Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1002. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1758  —  1002. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum (rof á reynslulausn).

Frá allsherjarnefnd.



1. gr.

    Í stað orðsins „aðili“ í 1. og 2. málsl. 2. mgr. 41. laganna kemur: maður.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „aðili“ í 1. og 5. mgr. kemur: maður.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Að kröfu ákæranda getur þó dómstóll úrskurðað að maður, sem hlotið hefur reynslulausn, skuli afplána eftirstöðvar refsingar ef hann á reynslutíma rýfur gróflega almennt skilyrði reynslulausnar enda liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi framið nýtt brot sem varðað getur 6 ára fangelsi eða að brotið varði við 1. mgr. 218. gr. Við meðferð slíkrar kröfu skal dómari skipa honum verjanda að ósk hans og fara með málið eftir 1. mgr. 105. gr. laga um meðferð opinberra mála, eftir því sem við á. Heimilt er að kæra úrskurð dómara skv. 1. málsl. til Hæstaréttar og skal við meðferð kærumálsins farið eftir reglum XVII. kafla laga um meðferð opinberra mála, eftir því sem við á. Kæra frestar ekki framkvæmd úrskurðar. Dómari skal víkja sæti eftir útgáfu ákæru ef hann hefur áður úrskurðað mann, sem ákærður er í málinu, skv. 1. málsl.
     c.      Í stað orðsins „aðili“ tvívegis í 2. og 3. mgr. kemur: maður; og: hann.
     d.      Í stað orðanna „sbr. 1. og 2. mgr.“ í 3. mgr. kemur: sbr. 1.–3. mgr.
     e.      Í stað orðsins „aðila“ í 4. mgr. kemur: mann.
     f.      Í stað orðanna „sbr. 2. mgr.“ í 4. mgr. kemur: sbr. 2. og 3. mgr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


I.     Tilefni frumvarpsins.
1.     Almennt.
    Megintilgangur frumvarpsins er að gera hið almenna skilyrði reynslulausnar, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 41. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, virkara réttarúrræði með því að tryggja að fyrir hendi sé í lögum skjótvirkt og skilvirkt úrræði til að leita úrskurðar dómara um að


Prentað upp.

maður, sem hlotið hefur reynslulausn, verði látinn afplána eftirstöðvar refsingar þegar í stað hafi hann gróflega rofið hið almenna skilyrði reynslulausnar um að fremja ekki nýtt brot á reynslutíma. Um tilefni frumvarpsins vísast nánar til kafla I.2. Frumvarp þetta er byggt á drögum sem þeir Jónatan Þórmundsson prófessor og Róbert R. Spanó lektor voru fengnir til að semja.

