Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 879. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1786  —  879. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta landbúnaðarnefndar.



    Í athugasemdum með frumvarpi þessu segir: „Meginmarkmið með frumvarpi þessu er að efla kennslu og rannsóknir í landbúnaði með því að endurskoða stofnanaskipan landbúnaðarins og sameina undir eina yfirstjórn Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Á undanförnum árum hafa Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Rannsóknastofnun landbúnaðarins átt með sér náið samstarf á ýmsum sviðum, enda er markmið beggja stofnana að efla íslenskan landbúnað. Samstarf stofnananna hefur gengið vel og farið vaxandi. Samruni þeirra er lykilatriði í þeirri samþættingu verkefna sem nauðsynleg er til þess að starfsemin eflist enn frekar. Kostir sameiningar felast m.a. í því að kennslu- og rannsóknastarfsemi verður heildstæðari, starfsfólki bjóðast fjölbreyttari verkefni og fjármagn nýtist betur. Á sama tíma ætti nemendum að bjóðast fjölbreyttari tækifæri til að afla sér menntunar og reynslu af þátttöku í rannsóknum.“
    Hægt er að taka undir þessi markmið og röksemdafærslu að hluta. Að mati undirritaðs er ekki nauðsynlegt að sameina stofnanir til að njóta sameiginlegs styrks þeirra. Litlar stofnanir á sérhæfðum sviðum geta verið mjög virkar og miðlað ríkulega til annarra stofnana í samstarfi ef þær fá að njóta sjálfstæðis, innri metnaðar og styrks nærsamfélagsins.
    Sameining Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins er tímabær en því miður er valin sú leið að leggja báðar stofnanir niður og búa til nýja stofnun, Landbúnaðarháskóla Íslands. Að mati undirritaðs væri mun skynsamlegra að sameina þessar stofnanir undir nafni Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri.
    Samstarf Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri er orðið mjög náið og þarf því að gæta þess að ótaktískar sameiningaraðgerðir spilli þar ekki fyrir.
    Að mati 2. minni hluta átti að binda þessa lagasetningu alfarið við að sameina þessar tvær stofnanir í eina, festa heimili höfuðstöðvanna á Hvanneyri og blanda ekki öðrum þáttum inn í sameiningarferlið.

Handahófskennd vinnubrögð.
    Frumvarpið kom fram nokkrum dögum fyrir áætluð þinglok og var settur slíkur hraði á afgreiðslu þess að ekki náðist að vinna það með eðlilegum hætti í nefndinni.
    Fram kom á fundum nefndarinnar að ekki hafi verið haft samráð við stjórnendur stofnananna tveggja, Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, um samningu frumvarpsins, en þeir hefðu örugglega getað gefið góð ráð um lagasetningu


Prentað upp.

sem miðar að sameiningu þessara tveggja stofnana. Þessir forstöðumann hafa leitt stofnanir sínar og fjölbreytt starf þeirra farsællega um áratugi.
    Í miðri umfjöllun málsins í nefndinni er svo skyndilega tekin kúvending og ákveðið að kippa Garðyrkjuskóla ríkisins upp í sameiningarhringekjuna án nokkurs undirbúnings eða könnunar á því hvaða áhrif það hefði á sameiningarferli hinna stofnananna tveggja. Það er enn ein staðfestingin á því að landbúnaðarráðherra og meiri hluti landbúnaðarnefndar hafi ekki skilgreint markmið eða framtíðarsýn í þessari aðgerð.

