Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 849. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1763  —  849. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Eftir þá umfjöllun sem málið hefur fengið í efnahags- og viðskiptanefnd telur annar minni hluti mikilvægt að frekari samanburður verði gerður á kostum og göllum þess að taka upp olíugjald og kílómetragjald í stað núgildandi kerfis og að kanna þurfi hvort væntanleg sé annars konar gjaldtaka, þ.e. afnotagjöld og umhverfisskattar, sem mögulegt er að framkvæma á einfaldan hátt með nútímatækni.
    Annar minni hluti styður þann megintilgang frumvarpsins að gera dísilknúna smábíla að vænlegum kosti og þau grunnsjónarmið sem liggja þar að baki varðandi umhverfisvernd og orkusparnað. Hann telur þó sýnt að eins og málið liggur nú fyrir sé hæpið að þau markmið náist. Til þess er áætlaður verðmunur á dísilolíu og bensíni of lítill og kostnaður of mikill vegna litunar, flókins gjaldkerfis og fjárfestinga sem nauðsynlegar eru vegna kerfisbreytinganna. Annar minni hluti telur einnig að skoða þurfi nánar stöðu einstakra starfsstétta vegna álagningar olíugjalds, svo sem bænda og leigubílstjóra.
    Samkvæmt frumvarpinu er munur á olíugjaldi og bensíngjaldi þrjár krónur. Miðað við það verður verðmunur á dísilolíu og bensíni of lítill að mati annars minni hluta til að upptaka olíugjaldskerfis í stað núverandi þungaskattskerfis geti virkað sem hvati á bíleigendur til að skipta úr bensínknúnum fólksbílum yfir í dísilknúna bíla. Dísilbílar eru flestir dýrari í innkaupum en samsvarandi bensínbílar. Fjárhagslegur ávinningur af því að skipta yfir í dísilbíl er því takmarkaður nema munur á verði dísilolíu og bensíns sé allnokkur. Af þessari ástæðu verður að leggja frekara mat á þann ávinning sem fyrirliggjandi frumvarp mun skila enda ólíklegt að það kerfi sem í því felst muni standa mjög lengi þar sem líklegt er að síðar verði tekin upp notkunargjöld af bifreiðum samhliða eða í stað gjalda af orkugjöfum.
     Gestir sem komu á fundi nefndarinnar töldu sýnt að kostnaður olíufyrirtækja hér á landi við að koma á litun olíu og að byggja upp dreifikerfi yrði um 300 millj. kr. en olíufélögin telja að þann kostnað verði fyrirtækin að sækja til notenda. Það er því mikilvægt að mati annars minni hluta að ekki verði ráðist í kerfisbreytingarnar nema ljóst sé að þær standi í allmörg ár. Þá telur annar minni hluti að gefa verði þessum aðilum tíma til 1. janúar 2006 til að skipuleggja og innleiða breytingarnar en ljóst má vera að ef þær þarf að framkvæma á of skömmum tíma ýtir það klárlega undir aukinn kostnað af kerfisbreytingunum.
    Á fund nefndarinnar komu fulltrúar Vegagerðarinnar og kynntu nýja gerð akstursmæla sem þróaðir hafa verið hérlendis og sjónarmið sem fram eru komin innan Evrópusambandsins um að heppilegra sé að innheimta svonefnd notendagjöld í stað bensín- og olíugjalda. Notendagjöld eru háð vegalengd aksturs, stærð bifreiðar og hugsanlega tíma og stað en óháð orkugjafa og orkunotkun viðkomandi bifreiðar. Annar minni hluti telur mikilvægt að Íslendingar fylgist vel með þeirri viðhorfsbreytingu sem er að verða varðandi gjaldtöku af bifreiðum og nýti sér til fulls möguleika á að verða í fararbroddi í tækni og þróun reglna á þessu sviði. Hér á landi hefur verið þróaður gjaldmælir sem setja má í bíla og hann skráir með hjálp GPS- tækni upplýsingar um akstur sem síðan má sækja með GSM-símasambandi. Þessa tækni telur annar minni hluti að hefði þurft að skoða frekar áður en litun olíu og olíugjaldi er hrundið í framkvæmd.
    Með þessari nýju tækni mætti innheimta á einfaldan hátt notkunargjöld af bifreiðum fyrir hvern ekinn kílómetra en mengunargjöld mætti innheimta af verði eldsneytis. Samkvæmt upplýsingum sem lagðar voru fyrir nefndina hefur Evrópusambandið sett það markmið að farið verði að taka slíkt gjald árið 2011 af öllum bifreiðum en árið 2009 af bifreiðum sem eru þyngri en 3,5 tonn. Annar minni hluti telur að þetta hefði átt að skoða nánar.
    Annar minni hluti telur mikilvægt að kannað verði betur hvaða áhrif álagning olíugjalds mun hafa á einstakar atvinnugreinar og metið hvernig staða þeirra sem verst verða úti verði bætt. Þar verður að skoða sérstaklega stöðu bænda og leigubílstjóra. Leggur annar minni hluti til að það verði eitt af verkum sérstakrar þingnefndar að skoða þessa þætti.