2.     Þróun reynslulausnar í íslenskum rétti.
    Ákvæði um reynslulausn refsifanga voru fyrst lögfest í almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, 40.–42. gr. Fram að því hafði það tíðkast í framkvæmd að nokkur hluti refsingar væri felldur niður með náðun en með hinum nýju ákvæðum var ætlast til að reynslulausn kæmi í stað náðunar í slíkum tilvikum. Skilyrði laganna reyndust fljótlega of þröng svo að náðunarformið var enn um langt skeið notað til þess að veita refsiföngum skilorðsbundna eftirgjöf refsingar að hluta.
    Þáttaskil urðu í framkvæmd refsinga eftir breytingar á reynslulausnarreglunum með lögum nr. 16/1976. Reglurnar urðu þar með sveigjanlegri en jafnframt voru lögfest ítarleg ákvæði um skilorðsrof og afleiðingar þeirra. Eldri ákvæði um það efni voru mjög ófullkomin og úrelt orðin. Með lögum nr. 16/1976 var það nýmæli lögfest sem aðalregla að dómstólar skyldu fjalla um rof á almennu skilyrði reynslulausnar með nýju afbroti dómþola á reynslutímanum. Dómstóll, sem fengi til meðferðar mál út af nýju afbroti, skyldi þá ákveða refsingu í einu lagi eins og um brotasamsteypu væri að ræða, sbr. 77. gr. hegningarlaga. Frá þessari aðalreglu var í lögunum gerð ein mikilvæg undantekning, þ.e. ef hið nýja afbrot á reynslutímanum var talið „ótvírætt brot á alm. hegningarlögum“. Þá var fangelsisyfirvöldum heimilt að breyta skilyrðum eða, eftir atvikum, að ákveða afplánun eftirstöðva án atbeina dómstóla. Um hið nýja brot yrði síðan fjallað í sjálfstæðu refsimáli. Með ótvíræðu broti var hér átt við að dómþoli hefði játað hið nýja afbrot eða óyggjandi gögn bentu að öðru leyti til þess að hann hefði framið brotið svo sem ef hann var staðinn að verki. Með þessu var hvort tveggja talið unnið, að betur mætti tryggja öryggi borgaranna án þess að réttaröryggi dómþola væri skert.
    Með lögum nr. 24/1999 voru gerðar talsverðar breytingar á ákvæðum hegningarlaga um reynslulausn og rof á skilyrðum hennar. Með lögunum voru reglurnar færðar í þann búning sem þær eru í nú. Ein meginbreytingin á eldri reglum og sú sem mestu máli skiptir í tengslum við þetta frumvarp var afnám undantekningarreglu um afplánun eftirstöðva fangelsisrefsingar þegar framið hafði verið ótvírætt brot á hegningarlögum meðan á reynslutíma stóð. Af þessum breytingum leiddi að aðalregla 1. mgr. 42. gr. gilti eftir það um hvers konar ný brot á reynslutíma án tillits til þess hvort unnt væri að beita gæsluvarðhaldi eða öðrum úrræðum til varnar því að dómþoli héldi áfram að brjóta af sér. Þessi tiltekna lagabreyting var gerð í tilefni af áliti umboðsmanns Alþingis fimm árum áður (sjá skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 1995, bls. 97).
    Mál þetta varðaði kvörtun refsifanga yfir ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins og staðfestingu þeirrar ákvörðunar með úrskurði dómsmálaráðuneytis um að fella niður reynslulausn vegna skilorðsrofa fangans með broti á hegningarlögum og gera honum að afplána eftirstöðvar refsingarinnar. Umboðsmaður Alþingis taldi það ekki fá samrýmst 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að stjórnvöld lýstu því yfir að fanginn hefði gerst sekur um ótvírætt hegningarlagabrot sem þá hafði ekki gengið dómur um. Í ákvæði 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans segir: „Hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð að lögum.“ Hins vegar tók umboðsmaður fram að mannréttindasáttmálinn útilokaði ekki að í þessu efni væri byggt á því að rökstuddur grunur lægi fyrir um refsivert brot. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til dómsmálaráðuneytis að það beitti sér fyrir því að rökstuðningur í málum þessum samrýmdist 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans, sbr. lög nr. 62/1994, og tæki til athugunar hvaða lagabreytingar væru nauðsynlegar í því sambandi.
    Framangreind ummæli í áliti umboðsmanns Alþingis gáfu ein og sér vart tilefni til svo víðtækrar breytingar sem gerð var í þessu efni með lögum nr. 24/1999 enda virðist sem önnur sjónarmið hafi þar einnig verið höfð í huga. Það liggur t.d. ekki í orðum umboðsmanns að óhjákvæmilegt hafi verið að leita atbeina dómstóla að ákvörðun um afplánun eftirstöðva refsingar út af rökstuddum grun um alvarlegt brot refsifanga á reynslulausnartíma. Til þess að taka af öll tvímæli er í frumvarpi þessu lagt til að dómstólum sé fengið það hlutverk að taka ákvörðun um niðurfellingu reynslulausnar þegar svo stendur á sem hér segir en með öðrum og skjótvirkari hætti en lýst er í 1. mgr. 42. gr. hegningarlaga. Þá hafa nýleg tilvik úr réttarframkvæmd gefið til kynna að þörf er á því að mæla fyrir um slíkt úrræði.