Garðyrkjuskóli ríkisins lagður niður.
    Engin umræða hefur farið fram innan nefndarinnar um það hvernig fara skuli með núverandi verkefni Garðyrkjuskólans en einungis lagt til í breytingartillögum meiri hlutans að hinn nýi Landbúnaðarháskóli Íslands skuli starfrækja „sérstakar starfsmenntanámsbrautir á sviði garðyrkju“. Nú má vel vera réttlætanlegt að leggja Garðyrkjuskólann niður eða breyta rekstri hans og verkefnum frá því sem nú er en slíkar grundvallarbreytingar ber að gera að vel athuguðu máli og með skýrri framtíðarsýn, sem því miður virðist ekki vera fyrir hendi. Hér er um svo viðkvæma hluti að ræða að ekki er hægt annað en lýsa vanþóknun á handahófskenndum vinnubrögðum meiri hlutans.
    Menntastofnanir landbúnaðarins á Hvanneyri, Hólum og að Reykjum í Ölfusi hafa verið einna öflugustu rannsókna- og kennslustofnanirnar í dreifbýli á Íslandi. Sérstaklega hafa menntastofnanirnar á Hólum og á Hvanneyri skipt afar miklu máli í byggðalegu tilliti, ekki aðeins fyrir næsta nágrenni staðanna heldur einnig fyrir styrk og sjálfsímynd hinna dreifðu byggða um allt land. Slíkt er ekki sjálfgefið og þeim mun meiri ástæða er til að fara varlega og stíga aðeins þau skref til breytinga sem sannarlega geta orðið til að efla þessar stofnanir og tryggja þær í sessi á skólastöðunum.

Að gera stofnanir heimilislausar.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að landbúnaðarstofnanirnar sem hér um ræðir séu sviptar heimilisfangi sínu og er þar með stigið fyrsta skrefið í að veikja framtíð þeirra á stöðunum. Ef stofnun er heimilislaus í lögum er það á valdi ráðherra hverju sinni að ákveða heimili hennar og hvar yfirstjórn stofnunarinnar er staðsett.
    Aðstandendur Hólaskóla mótmæltu því harðlega að Hólaskóli verði sviptur lögbundnu heimilisfangi sínu á Hólum í Hjaltadal og þar með settur á vergang. Jafnframt lögðu þeir áherslu á sjálfstæði hans og að lagabreytingin mætti í engu skerða vaxtarmöguleika hans og forræði á sérsviðum stofnunarinnar sem hún hefur markað sér og kveðið er á um í samkomulagi skólanna um verkaskiptingu. Ber að fagna því að við þeirri ósk hefur verið orðið og í breytingartillögum meiri hlutans er lagt til að bundin sé í lög heimilisfesti Hólaskóla á Hólum í Hjaltadal.
    Þrátt fyrir ítrekaðar óskir Hvanneyringa fékkst ekki bundið í lög að hinn nýji Landbúnaðarháskóli Íslands ætti heima á Hvanneyri. 2 minni hluti telur mikilvægt að ekki sé nokkur vafi á að yfirstjórn Landbúnaðarháskóla Íslands og höfuðstöðvar séu á Hvanneyri og því eigi að binda það í lög.

