmanna sem hafa heimild til að starfa hér á landi í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamningi EFTA. Með breytingunni munu lögmenn sem samkvæmt EES-samningnum hafa hér á landi staðfestu og starfa undir starfsheiti heimalands síns geta eftir tiltekinn starfstíma öðlast rétt til að fá íslensk lögmannsréttindi. Jafnframt munu lögin taka til þeirra sem hafa heimild til að veita þjónustu hér á landi án staðfestu undir starfsheiti heimalands síns.
     2.      Í frumvarpinu er lagt til að það verði ekki lengur skilyrði fyrir öflun héraðsdómslögmannsréttinda að viðkomandi hafi lokið embættisprófi í lögfræði við Háskóla Íslands heldur að viðkomandi skuli hafa lokið fullnaðarprófi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi við lagadeild háskóla sem viðurkenndur er af menntamálaráðuneytinu. Þetta er lagt til til að bregðast við breyttu umhverfi laganáms á Íslandi, en á síðustu árum hafa þrjár nýjar lagadeildir tekið til starfa, þ.e. lagadeild Háskólans í Reykjavík, lagadeild Viðskiptaháskólans á Bifröst og lagadeild Háskólans á Akureyri. Í frumvarpinu

Prentað upp á ný.


        er jafnframt gert ráð fyrir þeim skilyrðum fyrir öflun lögmannsréttinda að viðkomandi hafi aflað sér starfsreynslu sem annaðhvort lögmannsfulltrúi eða starfsmaður tiltekinna embætta hjá ríkinu í sex mánuði annars vegar og eitt ár hins vegar.
     3.      Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir breytingum á fyrirkomulagi þess að héraðsdómslögmaður geti aflað sér hæstaréttarlögmannsréttinda. Í núgildandi lögum segir að sá sem óskar eftir réttindum til að vera hæstaréttarlögmaður skuli hafa haft réttindi til að vera héraðsdómslögmaður í fimm ár og fullnægja kröfum skv. 1.– 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna um lögræði og andlega færni, að bú viðkomandi hafi aldrei verið tekið til gjaldþrotaskipta og að hann hafi óflekkað mannorð. Þá skal viðkomandi hafa flutt minnst þrjátíu mál fyrir héraðsdómi eða sérdómstóli og sýna fram á það með prófraun sem felst í flutningi tveggja mála fyrir Hæstarétti að hann sé hæfur til að öðlast réttindin. Í frumvarpinu er hins vegar lögð til breyting á síðasttöldu skilyrðunum þess efnis að viðkomandi lögmaður hafi flutt minnst 40 mál munnlega fyrir héraðsdómstóli eða sérdómstóli, þar af a.m.k. 10 einkamál sem fullnægja skilyrðum um áfrýjun til Hæstaréttar eða fengið hafa leyfi Hæstaréttar til áfrýjunar. Þá skal lögmaðurinn sýna fram á það með prófraun sem felst í munnlegum flutningi fjögurra mála fyrir fimm eða sjö dómurum í Hæstarétti að hann sé hæfur til að öðlast réttindin, og skulu minnst tvö málanna vera einkamál. Gert er ráð fyrir að prófnefnd sem tekið hefur ákvörðun um það hvort lögmaður fái að þreyta prófraun fyrir Hæstarétti verði lögð niður. Þess í stað verði Hæstarétti tilkynnt um ósk viðkomandi lögmanns um að þreyta prófraunina og lögð fram staðfesting dómsmálaráðherra á að skilyrðum til þess að mega gangast undir hana sé fullnægt. Dómarar Hæstaréttar sem skipa dóm í viðkomandi máli meti eftir sem áður hvort lögmaður hafi staðist prófraun hverju sinni.