II.     Efni frumvarpsins.
1. Skilyrði dómsúrskurðar um afplánun eftirstöðva refsingar.
1.1.     Almennt.
    Við samningu þessa frumvarps hefur verið höfð hliðsjón af reglum danskra og norskra laga um rof á almennu skilyrði reynslulausnar. Þó hefur verið leitast við að móta reglu sem tekur mið af núgildandi ákvæðum almennra hegningarlaga um reynslulausnir og því lagt til grundvallar að viðhalda eigi þeirri meginreglu núgildandi 1. mgr. 42. gr. laganna að fremji maður, sem hlotið hefur reynslulausn, nýtt brot á reynslutíma verði refsing sú sem eftir stendur samkvæmt eldri dómi virt með sama hætti og skilorðsdómur, sbr. 60. og 77. gr. laganna. Frumvarpið gerir hins vegar ráð fyrir því að ákærandi geti að uppfylltum tilteknum skilyrðum krafist úrskurðar dómara um að maður verði látinn afplána eftirstöðvar refsingar þegar í stað enda verði talið að um gróft rof á almennu skilyrði reynslulausnar sé að ræða og að sterkur grunur liggi fyrir um að hið nýja brot geti varðað 6 ára fangelsi eða að brotið varði við 1. mgr. 218. gr. laganna.
    Frumvarpið gerir samkvæmt þessu ráð fyrir því að nýmæli b-liðar 2. gr. feli í sér undantekningu frá meginreglu núgildandi 1. mgr. 42. gr. hegningarlaga. Í ljósi þessa er lagt til að hún komi inn í texta laganna sem ný 2. mgr. 42. gr. á eftir meginreglu 1. mgr., sbr. orðalagið „getur dómstóll þó“. Efnisákvæði b-liðar 2. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir ströngum skilyrðum fyrir því að heimilt sé að úrskurða að maður, sem hlotið hefur reynslulausn, skuli sæta afplánun að nýju. Er þá horft til þess að eðli máls samkvæmt liggur ekki fyrir endanleg niðurstaða um hvort gefin verði út ákæra vegna hins nýja brots og þá hvort viðkomandi verði dæmdur sekur eða sýknaður. Þá hefur hér verið talið rökrétt og eðlilegt vegna réttaröryggis þess sem í hlut á að sett séu ströng skilyrði fyrir því að úrskurða mann á reynslutíma í afplánun við þessar aðstæður.
    Við val á þeirri leið sem farin er í b-lið 2. gr. frumvarpsins hefur einnig verið horft til þess að heimildir stjórnvalda eða dómstóla til að láta mann afplána eftirstöðvar refsingar vegna nýs brots á reynslutíma, afplánun sem eðli máls samkvæmt felur í sér frelsissviptingu, styðjast við a-lið 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. til hliðsjónar eftirfarandi forsendur úr áliti umboðsmanns Alþingis frá 9. ágúst 1995 í máli nr. 1189/1994:

        Samkvæmt a-lið 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verður maður hnepptur í fangelsi, hafi hann verið sakfelldur af til þess bærum dómstóli. Þessi fyrirmæli eiga yfirleitt einnig við um afplánun, sem ákveðin er á grundvelli rofs á skilorði reynslulausnar. Fangelsun réttlætist hér eftir sem áður af refsidómi þeim, sem fangi hafði byrjað að afplána, þegar reynslulausn var veitt. Í úrlausnum mannréttindanefndar Evrópu og mannréttindadómstóls Evrópu hefur þess þó verið krafist, að jafnan sé nægilegt samhengi milli refsidóms og frelsissviptingar í þeim skilningi, að frelsissviptingin sé afleiðing sakfellingar samkvæmt dóminum og byggist á henni (sjá t.d. dóm í máli Weeks frá 2. mars 1987, Series A nr. 114, bls. 23, grein 42). […]

    Við samningu frumvarpsins hefur þannig verið á því byggt að ekki sé rökrétt að leggja til grundvallar þá leið sem farin er í 763. gr. dönsku réttarfarslaganna, þ.e. að heimilt sé að krefjast dómsúrskurðar um að maður sem grunaður er um brot á reynslutíma verði settur í gæsluvarðhald að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum. Ástæðan er sú að veiti lög heimild til að bregðast við brotum manns á reynslutíma er rétt að slík lagaregla, sbr. tilvitnaðar forsendur úr áliti umboðsmanns Alþingis frá 1995, endurspegli með skýrum hætti að ákvörðunin um viðbrögð við hinu nýja broti og afleiðingar hennar tekur fyrst og fremst mið af réttaráhrifum eldri refsidóms sem liggur til grundvallar þeirri reynslulausn sem viðkomandi maður hefur hlotið. Með því að fremja nýtt brot á reynslutíma hafi maður þannig rofið grundvallarskilyrði fyrir þeirri reynslulausn sem stjórnvöld hafa veitt honum. Það sé því órökrétt að vista mann í gæsluvarðhaldi undir slíkum kringumstæðum enda endurspegli slíkt úrræði ekki með viðhlítandi hætti að hann hafi rofið almennt skilyrði reynslulausnar, sem hann hefur hlotið vegna óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar samkvæmt eldri refsidómi, heldur gegnir gæsluvarðhald umfram allt tímabundnu rannsóknar- og forvarnarhlutverki.
    Samkvæmt b-lið 2. gr. frumvarpsins þurfa þrjú efnisskilyrði að vera uppfyllt svo að hægt sé að úrskurða mann til að afplána eftirstöðvar refsingar af eldri refsidómi. Í fyrsta lagi þarf að vera um að ræða gróft rof á almennu skilyrði reynslulausnar, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 41. gr. laganna. Í öðru lagi þarf að liggja fyrir sterkur grunur um að hið nýja brot hafi verið framið. Í þriðja lagi þarf hið nýja brot að geta varðað 6 ára fangelsi eða að falla undir 1. mgr. 218. gr. laganna. Verður nú fjallað um hvert skilyrði fyrir sig.