Ein stofnun – ein lög – ein reglugerð.
    Mikilvægt er að stjórn hins nýja háskóla sé í samræmi við það sem gerist hjá öðrum háskólum, þ.e. að fulltrúar nemenda og starfsfólks eigi þar aðild. Einnig verður að telja þá skipan óeðlilega að Háskóli Íslands skipi fulltrúa í háskólaráð Landbúnaðarháskólans. 2. minni hluti flytur breytingartillögu sem varðar skipan ráðsins.
    Þá er og óeðlilegt að landbúnaðarráðherra ráði einn skipan háskólarektors heldur ber landbúnaðarráðherra að fara að tilnefningum háskólaráðs. 2. minni hluti flytur einnig breytingartillögu um þá skipan.
    Í frumvarpinu og öðru frumvarpi sem flutt er samhliða (878. mál) er gert ráð fyrir að við hina nýju stofnun starfi sérstakt rannsóknasvið sem hafi sjálfstæðan fjárhag og um það megi setja sérstaka reglugerð. Er farið þar á svig við það markmið að búa til eina samþætta stofnun. Engar haldbærar skýringar fengust á því hvernig þetta átti að virka í reynd. Þó virðist starfsemi háskólans eiga að skiptast á tvö sjálfstæð fjárlaganúmer með aðskilinn fjárhag. Ekki fékkst upplýst hvort ráðinn verður sérstakur framkvæmdastjóri fyrir rannsóknasviðið og starfsfólk sé ráðið sérgreint á rannsóknasvið og kennslusvið. Erfitt er að sjá hvernig þetta á að virka í reynd en ljóst er að hér er tekin mikil áhætta gagnvart því markmiði að móta hér eina samþætta stofnun.
    Þegar Garðyrkjuskólinn hefur svo verið lagður niður og færður undirbúningslaust undir hina nýju stofnun verður framtíðaruppbygging hennar enn meir á reiki.
    Undirbúningur frumvarpsins miðaði alfarið að sameiningu stofnananna tveggja, Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Hvað þýðir sú tilhögun sem meiri hlutinn leggur til að hinn nýi Landbúnaðarháskóli Íslands skuli ekki aðeins starfa á tveim fjárhagslega sjálfstæðum sviðum heldur skuli hann einnig starfa deildarskipt. 2. minni hluti flytur breytingartillögu um að Landbúnaðarháskóli Íslands verði ein stofnun og á einum fjárlagalið.

Réttur starfsmanna verði virtur.
    Í ákvæðum til bráðabirgða er kveðið á um að starfsfólki framangreindra stofnana, sem verða lagðar niður, skuli boðin störf við hina nýju stofnun. Stéttarfélög starfsmanna hafa lagt þunga áherslu á að þessar fyrirhuguðu breytingar verði unnar í nánu samstarfi við starfsfólk og samtök þeirra og að ákvæði komi inn sem kveða á um að þeim skuli boðin sambærileg störf hjá hinni nýju stofnun.
    Ljóst er að allmargir starfsmenn munu óska eftir starfslokasamningum við þessar breytingar og því mun reynast nauðsynlegt að ráða nýtt starfsfólk til að halda óbreyttri starfsemi. Reynslan hefur sýnt að sameiningar stofnana með þessum hætti eru viðkvæmar gagnvart starfsfólki. Þær eru einnig kostnaðarsamar og því er umsögn fjármálaráðuneytis, um að fjárútlát vegna starfsmannamála við sameininguna rúmist innan fjárlagaheimildar þeirra stofnana sem eiga í hlut, fullkomlega óraunhæf. Mikilvægt er að þessi yfirlýsing fjármálaráðuneytisins verði dregin til baka því að annars stendur þessi nýja stofnun frammi fyrir stórkostlegum niðurskurði og fjársvelti. Vonandi reynist sá grunur rangur að hér sé um beinar sparnaðaraðgerðir af hálfu ríkisins að ræða.

Sjálfstæði Hólaskóla tryggt?
    Menntastofnanir landbúnaðarins gegna gríðarmikilvægu og margþættu hlutverki. Þær hafa verið stærstu mennta- og rannsóknastofnanir í dreifbýli á Íslandi um áratugi og sýnt í verki að hægt er að byggja upp slíkar stofnanir við þær aðstæður. Þær starfa í nánum tengslum við atvinnulífið og eru jafnframt þátttakendur í öflugu rannsókna- og menntasamstarfi við háskólastofnanir hér á landi sem og víða um heim. Á grunni sjálfstæðis og innri styrks hefur þeim verið gert þetta mögulegt. Fara þarf mjög varlega í allar breytingar á stöðu og umgjörð þessara stofnana og þarf hvert skref til breytinga að vera rækilega rökstutt og með skýra framtíðarsýn.
    Því er fagnað að Hólaskóli skuli standa utan við þessa sameiningu og meiri hlutinn hafi lagt fram breytingartillögu um að heimili Hólaskóla á Hólum í Hjaltadal verði áfram bundið í lög. Þó hefði verið ástæða til að setja ákvæði í lögin sem miðuðu að því að tryggja enn betur sjálfstæði, sérstöðu og verkefni Hólaskóla til frambúðar.