    Ein meginröksemdin fyrir framlagningu málsins er að núgildandi þungaskattskerfi brjóti í bága við markmið samkeppnislaga. Í ljósi þessa undrast annar minni hluti að hvergi er sjáanlegt að nokkurt samráð hafi verið haft við Samkeppnisstofnun við gerð frumvarpsins. Í umsögnum hafa komið fram efasemdir um að frumvarpið standist samkeppnislög.
    Annar minni hluti gagnrýnir hve seint málið er fram komið á þingi. Um er að ræða stórt mál sem mun snerta alla landsmenn á einn eða annan hátt og góð og ítarleg umfjöllun í þinginu því mikilvæg. Þrátt fyrir þetta leggur ráðherra málið ekki fram fyrr en undir lok þings. Annar minni hluti telur að ef málið hefði komið fyrr fram hefði nefndin getað skoðað málið út frá mun víðara samhengi, t.d. mati á tollum og vörugjöldum af bifreiðum og öðrum leiðum sem fara mætti til að ná fram þeim markmiðum sem liggja að baki. Ljóst er að margt verður að skoða í tengslum við þetta mál, m.a. hvernig halda má flutningskostnaði niðri en álögur á landflutninga hafa aukist á undanförnum árum þrátt fyrir loforð stjórnvalda um annað. Þá verður að skoða nánar áhrifin á tekjur Vegagerðarinnar verði frumvarpið að lögum en þar greinir ráðuneyti og Vegagerðina á.
    Annar minni hluti leggst þó ekki gegn málinu en leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu og hvetur til þess að það verði skoðað nánar áður en það kemur til framkvæmda.
    Annar minni hluti leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Að önnur ákvæði en ákvæði um breytingar á lögum um fjáröflun til vegagerðar, nr. 3/1987, komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2006. Mikilvægt er að bæði framkvæmdarvaldi og sölu- og dreifingaraðilum olíu verði gefinn tími til 1. janúar 2006 til undirbúnings enda um allflókna og kostnaðarsama framkvæmd að ræða.
     2.      Að breytt verði 4. gr. laga um fjáröflun til vegagerðar, nr. 3/1987, á þann hátt að þungaskattur af bifreiðum undir 4.000 kg verði lækkaður. Þannig verði minni dísilbílar gerðir að álitlegri kosti til einkanota. Einnig er lagt til að árgjald af bifreiðum sem ekið er gegn gjaldi samkvæmt löggiltum mælum og sendi- og hópbifreiðum, sem nýttar eru í atvinnurekstri, verði 35% hærra en nú er það 25% hærra.
     3.      Að tekið verði fram í 10. mgr. b-liðar 4. gr. sömu laga að ríkisskattstjóra sé heimilt að byggja ákvörðun um þungaskatt á lestri af kílómetramæli bifreiðar. Mælar bifreiða sem framleiddar eru í dag eru nákvæmir og teljast jafn tryggir og aðrar gerðir mæla og því ekki ástæða til annars en heimila að þá megi nota við álagningu gjalda.
     4.      Að Alþingi skipi nefnd skv. 32. gr. þingskapa sem fái það verk að fara yfir málið í samhengi við hugsanlega upptöku notendagjalda og umhverfisskatta í nánustu framtíð. Þá skoði nefndin og komi fram með tillögur um hvernig má bæta stöðu þeirra atvinnugreina sem málið hefur neikvæð áhrif á. Nefndin gefi þinginu skýrslu um störf sín á 131. þingi og leggi fram tillögur um breytingar á lögum telji hún þörf á slíku.
    Annar minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Gunnar Örlygsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 24. maí 2004.Einar Már Sigurðarson,


frsm.


Össur Skarphéðinsson.


Jóhanna Sigurðardóttir.Ögmundur Jónasson.

Fylgiskjal I.


Umsögn Vegagerðarinnar.
(19. apríl 2004.)
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Fylgiskjal II.


Minnisblað frá Vegagerðinni: Tækjabúnaður til gjaldtöku af umferð.
(10. maí 2004.)Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III.


Umsögn Landssambands íslenskra útvegsmanna, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði, Samtaka fiskvinnslustöðva, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu, Félags vinnuvélaeigenda.
(19. apríl 2004.)Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal IV.


Umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar.
(16. apríl 2004.)Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Fylgiskjal V.


Umsögn Landvara – félags íslenskra vöruflytjenda.
(19. apríl 2004.)Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VI.


Umsögn Landssambands vörubifreiðastjóra.
(14. apríl 2004.)
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VII.


Umsögn Bændasamtaka Íslands.
(15. apríl 2004.)
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Fylgiskjal VIII.


Umsögn Félags hópferðaleyfishafa.
(16. apríl 2004.)
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.