Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 879. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1770  —  879. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta landbúnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Atla Má Ingólfsson, Guðmund B. Helgason og Hákon Sigurgrímsson frá landbúnaðarráðuneyti, Jón Magnússon frá fjármálaráðuneyti, Jón Guðmundsson, Sigríði Dalmannsdóttur og Þórdísi Önnu Kristjánsdóttur, fulltrúa starfsmanna Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Ásdísi Helgu Bjarnadóttur, fulltrúa starfsmanna Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Önnu Guðrúnu Þórhallsdóttur og Björn Þorsteinsson, prófessora við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, Sigurð Þór Guðmundsson, Gústav Magnús Ásbjörnsson og Kristnýju Pétursdóttur, fulltrúa nemenda Hvanneyri, Svein Aðalsteinsson og Bjarna Finnsson frá skólanefnd Garðyrkjuskóla ríkisins, Gunnþór K. Guðfinnsson, fulltrúa starfsmanna í skólanefnd Garðyrkjuskóla ríkisins, Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Gísla Tryggvason frá Bandalagi háskólamanna, Pétur Bjarnason frá Hólamannafélaginu, Skúla Skúlason, skólastjóra á Hólum, Gísla Gunnarsson frá Sveitarfélaginu Skagafirði, Þorstein Tómasson og Áslaugu Helgadóttur frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Magnús B. Jónsson, rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri.
    Það er álit þeirra sem komu á fund nefndarinnar að sameining Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum sé tímabær. Undir það tekur 1. minni hluti. Sameining stofnana er vandasamt verk og mikið í húfi að vel takist til, bæði hvað varðar framtíðarskipulag og þau rannsóknarverkefni sem unnið er að. Sá skortur á samráði sem komið hefur í ljós í undirbúningsferlinu er því áhyggjuefni. 1. minni hluti leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu:
    Í lögum um háskóla, nr. 136/1997, er í IV. kafla kveðið á um stjórn ríkisháskóla, þar með talið skipan háskólaráðs, verkefni þess og valdsvið, og skipan rektors og valdsvið hans. Fyrirhuguð skipan háskólaráðs Landbúnaðarháskóla Íslands er allfrábrugðin því sem kveðið er á um í rammalögum um háskóla. Í frumvarpinu eru áhrif fagráðuneytis og hagsmunasamtaka mun veigameiri en almennt gerist um háskóla og áhrif kennara og nemenda að sama skapi minni.
    Þá ber Háskóla Íslands að tilnefna fulltrúa í háskólaráð en ekki finnast önnur dæmi þess að óskyldur háskóli tilnefni fulltrúa í æðstu stjórn annars háskóla. Háskólaráð Háskóla Íslands er að meiri hluta skipað fulltrúum nemenda og kennara. Verður að teljast einkennilegt að nemendur og kennarar Háskóla Íslands eigi fulltrúa í háskólaráði Landbúnaðarháskóla Íslands en ekki nemendur og kennarar Landbúnaðarháskólans. 1. minni hluti leggur til þá breytingu að nemendur og kennarar Landbúnaðarháskólans tilnefni hvorir sinn fulltrúa í háskólaráð. Ein aðalnýjungin í starfsemi Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri lýtur að umhverfisþáttum, landnýtingu og skipulagi. Þykir 1. minni hluta því eðlilegt að fulltrúar umhverfisráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga eigi fulltrúa í háskólaráði.
    Í frumvarpinu er fellt út ákvæði í lögunum um að háskólaráð sé æðsti ákvörðunaraðili innan háskólans. Þetta samræmist ekki rammalögum um háskóla. 1. minni hluti leggur til að frumvarpinu verði breytt til samræmis við það sem tíðkast í öðrum háskólum hér á landi.
    Í 25. gr. laganna er kveðið á um að landbúnaðarráðherra skipi rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs og skuli staðan auglýst laus til umsóknar. Þar eru einnig gerðar kröfur til rektors um æðri prófgráðu við háskóla og stjórnunarreynslu. Í frumvarpinu er hins vegar fellt út ákvæði um að háskólaráð skuli tilnefna háskólarektor og landbúnaðarráðherra fært sjálfdæmi í málinu. Jafnframt er fellt út ákvæði um að rektor verði ekki leystur frá störfum án þess að það sé borið undir háskólaráð og hljóti samþykki þess. Sú skipan mála sem lögð er til í frumvarpinu tíðkast ekki við neinn annan ríkisháskóla á Íslandi en þar er í öllum tilfellum kveðið á um að ráðherra skipi rektor samkvæmt tilnefningu háskólaráðs, að undangenginni auglýsingu. 1. minni hluti leggur til að 25. gr. laganna standi óbreytt.
    Mikilvægt er að skipulag og starfsumhverfi búnaðarfræðslunnar sé hið sama og annarra greina á háskólastigi og því eðlilegt að hún heyri undir sama ráðuneyti og þær. Flutningur menntastofnana landbúnaðarins undir menntamálaráðuneytið mun því verða viðfangsefni innan tíðar.
    Með frumvarpinu hafa málefni menntastofnana landbúnaðarins, annarra en Hólaskóla, Hólum í Hjaltadal, verið tekin til endurskipulagningar og staða þeirra treyst með sameiningu við Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Fyrirhugað er að taka málefni Hólaskóla til endurskoðunar í framhaldinu og ber að fagna því.

Alþingi, 25. maí 2004.



Anna Kristín Gunnarsdóttir,


frsm.


Lúðvík Bergvinsson.


Ásgeir Friðgeirsson.