Árnaðaróskir.
    Samkvæmt þessu frumvarpi og breytingartillögum meiri hlutans verður Garðyrkjuskóli ríkisins á Reykjum í Ölfusi lagður niður og felldur inn í sameiningu Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri í Landbúnaðarháskóla Íslands. Fari svo er starfsfólki þessara þriggja stofnanna þakkað gott og óeigingjarnt starf í þágu íslensks landbúnaðar og þjóðarinnar allrar.
    Jafnframt er Landbúnaðarháskóla Íslands, starfsliði og nemendum á hverjum tíma óskað farsældar í starfi um ókomin ár.

Alþingi, 26. maí 2004.



Jón Bjarnason,





Fylgiskjal I.


Jón Bjarnason:

Háskóli í Hjaltadal.
(Morgunblaðið, 2. apríl 2003.)


    Þau tíðindi hafa nú gerst að Hólaskóli í Hjaltadal er orðinn fullgild háskólastofnun. Með nýjum lögum um búnaðarfræðslu frá 1999 var kveðið á um að Hólaskóli geti starfað sem háskólastofnun á sérgreindum sviðum kennslu og rannsókna eins og hann hafði reyndar gert um árabil – þótt með óformlegum hætti hafi verið.
    Við hátíðlega athöfn heima á Hólum í dag mun landbúnaðarráðherra undirrita nýja reglugerð fyrir skólann. Reglugerðin festir niður háskólanafnbótina með formlegum hætti og veitir Hólaskóla réttindi til þess brautskrá nemendur með háskólagráðu. Þetta eru gleðileg tímamót í sögu Hólaskóla, menntastofnunar sem teygir sig allt aftur til daga Jóns Ögmundssonar, fyrsta biskups Hólastiftis.
    Það er mikilvægt að draga réttan lærdóm af vexti og þroska Hólaskóla á síðustu árum fyrir framtíðaruppbyggingu í menntamálum á landsbyggðinni. Einn helsti lykillinn að velgengni skólans er sjálfstæði hans, en það hefur leyft honum að starfa á sínum eigin forsendum. Í krafti sjálfstæðis síns hefur hann styrkt stöðu sína og breikkað verkefnasviðið með samningum við fyrirtæki, bændur, einstaka háskóla og rannsóknastofnanir hérlendis og erlendis. Oft og tíðum hefur það komið til tals á síðari árum að fella skólann undir einhverja aðra stofnun, fyrir sunnan eða norðan, og gera hann þannig að útibúi sem yrði stjórnað úr fjarlægð. Þessum hugmyndum var sem betur fer alltaf úthýst, þótt stundum væri knúið fast dyra. Staðreyndin er sú að smæðin getur verið kostur, ef rétt er staðið að málum. Sjálfstæði, frumkvæði og sveigjanleiki er alger forsenda þess að litlar menntastofnanir – á hvaða sviði sem er – geti staðist stærri og þungskreiðari stofnunum snúning. Þetta hefur Hólaskóla tekist líkt og öðrum litlum sjálfstæðum menntastofnunum í landinu, s.s. á Bifröst og Hvanneyri.
    Það er mjög mikilvægt að hafa í huga þennan styrk sem sjálfstæðið gefur þegar framkvæmdar eru góðar hugmyndir um háskólastofnanir í sem flestum landshlutum. Sannleikurinn er sá að útibúahugmyndin í uppbyggingu mennta- og rannsóknastofnana út um hinar dreifðu byggðir er mjög brothætt. Sú hætta getur fylgt uppbyggingu ósjálfstæðra útibúa, að þau verði olnbogabörn í fjölskyldu annarra og stærri menntastofnana sem allar hafa fastar hugmyndir um eigin vöxt og viðgang. Þannig að þau muni ávallt mæta afgangi. Af þeim sökum getur verið mun farsælla að ríki og sveitarfélög byggi upp rannsókna- og menntastofnanir á forsendum heimafólks í byggðunum. Og virkja þannig metnað, frumkvæði og ábyrgð heimafólks. Þetta þýðir vitaskuld ekki að menntastofnanir eigi að halda sig sér og sneiða hjá samvinnu við aðra menntastofnanir. Þvert á móti. Það er grundvallaratriði að leggja krafta sína með öðrum á sem flestum sviðum, hvort sem það er innan héraðs eða utan. Það sem skiptir mestu máli er að litlar menntastofnanir gangi til samninga sem sjálfstæðir aðilar og nái að móta samstarfið á sínum eigin forsendum fremur en vera afgangsstærð í bókum stærri stofnana.

