Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1000. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1762  —  1000. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta landbúnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund B. Helgason, Atla Má Ingólfsson og Ólaf Friðriksson frá landbúnaðarráðuneyti, Snorra Sigurðsson og Þórólf Sveinsson frá Landssamtökum kúabænda, Baldur Helga Benjamínsson og Harald Benediktsson frá Bændasamtökum Íslands, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Sigríði Andersen frá Verslunarráði Íslands, Guðmund Sigurðsson frá Samkeppnisstofnun, Pálma Vilhjálmsson frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Stefán Úlfarsson frá Alþýðusambandi Íslands, Elínbjörgu Jónsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Jónas Bjarnason frá Hagþjónustu landbúnaðarins.
    Með frumvarpinu er ætlunin að lögfesta nauðsynlegar breytingar á búvörulögum vegna ákvæða í samningi frá 10. maí 2004, um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Frumvarpið var unnið með hliðsjón af skýrslu nefndar um stefnumótun í mjólkurframleiðslu frá 23. febrúar sl.
    Umfjöllun nefndarinnar um frumvarpið fór fram samhliða umfjöllun um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum (997. mál), sem varðar samkeppnishluta samningsins.
    Upplýst var á fundum nefndarinnar að gildandi samningur um mjólkurframleiðslu hefur reynst vel. Þær breytingar sem felast í samningnum frá 10. maí 2004 eru m.a. gerðar með hliðsjón af skuldbindingum Íslands á alþjóðavettvangi og yfirstandandi samningaviðræðum innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).
    Markmiðin með samningnum eru að stuðla að áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og lægra vöruverði, að fjárhagslegur stuðningur ríkisins við greinina nýtist sem best til að lækka vöruverð til neytenda, að viðhalda stöðugleika milli framleiðslu og eftirspurnar og veita greininni svigrúm til að búa sig undir aukna erlenda samkeppni, sem og að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi mjólkurframleiðenda og að gætt sé sjónarmiða um velferð dýra og heilnæmi afurða.
    Í samningnum er kveðið á um þrenns konar endurskoðunarákvæði. Í fyrsta lagi geta samningsaðilar hvor um sig farið fram á endurskoðun samningsins á samningstímanum eða einstakra atriða hans. Í öðru lagi er kveðið á um að eftir fimm ár skuli framkvæmd samningsins könnuð og í framhaldi af því hafnar viðræður um áframhaldandi stefnumótun og gerð nýs samnings. Loks er ákvæði um að samningurinn sé gerður með fyrirvara um hugsanlegar breytingar á þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands sem kann að leiða af niðurstöðu samningaviðræðna innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Komi til þess að dregið verði úr opinberum verðafskiptum á gildistíma samningsins, sbr. kafla 8.5 í skýrslu mjólkurnefndar, telur meiri hlutinn eðlilegt að fulltrúar samtaka launafólks komi þar að ásamt fulltrúum ríkisins og atvinnugreinarinnar, sbr. núverandi skipan verðlagsnefndar.
    Með hliðsjón af endurskoðunarákvæðum samningsins telur meiri hlutinn að með lögfestingu hans séu starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar tryggð til lengri tíma litið, sem og hagsmunir neytenda og skattgreiðenda. Þá telur meiri hlutinn málið mjög mikilvægt fyrir atvinnulíf, byggð og búsetu í landinu og að það stuðli enn fremur að framleiðslu heilnæmra afurða fyrir neytendur.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Jón Bjarnason er samþykkur áliti þessu en skrifar undir með fyrirvara.
    Guðjón A. Kristjánsson sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er með fyrirvara við álitið.

Alþingi, 22. maí 2004.



Drífa Hjartardóttir,


form., frsm.


Magnús Stefánsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Jón Bjarnason,


með fyrirvara.


Guðmundur Hallvarðsson.


Þórarinn E. Sveinsson.