Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1000. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1783  —  1000. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum.

Frá minni hluta landbúnaðarnefndar.



    Frumvarp þetta var unnið með hliðsjón af skýrslu nefndar um stefnumótun í mjólkurframleiðslu frá 23. febrúar sl. Hvorki var haft samráð við landbúnaðarnefnd né fjárlaganefnd á undirbúningstíma frumvarpsins og kom það fyrst fyrir sjónir nefndarmanna þegar því var dreift á Alþingi. Hafa ber í huga að hér er um að ræða 4 milljarða kr. verðtryggð árleg útgjöld á átta ára tímabili. Ekki var heldur haft samráð við þá fulltrúa vinnumarkaðarins sem unnu að skýrslu þeirri sem lögð var til grundvallar samningnum en að þeirra mati skila mikilvægar forsendur sameiginlegrar niðurstöðu nefndarmanna allra sér ekki að fullu inn í samninginn. Þess ber að geta að núverandi samningur við mjólkurframleiðendur rennur ekki út fyrr en 1. september 2005 svo að tími til samráðs og samvinnu er nægur ef vilji er fyrir hendi.
    Markmiðin með samningnum eru að stuðla að áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og lægra vöruverði, að fjárhagslegur stuðningur ríkisins við greinina nýtist sem best til að lækka vöruverð til neytenda, að viðhalda stöðugleika milli framleiðslu og eftirspurnar og veita greininni svigrúm til að búa sig undir aukna erlenda samkeppni, sem og að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi mjólkurframleiðenda og að gætt sé sjónarmiða um velferð dýra og heilnæmi afurða.
    Minni hluti landbúnaðarnefndar telur að ekki séu nægilega öflug ákvæði í samningnum varðandi aðhald og eftirlit með vinnslustöðvum þannig að hagur neytenda sé tryggður. Á meðan innflutningur, sem reikna má með að veiti öflugt aðhald í kjölfar WTO-samninga, er enn mjög takmarkaður og nýtist því að litlu leyti til þess, þarf að tryggja eftirlit af hálfu hins opinbera. Þar sem hlutverk hins opinbera eftirlitsaðila, verðlagsnefndar, að heimila verðtilfærslur er hins vegar afnumið og opnað fyrir það að hlutverk hennar að ákvarða verð til bænda verði einnig afnumið er athugandi hvort ekki verði að auka innflutning búvöruframleiðslu til að efla aðhald gagnvart innlendri framleiðslu.
    Þá er ekki kveðið á um bætta upplýsingagjöf til verðlagsnefndar en í ljós kom við vinnslu skýrslu um stöðumat og stefnumótun í mjólkurframleiðslu að þörf er á að bæta hana. Þannig þyrfti að tryggja nefndinni aðgang að upplýsingum frá afurðastöðvum auk upplýsinga frá Hagstofu Íslands og Hagþjónustu bænda. Upplýsingar næðu til rekstrar- og efnahagsreiknings, þróunar verðs á Íslandi samanborið við útlönd og framkvæmdar alþjóðlegra skuldbindinga Íslands. Ekki er heldur komið í veg fyrir að léleg rekstrarafkoma einstakra stöðva hafi áhrif við ákvörðun heildsöluverðs né þann möguleika að fé sé tekið út úr afurðastöðvunum og það hafi síðan áhrif á ákvörðun heildsöluverðs. Þá er ekki útfært hvernig gripagreiðslur og jarðræktarstyrkir komi til lækkunar vöruverðs til neytenda.
    Þannig telur minni hlutinn að hagur neytenda sé ekki tryggður eins og kostur er í frumvarpinu en hafa ber í huga að búið er að klippa á möguleika Samkeppnisstofnunar til eftirlits og afskipta af verðlagningu búvara með frumvarpi sem lagt er fram samhliða þessu. Krafa um skýr aðhaldsskilyrði mjólkuriðnaðarins var ein af meginniðurstöðum nefndar um stefnumótun í mjólkuriðnaði en telja verður að mistekist hafi að leysa þann þátt á viðunandi hátt.
    Athygli vekur hinn langi gildistími samningsins þrátt fyrir fyrirsjáanlegar breytingar vegna alþjóðaskuldbindinga Íslands. Með löngum gildistíma er fyrirhugað að tryggja starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar og gefa greininni færi á að undirbúa sig fyrir harðnandi erlenda samkeppni en ekki er gerð nein grein fyrir því í frumvarpinu á hvern hátt það er fyrirhugað. Einnig verður að minna á að opinbert aðhald og innlend samkeppni er sennilega besti undirbúningurinn en þeim þáttum er einmitt kastað fyrir róða.
    Minni hlutinn telur einnig rétt að hugað verði að heildarendurskoðun á landbúnaðarkerfinu þar sem langtímahagsmunir bænda og neytenda verði tryggðir. Minni hlutinn mun taka afstöðu til einstakra greina frumvarpsins.

Alþingi, 26. maí 2004.



Anna Kristín Gunnarsdóttir,


frsm.


Lúðvík Bergvinsson.


Ásgeir Friðgeirsson.