Smæðin getur verið kostur.
    Á síðari árum hafa mörg atvinnufyrirtæki úti á landi – einkum í sjávarútvegi – farið úr eigu heimamanna og lent í höndum fjarlægra stórfyrirtækja. Atvinnulífinu er þannig stjórnað af fólki sem er ókunnugt aðstæðum og hefur ekki taugar til staðarins. Undir þessum kringumstæðum er erfitt að búast við nýsköpun í tengslum við helstu fyrirtæki staðarins. Af þessum sökum er einnig mikilvægt að þær stofnanir sem byggðar eru upp úti á landi til þess að efla menntun og fjölbreytni lúti ekki sömu lögmálum, heldur séu sjálfstæðar. Oft er sem fólki vaxi í augum smæðin og fámennið utan Reykjavíkur. Það gleymist oft að það getur falið í sér ýmsa kosti að vera smár og knár, auk þess sem orðin smæð og fámenni eiga við Ísland allt. Það er ennfremur staðreynd að Hólaskóli hefur náð miklum árangri í erlendum samstarfsverkefnum vegna þess að í augum útlendinga eru nær allar menntastofnanir á Íslandi smáar og aðeins bitamunur en ekki fjár á milli þeirra.

„Skín við sólu.“
    Það er mjög gleðilegt að sjá hve Skagfirðingar hafa haldið sínu í róti síðustu ára og hve mikla möguleika héraðið hefur á sviði mennta og rannsókna. Hólaskóli og Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra hafa rudd brautina, en sérstæðar auðlindir, menning og atvinnulíf bjóða heim stórauknum möguleikum í þekkingariðnaði. Saga og fornminjar Skagafjarðar eru einstæðar sem og þær auðlindir sem felast í fjölbreyttri náttúru. Hér er háþróaður matvælaiðnaður, velbúið sjúkrahús og opinberar stjórnsýslustofnanir.
    Rannsóknir, þróun og fjölbreytt fræðslustarf á grunni þessara auðlinda eru hin stóru tækifæri héraðsins.
    Sveitarstjórn Skagafjarðar hefur nýlega skipað starfshóp skipaðan fulltrúum frá menntastofnunum og atvinnulífi héraðsins til að vinna að enn frekari uppbyggingu háskólanáms og rannsókna í Skagafirði á grunni mannauðs, tækniþekkingar, menningararfs og náttúruauðlinda héraðsins. Sóknarfærin felast í þessum sívirku dýrmætu auðlindum.
    Til hamingju Hólaskóli á merkum tímamótum.

Fylgiskjal II.


Skúli Skúlason,
rektor Hólaskóla:


Samstarf háskóla og sveigjanleiki í námi.
(Morgunblaðið, 24. maí 2004.)


