Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 740. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1715  —  740. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á raforkulögum, nr. 65/2003.

Frá Steingrími J. Sigfússyni.



     1.      1.–10. gr. falli brott.
     2.      Í stað orðanna „1. janúar 2005“ í a-lið 11. gr. komi: 1. janúar 2008.
     3.      12. og 13. gr. falli brott.
     4.      Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  Ríkisstjórnin skal þegar að lokinni samþykkt laga þessara leita eftir viðræðum við Evrópusambandið um að Ísland fái varanlega undanþágu frá tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/92/EB um sameiginlegar reglur um innri markað á sviði raforku. Ekki skulu tekin frekari skref í átt til markaðsvæðingar íslenska raforkukerfisins meðan slíkar viðræður fara fram við Evrópusambandið um framhald málsins.

Greinargerð.


    Megintillaga þessara breytinga er að fresta frekari breytingum í átt til markaðsvæðingar íslenska raforkukerfisins og fela stjórnvöldum að leita án tafar eftir viðræðum við Evrópusambandið um að Ísland fái varanlega undanþágu frá raforkutilskipuninni. Verði sú niðurstaðan eru flestar greinar frumvarpsins óþarfar, sbr. breytingartillögurnar. Raforkutilskipunin á engan veginn við um íslenskar aðstæður þar sem hér er einangraður orkumarkaður, landfræðilegar aðstæður gerólíkar því sem gerist á meginlandi Evrópu auk þess sem margir fleiri þættir svo sem af félagslegum, sögulegum og umhverfislegum toga gera það að verkum að Íslendingar þurfa að hafa fullt sjálfstæði til að velja sínar eigin leiðir í þessum efnum. Markaðs- og einkavæðing raforkugeirans hefur gefist vægast sagt misjafnlega víða erlendis þar sem slíkt hefur verið reynt.