Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 996. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1776  —  996. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Vilhjálm Egilsson og Jón B. Jónasson frá sjávarútvegsráðuneyti, Guðmund Magnús Daðason frá Fiskistofu, Örn Pálsson og Arthur Bogason frá Landssambandi smábátaeigenda, Friðrik Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Guðjón Ármann Einarsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Helga Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands, Sævar Gunnarsson frá Sjómannasambandi Íslands, Jóhann Sigurjónsson frá Hafrannsóknastofnuninni, Óttar Má Ingvason, Torfa Sigurðsson, Jónas Ragnarsson og Örvar Marteinsson frá Félagi áhugahóps dagbátaeigenda.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Hrollaugi – félagi smábátaeigenda á Hornafirði, Vélstjórafélagi Íslands, Eyþingi, Ísafjarðarbæ, Hafrannsóknastofnuninni, Árborg – félagi smábátaeigenda á Suðurlandi, Bárunni – félagi smábátaeigenda í Hafnarfirði og Garðabæ, Eldingu – félagi smábátaeigenda í Ísafjarðarsýslum, Akraneskaupstað, Félagi dagbátaeigenda, Félagi smábátaeigenda, Vestmannaeyjabæ, Samtökum fiskvinnslu án útgerðar, Alþýðusambandi Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Smábátafélagi Reykjavíkur, Byggðastofnun, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Fjórðungssambandi Vestfirðinga og Kletti – félagi smábátaeigenda á Norðurlandi eystra. Einnig barst nefndinni ályktun frá Landssambandi smábátaeigenda og athugasemd frá Samtökum eigenda sjávarjarða.
    Með frumvarpinu eru lagðar til umtalsverðar breytingar á ákvæðum gildandi laga um veiðar dagabáta. Helstu breytingarnar eru eftirfarandi: Lagt er til að leyfilegum sóknardögum fækki um 10% á næsta fiskveiðiári og þeir verði 18 miðað við að viðmiðunarfjöldi sóknardaga á yfirstandandi fiskveiðiári er 19 sóknardagar. Sóknardögum fækki hins vegar ekki frekar enda aukist viðmiðunarafli þeirra báta sem verða í sóknardagakerfinu ekki frá því sem hann var á fiskveiðiárinu 2002/2003. Þá verði útgerðum báta sem leyfi hafa til handfæraveiða með dagatakmörkunum gefinn kostur á að stunda veiðar samkvæmt veiðileyfi með krókaaflamarki. Til móts við þessa breytingu verði hins vegar settar takmarkanir á leyfilegan fjölda handfærarúlla um borð í hverjum báti og jafnframt ákveðið að aukning á vélarstærð hafi áhrif á fjölda sóknardaga.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að gerðar verði tvær breytingar á frumvarpinu, annars vegar að 1. gr. falli brott og hins vegar að komi ný 3. gr. Breytingarnar fela í sér að sóknardagakerfið verður aflagt 1. september 2004 og þá fari allir sóknardagabátarnir í krókaaflamarkskerfið með þeirri undantekningu að tilteknir bátar sem nýlega hafa verið endurnýjaðir geta verið á sóknardögum, þó engir lengur en til 1. september 2006.


Prentað upp.

    Lagt er til að 1. gr. verði felld brott þar sem lagt er til að ekki verði sóknardagakerfi frá 1. september 2004 og því engin ástæða til að hafa ákvæði um þær sóknartakmarkanir sem greinin kveður á um. Hin nýja 3. gr. kveður á um útreikning krókaaflahlutdeildar hvers báts og vísast til breytingartillagnanna varðandi nánari útfærslu. Reiknigrunnur hlutdeildar dagabátanna er samtals 9.500 tonn í þorski sem skiptist á milli bátanna. Gert er ráð fyrir að hver bátur fái í reiknigrunn 90% af fyrstu 50 lesta aflareynslu sinni og 40% af því sem umfram er í þorski og ufsa. Þessar prósentutölur geta tekið breytingum við endanlegan útreikning og ef svo fer verður gerð grein fyrir þeim breytingum fyrir 3. umræðu málsins. Sérstakt ákvæði er um viðbótarhlutdeild sem svarar allt að 20 lestum í krókaaflamarki til að bæta stöðu þeirra útgerða sem nýlega hafa endurnýjað báta sína þar sem sóknargetan hefur ekki nýst til að mynda aflareynslu. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.
    Þá er tekið tillit til þeirra sem hafa fjárfest með kaupum á sóknardögum og er krókaaflahlutdeild þeirra báta hækkuð hlutfallslega miðað við breytingu á sóknardagafjölda og með sama hætti skert þar sem um söludaga hefur verið að ræða.
    Loks er kveðið á um það hverjir geti valið að gera út samkvæmt sóknardögum eitt til tvö næstu fiskveiðiár og eiga þeir kost á 18 sóknardögum hvort ár.
    Meiri hlutinn bendir á til áréttingar að leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum sem fjallað er um í 3. málsl. 5. gr. laganna eiga eingöngu við um báta sem endurnýjaðir hafa verið frá og með 1. september 2002.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 25. maí 2004.Guðjón Hjörleifsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Guðlaugur Þór Þórðarson.Einar K. Guðfinnsson.


Hjálmar Árnason.