Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 878. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1784  —  878. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta landbúnaðarnefndar.    Í greinargerð með frumvarpi þessu stendur: „Frumvarpinu er ætlað að gera mögulega sameiningu Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri.“ Tekið er undir þetta markmið og jafnframt lögð áhersla á að mynduð verði ein samþætt stofnun undir nafni Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri.

Stofnun samkvæmt tvennum lögum.
    Annar minni hluti telur að lög um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, með síðari breytingum, rúmi lagalegar heimildir til að sameina Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Rannsóknastofnun landbúnaðarins í eina stofnun. Má þar vísa til 3. gr., III. kafla og 21. gr. þeirra. Landbúnaðarháskólinn hefur skýrt markað rannsóknahlutverk samkvænt þeim lögum og gæti starfsemi Rannsóknastofnunar landbúnaðarins fallið þar að. Gildir þar einu hvort um nýja stofnun væri að ræða eða öll starfsemin væri felld undir Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að við 9. gr. laganna bætist svofellt ákvæði: „Á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands skulu stundaðar rannsóknir í þágu landbúnaðarins á sérstöku rannsóknasviði er hafi aðgreindan fjárhag frá annarri starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands.“ Í athugasemdum við 1. gr. er þessi aðgreining áréttuð: „Kveðið er á um að rannsóknasvið Landbúnaðarháskóla Íslands hafi sjálfstæðan fjárhag.“ Nú þegar er stór hluti starfsemi Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri bundinn í fjölþættum rannsóknum og þær reknar sem hluti hans.

Ein stofnun – ein lög.
    Samkvæmt orðalagi frumvarpsins er verið að búa til tvær stofnanir á tveimur fjárlaganúmerum sem starfa samkvæmt tvennum lögum en eiga með einhverjum hætti að lúta sömu yfirstjórn. Að mati 2. minni hluta er hér alrangt að staðið. Mikilvægt er að búa til eina samþætta stofnun sem starfar samkvæmt einum lögum og einu fjárlaganúmeri. Þessi tilhögun, sem kemur fram í frumvarpinu og meiri hlutinn leggur til að verði samþykkt, er óskiljanleg og ekki séð hvernig hægt er að reka hinn nýja landbúnaðarháskóla sem eina stofnun ef frumvarpið verður óbreytt að lögum. Benda má á að Háskóli Íslands starfar samkvæmt einum lögum og Landbúnaðarháskóli Íslands hefur nákvæmlega sömu stöðu til að ná í utanaðkomandi rannsóknafjármagn hvort sem hann starfar eftir einum lögum eða tvennum. Hér er einungis verið að torvelda nauðsynlega en vandasama sameiningu. Að bæta Garðyrkjuskóla ríkisins


Prentað upp.

inn í þetta púkk með þeim hætti, sem lagt til í breytingartillögum meiri hlutans torveldar sameiningu Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri sem átti að vera aðalmarkmið frumvarpsins.

Gengið á sérsvið annarra stofnana.
    Samkvæmt 15. gr. frumvarps til laga um breytingu á lögum um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, skal setja reglur um verkaskiptingu milli skólanna í rannsóknum og kennslu. Þannig hafa sérsvið Hólaskóla verið mörkuð. Samkvæmt frumvarpi til laga um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965, mun rannsóknasvið Landbúnaðarháskóla Íslands hafa býsna sjálfstæða stöðu og á verkefnasviði þess eru talin öll þau sérverkefni sem Hólaskóli hefur haft á sinni forsjá til þessa, sbr. sérstaklega a- og b-lið 2. gr. frumvarpsins.
    Eins og sú grein er nú orðuð í frumvarpinu má túlka hana þannig að rannsóknasvið Landbúnaðarháskóla Íslands taki einnig til rannsókna sem nú eru á sérsviðum Hólaskóla. Í nefndaráliti meiri hlutans er lögð áhersla á „að áfram verði unnið að hugmyndum um frekari sameiningu þeirra stofnana sem starfa á sviði landbúnaðar við kennslu, rannsóknir og leiðbeiningarþjónustu“. Hér er verið að senda ótímabær skilaboð til annarra stofnana sem ekki tengjast upphaflegu markmiði frumvarpsins sem var að sameina Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri í eina stofnun. Með þessu orðalagi er sköpuð óvissa um stöðu og verkefni annarra stofnana landbúnaðarins sem ekki var markmið þessa frumvarps.
    Að mati 2. minni hluta er markmiðið með frumvarpi þessu að sameina Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri í eina samþætta stofnun sem starfi samkvæmt einum lögum, þ.e. lögum um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, með síðari breytingum, og eru lagðar fram breytingartillögur sem lúta að því markmiði.

Hætta á fjársvelti.
     Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um frumvarp til laga um breytingu á lögum um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, með síðari breytingum, stendur: „Reiknað er með að öllu starfsfólki verði boðin sambærileg störf við Landbúnaðarháskóla Íslands.” Athyglisvert er að orðið „sambærileg“ stendur ekki í ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu.
    Samkvæmt umsögn fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að kostnaður við þessar breytingar rúmist innan fjárlagaheimildar stofnunarinnar. Viðbúið er að allmargir starfsmenn muni óska eftir að fara á biðlaun og mun þá þurfa að ráða nýja starfsmenn í þeirra stað. Reynsla af viðlíka aðgerðum um sameiningu og flutning stofnana hefur sýnt að þær geta verið mjög kostnaðarsamar. Óbreytt fjármagn og aukinn kostnaður vegna sameiningarinnar þýðir beinan niðurskurð á starfseminni og verður að leiðrétta þessa umsögn fjármálaráðuneytisins til þess að sú verði ekki raunin.

Þakkir til starfsfólks.
    Verði sú raunin að Rannsóknastofnun landbúnaðarins verði lögð niður eins og frumvarpið gerir ráð fyrir er starfsfólki öllu þakkað metnaðarfullt og óeigingjarnt starf í þágu íslensks landbúnaðar og landbúnaðarvísinda. Því fylgja jafnframt árnaðaróskir á nýjum vettvangi hver sem hann verður.

Alþingi, 26. maí 2004.Jón Bjarnason.