     4.      Í 7. gr. frumvarpsins eru svo lagðar til nokkrar breytingar á 12. gr. núgildandi laga, einkum varðandi heimild þeirra sem fengið hafa undanþágu frá skyldum til að hafa skrifstofu opna almenningi, sérstakan vörslufjárreikning í viðurkenndri bankastofnun og gilda starfsábyrgðartryggingu til að nefna sig lögmenn. Lagt er til að þeim sem starfar á slíkri undanþágu verði óheimilt að nefna sig lögmann nema þegar viðkomandi kemur fram fyrir hönd opinberrar stofnunar eða einkaaðila sem hann gegnir föstu starfi hjá og veitir engum öðrum þjónustu sem lögmaður eða gegnir föstu starfi hjá félagasamtökum og veitir engum öðrum en þeim samtökum og félagsmönnum þeirra þjónustu sem skal falla innan starfssviðs samtakanna.
     5.      Loks er í frumvarpinu lagt til að gerðar verði breytingar á orðalagi í 12.–17. gr. núgildandi laga. Breytingarnar miða að því að réttindi lögmanns geti fallið niður sem hér segir:
              a.      Lögmaður leggur réttindi sín inn og þau eru lýst óvirk.
              b.      Réttindi lögmanns eru felld niður, tímabundið eða ótímabundið.
              c.      Réttindi lögmanns falla sjálfkrafa niður.
              d.      Lögmaður er sviptur réttindum sínum.
    Nefndin ræddi ákvæði frumvarpsins ítarlega á fundum sínum. Þau atriði sem helst voru til umfjöllunar lutu að skilyrðum fyrir öflun héraðsdóms- og hæstaréttarlögmannsréttinda og því hverjir mættu kalla sig lögmenn og við hvaða kringumstæður.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir töluverðum breytingum á fyrirkomulagi þess að menn geti aflað sér héraðsdóms- og hæstaréttarlögmannsréttinda eins og lýst var hér að framan. Nefndin leggur til að ákvæðum frumvarpsins verði breytt á þann veg að starfsreynsluskilyrði b-liðar 4. gr. frumvarpsins verði fellt brott þannig að allir þeir lögfræðingar sem vilja afla sér héraðsdómslögmannsréttinda geti tekist á við það verkefni standi vilji þeirra til þess eins og núgildandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir, óháð því hvaða störf viðkomandi hafa lagt stund á fram að útgáfu réttindanna. Nefndin lítur svo á að skilyrði um starfsreynslu sé til þess fallið að takmarka aðgang að lögmannastéttinni og telur ekki rök standa til að festa slíkt skilyrði í lög.
    Nefndin beinir því jafnframt til dómsmálaráðherra að tekið verði til skoðunar hvort ástæða sé til að láta eftir atvikum reyna á almenna fagþekkingu þeirra lögfræðinga sem óska eftir að afla sér héraðsdómslögmannsréttinda.
    Nefndin leggur einnig til breytingar á ákvæðum varðandi öflun hæstaréttarlögmannsréttinda. Nefndin telur sanngjarnt að héraðsdómslögmenn sem vilja afla sér réttinda til málflutnings fyrir Hæstarétti hafi flutt töluverðan fjölda mála fyrir héraðsdómi. Nefndin telur þó engin efnisleg rök standa til þess að bæta tíu málum við þann fjölda sem miðað er við í núgildandi lögum og leggur því til að áfram verði miðað við 30 mál.
    Þá leggur nefndin til að fellt verði brott skilyrði 4. efnismgr. 7. gr. frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir að þeim lögmönnum sem starfa á svonefndri undanþágu frá því að hafa skrifstofu opna almenningi, sérstakan vörslufjárreikning í viðurkenndri bankastofnun og gilda starfsábyrgðartryggingu í eigin nafni megi eingöngu nefna sig lögmann þegar þeir koma fram fyrir hönd vinnuveitanda síns og í málum sem varða hagsmuni þeirra. Nefndin telur eðlilegt að þeim sem hafa aflað sér ákveðinna starfsréttinda með prófraun sé heimilt að nota það starfsheiti sem réttindunum fylgir án þeirra takmarkana sem ákvæði frumvarpsins gerir ráð fyrir. Nefndin telur að heimild allra þeirra sem hafa aflað sér leyfis til málflutnings fyrir íslenskum dómstólum til að skýra frá því að þeir hafi lögmannsréttindi sé sjálfsögð og eðlilegt að allir lögmenn geti kennt sig við þau réttindi sem þeir hafa aflað sér, hvernig sem störfum þeirra er varið. Af framangreindri breytingartillögu leiðir að nefndin leggur jafnframt til að ákvæði 18. gr. frumvarpsins um takmörkun á heimild þeirra sem hafa virk réttindi með undanþágu til að nota starfsheitið héraðsdómslögmaður eða hæstaréttarlögmaður falli brott.