1.2. Gróft rof á almennu skilyrði reynslulausnar.
    Orðalagið „rýfur gróflega almennt skilyrði reynslulausnar“ gefur til kynna að gert sé ráð fyrir því að aðeins eigi að úrskurða mann til að afplána eftirstöðvar refsingar þegar í stað þegar sýnt þykir að hann hafi á reynslutíma framið brot af ásetningi og að það teljist samkvæmt almennum mælikvarða alvarlegt. Þótt smávægilegt brot varði við refsiákvæði sem gerir ráð fyrir 6 ára fangelsi eða hærri fangelsisrefsingu nægir það ekki til þess að heimild b-liðar 2. gr. frumvarpsins verði virk. Krafan um tiltekinn grófleika brots fer því að þessu leyti nokkuð saman við það skilyrði að brot geti varðað 6 ára fangelsi eða að um meiri háttar líkamsmeiðingar sé að ræða sem falli undir 1. mgr. 218. gr. hegningarlaga. Heimild sú sem fram kemur í b-lið 2. gr. frumvarpsins á að beita af varkárni enda lagt til að hér sé um að ræða undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 42. gr.

1.3. Sterkur grunur.
    Það er skilyrði fyrir því að heimilt sé að úrskurða mann á reynslulausn til að sæta afplánun eftirstöðva refsingar að sterkur grunur liggi fyrir um að hann hafi framið brot sem uppfyllir að öðru leyti efnisskilyrði b-liðar 2. gr. frumvarpsins. Ljóst er að skilyrðið um sterkan grun, sem er að þessu leyti sama eðlis og samhljóða skilyrði sem fram kemur í 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, leiðir til þess að almennt verður ekki fullnægt skilyrðum til dómsúrskurðar um afplánun eftirstöðva refsingar nema viðkomandi hafi játað það nýja brot sem um ræðir. Ekki er þó í frumvarpinu lagt til að játning sé skilyrði fyrir beitingu þessa úrræðis en með skilyrðinu um sterkan grun eru þó gerðar kröfur um að fyrir liggi óyggjandi gögn sem benda til þess að maður hafi á reynslutíma framið nýtt brot. Rétt er að leggja á það áherslu að með orðalaginu sterkur grunur er girt fyrir að einungis rökstuddur grunur um nýtt brot nægi til þess að láta mann afplána eftirstöðvar refsingar á grundvelli reglu b-liðar 2. gr. frumvarpsins. Um inntak skilyrðisins um sterkan grun má hafa nokkra hliðsjón af dómaframkvæmd og viðhorfum fræðimanna um samhljóða skilyrði í áðurnefndri 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála.

1.4. Brot getur varðað 6 ára fangelsi eða fellur undir 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
    Samkvæmt b-lið 2. gr. frumvarpsins verður hið nýja brot, sem maður á reynslutíma er sterklegur grunaður um að hafa framið, að varða við refsiákvæði sem mælir að minnsta kosti fyrir um 6 ára fangelsi sem refsihámark samkvæmt almennum refsimörkum þess eða að brot varði við 1. mgr. 218. gr. hegningarlaga.
    Hér falla því undir hin alvarlegri brot samkvæmt hegningarlögum, svo sem flest brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess, sbr. XI. kafla laganna, ýmis brot gegn valdstjórninni og brot í opinberu starfi, sbr. XII. og XIV. kafla, rangar sakargiftir, sbr. 148. gr., skjalafals, sbr. 155. gr., ýmis brot sem hafa í för með sér almannahættu, sbr. XVIII. kafla, svipting á valdi eða umsjá foreldra eða annarra réttra aðila yfir barni, sbr. 193. gr., mörg kynferðisbrot, sbr. XXII. kafla, manndráp af ásetningi, sbr. 211. gr., stórfelldar líkamsmeiðingar, sbr. 2. mgr. 218. gr., brot gegn 1. mgr. 220. gr., stórfelld frelsissvipting skv. 2. mgr. 226. gr., mansal, sbr. 227. gr. a, sbr. 5. gr. laga nr. 40/2003, flest auðgunarbrot, sbr. XXVI. kafla, stórfelld eignaspjöll, sbr. 2. mgr. 257. gr., brot gegn 262. gr. og peningaþvætti vegna ávinnings af broti skv. 173. gr. a, sbr. 2. mgr. 264. gr. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að ef brot manns á reynslutíma varðar við 1. mgr. 218. gr. hegningarlaga um meiri háttar líkamsmeiðingar sé heimilt að öðrum skilyrðum uppfylltum að úrskurða hann til að sæta afplánun eftirstöðva refsingar enda þótt hámarksrefsing samkvæmt ákvæðinu sé 3 ára fangelsi. Hefur þá fyrst og fremst verið horft til eðlis þessa brots, aðferða eða afleiðinga.
    Þess skal getið að ekki er útilokað að brot manns á reynslutíma gegn sérrefsilögum falli undir b-lið 2. gr. frumvarpsins að öðrum skilyrðum uppfylltum. Skilyrðið um grófleika verknaðar útilokar hins vegar eins og fyrr segir gáleysisbrot auk þess sem gera verður ráð fyrir því að aðeins alvarlegustu brotin gegn sérrefsilögum geti hér átt við.