    Mikil gróska er í íslenskum háskólum sem hefur orðið tilefni mikilla umræðna undanfarna mánuði. Eitt atriði sem vegur mjög þungt í þessari umræðu er samstarf og samvinna háskóla um kennslu og rannsóknir. Ljóst er að þetta verður eitt af forgangsatriðum í íslenskri háskólapólitík á næstu árum. Með aukinni samvinnu milli skóla, t.d. um kennslu í einstökum námsgreinum eða gagnkvæmu mati á námskeiðum, er ekki einungis um að ræða mikilvæga hagræðingu í kennslu heldur er með þessu hægt að tryggja gæði námsins enn frekar. Styrkurinn felst í því að fá það besta á hverjum stað s.s. kennara, þekkingu og aðstöðu, og tryggja nemendum þannig bestu mögulegu menntun. Í þessu felst líka sveigjanleiki sem eykur valkosti nemenda í hverjum skóla. Enn fremur er fullljóst að bættar samgöngur og tæknilegar framfarir í fjarkennslu gera dreifnám við fleiri en einn skóla sífellt fýsilegri valkost.

Sérhæft fagnám.
    Þegar fleiri en einn háskóli bjóða nám í sömu fræðigreinum segir það sig sjálft að samvinna er æskileg og hún sé líkleg til að koma nemendum til góða. Mikilvægi samvinnu háskóla er augljóst þegar hugsað er til sérhæfs starfsnáms, ekki síst þar sem sérhæf menntun kennara og/eða dýr og flókin aðstaða er nauðsynleg. Hvort tveggja á við um þau fræðastörf og kennslu sem fram fer við Hólaskóla, háskólann á Hólum. Skólinn einbeitir sér að þremur fræðigreinum: fiskeldisfræði, ferðamálafræði og hestafræði. Í öllum tilfellum er um að ræða atvinnugreinar sem eru í örum vexti og hafa mikla þýðingu fyrir afkomu þjóðarinnar og búsetu í landinu.

Reynsla Hólaskóla af samstarfi.
    Undanfarin 15 ár hefur Hólaskóli byggst upp sem lítil en öflug háskólastofnun með áherslu á starfsmenntun og rannsóknir. Skólinn býður nú uppá B.S. nám í fiskeldi og fiskalíffræði og B.A. nám í ferðamálafræði. Einnig er boðið uppá styttra diplómanám á þessum sviðum. Hestanámið er í sambærilegri uppbyggingu og eru tvö af þremur árum í boði sem diplómanám. Forsendur þess að háskólanám hefur byggst upp á Hólum eru nokkrar. Í fyrsta lagi hefur samhliða kennslu verið lögð stund á margvísleg rannsókna- og þróunarverkefni. Í öðru lagi hefur verð byggð upp mjög góð aðstaða til kennslu og rannsókna á sérsviðum skólans. Í þriðja lagi hefur uppbygging háskólanámsins byggst á náinni samvinnu við aðra háskóla og rannsóknastofnanir. Með þessu hefur tekist að tryggja gæði námsins, sveigjanleika og valkosti fyrir nemendur. Með markvissu samstarfi hefur verið lagður grunnur að því heildstæða námi sem nú er orðin staðreynd við Hólaskóla. Samstarf við aðra háskóla hefur einkennst af gagnkvæmu mati á námi og möguleikum á því að færa námið á milli skóla. Þannig hefur diplómanám Hólaskóla í ferðamálafræðum um árabil verið metið sem hluti (30 einingar) af B.S. námi við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Viðskiptaháskólann á Bifröst og margir nemendur hafa nýtt sér þessa kosti. Sambærilegir möguleikar gefast fyrir fiskeldisnemendur. Einnig er reiðkennaranám metið sem hluti af B.Sc. námi við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Með þessum tengslum geta nemendur fengið það besta á hverjum stað. Sem dæmi má nefna að áherslur í ferðamálanáminu á Hólum eru mest á afþreyingu tengda náttúru og menningu sem og þjónustu og móttöku gesta. Með því að fá þetta nám metið inn í viðskiptafræðinám við Viðskiptaháskólann á Bifröst, eða öfugt fyrir nemendur á Bifröst, geta nemendur sem hafa áhuga á rekstrarþáttum ferðamála fundið menntun sinni þann farveg sem samræmist þessum áhuga. Með tilkomu B.A. og B.S. náms við Hólaskóla eflast þessir kostir enn frekar. Til dæmis er nú hafið náið samstarf fiskeldisdeildar Hólaskóla og auðlindadeildar Háskólans á Akureyri sem felur í sér víðtæk skipti á námskeiðum og kennurum í B.S. náminu þar sem styrkleikar hvorrar deildar eru nýttir til fullnustu. Samstarf Hólaskóla og Háskóla Íslands á sér langa sögu og hefur verið mjög virkt. Samstarfið hefur mikið snúist um rannsóknir starfsmanna og nema í M.S. og PhD. verkefnum, og nú er unnið að enn frekari eflingu kennslusamstarfs skólanna bæði í fiskeldisdeild og ferðmáladeild.