    Í 8. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að Lögmannafélagi Íslands sé heimilt að krefja lögmann um greiðslu kostnaðar við rannsókn á fjárreiðum hans sem stjórn félagsins hefur falið endurskoðanda að ráðast í. Í þessu sambandi bendir nefndin á að skylduaðild er að Lögmannafélagi Íslands og félagsmönnum er jafnframt skylt að greiða gjald til þess að standa straum af kostnaði við rekstur félagsins . Nefndin telur óeðlilegt að kostnaði við eftirlitið verði velt yfir á félagsmann, jafnvel þótt niðurstaða rannsóknar sýni að allt sé í stakasta lagi hjá honum. Því telur nefndin rétt að þessi heimild verði þrengd þannig að hún taki einungis til þeirra tilvika þar sem um umfangsmikla rannsókn er að ræða sem hefur leitt í ljós misfellur í starfi.
    Þá leggur nefndin til að ákvæði 4. efnismgr. 8. gr. frumvarpsins varðandi sjálfkrafa niðurfall réttinda þegar lögmaður er sviptur sjálfræði eða fjárræði eða bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta falli brott. Nefndin telur að þessi regla fái tæplega staðist, enda ljóst að hún gæti leitt til þess að maður í starfi lögmanns væri búinn að missa réttindi til að gegna því án þess að skjólstæðingar hans eða þeir sem eftirlit eiga að hafa með lögmönnum hefðu tök á að vita um það. Regla af þessum toga gæti jafnframt skapað veruleg vandkvæði við úrlausn um gildi þess sem viðkomandi lögmaður hefði aðhafst í starfi sínu eftir réttindamissinn en áður en öðrum gæti hafa orðið kunnugt um það.
    Nefndin leggur til að bætt verði við bráðabirgðaákvæði frumvarpsins ákvæði varðandi skipun prófnefndar sem hefur umsjón með prófraun til að lögfræðingar geti öðlast héraðsdómslögmannsréttindi. Lagt er til að skipað verði í fyrsta skipti í prófnefnd samkvæmt hinu nýja ákvæði þegar skipunartími prófnefndar sem skipuð var samkvæmt eldra ákvæði rennur út. Einnig er lagt til að bætt verði við bráðabirgðaákvæði frumvarpsins ákvæðum um þá héraðsdómslögmenn sem hafa við gildistöku laganna fengið viðurkenningu á prófmáli til flutnings fyrir Hæstarétti þannig að þeir hafi frest til 1. desember 2005 til að ljúka prófrauninni, að því tilskildu að umsókn um síðara prófmál hafi borist prófnefnd fyrir 10. nóvember 2005. Loks leggur nefndin til að prófnefndin starfi til 30. nóvember 2005. Þannig á nægur tími að gefast til að ljúka afgreiðslu umsókna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Jónína Bjartmarz, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Bryndís Hlöðversdóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara sem þau munu gera grein fyrir við 2. umræðu um málið.
    Steingrímur J. Sigfússon sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 18. maí 2004.Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,


með fyrirvara.Jónína Bjartmarz,


með fyrirvara.


Birgir Ármannsson.


Bryndís Hlöðversdóttir,


með fyrirvara.Sigurjón Þórðarson.


Sigurður Kári Kristjánsson.


Ágúst Ólafur Ágústsson,


með fyrirvara.