2. Tengsl við ákvæði laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.
    Frumvarpið byggist á þeirri forsendu að nýmæli b-liðar 2. gr. samrýmist og tengist núgildandi ákvæðum laga um meðferð opinberra mála er varða þvingunarráðstafanir í tilefni af rannsókn opinbers máls. Skv. c-lið 1. mgr. 98. gr. þeirra laga er lögreglu rétt að handtaka mann ef rökstuddur grunur leikur á að hann hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafa verið sett í skilorðsbundnum dómi, reynslulausn eða náðun. Þá er í 1. mgr. 103. gr. sömu laga að finna heimildir til að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald vegna nánar tilgreindra ástæðna sem fram koma í a–d-liðum, svo sem að ætla megi að hann muni torvelda rannsókn málsins eða ætla megi að hann muni halda áfram brotum á meðan máli hans er ólokið eða að telja megi að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum sakbornings, sbr. a-, c- og d-liði. Af frumvarpinu leiðir að ef fyrir liggur aðeins rökstuddur grunur um nýtt brot manns á reynslutíma er eftir atvikum rétt að krefjast í fyrstu úrskurðar um gæsluvarðhald, t.d. vegna rannsóknarhagsmuna, enda sé ekki talinn liggja fyrir sterkur grunur um nýtt brot hans sem uppfylli að öðru leyti efnisskilyrði b-liðar 2. gr. frumvarpsins. Þegar atvik eru hins vegar með þeim hætti að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála sé fullnægt vegna nýs brots manns á reynslutíma gerir frumvarpið almennt ráð fyrir að krefjast megi þá þegar dómsúrskurðar um að maður afpláni eftirstöðvar refsingar fremur en að vista viðkomandi tímabundið í gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna.

3.     Málsmeðferð.
3.1. Aðild að kröfu um dómsúrskurð um afplánun eftirstöðva refsingar.
    Samkvæmt 2. gr. frumvarpsins er það ákærandi sem setur fram kröfu um að maður, sem hlotið hefur reynslulausn, skuli afplána eftirstöðvar refsingar. Er hér höfð hliðsjón af ákvæðum V. kafla og 1. mgr. 74. gr. laga um meðferð opinberra mála. Þá er hér gætt samræmis við 59. gr. hegningarlaga.

3.2. Skylda dómara til að skipa verjanda.
    Þegar krafa hefur verið sett fram um að maður skuli afplána eftirstöðvar refsingar ber dómara skv. b-lið 2. gr. frumvarpsins að skipa honum verjanda að ósk hans. Er hér höfð hliðsjón af a-lið 1. mgr. 34. gr. laga um meðferð opinberra mála.