Erlent samstarf.
    Hólaskóli hefur víðtækt samstarf við erlenda háskóla bæði varðandi rannsóknir og kennslu. Frá 1991 haft t.d. verið náið samstarf við University of Guelph í Kanada en þar starfa deildir með svipaðar áherslur og Hólaskóli. Árin 1999, 2002 og 2003 var University of Guelph útnefndur nr. 1 „comprehensive“ háskóli Kanada. Árið 2003 var skólinn einnig útnefndur sem „Rannsóknaháskóli ársins“ í Kanada og var nr. 1 í vali kanadískra stúdenta fyrir bestu kampusstemninguna og tæknilega þjónustu við nemendur. Þar að auki er skólinn einn sterkasti skóli Kanada hvað varðar fjarnám. Auk um 20.000 reglulegra nemenda eru 20.000 nemendur í fjarnámi. University of Guelph hefur kynnt sér nýja námskrá Hólaskóla og mun að fullu meta hið nýja B.S. og B.A. nám. Í ferðamálafræðum og fiskeldisfræðum er gert ráð fyrir skipulögðum skiptum á námskeiðum og stúdentum milli skólanna. Þannig er stefnt að því að nemendum Hólaskóla gefist kostur á að taka misseri við University of Guelph sem hluta af B.A. eða B.S. námi við Hólaskóla. Einnig er unnið að samstarfi um alþjóðlegt nám um íslenska hestinn. Verið er að vinna að sambærilegum tækifærum við háskóla á Norðurlöndum í tengslum við The Nordic Forestry, Veterinary and Agricultural University (NOVA).

Lokaorð.
    Samstarf við aðrar háskólastofnanir er og verður lykilatriði við eflingu Hólaskóla, Háskólans á Hólum. Samstarf verður að byggjast á gagnkvæmu trausti og hagsmunir nemenda verða að vera í fyrirrúmi. Það er trú mín að aukin samvinna íslenskra háskóla, um námsleiðir, rannsóknir og rekstur sé eitt mikilvægasta stefnumál íslenska háskólasamfélagsins.


Fylgiskjal III.


Umsögn forstjóra Rannsóknastofnunar landbúnaðarins.
(27. apríl 2004.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal IV.


Umsögn byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
(28. apríl 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal V.


Umsögn Búnaðar- og garðyrkjukennarafélags Íslands.
(29. apríl 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VI.


Umsögn Hólamannafélagsins.
(29. apríl 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal VII.


Umsögn skólameistara Hólaskóla.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VIII.


Umsögn Félags íslenskra landslagsarkitekta.
(19. apríl 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal IX.


Umsögn skólameistara Garðyrkjuskóla ríkisins.
(28. apríl 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal X.


Umsögn skólafélags Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri.
(28. apríl 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal XI.


Umsögn rektors Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri.
(28. apríl 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal XII.


Umsögn menntamálanefndar.
(5. maí 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.