3.3. Meðferð kröfu fyrir dómi.
    Ákvæði b-liðar 2. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir því að meðferð kröfu um að maður skuli afplána eftirstöðvar refsingar fari eftir fyrirmælum 1. mgr. 105. gr. laga um meðferð opinberra mála, eftir því sem við á. Eðli þessa ákvæðis og markmið felast í skjótvirku og skilvirku úrræði til að láta mann, sem rofið hefur gróflega almennt skilyrði reynslulausnar, sæta afplánun eftirstöðva refsingar og er því lagt til að farið sé með kröfu í þessu efni eins og um gæsluvarðhaldskröfu sé að ræða, að breyttu breytanda. Hefur að þessu leyti verið horft til 763. gr. dönsku réttarfarslaganna sem áður var vikið að.
    Í ljósi 1. mgr. 105. gr. laga um meðferð opinberra mála mundi dómari, þegar maður kemur fyrir dóm og krafa er gerð skv. 2. gr. frumvarpsins, kynna honum kröfuna og bera undir hann sakarefnið. Sakborningi eða verjanda hans er gefinn kostur á að tjá sig um kröfuna í stuttu máli. Þá mundi dómari að jafnaði leggja úrskurð á kröfuna í sama þinghaldi en heimilt væri honum þó að fresta uppkvaðningu úrskurðar í allt að sólarhring frá þeim tíma sem maður kemur fyrir dóm. Áréttað skal að b-liður 2. gr. frumvarpsins gerir þá fortakslausu kröfu að manni á reynslulausn verði ekki gert að afplána eftirstöðvar refsingar nema sterkur grunur liggi fyrir um gróft rof á almennu skilyrði reynslulausnar auk kröfu um að brot geti varðað 6 ára fangelsi eða falli undir 1. mgr. 218. gr. hegningarlaga. Ákærandi verður því að leggja fram með kröfu fullnægjandi gögn um aðild sakbornings að umræddu broti liggi játning ekki fyrir. Þó er vert að ítreka að almennt verður að telja að skilyrðið um sterkan grun eigi fyrst og fremst við í þeim tilvikum þegar maður á reynslulausn hefur þegar játað verknað við rannsókn máls fyrir lögreglu.

3.4. Kæra til Hæstaréttar.
    Samkvæmt b-lið 2. gr. frumvarpsins er heimilt að kæra úrskurð dómara á grundvelli ákvæðisins til Hæstaréttar. Slík kæra frestar ekki framkvæmd úrskurðar ef dómari hefur fallist á kröfu ákæranda. Þá er gert ráð fyrir því að meðferð kærumálsins fari að öðru leyti eftir því sem mælt er fyrir um í reglum XVII. kafla laga um meðferð opinberra mála. Er þá t.d. vísað til leiðbeiningarskyldu dómara um kærurétt, hvernig háttað skuli yfirlýsingu um kæru og um tímafresti í því sambandi, sbr. 144. gr. laga um meðferð opinberra mála, og um þau atriði er greinir í 145. og 146. gr. sömu laga.

3.5. Vanhæfi dómara sem úrskurðar mann til að afplána eftirstöðvar refsingar.
    Samkvæmt síðari málslið 6. gr. laga um meðferð opinberra mála skal dómari víkja sæti í máli eftir útgáfu ákæru ef hann hefur úrskurðað mann, sem ákærður er í málinu, í gæsluvarðhald skv. 2. mgr. 103. gr. sömu laga. Þar sem b-liður 2. gr. frumvarpsins gerir hliðstæðar kröfur um mat dómara á því hvort maður teljist sterklega grunaður um að hafa framið nýtt brot á reynslutíma gerir frumvarpið ráð fyrir að sama regla gildi um vanhæfi dómara við frekari meðferð máls vegna hins nýja brots og fram kemur í framangreindu ákvæði laga um meðferð opinberra mála.

4. Önnur ákvæði frumvarpsins.
    Í 1. gr. og a-, c- og e-liðum 2. gr. frumvarpsins er lagt til að orðinu „aðili“ í 41. og 42. gr. hegningarlaga verði breytt í „maður“ en fyrrnefnda orðið er óheppilegt sem lýsing á manni sem hlotið hefur reynslulausn. Þá var við samningu frumvarpsins talið órökrétt að notast hér við hugtakið fangi um mann sem fengið hefur skilyrta lausn úr afplánun.
    Í d-lið 2. gr. eru lagðar til breytingar á 3. mgr. 42. gr. laganna sem stafa af því að með b- lið 2. gr. er lagt til að ný málsgrein komi inn í ákvæðið sem 2. mgr.
    Með f-lið 2. gr. er lagt til að efnisregla 4. mgr. 42. gr. laganna um heimild til að veita þeim sem látinn er taka út eftirstöðvar fangelsisrefsingar vegna rofs á hinum sérstöku valkvæðu skilyrðum ákvæða 2.–4. málsl. 2. mgr. 41. gr. laganna með ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins gildi einnig um þá sem úrskurðaðir eru til að sæta afplánun eftirstöðva á grundvelli b-liðar 2. gr. frumvarpsins.